1. Leiguokrara var drekkt í gulli
Rómverski auðjöfurinn Marcus Licinius Crassus stórgræddi á ljósfælnum húsaviðskiptum. Það var þó heiðursþorstinn sem drap hann.
Þegar rómverski harðstjórinn Lucius Cornelius Sulla gerði eignir óvina sinna upptækar á fyrstu öld f.Kr. afhenti hann þær stjórnmálamanninum Marcusi Licinius Crassus fyrir lágt verð. Crassus seldi eignirnar áfram fyrir milljónir sestertía (silfurpeninga).
Hagnaðinn notaði hann til að fjárfesta m.a. í spænskum silfurnámum og ódýrum íbúðum fyrir lágstéttarfólk í Róm.
Oft kom upp eldur í þessum litlu og troðfullu íbúðum en Crassus hafði komið sér upp eigin slökkviliði og heimtaði gjald fyrir slökkvistarfið.
Sagan hermir að fljótandi gulli hafi verið hellt niður í kokið á Crassusi.
Illar tungur sögðu að Crassus léti þræla sína kveikja í en auðjöfurinn kæfði þann orðróm með snjallri auglýsingabrellu.
Hann lét setja upp 10.000 borð á götur Rómar og þar var borgurunum boðið upp á fágætt lostæti á borð við fasana og páfugla. Til viðbótar gaf hann öllum Rómverjum kornbirgðir til þriggja mánaða.
Árið 60 f.Kr. var Crassus talinn eiga sem svaraði 200 milljónum sesertía eða ámóta og skatttekjur ríkisins á heilu ári. Crassus fékk yfirráð yfir Sýrlandi sem hefði orðið honum góð tekjulind hefði hann ekki einnig ásælst dýrð sigurvegarans.
En hann gerði innrás í ríki Parþa (nú Íran) og var þar að lokum ofurliði borinn. Sú sögusögn komst fljótlega á kreik að fljótandi gulli hefði verið hellt upp í hann og líklegt að alþekkt ágirnd hans hafi verið ástæðan. Það eitt er víst að hann beið bana.
2. Faraó keypti sér trúarbrögð
Veraldleg gæði dugðu ekki Akhnaton faraó. Hann ágirntist sjálfan guðdóminn.
Amenophis 4. (um 1379-1336 f.Kr.) lét sér ekki nægja einveldi og veraldarauð. Þessi konungur Egypta, ríkasta stórveldis samtímans, vildi sjálfur vera guð – og það reyndist óhemjulega kostnaðarsamt.
Fyrst bannaði faraóinn hina gömlu guði. Í þeirra stað áttu þegnarnir að tilbiðja hann sjálfan sem holdgerving sólarinnar, Aton sem varð ríkisguð Egypta.
Amenophis lét ekkert til sparað að hylla Aton og þar með sjálfan sig. Auk þess að reisa átta Aton-musteri í höfuðborginni Þebu breytti hann nafni sínu í Akhnaton, „lífsandi sólarinnar“ og skipaði fyrir um byggingu nýrrar höfuðborgar Aton til heiðurs.
Mörg þúsund handverksmenn og verkamenn voru settir í vinnu við að byggja musteri, hallir og íbúðarhús fyrir 20.000 íbúa hinnar nýju borgar, Amarna.
Akhnaton lét einnig reisa 15.000 fermetra höll með veggklæðningu úr gljáfægðum tígulsteini. Til að bera þakið þurfti 544 súlur.
Borgin var ekki fullbyggð þegar Akhnaton lést af óþekktum ástæðum. Fáum árum síðar var guðinn Aton gleymdur og glæsibyggingarnar hrundar í rúst.
3. Mútaði véfréttinni í Delfí
Krösus Lydíukonungur lét á 6. öld f.Kr. slá gullmynt með andlitsmynd sinni.
Á 6. öld var Krösus Lydíukonungur vel þekktur fyrir auðævi sín og hann sýndi gestum óhikað fjársjóðageymslur sínar til að auka aðdáun þeirra enda voru þær troðfullar af gulli og silfri sem ættað var úr námum ríkis hans.
Krösus óttaðist innrás nágranna sinna, Persa og óskaði svars frá véfréttinni í Delfí varðandi það hvort konungsríkið væri í hættu.
Til að tryggja sér heppilegt svar sendi Krösus gjafir til Apollós, guðs véfréttarinnar. En gjafirnar skiluðu engu. Árið 546 f.Kr. lagði Kyros Persakonungur Lydíu undir sig og tók Krösus til fanga.
