Elliglöp hrjá ekki einvörðungu okkur mennina, heldur geta þau einnig lagst á fjórfætta vini okkar.
Hundaelliglöp þjaka rösklega 30 milljón hunda í Bandaríkjunum og ríflega 15 milljón meðbræðra þeirra í Evrópu. Allt að 60% hunda, eldri en átta ára, þjást af elliglöpum.
Greinilegustu ummerkin um elliglöp í hundum eru minnistap, ruglingur og skert eða glötuð rathæfni. Minnið kann að skerðast í svo miklum mæli að hundar hætta að bera kennsl á eigendur sína eða að muna eftir vanaverkum dagsins.
Hundar með elliglöp eru iðulega kvíðnir, árásargjarnir eða sinnulausir. Svefnvenjur þeirra breytast gjarnan með þeim afleiðingum að þeir sofa mikið yfir daginn og verða eirðarlausir á nóttunni.
Líkt og við á um okkur mennina er skýringuna að finna í rýrnun heilans og vísindamenn hafa greint fækkun taugafrumna og niðurbrot í vef í m.a. heilaberki og dreka.
Hundaelliglöp leggjast á allar hundategundir en þar sem litlir hundar lifa að öllu jöfnu lengur en þeir stóru hafa þeir lengri tíma til að þróa með sér kvillann.
Bjargið heila hundsins
Þó svo að ógerlegt sé að lækna elliglöp í hundum er ýmislegt hægt að gera til að fyrirbyggja þau.
Ef hundar eru örvaðir með nýjum leikföngum eða gönguferðum á nýja staði, svo og gefin fæðubótarefni sem fela í sér andoxunarefni, er unnt að draga úr hnignun heilans.
Áhrifa ofangreindra aðferða gætir síður í gömlum hundum og því er brýnt að hefjast handa með þjálfun og góða næringu eins snemma og frekast er unnt.