Lifandi Saga

Hitler var á efnum alla seinni heimsstyrjöld

Eftir að hafa læknað Hitler af magaverkjunum fær læknirinn Theodor Morell leyfi til að gefa honum önnur lyf. Foringinn þjáist m.a. af einbeitingarörðugleikum og getuleysi. Á nokkrum vikum verður leiðtogi Þýskalands algerlega háður lækninum – og með metamfetamín í blóðinu hefur hann seinni heimsstyrjöld.

BIRT: 14/01/2023

Ilmur af tómatsósu fyllir borðstofuna í glæsivillu Heinrichs Hoffmann í München.

 

Hirðljósmyndari nasista hefur boðið lækninum Theodor Morell í mat í þakklætisskyni fyrir að hafa læknað sig af lekanda. Og eins og oft áður, þegar Hoffmann býður upp á ítalskt gómsæti, hefur Adolf Hitler litið inn til að smakka góðgætið.

 

Theodor Morell er upp með sér af því að vera í svo tiginbornu samsæti þetta vorkvöld árið 1936. En hann er jafnframt vel meðvitaður um hversu sorglega hann sker sig úr.

 

Andlit læknisins er vel holdfyllt og gleraugun hvíla á áberandi stóru kartöflunefi. Ofan á allt saman rennur svo svitinn í stríðum straumum niður af skallanum.

 

Andstæðan við hinn grannvaxna leiðtoga gæti varla verið meira áberandi.

Sagnir herma að vegna hégómleika síns skipti Hitler um skyrtu oft á dag en Theodor Morell fer sjaldan í bað og oft leggur af honum megna svitalykt.

 

Læknirinn situr þögull og potar gaflinum í pastaréttinn, þegar Adolf Hitler tekur að segja honum frá magaverkjum og exemi sem hafa valdið honum óþægindum árum saman.

 

Þar með fær Morell málið á ný. Hann býðst til að rannsaka Hitler og veita honum sína sérhæfðu meðferð með glúkósa og vítamínum sem yfirstéttarsjúklingar hans í Berlín kunna vel að meta.

 

Þremur dögum síðar situr feitlagni læknirinn í einkabústað Hitlers, Berghof og sprautar lyfjum sínum í Foringjann.

 

Og „Sjúklingur A“, eins og Hitler er frá upphafi nefndur í sjúkraskrám Morells, er afar ánægður með meðferðina. Sprautan linar ekki aðeins verkina, heldur verður líka til þess að einræðisherranum finnst hann orðinn sterkur eins og uxi.

 

„Verið heilbrigð og snúið baki við öllu sem eitrar líkamann,“ þrumar Hitler í einni af óteljandi ræðum sínum til þjóðarinnar, meðan efnin úr sprautum læknisins flæða um æðar hans.

 

Töfralyf Morells verða á skömmum tíma fastur liður í morgunundirbúningi Hitlers á Berghof. Læknirinn getur lagt niður sinn annars ábatasama rekstur í Berlín og einbeitt sér að þessum mikilvæga sjúklingi frá árinu 1937.

 

Næstu átta ár starfar Morell sem einkalæknir Adolfs Hitler og gefur honum lyf sem valda því að leiðtogi Þjóðverja er í samfelldri vímu alla síðari heimsstyrjöldina.

 

Umfang fíkniefnamisnotkunar Hitlers var ekki afhjúpað fyrr en 2016 í bók Normans Ohler sem hafði yfirfarið nákvæmar sjúkraskýrslur Morells um Foringjann.

 

Vitamultin kallaðist töfralyf læknisins

Fyrstu árin fékk Hitler daglega sprautu með joði, kalki og lifrar- og hjartaseyði sem átti að auka magn karlhormónsins testósterons í líkamanum.

 

Stóra trompið í svörtu læknatöskunni var þó efnið Vitamultin sem Hitler fékk bæði í pilluformi og í sprautum Morells.

 

Að sögn Morells var Vitamultin einungis heilsusamleg blanda af ýmsum vítamínum en síðari rannsóknir á efninu hafa sýnt að í blöndunni var líka verulegur skammtur af metamfetamíni.

 

Þetta efni er mjög ávanabindandi og skylt amfetamíni sem nú er sennilega betur þekkt sem „spítt“ en allt að fimmfalt sterkara.

 

Við inntöku leysir efnið úr læðingi hormónin adrenalín og dópamín en það eykur bjartsýni og sjálfstraust en dregur úr þreytu og matarlyst.

 

Svo virðist sem Adolf Hitler hafi ekki haft hugmynd um að Morell væri að gefa honum vímuefni en breytingin á honum var hins vegar augljós.

