Þann 7. september 1940 hóf Luftwaffe, flugher nasista, kerfisbundnar loftárásir á borgaraleg skotmörk í Bretlandi sem kostaði á endanum um 43.000 manns lífið á næstu átta mánuðum.
Sprengjuregnið – sem Bretar kenndu við blitz eða leiftur – kom í kjölfarið á loftbardögum sem höfðu staðið sumarlangt og fram á haust, þegar Þjóðverjar og Bretar börðust um yfirráðin í loftinu yfir Bretlandi.
Þjóverjar höfðu þá árangurslaust herjað á breska flugherinn Royal Air Force (RAF), til að undirbúa innrás Hitlers á Bretland.
Þegar það gekk ekki eftir ákvað Hitler að brjóta niður viðnámsþrótt Breta með því að ráðast á borgaraleg skotmörk í von um að sá algerum glundroða meðal þjóðarinnar og knýja Breta að samningaborðinu.
London varð sérlega illa útleikin og fékk að kenna á 76 næturloftárásum í beit. Á einni nóttu milli 10. og 11. maí vörpuðu Þjóðverjar heilum 711 tonnum af sprengiefni yfir stórborgina.
Eldskírninni lauk í maí 1941, þegar Hitler ákvað að ráðast inn í Sovétríkin. Flugherinn sendi flestar flugvélar sínar austur á bóginn en loftárásir á Breta héldu áfram og kostuðu Breta á endanum einhver 61.000 mannslíf.