Í maí árið 1938 var 25 ára gamall hermaður lagður inn á herspítala í borginni Valensía á Spáni eftir að hafa fengið skot gegnum höfuðið.
Spænska borgarastyrjöldin var í hámarki og fyrir bragðið voru alvarleg meiðsl engin undantekning. Það sem furðu vakti í þessu máli var að hermaðurinn ungi lifði af sár sín án nokkurrar aðgerðar og að sjón hans breyttist.
Taugasérfræðingurinn Justo Gonzalo Rodríguez-Leal grannskoðaði hermanninn þegar hann komst til meðvitundar á nýjan leik. Læknir þessi hafði sérhæft sig í heilaskemmdum en hafði þó aldrei séð nokkuð þessu líkt, því hermaðurinn gat nú lesið tölu- og bókstafi á hvolfi.
Atburðurinn átti eftir að veita Rodríguez-Leal ómetanlegar, nýjar upplýsingar um heilann.
Hermaður las á hvolfi
Breytingarnar gerðu vart við sig um leið og hermaðurinn vaknaði í sjúkrahúsrúmi sínu. Rodríguez-Leal hafði verið kallaður til starfa við hersjúkrahúsið þar sem hann rannsakaði sjúklinginn unga á milli vakta.
Hermaðurinn gekk undir nafninu „sjúklingur M“ í sjúkraskrám taugasérfræðingsins.
Með því að rannsaka sjúklinga sem særst höfðu í stríðinu komst spænski taugasérfræðingurinn Justo Gonzalo Rodríguez-Leal á snoðir um hver áhrif taugaskemmdir geta haft á m.a. sjónina.
„Þegar sjúklingurinn hafði náð sér kom í ljós að hann hafði nánast misst sjónina“, skráði læknirinn í einni af fyrstu sjúkraskránum.
Sú sjón sem eftir lifði hafði enn fremur breyst verulega því sjúklingurinn sá nú allt á hvolfi. Sem dæmi gat hann lesið dagblaðið á haus, ritaði Rodríguez-Leal í læknaritið „Dinámica Cerebral“ (Gangfræði heilans) árið 1945.
Spænska borgarastyrjöldin skildi eftir sig þúsundir særðra. Ungur hermaður lifði af skot gegnum höfuðið og veitti þar með læknum ómetanlega innsýn í heila okkar.
„M fannst þessi afbrigðileiki undarlegur þegar hann t.d. horfði á menn starfa á hvolfi uppi á vinnupalli“, kom fram í ritinu.
Með því að rannsaka „sjúkling M“ og hundruð annarra sjúklinga með heilaskemmdir komst læknirinn að raun um að áhrif skemmda ráðast af umfangi áverkanna, svo og staðsetningu þeirra. Ólíkir hlutar heilans gegna með öðrum orðum mismunandi hlutverkum.
Árið 1936 brjótast út bardagar á Spáni þegar Franco hershöfðingi hyggst ræna völdum. En í öllum heimshornum vilja menn berja fasismann niður og meira en 50.000 menn streyma til Spánar til að berjast gegn fasistum.
Þessi vitneskja var ný af nálinni á dögum Rodríguez-Leals en er í dag nokkuð sem allir vísindamenn á þessu sviði vita.
Í raun réttri sjáum við öll heiminn á hvolfi en tiltekið heilasvæði greinir ílagið frá augunum og sér til þess að það sem við horfum á birtist okkur á réttan hátt. Þetta heilasvæði virtist því hafa orðið fyrir skemmdum í heila sjúklingsins.
„Sjúklingur M“ lifði með þessa breyttu sjón allt til dauðadags undir lok síðustu aldar.