Lifandi Saga

Gorbachev tekinn í gíslingu

Árið 1985 verður Gorbachev leiðtogi Sovétríkjanna. Hann vill umbylta einræðisríkinu en Stalín reynist hafa skilið eftir sig tifandi tímasprengju undir hornsteinum þessa risaveldis.

BIRT: 31/08/2022

Mikhail Gorbachev situr á sveitasetrinu á Krímskaga. Síðustu tvær vikur hefur leiðtogi Sovétríkjanna verið í sumarfríi þarna suður frá og velt fyrir sér ræðunni sem hann ætlar að halda þegar hann kemur aftur til Moskvu. Daginn fyrir brottförina sest hann við skrifborðið sitt, þar sem hann hefur útsýni út yfir Svartahaf og byrjar að skrifa. Ræðunni er ætlað að innsigla nýjan sambandssáttmála sem veiti lýðveldum Sovétríkjanna aukna sjálfsstjórn.

 

Klukkan 16.50 er bankað á dyrnar, lífvörður Gorbachevs kemur inn og segir: „Hér er kominn hópur félaga sem vill fá að tala við þig, Mikhail Sergejvitsj“.

 

Gorbachev sem er enn á morgunsloppnum, lítur upp, pirraður á svip.

 

„Hvaða félagar? Ég á ekki von á neinni heimsókn,“ svarar leiðtoginn. Sumarhúsið er einkaafdrep fjölskyldunnar og óvæntir gestir sjaldséðir.

 

„Þeir komu með Plekhanov,“ svarar lífvörðurinn. Plekhanov er sá yfirmaður innan öryggislögreglunnar, KGB sem hefur umsjón með lífvörðum leiðtogans.

 

„Ok, biddu þá að bíða smástund,“ svarar Gorbachev sem grunar að eitthvað búi undir og grípur símann.

 

Enginn sónn. Hann grípur hratt upp næsta símtól en allar línur eru dauðar.

 

Valdarán í uppsiglingu

Gorbachev er ekki lengur í vafa: Valdarán er í uppsiglingu. Hann gengur út á veröndina og upplýsir Raisu, konu sína um stöðuna:

 

„Ég dreg mig ekki í hlé. Ég neita að láta undarn kúgun og hótunum.“

 

Gorbachev veit full vel að íhaldssöm öfl í kommúnistaflokknum vilja setja hann af en þótt hann hafi ástæðu til að óttast um líf sitt, hyggst hann ekki auðvelda valdaræningjunum verkið. Næstu klukkustundir og dagar munu leiða í ljós hvort umbætur hans haldi áfram eða hann verði tekinn af lífi og Sovétríkin snúi aftur til ógnarstjórnar Stalíntímans.

 

Glasnost hófst í Kanada

Þegar þíða var í uppsiglingu í Sovétríkjunum 1983 höfðu þau verið undir veldi harðstjórnar í 66 ár. Kommúnistaflokkurinn hélt fast um stjórnartaumana og aðrir flokkar voru ekki leyfðir. Gagnrýnendur voru fangelsaðir og miðlar ritskoðaðir. Enginn fékk að yfirgefa landið án tilskilinna leyfa.

 

Mikhail Sergejvitsj Gorbachev var 52 ára og yngsti meðlimurinn í Politbureu, því ráði þar sem allar mikilvægustu ákvarðanir voru teknar.

 

Kaldastríðsstemning:

Hlustaðu á sovéska þjóðsöngin á meðan þú lest greinina.

Í maí 1983 – í miðju kalda stríðinu – var Gorbachev sendur til Kanada í opinberum erindagerðum. Hann átti að kynna sér afkastamikinn landbúnað Kanadamanna. Á flugvellinum í Ottawa tók Jakovlevandr Jakovlev, sendiherra Sovétríkjanna á móti honum. Þeir höðu aðeins hist í fáein skipti á áttunda áratugnum en nú tókst með þeim einlæg vinátta.

 

Þegar þeir flugu yfir víðlendar sléttur Kanada í lítilli leiguflugvél og gengu um á frjósömum ökrum, uppgötvuðu báðir að þeir deildu svipuðum hugmyndum um breytingar á kommúnismanum. Þeim fannst nóg komið af ógnarstjórn, þöggun og armæðu. Kommúnismi framtíðarinnar ætti að byggjast á réttlæti og siðferðiskennd. Um það voru þeir sammála.

 

Eftir heimkomuna fékk Gorbachev sendiherrann kallaðan heim og hann var gerður að yfirmanni hugmyndasmiðju og Gorbachev hafði hann þannig í seilingarfjarlægð þegar að því kæmi að hann næði völdum.

 

Jakovlev aðstoðaði Gorbachev við að skrifa fyrstu ræðurnar þar sem hugtökin perestrojka (endurskipulag) og glasnost (opnun) voru kynnt en þetta voru þær meginundirstöður sem Gorbachev vildi að hin nýju Sovétríki byggðust á. Dyrnar að valdastólnum opnuðust þegar hinn aldraði leiðtogi Konstantin Cherninko lést 1985.

Fjórir örlagavaldar Sovétríkjanna

Mikhail Gorbachev

Fæddur: 1931 (lést 2022)

 

Staða: Leiðtogi Sovétríkjanna 1985-1991.