4. Alexander mikli jós gullinu víða
Alexander mikli var að öllum líkindum ríkasti maður heims þegar hann lést á sóttarsæng í Babýlon árið 323 f.Kr.
Sá merki makedónski herforingi Alexander mikli hóf landvinninga sína í Litlu-Asíu og Egyptalandi og varð á skömmum tíma auðugasti maður heims.
T.d. féllu 2,5 tonn af gulli í hans hlut eftir töku borgarinnar Persepólis í núverandi Íran.
Hershöfðingjar hans og hermenn fengu líka sinn skerf. Menn hafa reiknað út að hver og einn af 100.000 hermönnum Alexanders hafi fengið sem svarar 120 nútímamilljónum í sinn hlut.
Alexander varði miklu fé til að skipuleggja borgir sem hétu eftir honum. Hann var að líkindum fyrsti margmilljarðamæringur sögunnar en naut auðævanna ekki lengi.
Hann dó í Babýlon árið 323 f.Kr. aðeins 32 ára að aldri.
5. Uppskafningur rændi Indland
Robert Clive tryggði Bretum yfirráð yfir stærstum hluta Indlands.
Árið 1744 sendi breska Austur-Indíafélagið liðsforingjann Robert Clive til Indlands til að annast samninga við indverska höfðingja.
Þeir áttu í stöðugum stríðsátökum sín á milli og Clive beitti hermönnum sínum í þágu þeirra höfðingja sem buðu hæst.
Árið 1753 sneri Clive heim með meira en 40.000 pund í vasanum, upphæð sem á þeim tíma hefði mátt fá um 5.800 hesta.
Spilling skilaði fé í kassann
Indverskir höfðingjar jusu peningum í Clive til að tryggja sér sölusamninga um m.a. te til Bretlands. Árið 1760 varð hann landstjóri nýlendunnar og fékk þá einskiptisgreiðslu upp á 160.000 pund.
Við það bættust 27.000 pund á ári frá nýja kónginum Mir Jafar sem var leppur Breta. Fyrir þessa peninga keypti Clive m.a. þrjú ensk herrasetur og hús í London.
Verðið fyrir þessa bústaði var samtals 90.000 pund og Clive varði enn meira fé í endurbætur. Þetta voru gríðarlegar fjárhæðir, ekki síst vegna þess að hann náði aldrei að setjast að í neinni þessara eigna.
Vildi kaupa vináttu
Landstjórinn miklaðist mjög af auðævum sínum. M.a. sendi hann Georg 3. konungi og Charlotte drottningu eðalsteina að jafnvirði 30.000 punda og hertoganum af Marlborough gaf hann tígrisdýr.
Sín á milli nefndu aðalsmenn hann „nabob“ í háði – með tilvísun í indverska heitið á drottnara, „nawab“.
Orðið er enn notað í ensku og haft um „stórlaxa“ í fremur niðrandi merkingu. Þegar Clive dó 1774 voru eignir hans um ein og hálf milljón punda – sem samsvarar meira en 25 milljörðum nútímakróna.
6. Bankamaður græddi á kopar
Jakob Fugger fékk viðurnefnið „hinn ríki“.
Þýski athafnamaðurinn Jakob Fugger (1459-1525) hafði mörg járn í eldinum. Stór hluti af auði hans kom frá námuvinnslu í Ungverjalandi og Bæjaralandi þar sem gróðavænlegir samningar veittu Fugger nánast einkaleyfi á vinnslu kopars og silfurs. Málmana seldi hann með miklum hagnaði.
Jakob Fugger var líka kappsamur bankamaður og lánaði kóngafólki stórar fjárhæðir, m.a. þýsk-rómverska keisaranum Maximilian 1.
Myntslátta var meðal þess sem Fugger fékkst við.
Peningarnir fóru m.a. í eilífan stríðsrekstur keisarans en Maximilian notaði einnig svo sem þrettán nútímamilljarða til að múta aðalsmönnum til að kjósa Karl sonarson sinn sem keisara eftir sinn dag.
Sjálfur var Jakob Fugger vel fjáður. Þegar Anton frændi hans erfði reksturinn var Fugger-fyrirtækið um 2 milljóna gyllina virði sem jafngildir meira en 20 íslenskum nútímamilljörðum.
