Saga Bandaríkjanna: Áhyggjulausi 3. áratugurinn

Efnahagur Bandaríkjanna var í mikilli uppsveiflu á þriðja áratugnum sem sumir nefndu „hinn háværa uppgangstíma“. Veisluhöld, kvikmyndir og tækniframfarir einkenndu áratuginn þegar Charles Lindbergh flaug yfir Atlantshafið og unga fólkið dansaði „charleston“ fram á rauða nótt.

BIRT: 26/01/2022

LESTÍMI:

6 mínútur

Bandaríkin voru ríkasta land veraldar á árunum upp úr 1920 og tekjurnar jukust frá ári til árs.

 

Nánast öllu þessu kærkomna fé var varið í kaup á rafeindabúnaði og bifreiðum.

 

Eftirspurnin eftir vinsælasta varningnum færðist stöðugt í vöxt, því gæði varanna jukust sífellt.

 

Gæði allra mögulegra hluta, á borð við útvarpstæki og síma, yfir í rafmagnsrakvélar og kæliskápa, bötnuðu til muna, jafnframt því sem verðið lækkaði þegar færibandavinna ruddi sér til rúms í verksmiðjum.

 

Á árunum milli 1920 og 1930 fór ört vaxandi millistéttin að hafa efni á að kaupa varning sem áður hafði einungis verið á færi lítils, sterkefnaðs hóps.

 

Engin framleiðsluvara var mikilvægari á þessu blómaskeiði Bandaríkjanna en bifreiðin.

 

Áhrif ört vaxandi bílasölu breiddust út um gjörvöll Bandaríkin.

 

Stáliðnaður, gúmmíframleiðsla og leðurverksmiðjur spruttu upp, því mikil þörf var fyrir hrávöru fyrir framleiðslu á 26 milljón bifreiðum.

 

Aukin bílaframleiðsla leiddi af sér meiri vegagerð sem sá tugþúsundum fyrir starfi.

 

Meðfram þessum nýju vegum litu dagsins ljós bensínstöðvar og veitingasölur sem sáu sífellt fleira fólki fyrir atvinnu, auk þess sem olíuframleiðendur í Texas græddu á tá og fingri, því að sjálfsögðu var þörf fyrir eldsneyti fyrir alla þessa bíla.

 

Sífellt fleiri höfðu tök á að eignast eigið húsnæði eftir að unnt varð að taka húsnæðislán og eins og gefur að skilja nutu flutningafyrirtæki og húsgagnaiðnaður góðs af þessari auknu sölu húsnæðis.

 

Jákvæðni og gleði einkenndu þessa neysluveislu sem stóð yfir í heilan áratug.

Fyrri heimsstyrjöld ruddi brautina fyrir farþegaflugi

Í kjölfarið á fyrri heimsstyrjöld höfðu Bandaríkin yfir að ráða þúsundum flugmanna.

 

Sumir þeirra voru ráðnir í póstflug á meðan aðrir voru í farþegaflugi.

 

Aðeins yfirstéttin hafði efni á að fljúga í fríum og viðskiptaerindum og árið 1926 voru flugfarþegar í gjörvöllum Bandaríkjunum einungis 6.000 talsins.

 

Fjöldinn jókst í 173.000 farþega á næstu þremur árum.

 

Langar flugferðir voru í raun mikið álag á farþegana og þess má geta að flugferðin frá New York til Los Angeles tók heilar 48 klukkustundir.

 

Flugvélin þurfti að lenda átta sinnum á leiðinni og farþegarnir urðu að ferðast með lest á nóttunni, því flugmennirnir rötuðu ekki í myrkri.

Allir hittust hjá sprúttsölunum

Hinn 17. janúar 1920 gekk í gildi áfengisbann um gjörvöll Bandaríkin og innan skamms var ólögleg framleiðsla og sala á áfengi orðin að eins konar þjóðaríþrótt Bandaríkjamanna.

 

Ólöglegar krár spruttu upp í þúsundatali og einkenndust sumar hverjar ekki beinlínis af þrifnaði og hreinlæti. Yfirstéttin skemmti sér á fínum skemmtistöðum innan um fræga fólkið.

