Lifandi Saga

Spænska borgarastríðið: Heimshornaher gegn fasismanum

Árið 1936 brjótast út bardagar á Spáni þegar Franco hershöfðingi hyggst ræna völdum. En í öllum heimshornum vilja menn berja fasismann niður og meira en 50.000 menn streyma til Spánar til að berjast gegn fasistum.

BIRT: 18/11/2024

„Þegar bardagar brutust út blés það sennilega öllum andfasistum í Evrópu von í brjóst. Þarna buðu lýðræðisöflin loks fasistunum birginn. Árum saman höfðu svokölluð lýðræðisríki gefist upp fyrir fasismanum hvert á fætur öðru. En þegar Franco reyndi að steypa hófsamri vinstristjórn af stóli, reis spænska þjóðin gegn honum, öllum að óvörum. Þetta virtust vera meiriháttar umskipti.“

 

Þannig dregur George Orwell upp meginlínurnar í spænska borgarstríðinu haustið 1937. Þessi enski rithöfundur sem síðar varð frægur fyrir skáldsögurnar Félagi Napóleon (Animal Farm) og 1984 var sjálfur einn andfasistanna. Eins og svo margir aðrir frá meira en 50 löndum fór hann til Spánar til að taka þátt í fyrstu beinu styrjöldinni milli tveggja ráðandi hugmyndakerfa samtíma síns, kommúnismans og fasismans. Meðal sjálfboðaliðanna voru líka nokkrir Íslendingar.

George Orwell barðist með lýðveldissinnum. Reynslan veitti honum innblástur að bókinni Félagi Napóleon.

Í desember 1936, um hálfu ári eftir upphaf borgarastyrjaldarinnar, gefur Orwell sig fram við marxískan baráttuhóp í Barcelona til að berjast gegn uppreisnarherjum Francos.

 

Þetta hugmyndastríð vekur líka athygli stórvelda á báðar hliðar. Mörg ríki senda bæði vopn og mannskap til stríðandi fylkinga og nýta borgarastríðið til að prófa nýjungar og fínpússa nýjustu bardagaaðferðir. Afskipti annarra ríkja hafa afgerandi afleiðingar varðandi endalyktir þessa stríðs sem stendur yfir í tæp þrjú ár og kostar meira en hálfa milljón mannslífa.

Ljósmyndarinn Robert Capa hætti lífi sínu til að ná myndum í borgarastríðinu. Þess mynd birtist um allan heim.

Umbætur vekja hernum ugg

Spænska borgarastríðið hefst sem tiltölulega hefðbundið valdarán hershöfðingja. Að morgni 17. júlí 1936 hertaka spænskir hermenn ritsíma- og talsímastöð í Melilla, yfirráðasvæði Spánverja nyrst í Marokkó.

 

Sama dag hertaka uppreisnarmenn opinberar byggingar í bænum og handtaka stjórnarsinna meðal stjórnmálamanna og innan hersins. Þetta er merkið sem hershöfðingjar að baki valdaráninu hafa beðið eftir. Á næstu sólarhringum taka uppreisnarmenn völdin í herstöðvum víða um Spán.

 

Ætlun valdaræningjanna er að hrekja lýðræðislega kjörna stjórn frá völdum og breyta stjórnarstefnunni. Á nokkurra mánaða valdaferli hefur þessi hófsama vinstristjórn hafið ýmsar umbætur sem ætlað er að nútímavæða samfélagið. Manuel Azana forseti vill m.a. gera herinn skilvirkari og takmarka þau forréttindi sem kaþólska kirkjan og aðalsmenn njóta enn í samfélaginu. Þetta skapar mikla ólgu innan hersins og meðal íhaldssamra hægrimanna.

Manuel Azaña forseti og spænsk stjórnvöld óttuðust það sem koma skyldi en tókst ekki að stöðva ólguna.

Ríkisstjórnin hefur verið vöruð við því að eitthvað sé í bígerð en hún virðist ekki hafa tekið slíkar viðvaranir alvarlega. Jafnvel kvöldið fyrir uppreisnina hlær forsætisráðherrann, Santiago Casares Quiroga, hæðnislega að orðrómi um að alvarlegir atburðir séu í uppsiglingu. Tveimur dögum síðar segir hann af sér og þann dag eru alls þrír forsætisráðherrar í landinu. Gríðarleg upplausn ríkir og ríkisstjórnin virðist sitja sem lömuð meðan valdaræningjarnir treysta völd sín um allt land.