 

Þessar daglegu sprautur færðu Hitler óþrjótandi orku og kyntu undir eldmóði hans í ræðustóli.

 

Exem og magakrampar einræðisherrans voru nú ekki lengur til nema í minningunni og Hitler var þessum nýja lækni sínum óendanlega þakklátur.

 

„Þú gætir aldrei trúað því hvað ég á Morell mikið að þakka,“ sagði hann síðar við eyrnasérfræðing sinn, dr. Giesing.

 

„Hann bjargaði lífi mínu 1936. Ég var orðinn svo slæmur að ég var varla göngufær. Ég fékk alranga meðhöndlun og á endanum lifði ég bara á te og kexi. En svo kom Morell og læknaði mig.“

Morell (til hægri) var meðal heiðursgesta í fimmtugsafmæli Hitlers 1939.

Gyðingalæknirinn varð nasistalæknir

Upp úr 1930 var Theodor Morell vinsæll læknir sem einkum sinnti listamönnum og menntamönnum í Berlín.

 

Meðal sjúklinga hans voru margir gyðingar og þegar nasistar komust til valda 1933 var Morell stimplaður sem gyðingalæknir.

 

Þetta hafði þær afleiðingar að fólk hætti að leita til hans en í stað þess að loka og hætta, hagaði Morell seglum eftir vindi og gekk í nasistaflokkinn NSDAP.

 

Með flokksskírteinið upp á vasann blómstraði Morell á ný og meðal nýrra sjúklinga hans var hirðljósmyndari Hitlers, Heinrich Hoffmann.

 

Hann kynnti Morell fyrir Foringjanum og gjörbreytti þannig lífi þeirra beggja.

Reiðikast Hitlers færði honum Tékkóslóvakíu

Í ársbyrjun 1939 stóðu Þjóðverjar styrkum fótum bæði efnahagslega og hernaðarlega. Útþensluáætlanir Hitlers voru að taka á sig form og grannríkið Tékkóslóvakía stóð efst á listanum.

 

Að kvöldi dags þann 14. mars kom forseti Tékkóslóvakíu, Emil Hácha, í stjórnarráðsbygginguna í Berlín, þar sem Hitler lét hann svitna í tvo tíma áður en hann veitti honum áheyrn. Á fundi þeirra krafðist Hitler þess að Hácha skrifaði undir skjal sem veitti Þjóðverjum yfirráð yfir Tékkóslóvakíu. Hácha var ekki reiðubúinn til að ganga svo langt í fyrstu atrennu. Vitnisburðum ber ekki fyllilega saman um atburðarásina en ein frásagan er á þá leið að Hitler hafi þá fengið svo ofboðslegt reiðikast að Hácha hafi fengið hjartaáfall.

 

Dr. Morell á að hafa verið viðstaddur og sprautað Hácha með óþekktu efni sem trúlegast hefur þá innihaldið einmitt metamfetamín.

 

Örfáum sekúndum síðar settist forsetinn upp í stólnum, eins og risinn upp frá dauðum og skrifaði undir. Þetta er vafalaust ofsagt en víst er að Hácha sem var um 67 ára gamall, tregðaðist við og virtist a.m.k. á barmi alvarlegs áfalls. Hann skrifaði undir þegar langt var liðið á aðfaranótt 15. mars og um morguninn marseruðu hermenn Hitlers inn í Prag án þess að mæta neinni mótspyrnu að ráði.

 

Það má sem sé hugsa sér að sprauta Morells hafi sparað Þjóðverjum einhver hernaðarátök, því samningurinn um yfirráð Tékkóslóvakíu hefði ekki verið undirritaður ef Hácha hefði hann látist þarna í stólnum.

Pervitín var einkum tekið í lofthernum þar sem pillurnar fengu gælunafnið Stuka-pillur.

Þýskir hermenn börðust á spítti.

Þótt Hitler prédikaði hófsemi misnotuðu hermenn hans metamfetamín og það var að frumkvæði hersins sjálfs.

 

Þegar Þjóðverjar réðust inn í Pólland þann 1. september 1939, voru fjölmargir hermenn undir áhrifum metamfetamíns sem er náskylt spítti okkar tíma.

 

Herinn hafði lengi leitað að lyfi sem gæti styrkt einbeitingu hermanna og haldið taugunum styrkum í ógnaraðstæðum hernaðarátaka.

 

Það voru hinar ávanabindandi pervitínpillur sem urðu fyrir valinu en þær komu líkamanum til að losa mikið adrenalín.