 

Sem dæmi má geta þess að klúbbeigandinn Texas Guinan státaði sig af gestum á borð við Jack Dempsey, heimsmeistara í hnefaleikum og prinsinn af Wales.

Á þriðja áratugnum fengu 42 prósent Bandaríkjamanna síma. Þeir þurftu þó að hringja á símstöðina til að fá samband við númerið sem þeir vildu hringja í.

Árið 1920 ferðuðust Beverly Bayard og Lorline Davis yfir gjörvöll Bandaríkin, gangandi og á reiðhjóli.

Konur kröfðust jafnréttis

Árið 1920 var tryggt með stjórnarskrárbreytingu að allar konur, 21 árs og eldri, fengju kosningarétt.

 

Ári síðar voru fjórar konur kjörnar inn á fulltrúadeild Bandaríkjaþings.

 

Jafnréttisbaráttan geisaði jafnframt á mörgum öðrum vígstöðvum.

 

Öldum saman höfðu konur orðið að láta sér nægja að vera áhorfendur en nú fóru þær að sækjast eftir því að taka þátt í ævintýrunum, stunda íþróttir og komast til metorða á vinnumarkaðnum.

 

Kona var kjörin alríkisdómari í fyrsta sinn í sögu Bandaríkjanna og fyrsti kvenverkfræðingurinn hlaut ráðningu í bifreiðaiðnaðinum.

Bandaríkjamenn sameinuðust yfir íþróttum

Vinnuvika verkamanna styttist niður í 48,8 klukkustundir á 3. áratugnum og árið 1926 var farið að loka Ford bílaverksmiðjunum um helgar.

 

Önnur stórfyrirtæki fóru í kjölfarið að fordæmi þeirra.

 

Bandaríkjamenn vörðu stórum hluta af ört vaxandi frítíma sínum í að fylgjast með íþróttum. Hnefaleikar, hafnabolti og ruðningur löðuðu að sér flesta áhorfendur og íþróttastjörnurnar græddu á tá og fingri.

 

Um 91.000 áhorfendur horfðu á þungavigtarkappann Jack Dempsey þegar hann sigraði Frakkann Georges Carpentier árið 1921.

 

Barnavinna hélt áfram

Þrátt fyrir að atvinnuleysi í Bandaríkjunum minnkaði úr 12 milljónum niður í einungis þrjár milljónir á þriðja áratugnum tókst ekki að útrýma fátækt.

 

Alls 60 prósent allra fjölskyldna voru háðar því að börnin færðu jafnframt björg í bú, annað hvort með því að vinna í verksmiðjum, aðstoða við sveitastörf eða að selja dagblöð á götum úti.

 

Einkum bændur og þeldökkir þjáðust af fátækt á þessum árum sem annars einkenndust af velmegun.

 

Litlir drengir pússuðu oft skó.

Auglýsingaflóðbylgja flæddi yfir BNA á 3. áratugnum þegar markaðsfærsla til fjöldans hófst.

Classic,1920's,Stock,Ticker,With,A,Glass,Dome,Stock,Tickers

Símritarnir spýttu út úr sér mörgum metrum af pappírsræmum dag hvern.

Miklu magni af pappírsræmum rigndi að ofan

Ritsíminn var þegar þarna var komið enn líftaug atvinnulífsins. Bandarísk fyrirtæki tóku daglega við miklu magni símrita með nýjustu fregnir af verðbréfaþróuninni í kauphöllinni á Wall Street.

 

Símritarnir sögðu til um gengi verðbréfanna á örmjóum pappírsstrimlum og við hátíðleg tækifæri köstuðu fyrirtækin mörgu metrum af þessum notuðu pappírsstrimlum út um gluggana, líkt og gert er með skrautpappírsræmur í dag.

Pappírsstrimlum kastað yfir hetjur Bandaríkjanna í skrúðgöngum.

Eftir flug sitt yfir Atlantshafið árið 1927 var Charles Lindbergh fagnað með skrúðgöngu í New York, þar sem pappírsstrimlum var kastað yfir hann.

Ókrýndur konungur þöglu myndanna, Rudolph Valentino, var helsta kyntákn þriðja áratugarins.