 

Strax þann 19. júlí sendir nýr forsætisráðherra José Giral símskeyti til Leóns Blum, forseta Frakklands með beiðni um hjálp við að kveða uppreisnina niður. Frakkar fallast á að senda flugvélar og mikið magn vopna til Spánar. En ákvörðunin breytist eftir að hringt er í Blum frá Englandi.

 

Sá sem hringir er enski utanríkisráðherrann, Antony Eden. Hann gefur franska forsetanum til kynna að Bretar vilji ekki taka afstöðu í deilum á Spáni. Þvert á móti séu Bretar hæstánægðir með að horfa á fasista og kommúnista ganga milli bols og höfuðs hverjir á öðrum.

 

Á þessum tíma lítur stjórn íhaldsflokksins í Bretlandi enn á kommúnismann sem alvarlegri ógn í Evrópu en fasismann. Breskum stjórnvöldum hafa lengi borist ógnvekjandi fregnir af byltingarhugmyndum á Spáni. Bretar vilja þess vegna setja vopnaflutningabann á Spán til að kommúnistar nái þar ekki fótfestu og kommúnistabyltingar breiðst þaðan út um Evrópu.

Kaþólska kirkjan stóð með valdaræningjunum, vegna þess að ráðamenn hennar óttuðust umbætur vinstri stjórnarinnar. Það hagnýttu þjóðernissinnar sér í áróðrinum.

Olíufélög styðja valdaránið

Það er ekki að ástæðulausu sem bresk og bandarísk stjórnvöld þykjast ekki sjá það sem gerist á Spáni. Peningar skipta þar miklu máli. Valdaræningjarnir fá t.d. mikið magn olíu ásamt efnahagslegum stuðningi frá bandaríska olíufélaginu Texaco og fleiri fyrirtækjum sem vilja tryggja fjárfestingar sínar á Spáni með því að koma hægristjórn þar til valda.

 

Frakkar hafa ekki efni á að skapa sér óvild Breta. Eftir mikinn þrýsting dregur Blum-stjórnin tilboð sitt til baka og lýsir yfir hlutleysi í borgarastríðinu. Þessi yfirlýsing og það alþjóðlega viðskiptabann sem fylgir í kjölfarið er í raun stuðningur við valdaræningjana og hefur afgerandi áhrif á þróun stríðsins.

Þjóðernissinnar unnu alls staðar á og fjöldi lýðveldissinnaðra bænda var tekinn til fanga og svo af lífi.

Ríkisstjórnin á ekki annarra kosta völ en að þiggja stuðning frá Sovétríkjum Stalíns. Uppreisnarmenn sem ganga undir heitinu „þjóðernissinnar“, tryggja sér á hinn bóginn hjálp frá fasistastjórn Mussolinis á Ítalíu, Þýskalandi Hitlers og António de Oliveira Salazar, einræðisherra í Portúgal.

 

Fljótlega eftir uppreisnina hefur Spánn í raun aðskilist í tvö landsvæði. Ríkisstjórnin ræður enn yfir Madrid og fleiri stórborgum, svo sem Barcelona, Valencia og Bilbao og á yfirráðasvæði hennar er þannig stór meirihluti íbúanna. Stjórnin hefur hins vegar misst ýmsa hernaðarlega mikilvæga tengistaði. Hún ræður enn iðnaðar- og námusvæðunum í norðri en uppreisnarmenn hafa tryggt sér yfirráð yfir stóru landbúnaðarhéruðunum og þar með matvælaframleiðslunni.

 

Sjáðu gamlar upptökur frá bardögunum:

Gamlir vinir hættulegir

Samfélagið sjálft hefur líka verið rifið í tvennt. Nú tilheyrir fólk annarri hvorri hliðinni og það getur verið lífshættulegt að búa á röngum stað, einkum þó ef maður hefur áður tjáð sig hátt og skýrt um pólitíska afstöðu.

 

„Gamlir skólafélagar, vinir mínir síðan í bernsku, komu heim til mín til að handtaka mig. Vinir sem ég hafði verið með í fótbolta og grínast við í skóla fyrir tiltölulega fáum árum, leituðu að mér til að drepa mig,“ sagði smiður í Madrid, Mario Rey sem tilheyrði hinum hægri sinnaða Falangistaflokki – fasistaflokki sem vildi endurvekja stórveldi Spánar – og einn þeirra sem á fyrstu mánuðum stríðsins tókst að flýja til „samherja“ sinna.