 

Hlutverk: Með umbótum sínum, perestrojku (endurskipan) og glasnost (hreinskiptni) dreymdi Gorbachev um að veita kommúnismanum mannlegri ásýnd.

Aleksandr Jakovlev

Fæddur: 1923 (lést 2005)

 

Staða: Meðlimur í æðstaráði flokksins, Politbureu.

 

Hlutverk: Jakovlev var traustur bandamaður Gorbachevs. Hann lagðist gegn innrás í Pólland og önnur Austur-Evrópuríki þar sem andstaðan ógnaði kommúnistum á 9. áratugnum.

Boris Jeltsín

Fæddur: 1931 (lést 2007)

 

Staða: Borgarstjóri Moskvu og síðar forseti Rússlands.

 

Hlutverk: Studdi umbætur Gorbachevs í upphafi en missti þolinmæðina og tók í staðinn að berjast fyrir afnámi kommúnismans.

Vladimir Krjutjkov

Fæddur: 1924 (lést 2007)

 

Staða: Yfirmaður leyniþjónustunnar KGB.

 

Hlutverk: Barðist af alefli gegn umbótum Gorbachevs og vildi verja einræði kommúnista fram í rauðan dauðann, jafnvel með vopnavaldi.

Andrej Gromyko tilkynnti að miðstjórnin, Politbureau, hefði einróma kosið Gorbachev sem nýjan aðalritara kommúnistaflokks Sovétríkjanna. Gorbachev varð þar með yngsti leiðtogi Sovétríkjanna frá tíma Leníns. Hann skipaði Jakovlev umsvifalaust í miðstjórnina og þar með var þeim skoðanabræðrum ekkert að vanbúnaði að hrinda áformum sínum í framkvæmd.

 

Nýi leiðtoginn sendi strax allmarga íhaldsama miðstjórnarmenn á eftirlaun og í stað þeirra skipaði hann yngri endurbótasinna. Þeirra á meðal var flokksleiðtoginn í Georgíu, Eduard Chevardadze. Gorbachev flutti einnig síberísku jarðýtuna, Boris Jeltsín, til Moskvu.

 

Framundan var nú hörð barátta við íhaldsöflin í flokknum því endurskipulagningin fólst m.a. í því að koma á lýðræði sem þó átti að lúta vissri stjórnun og afnema ritskoðun.

 

Nýr leiðtogi þorði að hitta fólk

Það fór heldur ekki fram hjá almenningi í Sovétríkjunum að nýr og öðruvísi leiðtogi var kominn til skjalanna. Í Leningrad (Pétursborg) gaf hann sér tíma til að stoppa og tala við fólk.

 

„Hvað langar ykkur að segja?“ kallaði hann út yfir mannfjöldann.

 

Sumir svöruðu:

 

„Við hlustum á þig. Haltu svona áfram“.

Áætlunarbúskapur of stirður

Upp úr 1930 voru Sovétríkin stærsti útflytjandi hráefna á borð við olíu og járn. En fjárhagnum hrakaði og 1970 var hagkerfið aðeins hálfdrættingur á við það bandaríska. Miðstýring var aðalástæðan.

arrow-11-xxl

Lítil framleiðni:

Kommúnistaflokkurinn stýrði Sovétríkjunum gegnum ótrúlegt skrifræðisbákn. Óskynsamlegar ákvarðanir gátu haldið gildi sínu árum saman en nýjar hugmyndir fengu sjaldan byr í seglin. Í matvælaiðnaði voru tveir þriðju unnir með handafli því þannig fengu fleiri vinnu. Framleiðni var 60% minni en á hinum kapítalísku Vesturlöndum.

arrow-11-xxl

Skortur á nýrri hugsun:

Miklar olíulindir og margvíslegar fleiri náttúruauðlindir reyndust prýðilegt svefnlyf fyrir leiðtogana. Framleiðslufyrirtæki voru einungis verðlaunuð fyrir að standast áætlanir en ekki fyrir að framleiða meira né heldur fyrir vöruþróun og nýsköpun. Það var líka letjandi fyrir marga að letingjarnir skyldu fá sömu laun og þeir sem lögðu hart að sér.

arrow-11-xxl

Lækkandi olíuverð:

Ronald Reagan Bandaríkjaforseti samdi við Sádi-Araba um að auka olíuframleiðslu sína til að auka þrýsting á Sovétríkin. Þetta leiddi til verðfalls á olíu. 1980 hafði olíutunnan kostað 40 dollara en sex árum síðar, þegar Gorbachev var nýtekinn við, var verðið komið niður í 10 dollara. Í heildina lækkuðu útflutningstekjur í erlendum gjaldeyri um þriðjung.

Þegar Gorbachevhjónin lentu í Nisjnevartowsk til að skoða olíuiðnaðinn í Síberíu, flykktust verkamenn saman til að sjá aðalritarann og glæsilega konu hans. Sjónvarpsmyndavélar fylgdu þeim hvert fótmál og á ferðum sínum sá Gorbachev skýrt hve ömurleg lífskjör almennings voru í Sovétríkjunum.