 

Pillurnar voru áhrifaríkar og komu hermönnunum til að berjast af fádæma hörku. Þýskur læknir komst svo að orði:

 

„Herdeild á pervitíni er óvinunum ávallt yfirsterkari.“

 

Pillurnar voru afar vinsælar í upphafi styrjaldarinnar en reyndust hafa alvarlegar aukaverkanir.

 

Pervitín gerði hermennina árásargjarna og þeir létu verr að stjórn. Það leiddi til mjög harðneskjulegrar meðferðar almennra borgara og jafnvel árása á eigin yfirmenn.

 

Enn verri voru þó andleg og líkamleg þreyta og sljóleiki sem stóðu yfir í marga daga eftir pervitínvímu og olli því að hermennirnir voru ófærir um að sinna daglegum skyldum.

 

Þrátt fyrir þessar aukaverkanir framleiddu Þjóðverjar um 200 milljón pervitínpillur 1939-1945. Vegna aukaverkana var þó dregið úr notkun þeirra og þær skammtaðar.

Læknirinn var alla tíð utangarðs

Hvort heldur sagan um þátt Morells í undirskrift Hácha er sönn eða ekki, var Hitler mjög hrifinn af lækni sínum. Þegar seinni heimsstyrjöldin hófst með innrás Þjóðverja í Pólland var Morell orðinn fastamaður í innsta hring Foringjans.

 

Hressandi og upplífgandi sprautulyf læknisins ólguðu vafalítið í æðum Hitlers þegar hann undirbjó hina vel heppnuðu innrás í Frakkland sumarið 1940.

 

Með sínu hefðbundna sjálfstrausti í röddinni sagði hann: „ Herrar mínir, þið standið á þröskuldi stærsta sigurs í sögunni.“

 

Sigurinn á vígstöðvunum leiddi þó af sér lægð fyrir lækninn sem alltaf var við hlið hans.

 

Theodor Morell var aldrei nema í nokkurra skrefa fjarlægð frá sjúklingi sínum en innan tíðar voru liðnir margir mánuðir síðan Hitler hafði þurft nokkuð meira en hefðbundna grunnmeðferð.

 

Eins og Morell skrifaði Joönnu konu sinni skömmu eftir uppgjöf Frakka:

 

„Hitler er frískur og afar vel stemmdur. Sem læknir hef ég ekkert að gera.“

 

Sjálfum fannst Morell hann einangrast, þar eð flestir hershöfðingjarnir höfðu fyrirlitningu á þessum sísveitta lækni og öfunduðu hann af nánu sambandi sínu við Hitler.

 

Sem almennur borgari og án sjúklings til að annast lenti Morell utangarðs.

 

„Ég sit alltaf einn. Ef ekki væri vegna Foringjans, vildi ég helst óska mér að vera heima,“ skrifaði hann konu sinni 1940, skömmu fyrir 55 ára afmæli sitt.

 

Þessum feitlagna lækni leið illa í slíkri einsemd og hann reyndi sitt besta til að aðlagast umhverfinu sem einkenndist af orðum prýddum hershöfðingjum.

 

Morell hannaði sinn eigin einkennisbúning, þar sem hann prýddi kragann með myndum af Asklepios, gríska lækningaguðinum.

 

Hershöfðingjarnir andmæltu ekki en kunnu ekki að meta herbúning þessa borgaralega læknis. Þegar Morell leyfði sér að bæta SS-sylgju á beltið, þótti þeim of langt gengið og honum var skipað að fjarlægja sylgjuna.

 

Einangrunarkennd í Úlfavirkinu

Sumarið 1941 flutti Hitler inn í nýjar aðalstöðvar sínar, Úlfavirkið – risastórt og óvinnandi vígi í Austur-Prússlandi í núverandi Póllandi.

 

Þaðan stýrði hann stríðinu gegn Rauða hernum og Stalín.

 

Meira en 2.000 yfirmenn, hermenn og borgarar lifðu fábreyttri tilveru í þessum röku og innilokuðu búðum í meira en þrjú ár og flestir bölvuðu þessum nýja vinnustað í sand og ösku.

 

Meðal þeirra var líka Theodor Morell sem vana sínum trúr var sjaldnast í meira en nálarfjarlægð frá foringjanum.

 

„Það er sveppagróður í stígvélunum mínum, stöðugt raki í fötunum, mér er erfitt um andardrátt, blóðrásin léleg og ég þjáist af byrgis-innilokunarkennd,“ skrifaði læknirinn í dagbók sína þann 23. júní 1944.