 

En fjölmargir ná ekki að flýja. Einkum í þorpum og smábæjum reynist erfitt að komast undan nógu snemma. Strax í byrjun stríðsins verður til nýtt hugtak: að fara í gönguferð. Beggja vegna víglínunnar birtast vopnaðir menn í dyrunum hjá þeim sem teljast „grunsamlegir“ og fara með þá í gönguferð út í nóttina. Sú gönguferð endar framan við aftökusveit á skurðbakka við þjóðveginn, úti á akri eða í kirkjugarði.

Spænska borgarastyrjöldin sundraði fjölskyldum og skildi eftir sig slóð mannlegra hörmunga. Börn misstu foreldra sína.

Enn í dag eru á Spáni margar fjöldagrafir sem aldrei hafa verið rannsakaðar. Í einni þeirra liggur að líkindum frægasta fórnarlamb „gönguferðanna“, samkynhneigða og vinstrisinnaða skáldið Federico Garcia Lorca sem tilheyrði vinahópi listamanna á borð við Pablo Picasso og Salvador Dalí. Hann hvarf 16. júlí 1936 eftir að falangistar sóttu hann á heimili sitt í Granada.

 

Morð hans fékk táknræna þýðingu um alla Evrópu og litið var á það sem dráp frjálsrar hugsunar listamanna á Spáni.

 

Í öðrum tilvikum er einfaldlega valið af handahófi úr fangelsunum. Í byrjun nóvember 1936 sækja hermenn kommúnista alla „fasista og hættulega einstaklinga“ í Modelo-fangelsið í Madrid og keyra þá í kirkjugarð í bænum Parcuellos. Á fáum dögum taka þeir 2.400 manns af lífi án nokkurra réttarhalda.

Sagnfræðingar álíta að allt að 180.000 almennir borgarar hafi týnt lífi í borgarastríðinu, margir í tíðum loftárásum stríðsins.

250.000 aftökur

Báðir stríðsaðilar gera þannig allt sem þeir geta til að útrýma mögulegum andstæðingum. En jafnframt eru fjölmörg dæmi þess að menn hafi nýtt sér aðstæðurnar til gera upp reikninga við persónulega óvini eða keppinauta. Tölur um allt að 50.000 aftökur á bak við víglínur bara á fyrstu mánuðunum tala sínu máli.

 

Alls er talið að um 250.000 manns hafi verið tekin af lífi á stríðsárunum og í hreinsunum sigurherranna að stríði loknu. Það eru ámóta margir og féllu í stríðinu sjálfu. Við þetta bætast fjöldamargar nauðganir, tilefnislausar fangelsanir og undirokun fjölda fólks sem sumt hraktist úr landi.

 

Hjá hægrisinnuðum þjóðernissinnum fara aftökurnar fram með fullu samþykki valdsmanna og með tilvísun í kjörorð eins herforingjans, Emilios Molas, um að beita „því valdi sem þörf krefur“ til að tryggja sigur. Hjá lýðveldissinnum eru ódæðisverkin oftast framin af æstum hópum sem yfirvöld ná ekki að stöðva þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.

 

Hlustaðu á þjóðsöng þjóðernissinna:

Margir kommúnistar og anarkistar beina í upphafi stríðsins reiði sinni að kaþólsku kirkjunni. Nánast allar kirkjur og klaustur á svæðum lýðveldissinna voru rænd og brennd eða hernumin. Um 7.000 kirkjunnar menn voru drepnir, oft á hroðalegan hátt.

 

Kirkjan bregst við þessu með því að lýsa opinberlega yfir stuðningi við valdaræningjana. Áður en ríkisstjórninni tekst að stöðva ódæðisverkin hefur alþjóðlegur stuðningur við uppreisnarmenn vaxið mikið, einkum í kaþólskum löndum eins og Írlandi en þaðan fóru sjálfboðaliðar til að berjast gegn hinum óguðlegu kommúnistum.

Spánn vannst í áföngum

Í nærri þriggja ára borgarastyrjöld lögðu þjóðernissinnar smám saman undir sig æ stærri hluta Spánar. Í orrustunni við Guadalajara í mars 1937 unnu lýðveldissinnar síðasta sigur sinn.