 

Skömmu eftir Síberíuferðina lækkaði heimsmarkaðsverð á olíu mikið og efnahagsástandið versnaði. En þetta var þó aðeins byrjunin á erfiðleikum Gorbachevs. Fyrstu stóru umbótum hans var vægast sagt illa tekið. Gorbachev ætlaði nefnilega að leysa eitt allra erfiðasta vandamál samfélagsins: ofdrykkjuna.

 

70% allra lögbrota tengdust áfengi. Ofdrykkja olli mikilli fjarveru frá vinnu, skilnaðir voru tíðir og karlmenn dóu langt um aldur fram. Gorbachev skar áfengisframleiðslu hiklaust niður en þar með varð ríkissjóður af miklu fé í formi vodkaskattsins.

Gorbachev hjónin í heimsókn hjá Ronald Reagan, forseta Bandaríkjanna á´rið 1987.

Drykkjusjúkir borgarar tóku nú að brugga allt hvað af tók og fyrir bragðið varð mikill sykurskortur í landinu. Drykkjusjúklingar létu lífið þúsundum saman eftir að hafa í örvæntingu drukkið allt frá ilmvötnum til hreingerningaefna. Nýi aðalritarinn var kallaður gosvatnsritarinn.

 

Tsjernobyl varð Gorbachev dýrt

Vandamál sem höfðu hlaðist upp í áratugi, sprengdu utan af sér öll bönd og helltust yfir Gorbachev. Hann átti enga sök á næsta stóráfalli en slys í kjarnorkuverinu í Tsjernobyl í Úkraínu kostaði hann engu að síður allan þann trúverðugleika sem hann hafði reynt að byggja upp á fyrsta ári sínu við völdin.

 

Þann 3. júlí 1986 hélt Gorbachev þrumuræðu yfir fremstu kjarneðlisfræðingum landsins í fundarsal í Kreml og af veggnum fyrir ofan hann starði andlit Leníns harkalegu augnaráði út yfir salinn.

 

„Í 30 ár hafið þið sagt okkur að kjarnorka væri örugg. Nú virðist sem þið hafið reynt að dylja þetta allt saman,“ hrópaði Gorbachev en vísindamennirnir svitnuðu af taugatitringi.

Flugið til Moskvu kostaði hinn vestur-þýska Mathias Rust fjögurra ára fangelsi. Eftir 14 mánuði á bak við lás og slá var hann hins vegar náðaður.

Ári síðar varð álit aðalritarans enn á ný fyrir alvarlegu áfalli: Vestur-þýskur stúdent, Mathias Rust að nafni, flaug lítilli flugvél sinni alla leið frá Finnlandi og lenti á Rauða torginu í Moskvu – án minnstu afskipta hins rómaða sovéska flughers.

 

Gorbachev rak varnarmálaráðherrann og 150 yfirmenn í flughernum en íhaldsmennirnir í kommúnistaflokknum fengu hins vegar vind í seglin. Í mars reyndu þeir að ýfa upp ósætti í flokknum með grein sem þeir birtu í Sovjetskaja Rossija, þar sem þeir gagnrýndu perestrojku-áform leiðtogans.

 

Gorbachev svaraði fyrir sig á tveggja daga löngum fundi í plussklæddum sal í Kreml:

 

„Ég hyggst ekki berjast fyrir embætti mínu. En svo lengi sem ég gegni þessu embætti, held ég fast í hugmyndina um perestrojku.“

 

Viðstaddir kepptust nú við að aðlaga sig og hinn aldraði Gromyko reyndi að breiða yfir ágreininginn:

 

„Við stöndum að sjálfsögðu samhuga að Glasnost,“ útskýrði utanríkisráðherrann fyrrverandi.

Andrej Gromyko var utanríkisráðherra Sovétríkjanna í tæp 30 ár og mjög andsnúinn vestrænum áhrifum. Hér er hann í opinberri heimsókn hjá Reagan Bandaríkjaforseta. Gorbatsjov rak hann árið 1985.

Gorbachev fór með sigur af hólmi en ákvað nú að gera íhaldsmönnunum erfiðara fyrir að vinna gegn umbótum í framtíðinni. Í þeim tilgangi setti hann á stofn Sovéska þjóðfulltrúaþingið, í daglegu tali nefnt Fulltrúaþingið.

 

Gorbachev tókst að ná meirihluta í kommúnistaflokknum fyrir því að gera Fulltrúaþingið að æðsta löggjafarvaldi ríkisins – aðeins það gat t.d. breytt stjórnarskránni.

 

Öll Sovétlýðveldin áttu að senda fulltrúa á þetta 2.250 fulltrúa þing og þannig átti fólkið sjálft að geta betur komið sjónarmiðum sínum á framfæri. Til að tryggja sér stuðning við hugmyndina þurfti Gorbachev þó að útvatna lýðræðið: Stór meirihluti þingsins var samsettur úr fulltrúum sem kommúnistaflokkar Sovétlýðveldanna 15 tilnefndu.

 

Aðeins 700 fulltrúar voru kosnir í fyrstu frjálsu og lýðræðislegu kosningunum í sögu Sovétríkjanna.

Biðröðin eftir brauði var alltaf löng og „kjötferðalög“ var þekkt hugtak. Rússar fóru allt að 100 km til að kaupa kjöt. Einn brandarinn var svona: Hvað er langt, grænt og lyktar eins og pylsa? Lestin til Moskvu.