 

Hitler blómstraði hins vegar í þessum aðstæðum. Í Úlfavirkinu gat hann notið hermannalífsins og hraði hersveitanna í sókninni skapaði honum hrifningarvímu.

 

En eftir fáeina mánuði í þessu saggasama og innilokaða umhverfi þurfti hann þó loks að horfast í augu við veruleikann. Nú varð Foringinn veikur í fyrsta sinn í mörg ár.

 

Theodor Morell sat nývaknaður á rúmstokknum í herbergi sínu og skrifstofu, þegar herbergisþjónn Hitlers, Heinz Linge, færði honum tíðindin af ástandi „yfirmannsins“.

 

Skilaboðin til læknisins voru skýr: „Komdu strax inn til Foringjans!“

 

Theodor Morell greip læknistöskuna og þaut af stað til að huga að sjúklingi sínum. Þegar hann kom inn í herbergið, lá Hitler í hnipri í rúminu með háan hita og niðurgang. Einkennin bentu til blóðkreppusóttar.

 

Að venju byrjaði Morell á að sprauta vitamultíni og glúkósa í Foringjann en honum var ljóst að nú þurfti meira til.

Lyfjaskápurinn var troðfullur

82 mismunandi efni streymdu um æðar Adolfs Hitlers síðustu ár seinni heimsstyrjaldar.

Efnamisnotkun Foringans fólst m.a. í testósteronsprautum eða prump-pillum og allt upp í kókaín og metamfetamín.

Dr. Kösters Antigas-pillur

Innihald: M.a. stryknín og solanín.

Skammtar: Allt að 20 pillur á dag.

Áhrif: Vindeyðandi í meltingarfærum.

Sjúkraskráin: Dr. Morell ráðlagði vindeyðandi pillur gegn gasmyndun í maga. Læknirinn sagði Hitler að honum væri óhætt að taka allt að 20 töflur á dag sem var mjög hár skammtur þar eð í pillunum var stryknín sem m.a. er að finna í rottueitri.

Mutaflor

Innihald: Saurbakteríur úr mönnum.

Skammtar: 2 pillur á dag.

Áhrif: Koma í stað sjúkra þarmabaktería sem valda magaverkjum og hægðatregðu.

Sjúkraskráin: Fyrsta lyfið sem Morell ráðlagði Hitler var við magakrömpum. Meðferðin virkaði og Hitler var svo þakklátur að hann gerði Morell að einkalækni sínum.

Testoviron

Innihald: Testósteronþykkni úr nautaeistum.

Skammtar: 25 ml í sprautu.

Sjúkraskráin: Þegar Hitler hugðist eyða nóttinni með Evu Braun, sprautaði Morell miklu af Testovironi í hann. Sprauturnar juku kynhvöt Hitlers og varðveittu kynlöngun hans í ringulreið stríðsins.

Kókaín

Innihald: Kókaín þynnt með vatni.

Skammtar: Dropar með fáeinum ml af 10% hreinu kókaíni.

Sjúkraskráin: Þrálátur höfuðverkur leiddi til þess að Hitler fékk kókaín í formi augndropa. Hann var yfir sig hrifinn og eftir nokkra daga hrópaði hann upp: „Þetta kókaín er undursamlegt!“ Þrátt fyrir viðvaranir fékk hann lækninn til að gefa sér efnið tvisvar á dag.

Vitamultin

Innihald: Litlir skammtar af metamfetamíni.

Skammtar: 2 pillur á dag.

Áhrif: Vinnur bug á almennri þreytu.

Sjúkraskráin: Vitamultin var sérstök vítamínuppbót Hitlers. Morell blandaði efnið sjálfur og pakkaði í gylltar umbúðir. Opinberlega voru aðeins vítamín í blöndunni en síðari rannsóknir hafa leitt í ljós leifar metamfetamíns.

Eukodal

Innihald: Afleiða heróíns.

Áhrif: Verkjastillandi með sterkri vellíðan.

Sjúkraskráin: Frá júlí 1943 var heróínafleiðan Eukodal hluti af lyfjagjöf Hitlers. Foringinn fékk næstum 800 sprautur af þessu vímugefandi efni.

Lyfjaskápurinn var troðfullur

82 mismunandi efni streymdu um æðar Adolfs Hitlers síðustu ár seinni heimsstyrjaldar.

Efnamisnotkun Foringans fólst m.a. í testósteronsprautum eða prump-pillum og allt upp í kókaín og metamfetamín.

Dr. Kösters Antigas-pillur

Innihald: M.a. stryknín og solanín.

Skammtar: Allt að 20 pillur á dag.

Áhrif: Vindeyðandi í meltingarfærum.