1936

17. júlí

Uppreisnin hefst í Melilla, spænska yfirráðasvæðinu nyrst í Marokkó. Hitler og Mussolini styðja uppreisnarmenn en Stalín styður lýðveldissinna.

 

3. ágúst

Frakkar óttast sjálfir borgarastyrjöld og neita að koma til hjálpar. Landamærunum er lokað.

 

29. september

Herinn útnefnir Franco sem æðsta stjórnanda ríkisins og hersveitanna.

 

1. nóvember

Þjóðernissinnar bíða fyrsta ósigur sinn þegar þeir hyggjast taka Madrid.

1937

6. febrúar

Skotgrafahernaður hefst við Jaramafljót skammt frá Madrid.

 

8. mars

Í orrustu við Guadalajara á Mið-Spáni bíða þjóðernissinnar mikinn ósigur ásamt ítölskum hersveitum Mussolinis.

 

26. apríl

Þýskar og ítalskar sprengjuflugvélar leggja Baskabæinn Guernica í rúst.

 

3. maí

Klofningshópar kommúnista berjast innbyrðis og gegn lögreglu í Barcelona.

1938

15. apríl

Hermenn Francos ná til austurstrandar Spánar og kljúfa yfirráðasvæði lýðveldisins í tvennt.

 

1. maí

Franco krefst skilyrðislausrar uppgjafar lýðveldissinna.

 

3. október

Alþjóðasveitir sjálfboðaliða sendar frá Spáni í misheppnaðri tilraun til að draga úr hernaðarátökum.

 

16. nóvember

Lýðveldissinnar bíða afgerandi ósigur í orrustunni við Ebro í Katalóníu.

1939

26. janúar

Hersveitir Francos taka Barcelona.

 

27. febrúar

Englendingar og Frakkar viðurkenna stjórn Francos.

 

28. mars

Lýðveldissinnar í Madrid gefast upp án skilyrða.

 

1. apríl

Borgarastyrjöldinni er lokið og Franco hefst handa við að útrýma pólitískum andstæðingum. Allt að 100.000 týna lífi og mörg hundruð þúsund flýja land.

Lið borgara vanmáttugt

Í sumarlok 1936 er ástandið orðið alvarlegt hjá varnarsveitum lýðveldissinna. Herlið almennra borgara hefur reynst vanmáttugt gegn hersveitum valdaræningjanna og ekki náð að stöðva framrás þeirra nema á stöku stað. Í byrjun september tekur nýr maður við embætti forsætisráðherra, hinn róttæki sósíalisti Francisco Largo Carabello sem tekur til við að koma lýðveldinu upp nothæfum her í kapphlaupi við tímann.

 

Um svipað leyti fer þó ný, alþjóðleg hreyfing að taka á sig mynd. Haustið 1936 byrja kommúnistaflokkar að safna liði í Alþjóðahersveitirnar. Milli 40 og 60 þúsund manns frá 55 löndum skrá sig í hersveitirnar á næstu árum. Flestir koma frá Frakklandi, Ítalíu, Þýskalandi, Englandi og Bandaríkjunum.

„Þeir voru að varpa sprengjum á Madrid. Þá rann það upp fyrir okkur að þetta var stríð en ekki ævintýri.“

Englendingurinn David Marshall, einn sjálfboðaliðanna í alþjóðasveitunum.

Margir þessara útlendinga hætta ekki einungis lífi sínu fyrir lýðveldið heldur gera sig líka að lögbrjótum vegna alþjóðlegra samþykkta um einangrun Spánar. Sumir missa jafnvel ríkisborgararétt sinn vegna þátttökunnar í borgarastyrjöldinni á Spáni. Einkum eru það kommúnistar í Þýskalandi og Ítalíu sem verða fyrir þessu, en einmitt þeir lenda iðulega andspænis eigin landsmönnum í orrustum.

 

Í lok september 1936 er hershöfðinginn Francisco Franco orðinn að yfirmanni alls herafla uppreisnarmanna og hann leggur nú til atlögu við sjálfa höfuðborgina.