Fjölgun í röðum Ku Klux Klan

Alls 15% Bandaríkjamanna tilheyrðu samtökum Ku Klux Klan (KKK) á 3. áratugnum, samkvæmt upplýsingum samtakanna sjálfra.

 

KKK litu á sjálf sig sem verndara siðmenningarinnar og vinsældir samtakanna jukust við það að þeir komu upp um sprúttsala, framhjáhöld, og „óameríska“ íbúa á borð við gyðinga, kaþólikka og svertingja. Meðlimir samtakanna aðhylltust einkum barsmíðar og aftökur án dóms og laga.

 

Rösklega 50.000 meðlimir KKK marséruðu um götur Washington-borgar árið 1925.

 

Sala útvarpstækja jókst gífurlega

Árið 1919 keyptu Bandaríkjamenn 60.000 útvarpstæki en einum áratug síðar hafði salan aukist í 4,5 milljónir. Í upphafi ráku útvarpstækjaframleiðendurnir sjálfir útvarpsstöðvar til þess að viðskiptavinirnir hefðu eitthvað til að hlusta á.

Ekki leið á löngu áður en útvarpshlustun varð vinsælasta dægradvöl Bandaríkjamanna. Hinn 28. ágúst 1922 heyrðust fyrstu auglýsingarnar á öldum ljósvakans, þar sem auglýstar voru lúxusíbúðir í Jackson Heights-hverfinu í New York. Auglýsingatekjurnar urðu mikil gróðalind fyrir eigendur útvarpsstöðvanna og sjálfstæðar útvarpsstöðvar litu dagsins ljós.

Útvarpsstöðvar létu framleiða kostnaðarsama þætti þar sem nöfn stuðningsaðilanna komu fram. Einn vinsælasti þátturinn kallaðist „Champion bílkveikjustundin“ en í honum lék hljómsveit vinsælustu lögin.

Fréttir sýndar í kvikmyndahúsum

Bandaríkjamenn streymdu í kvikmyndahús til að horfa á þöglar bíómyndir og fréttir.

Áður en nýjustu kvikmyndirnar með Charlie Chaplin eða Mary Pickford birtust á skjánum skemmtu Bandaríkjamenn sér yfir svokölluðum fréttaskotum en um var að ræða fréttir af öllu mögulegu frá heimsviðburðum yfir í kjörið á Ungfrú Strandtísku.

Sigurganga bílsins hófst

Á árunum milli 1920 og 1930 eignaðist sjötti hver Bandaríkjamaður bifreið – en helmingur þeirra keypti tegundina Ford T.

 

Bifreið þessi var gangviss og allt viðhald auðvelt, auk þess sem verðið lækkaði ár frá ári, eftir því sem Henry Ford jók afköstin í verksmiðjum sínum.

 

Salan á Ford T-bifreiðum jókst gífurlega.

Árið 1920 kostaði bifreiðin 395 dali (samsvarandi 750.000 krónum á núvirði) en fimm árum síðar, árið 1925, hafði verðið lækkað niður í 260 dali (samsvarandi 560.000 krónum á núvirði).

Skýjakljúfar ruku upp

Fyrstu skýjakljúfarnir í New York voru reistir á 19. öld en upp úr 1920 fjölgaði þeim til muna.

 

Símafyrirtæki New York borgar lét reisa 150 metra háa byggingu fyrir aðalstöðvar sínar árið 1927. Ári síðar var Standard Oil Building byggingin vígð en hún var 31 hæð.

 

Bifreiðarisinn Chrysler hóf að byggja hina táknrænu Chrysler byggingu í „art-deco“-stíl. Bygging þessi var 319,8 m á hæð og hæsta bygging heims á þeim tíma.

 

Manhattan-hverfið í New York, eins og það leit út árið 1929.

Stórborgirnar stækkuðu.

Standard Oil Building, byggð 1921-1928.

Stórborgirnar stækkuðu.

Transportation Building, reist 1926-1927.

Stórborgirnar stækkuðu.

Bygging New York símafyrirtækisins, reist á árunum 1923-1927.

Eftir áratug sem einkenndist af spákaupmennsku með verðbréf lauk veislunni í október 1929 með hruninu á Wall Street.

BIRT: 26/01/2022

HÖFUNDUR: Jannik Petersen

vinsælustu greinarnar

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.390 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is