Sjúkraskráin: Dr. Morell ráðlagði vindeyðandi pillur gegn gasmyndun í maga. Læknirinn sagði Hitler að honum væri óhætt að taka allt að 20 töflur á dag sem var mjög hár skammtur þar eð í pillunum var stryknín sem m.a. er að finna í rottueitri.

Mutaflor

Innihald: Saurbakteríur úr mönnum.

Skammtar: 2 pillur á dag.

Áhrif: Koma í stað sjúkra þarmabaktería sem valda magaverkjum og hægðatregðu.

Sjúkraskráin: Fyrsta lyfið sem Morell ráðlagði Hitler var við magakrömpum. Meðferðin virkaði og Hitler var svo þakklátur að hann gerði Morell að einkalækni sínum.

Testoviron

Innihald: Testósteronþykkni úr nautaeistum.

Skammtar: 25 ml í sprautu.

Sjúkraskráin: Þegar Hitler hugðist eyða nóttinni með Evu Braun, sprautaði Morell miklu af Testovironi í hann. Sprauturnar juku kynhvöt Hitlers og varðveittu kynlöngun hans í ringulreið stríðsins.

Kókaín

Innihald: Kókaín þynnt með vatni.

Skammtar: Dropar með fáeinum ml af 10% hreinu kókaíni.

Sjúkraskráin: Þrálátur höfuðverkur leiddi til þess að Hitler fékk kókaín í formi augndropa. Hann var yfir sig hrifinn og eftir nokkra daga hrópaði hann upp: „Þetta kókaín er undursamlegt!“ Þrátt fyrir aðvaranir fékk hann lækninn til að gefa sér efnið tvisvar á dag.

Vitamultin

Innihald: Litlir skammtar af metamfetamíni.

Skammtar: 2 pillur á dag.

Áhrif: Vinnur bug á almennri þreytu.

Sjúkraskráin: Vitamultin var sérstök vítamínuppbót Hitlers. Morell blandaði efnið sjálfur og pakkaði í gylltar umbúðir. Opinberlega voru aðeins vítamín í blöndunni en síðari rannsóknir hafa leitt í ljós leifar metamfetamíns.

Eukodal

Innihald: Afleiða heróíns.

Áhrif: Verkjastillandi með sterkri vellíðan.

Sjúkraskráin: Frá júlí 1943 var heróínafleiðan Eukodal hluti af lyfjagjöf Hitlers. Foringinn fékk næstum 800 sprautur af þessu vímugefandi efni.

Hitler var á 80 mismunandi efnum

Með lyfjameðferð næstu daga skipti Morell náttúrulegum ónæmisvörnum Hitlers út fyrir eins konar gerviskjöld sem var samsettur úr ótal mismunandi efnum – meðal annars fékk hann hormóna sem unnir voru úr móðurlífsblóði og Orchikrin, þunglyndishamlandi efni, unnið úr nautaeistum.

 

Morell stakk nú töfrasprautu sinni í Foringjann oft á dag og Hitler var fljótlega sprottinn á fætur.

 

Nýja mixtúran var blanda meira en 80 mismunandi hormóna, stera og annarra óþekktra efna sem Morell einn þekkti.

 

Læknirinn hafði þar með séð til þess að Hitler sem varð æ manískari og veruleikafirrtari, var nú algerlega háður lyfjum hans og jafnframt hafði hann tryggt að hann einangraðist ekki aftur.

 

Hvorki Morell né Hitler höfðu áhuga á að öðlast dýpri skilning á ástæðum vaxandi líkamlegrar og andlegrar vanheilsu Foringjans.

 

Blind trú og yfirborðskenndar lækningar mynduðu í sameiningu sterk tengsl á milli þeirra. Meðan lækninum tókst að halda sjúklingi sínum uppréttum ríkti gleði og gaman.

 

Vaxandi áhrif Morells á Foringjann vöktu áhyggjur margra í nánasta umhverfi hans. Skaplyndi Hitlers breyttist ört og margir óttuðust að hann væri að missa stjórn á stríðsrekstrinum.

 

Sóknin inn í Sovétríkin hafði stöðvast og í desember 1941 hafði Rauði herinn hrakið Þjóðverja frá Moskvu. Hitler lokaði sig af innan múranna og hugsaði.

 

„Það er sorglegt að Foringinn loki sig af frá lífinu á þennan hátt og lifi svo óheilsusamlegu lífi. Hann fær ekki ferskt loft og slakar aldrei á, heldur situr daginn út og inn í byrgi sínu,“ skrifaði áróðursráðherrann Joseph Göbbels í dagbók sína í ársbyrjun 1942.