 

Vörn Madridborgar verður fyrsti alvörusigur lýðveldissinna og um leið eldskírn alþjóðlegu hersveitanna. Englendingurinn David Marshall stóð á tvítugu og rifjaði síðar upp atburðarásina þegar Thälmann-hersveitin sem einkum var skipuð Þjóðverjum, kom til Madrid. „Í birtingu komum við að lágum hæðardrögum nokkru fyrir sunnan Madrid. Loftið var tært og ekkert hljóð heyrðist. Við sáum Madrid nokkuð langt í burtu og meðan við horfðum þangað sáum við 12 reykjarsúlur stíga til himins. Þeir voru að varpa sprengjum á Madrid. Þá rann það upp fyrir okkur að þetta var stríð en ekki ævintýri,“ sagði Englendingurinn ungi sem reyndar var svo heppinn að særast strax á fyrsta degi og því sendur langt burtu frá víglínunni.

Þorpið Belchite var eitt margra sem lögð voru algerlega í rúst. Franco bannaði endurbyggingu þess og fyrirskipaði að rústirnar stæðu óhaggaðar til minja um stríðið.

Samlandi hans, Sam Russel, lendir líka í sínum fyrsta bardaga þennan dag. Hann liggur í skotgröfunum á háskólasvæðinu í norðurhluta Madrid.

 

„Það var þá sem rússnesku byssurnar tóku að berast. Stór hluti af skotfærunum passaði ekki og þarna lágum við og börðumst við Franco milli háskólabygginganna. Um miðjan desember vorum við einungis sex eftir af þessum 30 manna hópi. Fáeinir höfðu særst en flestir voru dauðir. Mannfallið var alveg jafnmikið í allri frönsku herdeildinni,“ sagði hann. En þrátt fyrir mannfallið, vaxandi skort á nauðsynjum, allt frá mat til vopna og stöðugum sprengjuárásum þýskra og ítalskra flugvéla, tekst áfram að verja borgina.

Spánn tilraunakanína þýska flughersins

Hitler sendi „Kondóraflugsveit“ sýna til að styðja Franco en tilgangurinn var þó ekki síður að afla reynslu fyrir komandi styrjöld í Evrópu.

Aðeins fimm dögum eftir að borgarastríðið braust út bað Franco um aðstoð frá Þýskalandi til að ná heim spænskum herafla frá Afríku. Hitler samþykkti þetta í leynum og næstu mánuði voru 13.500 hermenn fluttir til Spánar.

 

Þetta var þó aðeins upphafið að þátttöku Þjóðverja. Eftir að Stalín sendi flugvélar til Spánar leið ekki á löngu þar til Spánn varð að eins konar þjálfunarbúðum í lofthernaði. Þjóðverjar gáfu flugsveit sinni á Spáni heitið „Legion Condor“ og hún var notuð til að gera tilraunir bæði á sviði tækni og hernaðarlistar.

 

Orrustuvélin Heinkel He 51 sem taldist helsta stolt þýska flughersins, reyndist eins konar fljúgandi ruslatunna og hafði ekki roð í sovésku orrustuvélarnar. Vinnu við þróun nýrri og miklu fullkomnari Messerschmitt Bfd109 var hraðað til mikilla muna. Stuka-vélin reyndist hins vegar fara fram úr björtustu vonum.

 

Mikilvægi lofthernaðar kom rækilega í ljós. Með hjálp þýsku Kondóranna höfðu fasistar nánast full yfirráð í lofti undir lok stríðsins. Þeir gátu því eyðilagt flutningaleiðir lýðveldissinna sem gátu ekki svarað fyrir sig á nokkurn hátt. Sigur Francos hefði verið óhugsandi án Kondóranna sem vörpuðu nærri 17.000 tonnum af sprengjum yfir Spán.

Jafntefli í skotgröfunum

Erlendu hermennirnir gegna eftir þetta stóru hlutverki í skotgrafahernaði við Jaramafljót suður af Madrid. Í lofti berjast rússneskir orrustuflugmenn við þýska og ítalska en á landi berjast vinstrisinnar um hvern fermetra gegn Marokkómönnum, Portúgölum og Írum.

 

Eins og í Madrid enda þessir bardagar í eins konar pattstöðu en með miklu mannfalli á báða bóga. Lýðveldissinnar missa 10.000 manns en þjóðernissinnar 6.000. Mannfallið bitnar harkalega á alþjóðasveitunum þar sem heilar herdeildir þurrkast út og sveitirnar ná aldrei fullum slagkrafti eftir þetta.