Búðarhillurnar voru tómar

Á áttunda áratugnum reið efnahagskreppa yfir Sovétríkin og óánægja magnaðist meðal íbúanna.

 

Á áttunda og níunda áratugnum náðu sovésk samyrkjubú ekki að framleiða nóg matvæli fyrir íbúana og iðnaðurinn framleiddi ekki heldur á samkeppnishæfu verði. Ríkisstyrkir og kornkaup, m.a. hveiti, frá Vesturlöndum komu í veg fyrir að fólk sylti.

 

Vöruskortur varð mikill og matvörur þurfti að skammta. Til að kaupa kjöt eða aðrar nauðsynjar þurfti fólk að standa tímunum saman í biðröð.

 

Þegar Aleksandr Jakovlev sneri heim 1983 eftir 10 ár sem sendiherra í Kanada tók hann eftir að viðhorfið hafði breyst.

 

„Almenningur hefur fengið nóg. Við getum ekki lifað svona áfram. Við þurfum að endurhugsa aðferðir okkar, markmið og sýn okkar bæði á fortíð og framtíð,“ skrifaði hann í endurminningum sínum.

 

Þegar Gorbachev og Jakovlev hófu umbætur sínar tveimur árum síðar, dýpkaði kreppan. Landsframleiðsla minnkaði um 10% og verð á mat og neysluvörum hækkaði um 50%.

 

Frá sjúkrahúsum bárust kvartanir um skort á lyfjum og alveg fram til 1991 var ekki unnt að fá mjólk, te, kaffi, sápu né kjöt í opinberum verslunum.

Þar með var stigið lítið en merkilegt skref í átt til lýðræðis en það reyndist opna flóðgáttir. Með stuðningi hins nýfengna tjáningarfrelsis flæddu nú bylgjur afhjúpana sem ruddu úr vegi allri velvild í garð kommúnistaflokksins. Fregnir af óhæfuverkum Stalínstímans fylltu síður blaðanna og gagnrýnin leikhúsverk og bíómyndir sneru almenningsálitinu gegn kommúnistum.

 

Gorbachev var engu að síður handviss um að borgarar Sovétríkjanna myndu sýna þakklæti sitt í verki og styðja flokkinn þegar umbætur hans væru komnar til framkvæmda. Honum skjátlaðist hrapalega.

 

Hrossakaup Stalíns kveiktu von

Þegar umbæturnar komust á skrið breiddust óeirðir út um Austur-Evrópu. Samstaða, fyrsta frjálsa verkalýðsfélagið í Póllandi, varð fyrst til að ná að rjúfa valdaeinokun kommúnista og þvinga fram frjálsar kosningar vorið 1989. Öfugt við það sem áður hafði tíðkast sendu Sovétríkin engan her til að skakka leikinn með skriðdrekum og vélbyssum.

 

Suður í Kákasusfjöllum gullu slagorð á götum Tiblisi: „Við krefjumst sjálfstæðrar Georgíu.“ En innan landamæra Sovétríkjanna sjálfra leyfði kommúnistaflokkurinn í Moskvu enga linkind. Hermenn mættu mótmælendum með kylfum og byssuskeftum og 21 lét lífið í óeirðunum í Tiblisi 9. apríl 1989.

 

Eins og komið hafði í ljós í Ungverjalandi 1956 og Tékkóslóvakíu 1968 gat verið hættulegt að velta kommúnistastjórninni úr sessi. Til að ná sjálfstæði og frelsi var nauðsynlegt að beita mun kænlegri brögðum – líka á valdatíma Gorbachevs.

Stalín brosir ánægður að baki utanríkisráðherrans Molotovs sem er að undirrita griðasáttmálann.

Arfleifð Stalíns varð sprengja undir Gorbachev

Örfáum dögum fyrir upphaf seinni heimsstyrjaldar gerðu tveir hugmyndafræðilegir erkifjendur, Hitlersstjórnin í Þýskalandi og Stalínstjórnin í Sovétríkjunum sáttmála um merkileg hrossakaup. Utanríkisráðherra Stalíns, Vjateslav Molotov og þýski utanríkisráðherrann Joachim von Ribbentropp gengu frá smáatriðunum í griðasáttmálanum sem kvað á um að hvorugt ríkið réðist á hitt.

 

Sáttmálanum fylgdi leynilegur viðauki sem hafði gríðarleg áhrif á nágranna þessara tveggja stórvelda. Í leyniákvæðinu veitti Hitler samþykki sitt fyrir innlimun Eystrasaltsríkjanna og austurhluta Póllands.

 

Á móti veittu Sovétmenn Þjóðverjum samþykki fyrir innlimun vesturhluta Póllands. Viku seinna hófu Þjóðverjar leiftursókn inn í Pólland og hún markaði upphaf seinni heimsstyrjaldar.

 

Árið eftir innlimuðu Sovétmenn Eystrasaltsríkin en síðar áttu svo Sovétríkin stóran þátt í sigri bandamanna á Þjóðverjum. Eftir stríð reyndi Stalín að leyna vissum atriðum í Molotov-Ribbentropp-samningnum en innihald samningsins og leyniákvæðisins kom engu að síður í ljós í Nürnbergréttarhöldunum.