 

Meðan Hitler lokaði sig inni jókst neysla hans á hormóna- og vítamínssprautum hratt.

 

Í þakklætisskyni fyrir stöðuga læknisþjónustu gaf hann hinum trúfasta lækni sínum matarolíuverksmiðju í Tékkóslóvakíu. Morell gat aukið framleiðslu sína á Vitamultinpillum sem nú voru seldar um allt Þýskaland.

 

Sumarið 1943 stækkaði Morell lyfjafyrirtæki sitt og opnaði verksmiðju í Kharkiv í Úkraínu.

 

Þar framleiddu rússneskir stríðsfangar daglega hormóna- og testósteronlyf í tonnatali úr grísamögum, lambalifur og hænsnafótum.

 

Lyfin voru bæði seld hernum og þýskum almenningi og Morell var nú orðinn afar vel stæður.

 

Ópíumsímtal hélt Il Duce á mottunni

Meðan viðskiptaveldi Theodors Morell blómstraði var draumur Adolfs Hitlers um heimsveldi að molna í sundur.

 

Rauði herinn hafði enn einu sinni stöðvað Þjóðverja, að þessu sinni i orrustunni um Kursk – og ítölsku bandamennirnir voru í þann veginn að skipta um lið.

 

Eins og venjulega þegar harðar staðreyndir veruleikans börðu að dyrum, lokaði Foringinn sig af og dró sig inn í eigin draumaveröld.

 

Um það þarf þó ekki að efast að þróun stríðsins olli Hitler miklum áhyggjum og Morell skrifaði hvað eftir annað í sjúkraskrá sína að Foringinn væri undir miklu álagi og ætti erfitt með að sofa.

 

Heilsan bilaði þann 18. júlí 1943, daginn eftir að Ítalir töpuðu Sikiley í greipar innrásarliðs bandamanna. Hitler fékk sára magaverki.

 

Nú dugði venjuleg verkjastillandi lyfjablanda læknisins ekki til og Morell ákvað að grípa til eins sterkasta vopnsins í svörtu töskunni.

 

Hann sprautaði „sjúkling A“ með heróínskyldu lyfi, Eukodal sem kemur sjúklingnum nær samstundis í hamingjuvímu og getur gert notandann háðan efninu á örfáum vikum.

 

Áhrifin létu ekki á sér standa. Hitler var gjörbreyttur maður og orkan beinlínis geislaði af honum.

 

Með Eukodal í blóðinu vann hann sannfæringarkraft sinn til baka og í þriggja tíma símtali sannfærði hann ítalska einræðisherrann Mussolini um að halda áfram baráttunni gegn bandamönnum – þótt Il Duce hefði eiginlega verið búinn að ákveða að tilkynna um uppgjöf Ítala.

 

„Þvert gegn öllum væntingum lítur Hitler stórkostlega vel út.

 

Hann hefur ekki náð tveggja tíma svefni en engu að síður lítur hann helst út fyrir að vera nýkominn heim úr löngu fríi,“ skrifaði Joseph Göbbels í dagbók sína 10. september 1943.

Misnotkunin gæti hafa leitt til Parkinson-sjúkdóms

Síðustu ár ævinnar þjáðist Hitler af miklum titringi í handleggjum og fótum og jafnvel töfralæknirinn sjálfur, Theodor Morell, gat ekki læknað þetta með metamfetamíni eða testósteroni.

 

Sérfræðingar hafa síðar talið sig greina titringinn sem ummerki Parkinsons og álíta að lækningameðferðir Theodors Morell gætu hafa valdið sjúkdómnum.

 

Læknavísindin hafa nefnilega uppgötvað að misnotkun metamfetamíns skaðar dópamínframleiðslu heilans og langvarandi dópamínskortur leiðir með fullri vissu af sér Parkinson-sjúkdóm.

Hvorki Göbbels né aðrir hæst settu menn í flokknum höfðu hugmynd um að yfirmaður þeirra fengi Eukodal daglega. Í sjúkraskrá sinni faldi Morell efnið með bókstafnum „X“ eða setningunni „Sprautugjöf samkvæmt venju.“

 

Þegar Foringinn yfirgaf Úlfavirkið í Póllandi um sinn og dró sig í hlé til heimilis síns í Bayern, fylgdu læknirinn og sprauturnar með.

 

Innan tíðar fylgdi Eukodalsprauta í kjölfar hverrar máltíðar með þessum róandi orðum: „Þegar ég sting nálinni í æðina skaltu byrja að telja. Þegar þú ert kominn í 15, finnurðu engan sársauka lengur.