 

Í byrjun mars vinna lýðveldissinnar mikinn sigur við bæinn Guadalajara austur af Madrid. Mussolini hefur nú sent 50.000 manna her til Spánar til að binda enda á styrjöldina. Þessum her mætti Garibaldi-herdeildin sem í voru ítalskir sjálfboðaliðar, ásamt splunkunýjum rússneskum skriðdrekum. Hermenn Mussolinis biðu niðurlægjandi ósigur. Lýðveldissinnar urðu þó fyrir meira mannfalli og sigurinn er því dýru verði keyptur. Jafnframt reynist þetta síðasti stóri sigur sem liðsmenn spænsku lýðveldisstjórnarinnar vinnur.

„Þetta var leitt en við gátum ekki komist hjá þessu. Á þessum tíma var ekki hægt að öðlast þessa reynslu á annan hátt.“

Hermann Göring við Nürnberg-réttarhöldin.

Franco hershöfðingi lítur nú til norðurs. Á fáeinum mánuðum nær hann á sitt vald allri norðurstrandlengjunni og nær valdi á iðnaðarsvæðunum. Eftir það getur stríðið ekki endað nema á einn veg og það kveikir hjá bandamönnum Francos hugmynd að blóðugri tilraun. Þann 26. apríl 1937 varpa þýskir og ítalskir flugmenn sprengjum á Baskabæinn Guernica.

 

Þjóðverjar kasta sprengjum úr mikilli hæð til að sjá hvaða áhrif eyðileggingin hafi á sálarástand íbúanna. Ítalirnir æfa sig hins vegar í nákvæmni. Þrír fjórðu hlutar bæjarins liggja í rústum en dánartalan er mjög óviss, minnst 126 en mest um 2.500. Bærinn hefur enga hernaðarlega þýðingu og árásirnar á almenna borgara algerlega óþarfar.

 

„Þetta var leitt en við gátum ekki komist hjá þessu. Á þessum tíma var ekki hægt að öðlast þessa reynslu á annan hátt,“ sagði Hermann Göring, yfirmaður þýska lofthersins í tengslum við réttarhöldin í Nürnberg, þegar hann var spurður um þessa æfingu fyrir loftárásirnar í seinni heimsstyrjöld.

Loftárásirnar á litla Baskabæinn Guernica sem var nánast jafnaður við jörðu af þýsku Kondórunum, teljast meðal fyrstu hryðjuverkasprenginga sögunnar.

Skömmu síðar tekur enn við nýr forsætisráðherra í Lýðveldisstjórninni, þegar Joan Negrín sest í embættið með velþóknun Sovétríkjanna. Nokkurn veginn á sama tíma brýst út sjálfstæð borgarastyrjöld í Barcelona. Sameiginlegur óvinur dugar ekki lengur til að halda kommúnistum saman og Stalínistar og Trotskýistar taka að skjóta hvorir á aðra á götum úti.

 

Georg Orwell er í leyfi í þessari katalónsku stórborg og horfir á kommúnistana sundrast. Hann tilheyrir Trotskýistahópnum POUM sem Sovéthollir stalínistar stimpla nú sem stuðningsmenn fasista. Meðlimirnir eru handteknir og þeim varpað í fangelsi.

Loftárásirnar bitnuðu mjög harkalega á spænskum almenningi. Sprengjuvélarnar birtust án aðvörunar og hlífðu engum.

Særður Georg Orwell á flótta

Eftir fáeina daga dregur þó úr átökum og George Orwell fer aftur á vígstöðvarnar við Aragon. Þátttöku hans í stríðinu lýkur hins vegar fljótt. Eftir tíu daga fær hann kúlu leyniskyttu í hálsinn og særist alvarlega.

 

Eins og fyrir kraftaverk lifir Orwell þetta af og dvelur síðan í Barcelona þar til hann neyðist til að flýja úr landi til að komast hjá handtöku sem meðlimur í POUM, þegar innbyrðisbardagar blossa upp að nýju. Árinu 1937 lýkur eins og það hófst. Þjóðernissinnar Francos vinna á, hægt og bítandi. Í apríl 1938 ná þeir til strandar Miðjarðarhafsins og skera yfirráðasvæði lýðveldisins þannig í tvennt. Skömmu síðar reynir stjórn Negríns að koma á friðarsamningum en Franco neitar og krefst skilyrðislausrar uppgjafar.

Með lýðveldishernum börðust bæði konur og unglingar. Konur tóku jafnt þátt í bardögum og karlmenn.

Í september gerir Negrín aðra tilraun til að friðmælast við Franco og tilkynnir að alþjóðahersveitirnar skuli yfirgefa landið. Síðustu útlendingarnir fara í lok október, rétt áður en þjóðernissinnar vinna lokasigur við Ebro.