7. Bretónar urðu ríkastir allra
Alan Rufus lét reisa Richmond til að tryggja yfirráð sín.
Eftir sigurinn á Haraldi konungi Guðinasyni í orrustunni við Hastings 1066 veitti Vilhjálmur sigurvegari mönnum sínum leyfi til að herja á landið að vild.
Allt að 100.000 Englendingar voru drepnir og fjölmörg þorp brennd til grunna. Að lokum voru um 95% alls jarðnæðis í eigu stríðsherranna frá meginlandinu.
Einn hinna nýju landeigenda var bretónski aðalsmaðurinn Alain le Roux sem sló eign sinni á 200 herragarða og 800 ferkílómetra lands.
Til að sýna vald sitt lét hann reisa Richmond-kastala suður af Newcastle. Kastalinn skartaði 30 metra háum turni. Til byggingarinnar þurfti að flytja inn franska steinsmiði þar eð Englendingar höfðu ekki þá kunnáttu sem til þurfti.
Á dánardægri voru eignir hans metnar á 11.000 pund sem samsvarar um 15.000 milljörðum íslenskra nútímakróna – einhver mestu auðævi allra tíma í Englandi.
Alain le Roux er nú minnst undir enskri útgáfu nafnsins: Alan Rufus. Upphaflega nafnið, le Roux, merkir hinn rauði og er sagt stafa af rauðu skeggi hans.
8. Fimmtán tonn af gulli komu Malí á heimskortið
Svo tiginn var Mansa Musa að sá sem hnerraði eða hóstaði í nærveru hans átti dauðarefsingu á hættu.
Rétt eins og nú á dögum streymdu menn í pílagrímsferðir til Mekka árið 1324. En það ár skar einn pílagrímanna sig úr. Það var Mansa Musa, konungur í Malí.
Í ferðina tók konungurinn með sér 60.000 manna þjónustulið, 8.000 hermenn og 12.000 silkiklædda þræla. Hver þræll bar 3,5 kílóa hring úr massívu gulli um hálsinn og alls voru 15 tonn af gulli í úlfaldalestinni.
Musa var að líkindum annar ríkasti maður veraldarsögunnar en auðævi hans hafa verið umreiknuð í 400 milljarða dollara.
Gullnámurnar í gamla Malíríkinu voru svo auðugar að þaðan komu um tveir þriðju heimsframleiðslunnar og lögum samkvæmt tilheyrðu öll verðmæti landsins konunginum. Musa hafði mikla ánægju af að sýna ríkidæmi sitt.
Tilgangur pílagrímsferðarinnar var líka sá að auglýsa Malíríkið. Í þessari ferð keypti Musa svo mikið af silkiklæðum, söngstúlkum og eþíópískum ambáttum fyrir gullið sem hann hafði meðferðis, að markaðsverð á gulli lækkaði um 10%.
Konungurinn borgaði iðulega fimmfalt það verð sem upp var sett til þess eins að sýna ríkidæmi sitt og í hvert sinn sem úlfaldalestin gerði hlé á för sinni, útdeildi Musa gulli sem ölmusu.
Skömmu áður en konungurinn náði alla leið til Mekka í lok árs 1324 var allt gullið uppurið og eftir það þurfti hann að taka lán.
En þeirri auðmýkingu sneri konungurinn sér í hag með því að veita 150% ársvexti. Slíkir okurvextir juku enn á hróður hans og honum stóð nákvæmlega á sama um hversu mikið hann þurfti að greiða. Öll lánin voru líka endurgreidd þegar konungurinn kom heim árið eftir.
Ferðin skilaði tilætluðum árangri. Tveimur árum eftir andlát konungsins birtist Malíríkið í fyrsta sinn á evrópskum heimskortum.
Kort – Hin eyðslusama pílagrímsferð Mansa Musa:
Ríki Mans Musa var í Vestur-Afríku
Malí nútímans nær aðeins yfir hluta gamla Malíríkisins (appelsínugult) sem teygði sig inn í sex af Afríkuríkjum nútímans.
Kóngur fer í pílagrímsferð
Mansa Musa, konungur í Malí og múslími, ákveður að fara í pílagrímsferð til Mekku og Medínu 1324. Ferðin hefst í höfuðborginni Niani.