 

Fréttirnar af kraftaverkum Theodors Morell bárust hratt og innan tíðar þurfti hann líka að sinna Mussolini, SS-leiðtoganum Heinrich Himmler og japanska sendiherranum Hiroshi Oshima.

 

Þessi mikla eftirspurn eftir sérfræðiþekkingu Morells bitnaði á heilsu þessa offitusjúklings sem fyrir hafði veiklað hjarta og varð nú svo þreyttur að hann átti í erfiðleikum með að ganga upp stigann til herbergis síns.

 

Áður en langt um leið endaði „Sprautumeistari ríkisins“ – eins og Hermann Göring kallaði Morell – sjálfur á sprautum til að komast í gegnum dagsverkið.

Efnin eyðilögðu dómgreind Hitlers

Eftir því sem misnotkun Hitlers jókst síðustu stríðsárin, varð dómgreind hans lakari. Hann neitaði að horfast í augu við staðreyndir og sendi þýskar herdeildir í óframkvæmanlegar aðgerðir.

Smelltu á mynd til að sjá hana stærri með lýsingu

Annar læknir í uppreisn

Skömmu eftir að Hitler sneri aftur í Úlfavirkið 1944 var honum sýnt banatilræði.

 

Aðgerðin gekk undir dulnefninu „Verkefni Valkyrja“ og var samsæri nokkurra yfirmanna í þýska hernum. Þeir komu fyrir sprengju í Úlfavirkinu. Ætlunin var að drepa Hitler og stöðva stríðið.

 

Tilræðið misheppnaðist en sprengdi báðar hljóðhimnur Hitlers og hann fékk stöðugan höfuðverk sem jafnvel Eukodal dugði ekki til að lækna.

 

Eyrnasérfræðingurinn Erwin Giesing var kallaður til og án samráðs við Morell ráðlagði hann kókaín við sársaukanum, gefið inn sem augn- og nefdropa.

 

Hitler hafði áður fordæmt kókaín sem „gyðinglegt efni sem lítillækkaði neytandann,“ en Giesing fullvissaði Foringjann um að honum væri óhætt, því „alvörufíklar tækju efnið í nefið“.

 

Leiðtogi Þýskalands sem fimm árum fyrr hafði stært sig af því að vera hófsemdarmaður, gat nú varla staðið uppréttur án fíkniefna.

 

Líkaminn var alsettur sprautuförum og heilsa Hitlers svo bágborin að hann gat ekki einu sinni haldið á tebolla án þess að það skvettist úr honum. Ástandið olli öðrum leiðtogum nasista áhyggjum.

 

„Því miður virðist hann ekki við góða heilsu. Síðustu mánuðir hafa skilið eftir á honum auðsæ ummerki,“ skrifaði Göbbels áhyggjufullur í dagbók sína.

 

Vantraust á Morell fór vaxandi þegar heilsu Foringjans hrakaði og samtímis jókst valdabarátta milli hans og eyrnasérfræðingsins Giesing sem vildi taka við hlutverki Morells.

 

Í október 1944 kom hann að máli við Foringjann og skýrði honum frá grunsemdum sínum um að Morell væri að reyna að bana honum. Morell hafði árum saman látið Hitler taka „Dr. Kösters Antigas-pillur“ en Giesing hafði nú uppgötvað að í þeim var m.a. að finna eiturefnið stryknín.

 

Hitler var í öngum sínum og þurfti nú að velta því fyrir sér hvort sér hefði skjátlast um Morell í öll þessi ár. Hafði einkalæknirinn virkilega í hyggju að myrða hann? Heinrich Himmler sem lengi hafði haft fyrirlitningu á þessum fituhlunki, tók undir gagnrýnina og hótaði Morell gálganum.

Villt og ástríðuþrungið næturlíf á tímum Weimarlýðveldisins fór einkum fram í fjölmörgum kabarettklúbbum.

Þýskaland varð Mekka vímuefnanna

Á tímabili Weimarlýðveldisins (1919-1933) blómstraði vímuefnaneysla í Þýskalandi og hvergi var meira framleitt af heróíni og morfíni en þar.

 

Þegar þýski lyfjafræðingurinn Friedrich Sertürmer fann aðferð til að vinna morfín úr valmúablómum í upphafi 19. aldar hófst hið hættulega daður við eiturlyfin.

 

Morfín var nú talið hið nýja verkjalyf og útflutningur færði Þjóðverjum milljónir marka í aðra hönd.

 

Eftir fyrri heimsstyrjöld óx framleiðsla Þjóðverja á vímugefandi efnum, varð sú mesta í heimi og gerði Þjóðverja að stórnotendum.