 

Negrín reynir að halda út, í von um að nánast fyrirsjáanleg styrjöld brjótist út milli lýðræðis- og fasistaríkja í Evrópu. Þá hefði aðflutningsbanni til Spánar verið aflétt og lýðveldissinnar getað fengið hjálp annarra ríkja.

 

En seinni heimsstyrjöldin hefst of seint til að bjarga Spáni. Þjóðernissinnar halda áfram sigurgöngunni og 26. janúar 1939 taka þeir sundursprengda Barcelonaborg nánast án mótspyrnu. Mánuði síðar viðurkenna Bretar og Frakkar stjórn Francos á Spáni.

 

Og 27. mars taka þjóðernissinnar Madrid. Franco lýsir því yfir að borgarastyrjöldinni sé lokið þann 1. apríl 1939, aðeins fimm mánuðum áður en síðari heimsstyrjöld hefst eftir innrás þýsku nasistanna í Pólland.

Leiðtogi fasista, Franco hershöfðingi, bar titilinn „Caudillo“ eftir sigurinn. Titillinn er alspænskur en hefur verið hafður um „stríðsherra“ eða „sterka menn“.

Franco sat að völdum í 36 ár

Francisco Franco Bahamonde leiddi uppreisnarmenn til sigurs í spænska borgarastríðinu og varð síðan leiðtogi ríkisins.

Francisco Franco Bahamonde (1892-1975) fæddist í Ferrol á Norður-Spáni 1892. Á unga aldri hlaut hann skjótan frama í hernum vegna frammistöðu sinnar í hernaðarátökum í Marokkó. Aðeins 23 ára varð hann yngsti majór í spænska hernum og 35 ára að aldri fékk hann titilinn stórfylkishershöfðingi.

 

Í upphafi uppreisnarinnar gegndi Franco herþjónustu á Kanaríeyjum og hélt sig í skugganum við skipulagningu valdaránsins. Hann gekk ekki til liðs við uppreisnarmenn fyrr en rétt áður en uppreisnin hófst 17. júlí 1936. Eftir allmarga hernaðarsigra útnefndu hinir hershöfðingjarnir hann yfirhershöfðingja og leiðtoga ríkisstjórnarinnar sem fór með völd á herteknum svæðum.

 

Franco hafði hins vegar enn stærri áform og með dálitlum breytingum á textanum tókst honum að fá titil þjóðhöfðingja. Þeirri nafnbót hélt hann eftir lok borgarastyrjaldarinnar allt þar hann lést á sjúkrahúsi í Madrid í nóvember 1975.

Lestu meira um Spánarstríðið

Hallgrímur Hallgrímsson: Undir fána lýðveldisins, Una útgáfuhús 2019 (Frumútgáfa 1941).

 

Beevor, Antony: The Battle for Spain, London 2006.

 

Báðar þessar bækur eru til á bókasöfnum.

LESTU EINNIG

HÖFUNDUR: Mikkel Larsen, Bue Kindtler-Nielsen

© The Granger Collection/Ritzau Scanpix,© Robert Capa,© Narodowe Archiwum Cyfrowe,© Ritzau Scanpix,© Hulton Deutsch/Getty Images,© Keystone/Getty Images, Shutterstock,© Augusto Ferrer-Dalmau,© ullstein bild Dtl./Getty Images,© World History Archive/Imageselect,© Museo Nacional Centro de Arte Reina Sofía,© Daily Herald Archive/Getty Images,© Bettmann/Getty Images,

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Maðurinn

Heilinn sér andlit alls staðar og meðhöndlar þau öll eins

Náttúran

90 sekúndur til dómsdags: Viðbúin gegn hamförunum?

Náttúran

Vísindamenn undrandi: Svona myndast stærstu sandöldur heims

Náttúran

Stiklað á stóru um lotukerfið á 10 mínútum

Náttúran

Forneðlur lágu á eggjunum

Náttúran

Hve þungt er ljósið?

Maðurinn

Er til fólk sem skynjar ekki sársauka?

Maðurinn

Eru sjóböð að vetri heilsusamleg?

Maðurinn

Fyllerí: Svona slævir áfengi heilann

Alheimurinn

Hjarta Plútós varð til eftir árekstur

Lifandi Saga

Hvenær var skák fundin upp?

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.790 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is