 

Stalín hélt fast við að ekkert væri hæft í þessu og sannleikurinn var þannig dulinn austantjalds í nærri hálfa öld en á Gorbachevtímanum kom hið sanna í ljós. Þessi samningur reyndist þannig eins konar sprengja undir valdastóli Gorbachevs.

Eistar reyndu mun gætilegri aðferð. Fulltrúar Eistlands á Fulltrúaþinginu kröfðust þess að svokallaður Molotov-Ribbentrop-samningur frá 1939 yrði rannsakaður. Eistar héldu því fram að þessi griðasamningur milli Stalíns og þýskra nasista hefði verið leynilegt ákvæði.

 

Ákvæðið hafði ekki aðeins ákvarðað hvernig Póllandi skyldi skipt upp 1939, heldur hafði það einnig veitt Stalín heimild til að innlima Eystrasaltsríkin sem þá voru sjálfstæð.

 

Þetta var viðkvæmt mál, því þótt það væri alkunna á Vesturlöndum að svona lægi í málinu, var hin opinbera sovéska útgáfa allt öðruvísi:

 

Að sögn Kremlverja hafði hin kúgaða alþýða í Eystrasaltsríkjunum þremur gert uppreisn og komið á kommúnisma. Að því loknu höfðu ríkin sótt um inngöngu í Sovétríkin. Sérstök þingnefnd rannsakaði málið í hálft ár.

 

Nefndin fann aldrei eintak Sovétríkjanna af samningnum en hins vegar fannst plagg sem hafði afgerandi þýðingu í málinu.

Þýska eintakið af Molotov-Ribbentrop samningnum hafði endað í skjalasafni bandarískra stjórnvalda. En skjöl úr skjalasafni erkióvinarins höfðu ekkert vægi í Sovétríkjunum.

Afhjúpunin kom í desember 1989, þegar Jakovlev steig í ræðustólinn og kunngjörði hinum 2.250 þingmönnum leyndardóminn. Hann sagði að það væri sannfæring nefndarinnar að leyniákvæðið í Molotov-Ribbentrop-samningnum væri til.

 

Síðan dró hann upp sönnunargagnið: Símskeyti frá sovéska utanríkisráðuneytinu sem árið 1949 staðfesti að leyniákvæðið væri enn að finna í skjalasafni í Kreml.

 

Fulltrúaþingið ályktaði nú opinberlega að innlimun Eistlands, Lettlands og Litháens í Sovétríkin í síðari heimsstyrjöld hefði verið ólögleg.

 

Gorbachev varð æfur

Með þessa ályktun Fulltrúaþingsins í höndunum og dyninn frá falli Berlínarmúrsins skömmu fyrr kröfðust Eystrasaltsríkin nú sjálfstæðis.

„Ef þetta er afstaða fólks í Litháen, má það búast við erfiðum tímum.“

Mikhail Gorbachev í janúar árið 1980

Þetta var Gorbachev þungt högg. Öll hans góðu áform um umbætur höfðu snúist í höndunum á honum og í stað þess að styrkja Sovétríkin voru nú allt eins horfur á að aðgerðir hans yrðu stórveldinu að falli. Aðalritarinn ákvað að fara til Eystrasaltsríkjanna og kæfa allt aðskilnaðarbrölt í fæðingu.

 

Þegar hann kom til Vilnius 11. janúar 1990 talaði hann við verkamenn í götunni. Einn þeirra var ekki í sáttahug og kallaði til hans:

 

„Fyrir stríð hafði Litháen sterkan gjaldmiðil. Þið tókuð hann af okkur 1940! Og veist þú hversu margir Litháar voru sendir til Síberíu – og hve margir dóu þar?

 

Gorbachev reiddist:

 

„Ég nenni ekki að tala við þennan mann. Ef þetta er afstaða fólks í Litháen, má það búast við erfiðum tímum.“

Skömmu síðar beitti hann Eista, Letta og Litháa eins konar viðskiptaþvingunum: Sovétmenn lokuðu fyrir olíuflutninga um miðjan vetur og hótuðu að beita hernum.

Rauða heimsveldið riðaði til falls í 11 ár

Sovétríkin hrundu ekki á einni nóttu – fjöldamargt bæði smátt og stórt nagaði þetta stórveldi smám saman. Upplausn í öðrum ríkjum Varsjárbandalagsins hafði áhrif á óánægða Sovétborgara.

Smelltu á mynd til að sjá hana stærri með lýsingu

Umbótaáætlanir fóru úr böndunum og Gorbachev missti tökin á stórveldi sínu. Hann fór nú að hlusta meira á ráð haukanna í kommúnistaflokknum en þeir vildu brjóta allar aðskilnaðarhugmyndir á bak aftur með hervaldi. Nú var hins vegar sá tími liðinn, þegar kommúnistaflokkurinn gat barið einstök lýðveldi til hlýðni.