Töfralæknar ákváðu leiðina
Eftir ráðgjöf heilögustu töfralækna sinna velur Musa leið gegnum nútímaríkin Níger, Tsjad, Líbýu og um Saharaeyðimörkina. Úlfaldalestin hefur þriggja mánaða viðdvöl í Kaíró til hvíldar og til að endurnýja birgðir.
Heilögu takmarki náð
Eftir alls 4.000 km ferð nær Mansa Musa til hinnar helgu borgar Mekku í árslok 1324 og þar með á áfangastað. Hann fer svo heim aftur árið eftir.
Ríki Mans Musa var í Vestur_Afríku
Malí nútímans nær aðeins yfir hluta gamla Malíríkisins (appelsínugult) sem teygði sig inn í sex af Afríkuríkjum nútímans.
Kóngur fer í pílagrímsferð
Mansa Musa, konungur í Malí og múslími, ákveður að fara í pílagrímsferð til Mekku og Medínu 1324. Ferðin hefst í höfuðborginni Niani.
Töfralæknar ákváðu leiðina
Eftir ráðgjöf heilögustu töfralækna sinna velur Musa leið gegnum nútímaríkin Níger, Tsjad, Líbýu og um Saharaeyðimörkina. Úlfaldalestin hefur þriggja mánaða viðdvöl í Kaíró til hvíldar og til að endurnýja birgðir.
Heilögu takmarki náð
Eftir alls 4.000 km ferð nær Mansa Musa til hinnar helgu borgar Mekku í árslok 1324 og þar með á áfangastað. Hann fer svo heim aftur árið eftir.
9. Forríkur kanónukóngur sparaði við sig húsnæði
Krupp-fyrirtækið smíðaði m.a. fallbyssuna „Feitu Berthu“.
Alfred Krupp var 14 ára þegar hann tók við fjölskyldufyrirtæki með fimm starfsmenn. 60 árum síðar voru starsfmennirnir orðnir 50.000 og fyrirtækið rak kolanámur og framleiddi fallbyssur sem seldar voru um allan heim.
Einkum var það afturhlaðna fallbyssan sem aflaði Krupp gælunafnsins „kanónukóngurinn“.
Hann barst þó ekki mikið á og bjó í gamalli verkamannaíbúð þar til Bertha, eiginkona hans, heimtaði stórhýsi við hæfi.
Húsið var fullbyggt 1873 og í því voru 269 herbergi. Sparnaður reyndist þó hafa verið fullmikill því þakið lak og miðstöðvarhitunin virkaði ekki sem skyldi.
10. Auðugur pillufíkill
Barbara Hutton giftist sjö sinnum, m.a. Gary Grant, danska aðalsmanninum Kurt Reventlow og nokkrum prinsum.
Barbara Hutton, barnabarn stofnanda Woolworth-keðjunnar, varð þjóðþekkt 1930. Þá varði fjölskyldan 60.000 dollurum í kynningardansleik þessarar 18 ára stúlku fyrir fína fólkið í New York.
Hlutabréf hennar í fjölskyldufyrirtækinu voru um 42 milljón dollara virði. Stórum hluta þess auðs varði hún í listmuni og skartgripi. Lúxuslíf hennar var vel kryddað með áfengi og pillum allt þar til líkaminn gafst upp.
Barbara fékk hjartastopp og lést 1979 á lúxushótelinu Beverly Wilshire í Los Angeles. Þá átti hún ekki eftir nema nokkur þúsund dollara.
11. Iðjuhöldar fitnuðu á einokun
Stór hluti almennings leit á John D. Rockefeller og kollega hans sem samviskulausa auðsafnara.
Á 19. öld gerði iðnbyltingin fáeina Bandaríkjamenn að miklum auðjöfrum. Grjóthörð einokun átti þar stóran hlut.
Í lok 19. aldar hétu ríkustu menn Bandaríkjanna John D. Rockefeller, Cornelius Vanderbildt og Andrew Carnegie. Auður þeirrra grundvallaðist á einokun á sviðum flutninga, olíu og stálframleiðslu ásamt fullkomnu miskunnarleysi og grimmd.
Þegar verkamenn við eina af stálsmiðjum Carnegies hófu verkföll 1892, var þeim svarað með vopnavaldi og allmargir verkamenn létu lífið.
Iðnjöfrarnir voru fæddir í fátækt en unnu sig upp. T.d. var Carnegie um tíma símritari hjá járnbrautunum en endaði sem ókrýndur stálkóngur.