 

Einungis hálfu ári síðar tefldi Boris Jeltsín tilveru Sovétríkjanna fram á ystu nöf þegar hann og rússneska þingið lýstu yfir sjálfstæði Rússneska Sovétlýðveldisins. Jafnframt sagði utanríkisráðherrann, Eduard Sjevardnaze af sér í mótmælaskyni við aukin tengsl Gorbachevs við íhaldsmennina í flokknum:

 

„Við erum að snúa aftur til hinnar hrollvekjandi fortíðar. Íhaldsöflin styrkjast. Umbótasinnar stinga höfðinu í sandinn. Harðstjórn blasir við. Enginn veit hvað alræðið ber í skauti sér eða hvers konar einræðisherrar komast til valda.“

„Gorbachev er Saddam Hussein Eystrasaltsríkjanna.“

Rússneskir mótmælendur í Moskvu í janúar árið 1991.

Viðvaranir Sjevardnazes sönnuðust skömmu síðar þegar Gorbachev tilnefndi Boris Pugo sem innanríkisráðherra. Pugo hafði verið yfirmaður KGB í Eistlandi og það varð hann sem stýrði árásinni gegn frelsishreyfingum í Eystrasaltsríkjunum.

 

Ekið yfir mótmælanda

Árásin hófst að morgni sunnudagsins 13. janúar 1991. Fjórir sovéskir T-72 skriðdrekar og 16 brynvarðir flutningabílar héldu sem leið lá að sjónvarpsturninum í Vilnius. Tímafrestur Gorbachevs var runninn út og sjálfstæðiskröfur Litháa höfðu ekki verið dregnar til baka.

 

Skriðdrekarnir sveifluðu fallbyssunum til og skutu púðurskotum þegar þeir nálguðust mörg þúsund mótmælendur sem hrópuðu í kór: „Frelsi! Frelsi!“

 

22 ára karlmaður fleygði sér niður á malbikið framan við einn skriðdrekann um leið og sovéskir sérsveitarmenn köstuðu þrýstisprengjum til að dreifa mannföldanum – augnabliki síðar kramdist ungi maðurinn til bana undir skriðdrekanum.

 

Hermennirnir beindu nú AK-47 rifflum sínum að mannfjöldanum og skutu. 11 Litháar létu lífið og 53 til viðbótar særðust. Blóðsúthellingarnar vöktu mikla reiðibylgju í Sovétríkjunum. Í Moskvu streymdi fólk út á göturnar og hrópaði:

 

„Gorbachev er Saddam Hussein Eystrasaltsríkjanna.“

Mótmæli gegn Gorbachev urðu áberandi í mörgum stærri borgum. Aldrei áður hafði almenningur þorað að láta í ljós vanþóknun sína á leiðtoga ríkisins og flokksins.

Óvænt heimsókn íslenska utanríkisráðherrans

Bæði í Litháen og heima fyrir varð andstaðan miklu harðari en ráðamenn í Moskvu höfðu reiknað með og óvænt stuðningsheimsókn íslenska utanríkisráðherrans til Vilníus bætti ekki úr skák. Áformin um hernám Litháens runnu því út í sandinn.

 

Þrátt fyrir harðari stefnu aðalritarans var Krjutjkov, yfirmaður KGB, orðinn örvæntingarfullur. Hann þóttist viss um að með sama áframhaldi yrði Sovétríkjunum ekki bjargað.

 

Gorbachev hafði fengið friðarverðlaun Nóbels ásamt Ronald Reagan Bandaríkjaforseta og það voru síður en svo nein meðmæli í huga Krjutjkovs. Hann ákvað að Gorbachev yrði að stöðva. Valdaræningjarnir ákváðu að láta til skarar skríða meðan Gorbachev væri í sumarhúsinu á Krím.

 

Þrýst á Gorbachev

„Hver sendi ykkur?“ spurði Gorbachev höstuglega og horfði hvössu augnaráði á mennina fimm. Svitinn perlaði á andlitum fimmmenninganna í ágústhitanum.

 

„Nefndin,“ svaraði einn þeirra.

 

„Hvað nefnd?“ vildi Gorbachev vita.

 

„Nefndin sem sett hefur verið á stofn til að bregðast við neyðarástandi í landinu,“ útskýrði maðurinn og upplýsti síðan að Krjutjkov, yfirmaður KGB, Jasov varnarmálaráðherra og Janajev varaforseti væru meðal valdaránsmanna.

 

Erindi þeirra, sagði maðurinn, væri að fá Gorbachev til að lýsa yfir neyðarástandi til að hægt væri að senda herinn út á göturnar. Gorbachev neitaði. Svo auðveldlega ætlaði hann ekki að leyfa þeim að stöðva áform sín um aukna sjálfstjórn til handa lýðveldum sambandsríkisins.

 

„Þá verður þú að segja af þér. Það verða engir sjálfstjórnarsamningar. Jeltsín verður handtekinn.“

 

Gorbachev neitaði enn og sendinefndin neyddist til að snúa tómhent aftur til Mosku.

Valdaránsmennirnir sendu hermenn og brynvarða bíla inn í miðborg Moskvu til að koma í veg fyrir mótmæli gegn brottvikningu Gorbachevs.

En Gorbachev fjölskyldan var nú innilokuð. Hermenn valdaræningjanna vöktuðu húsið og sáu til þess að aðalritarinn næði engu sambandi við umheiminn.

 

Gorbachev varð nú að reiða sig á það að forseti Rússlands, Boris Jeltsín, næði að virkja fjöldann og kæfa valdaránið í fæðingu.

 

Í Moskvu lýstu valdaræningjarnir því yfir að þvert gegn vilja sínum hefðu þeir neyðst til að taka stjórn ríkisins í sínar hendur þar eð Gorbachev væri veikur og á barmi taugaáfalls. Varaforsetinn Janajev tæki því við völdum til bráðabirgða. Á blaðamannafundinum hlógu blaðamenn hinna nýfrjálsu fjölmiðla opinskátt að þessum upplognu tíðindum.

 

Jeltsín fór í skothelt vesti

Dóttir Borisar Jeltsín var að horfa á sjónvarpið að morgni 19. ágúst og frétti þannig af ætluðum veikindum Gorbachevs.

 

„Pabbi, drífðu þig á fætur! Það er valdarán í gangi!“ hrópaði hún. Jeltsín hljóp að sjónvarpinu, enn í náttfötunum.

Á leið sinni að rússneska þinghúsinu í miðri Moskvu lenti ökumaður Jeltsíns í kappakstri við skriðdreka valdaránsmanna.

Sem forseti Sovétlýðveldisins Rússlands réði Jeltsín yfir talsvert miklu herliði og hann setti sína traustustu starfsmenn strax í það að hringja í allar herstöðvar í Moskvu. Þeir áttu í gegnum síma að fá yfirmenn allra herstöðva til að neita að taka við fyrirmælum frá valdaræningjunum.

 

Þessu næst klæddi Jeltsín sig í skothelt vesti og settist inn í ZIL-limúsínu sína. Áður hughreysti hann konu sína með þessum orðum:

 

„Við keyrum með rússneska fánann. Okkur stöðva þeir ekki.“

 

Á leið sinni til miðborgarinnar fór bílstjóri Jeltsíns fram úr mörg hundruð herbílum sem valdaræningjarnir höfðu sent á vettvang. Allir voru þeir á leið til Hvíta hússins – 19 hæða byggingar rússneska þingsins. Frá skrifstofu sinni á fimmtu hæðinni sá Jeltsín bráðlega skriðdreka umkringja bygginguna en fjöldi borgara var líka samankominn og þetta fólk ræddi ákaft við hermennina í skriðdrekunum.

 

Jeltsín hraðaði sér niður.

Sovétríkin framleiddu aðeins um 3000 GAZ -13 Chaika eðalbíla. Eingöngu fyrir flokkforystuna.

Hræsni skapaði óvinsældir

Samkvæmt kenningum kommúnismans eru allir jafnir. Það var ekki svo í Sovétríkjunum.

 

Á meðan sovéskir vinnumenn og húsmæður stóðu í endalausum biðröðum við verslanir og enduðu oft að fara tómhent heim lifðu flokksgæðingar góðu lífi.

 

Hátt settir embættismenn höfðu aðgang að erlendum gjaldeyri til að versla í svokölluðum dollarabúðum þar sem vestrænn lúxusvarningur var á boðstólum.

 

Með hverju skrefi upp metorðastigann bættust við viðbótarfríðindi. Á meðan almennur sovétborgari þurfti að bíða í 10-15 ár til að geta keypt bílskrjóð gátu hærra settir keypt sér gæðabíla eins og t.d. Volgu eða Chaiku.

 

Hæst settu ráðamennirnir fengu enn meiri hlunnindi eins og t.d. einbýlishús á góðum stað. Sovéska heilbrigðisráðuneytið hafði einnig sérstaka deild, með bestu læknunum og tækjunum, sem sinnti eingöngu flokksleiðtogum svo þeir þyrftu ekki að bíða eins og vesæll álmúginn.

Þegar hann kom út á tröppur þinghússins mættu honum taktföst köll fólksins: „Jeltsín, Jeltsín!“ og „niður með kommúnistaflokkinn!“

 

Umkringdur lífvörðum sínum gekk hann að einum skriðdrekanum og tók í hönd yfirmannsins.

 

„Þeir ætla greinilega ekki að skjóta forseta Rússlands í bili,“ hrópaði hann til mannfjöldans.

 

„Hervald er algjörlega óásættanlegt. Við hvetjum alla hermenn til að neita að taka þátt í þessu valdaráni íhaldsaflanna!“ hélt hann áfram.

 

Valdaránið koðnaði niður

Daginn eftir tóku áætlanir valdaræningjanna að riðlast. Yfirmenn æ fleiri herstöðva lýstu yfir stuðningi við Jeltsín og brestir tóku að myndast í samstöðu þeirra 5.000 hermanna sem áttu að tryggja ró á götum Moskvu.

 

Jeltsín fékk rússneska þingið til að samþykkja handtökuskipun á hendur leiðtogum valdaránsins og lýsa hann æðsta yfirmann allra sovéskra hersveita innan landamæra Rússlands.

Jeltsín flutti sína frægustu ræðu upp á skriðdreka valdaræningjanna.

Valdaræningjarnir vildu láta herinn taka Hvíta húsið og taka Jeltsín til fanga en nú höfðu 50.000 óbreyttir borgarar slegið skjaldborg um bygginguna og komið upp götuvígjum. Tilhugsunin um svo óhugnanlegt blóðbað meðal almennra borgara hélt aftur af hermönnunum.