Carnegie skrifaði ritið „The Gospel of Wealth“ eða „Guðspjall auðsins“ og kallaði það dýrðlegt verkefni að verða ríkur.
Hann deildi oft með sér af ríkidæmi sínu, m.a. í utanlandsferð þar sem hann greiddi allan kostnað sem „auðveldlega hefði mátt fá fyrir helmingi minna fé“ eins og einn samferðamaður hans komst að orði.
Árið 1901 seldi Carnegie fyrirtæki sitt og helgaði sig síðan góðgerðastarfsemi. Hann kom m.a. á fót um 3.000 bókasöfnum í 47 ríkjum Bandaríkjanna.
Olíumilljarðamæringurinn John D. Rockefeller var heldur ekki spar á fjárútlát; hann keypti lystisnekkjur og rándýra veðhlaupahesta. Um 1900 keypti Rockefeller sér eyju með símatengingu við fastalandið sem var fáheyrður lúxus á þessum tíma.
Lúxusinn þurfti líka að sjást á heimilum auðjöfranna og járnbrautamógúllinn Vanderbildt varð frægur fyrir að koma gestum sínum á óvart.
Árið 1883 hélt hann grímuball í 64 herbergja stórhýsi sínu í New York og hafði þá látið þekja alla veggi, gólf og loft með burknum, orkídeum og pálmatrjám. Skreytingunum var ætlað að veita yfirbragð frumskógar.
12. Myrtur keisari ríkasti dýrlingurinn
Nikulás 2. klæddist dýrum skartbúningum.
Þegar Nikulás 2. var krýndur zar yfir Rússlandi 1894 fylgdu embættinu hallir, landareignir og skartmunir sem þá voru alls 300 milljarða dollara virði.
Alþýðan svalt en zarinn keypti skarthlaðna glæsibúninga fyrir 20.000 rúblur (um 45 milljónir nútímakróna) fyrir Evrópuferð sína 1910. M.a. vildi hann ganga í augun á frænda sínum, Georg 5. Bretakonungi.
Í byltingunni 1917 var zarinn settur af og í júlí árið eftir tóku bolsévikkar alla fjölskylduna af lífi.
Árið 2000 tók rússneska rétttrúnaðarkirkjan Nikulás 2. í dýrlingatölu og hann telst því auðugasti dýrlingur sögunnar.
14. Einræðisherra leigði Concordeflugvélar fyrir ástkonur
Fyrsti leiðtogi hins sjálfstæða Kongó, Patrice Lumumba var myrtur 1961. Fjórum árum síðar tók hershöfðinginni Mobutu Sese Seko öll völd í landinu og ríkti sem einræðisherra.
Hann tók sér stöðu með vesturveldunum í kalda stríðinu og naut því stuðnings Bandaríkjanna, m.a. í formi milljarða dollara.
Peningana notaði Mobutu m.a. til að byggja sér höll í stíl við Versali franska sólkonungsins.
Þegar uppreisnarmenn komust í fjárhirslu Mobutus árið 1997 voru þar aðeins 2.000 dollarar. Auðnum hafði harðstjórinn komið fyrir á bankareikningum erlendis.
Hún kostaði 1 milljarð dollara og var reist í skóglendi um 1.000 km frá höfuðborginni Kinshasa.
Hann lét líka gera sér einkaflugvöll sem var nógu stór til að hann gat sent konu sína og hjákonur í verslunarferðir til New York með hljóðfráum Concorde-þotum.
Mobutu var hrakinn frá völdum 1997. Hann flúði þá til Marokkó þar sem hann lést úr krabbameini síðar sama ár.
15. Mannvinur lagði járnbrautir
Indverjar innlimuðu Hyderabad er þeir fengu sjálfstæði 1948.
Mir Osman Ali Khan lénsherra Breta í Hyderabadhéraði í Indlandi var sennilega ríkasti Indverji sögunnar.
Hann komst á forsíðu bandaríska Time-tímaritsins sem ríkasti maður heims 1937. Auðævi hans komu m.a. frá auðugum demantanámum í héraðinu.
Mir Osman Ali Khan hélt þó ekki öllum auðnum fyrir sjálfan sig, heldur lagði milljónir rúpía til að leggja járnbrautir og rafmagnslínur ásamt því að mennta þegnana.
Sagt er að hann hafi sjálfur prjónað sokkana sína og átt til að sníkja sígarettur af gestum. Sagan segir að hann hafi eignast 149 börn með fjölmörgum konum.