 

Eftir því sem klukkustundirnar liðu tók ástandið meira á taugarnar bæði hjá valdaræningjunum og Jeltsín. En svo komu boðin sem Jeltsín hafði vonast eftir: Stjórn sovéska hersins staðfesti að herinn myndi ekki gera árás.

 

Í höfuðstöðvum KGB beið Krjutjkov óþolinmóður eftir boðum um árásina. Klukkan tvö um nóttina færði Jasov honum fréttina um ákvörðun herstjórnarinnar. Valdaránið hafði mistekist.

Nú eru bæði Gorbi og Boris fyrirlitnir

Mikhail Gorbachev

Aðalritarinn færði Rússum frelsi en lagði jafnframt stolt þjóðarinnar í rúst. Stuðningur fólks við hann dvínaði þegar kreppan dýpkaði og biðraðir við búðir lengdust. Í forsetakosningunum í Rússlandi 1996 fékk hann aðeins 0,5% atkvæða. Erlendis er litið á hann sem hetju en ekki í Rússlandi.

 

Boris Jeltsín

Hann sýndi mikinn kjark þegar hann bjargaði Rússum undan valdaránstilrauninni og varð fyrsti þjóðkjörni forseti Rússlands en lagði efnahaginn í rúst. Jeltsín nánast gaf ólígörkum ríkisfyrirtæki meðan almenningur svalt. Fjölmörg hneykslismál leiddu til þess að hann lét af völdum 1999.

Þegar hermenn valdaræningjanna yfirgáfu Krím, flaug Gorbachev strax til Moskvu. Það var auðséð að honum var létt við komuna. Hann lét handtaka valdaræningjana og ákæra fyrir landráð. Einungis innaríkisráðherrann, Boris Puko, var ekki handtekinn en hann skaut sig áður en til þess kæmi. Að því fráteknu að koma valdaræningjunum bak við lás og slá, gat Gorbachev hins vegar lítið gert. Ótraust völd hans í embættinu voru nú lýðum ljós.

 

Hið misheppnaða valdrán sýndi aftur á móti andkommúnískum ráðamönnum fram á að þeir þyrftu að slíta sig lausa frá Sovétvaldinu án tafar – áður en valdarán yrði reynt á ný.

 

Fimm mánuðum síðar undirritaði Jeltsín, fyrir hönd Rússlands, dauðadóm Sovétríkjanna, ásamt forsetum Úkraínu og Hvíta-Rússlandi. Í stað hins miðstýrða og kommúníska sambandsríkis með höfuðstöðvar í Moskvu kom nú ríkjasambandið Samband sjálfstæðra lýðvelda

Afsögn Gorbachevs var í beinni útsendingu í sovéska sjónvarpinu.

Það var í fullu samræmi við opinskáa Glasnoststefnu Gorbachevs, þegar hann kvaddi 25. desember 1991 með sjónvarpsávarpi í beinni útsendingu.

 

„Samfélag okkar hefur nú öðlast frelsi, bæði pólitískt og andlegt og nú þurfum við að aðlagast þessum breytingum,“ sagði Gorbachev sem reyndar gat ekki til fulls dulið biturð sína vegna falls Sovétríkjanna.

 

Skömmu síðar var rauði fáninn með hamri og sigð dreginn niður af flaggstönginni yfir þökum Kremlar en í hans stað kom fáni Rússlands. Eftir meira en 70 ára ógnarstjórn kommúnista höfðu Sovétríkin sundrast í 15 sjálfstæð ríki.

Lestu meira um fall Sovétríkjanna

Michael Dobbs: Down with Big Brother: The Fall of the Soviet Empire, Vintage, 1996 Mikhail Gorbachev: Memoirs, Doubleday, 1996 Robert Service: The Penguin History of Modern Russia, Penguin, 1997 William Taubman: Gorbachev, Simon & Schuster, 2017.

 

LESTU EINNIG

HÖFUNDUR: Paul Siersbæk

© Sportsphoto/Ritzau Scanpix,© Kazuhiro Nogi/AFP/Ritzau Scanpix,© Andre Durand/AFP/Ritzau Scanpix,© TASS/Getty Images,© Patrick Piel/Getty Images, Shutterstock,© Public domain,© Sergei Guneyev/Getty Images,© AP/Ritzau Scanpix,

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Maðurinn

3 tilgátur: Þess vegna grátum við

Alheimurinn

Af hverju er geimurinn svartur?

Náttúran

Líf við ómögulegar aðstæður undir ís

Lifandi Saga

Hvers vegna brann Hindenburg? 

Náttúran

Gætu hvítabirnir lifað af á Suðurskautslandinu?

Lifandi Saga

Hvað voru fyrsta og annað ríkið?

Lifandi Saga

El-Alamein: Montgomery sigrar Rommel í sandbylnum

Lifandi Saga

Hvers vegna geta kosningar verið svona ótrúlega jafnar?

Náttúran

Hvers vegna hafa dýr svona mismunandi augu?

Lifandi Saga

5 ástæður þess að BNA er einungis með tvo flokka 

Náttúran

Geta hvalir gleypt fólk?

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.790 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is