 

Hættan á viðvarandi fíkn leiddi til þess að efnin voru bönnuð, bæði í Bandaríkjunum og Bretlandi en Þjóðverjar voru frjálslyndari í þeim efnum.

 

Ríkisþingið bannaði efnin þó árið 1930 en í stórborgunum hélt neyslan áfram og efnin fengust ýmist út á lyfseðil eða á svörtum markaði.

 

Ofnotendur voru alls staðar

Uppgjafahermenn: Fyrri heimsstyrjöldin setti bæði líkamlegt og andlegt mark á þær 10 milljónir hermanna sem sneru heim. Margir þeirra notuðu morfín til að létta sér tilveruna.

 

Læknar: Þýskir læknar voru frjálslyndir varðandi lyfseðla og mæltu með sterkum efnum gegn einföldum ákomum svo sem þreytu eða hósta. Margir læknar enduðu sjálfir sem ofneytendur.

 

Yfirstéttin: Í næturlífinu á tímum Weimarlýðveldisins stóðu hvers kyns ástarlífs- og vímunautnir til boða.

 

Kókaín var uppáhald yfirstéttarinnar og á fínum kaffihúsum fóru þekktir listamenn eða leikarar ekkert í felur með það þegar þeir fengu sér í nös.

 

Efnið var iðulega tengt hvers kyns tilraunum í kynlífi og var m.a. þekkt fyrir að „vekja duldar samkynhneigðarkenndir konunnar,“ eins og þýski lögmaðurinn og stjórnmálamaðurinn Erich Wulffen skrifaði 1923.

Greiningar á þessum umdeildu pillum leiddu þó í ljós að magn strykníns var svo örlítið að það gat alls ekki verið banvænt.

 

„Sjúklingur A“ sem hafði með glöðu geði hrúgað í sig þessum pillum árum saman, hreinsaði einkalækni sinn samstundis af öllum grun en rak Giesing og tvo skurðlækna sem höfðu tekið undir með honum.

 

„Þessir hálfvitar ættu að vita að þér hafið bjargað lífi mínu í óteljandi skipti síðustu átta árin,“ sagði Hitler við Morell, þrýsti síðan hönd hans fullur þakklætis og bætti við:

 

„Minn kæri læknir, ég er glaður og hamingjusamur yfir því að eiga yður að.“

 

Hirðlæknirinn rekinn þegar efnin voru búin

Vorið 1945 var Þriðja ríkið endanlega komið að falli. Rauði herinn nálgaðist Berlín og framleiðsla stöðvaðist, líka framleiðsla efnanna sem Morell notaði til að halda Foringjanum uppi.

 

Hitler hafði aldrei efast um lækningar Morells en þegar hann fékk ekki lengur sínar daglegu sprautur helltust fráhvarfseinkennin yfir hann.

 

Hitler starði þunglyndur út í myrkrið, taugakippir í líkama hans færðust í aukana en enga gleðigjafa var að fá.

 

Hver taug hrópaði á sprautur Morells en nú gat læknirinn ekki lengur skaffað og pirringurinn fór stigvaxandi í „sjúklingi A.“

 

Þann 21. apríl fékk Hitler ofboðslegt bræðiskast og virtist halda að Morell væri að svíkja sig.

 

Hann greip í jakkakraga læknisins og öskraði: „Farðu heim, farðu úr einkennisbúningnum og gleymdu því að þú hafir nokkru sinni séð mig!“

 

Þar með var Morell rekinn. Forsmáður af manninum sem hann hafði helgað alla krafta sína.

 

Læknirinn fór inn til sín, kastaði sér á rúmið og grét en síðan náði hann að yfirgefa Berlín með einni af síðustu vélunum sem þaðan komust. Meðal annarra farþega var Albert Bormann, aðstoðarmaður Hitlers.

 

Aðeins níu dögum síðar beit Hitler sundur Cýaníðhylki ásamt Evu Braun og skaut sig samtímis í gagnaugað.

 

Næstu daga leyndist Morell í Bayern en fannst fljótlega og var settur í fangelsi, þar sem bandaríska herlögreglan yfirheyrði hann mánuðum saman en án mikils árangurs.

 

Hann talaði samhengislaust og í klefanum sat hann ýmist fjarrænn á svip eða æpti í sífellu að Himmler ætlaði að myrða sig.

 

Lestur sjúkraskránna leiddi Bandaríkjamennina til að velta fyrir sér hvort Morell hefði verið einhvers konar leyniþjónustumaður sem hefði árum saman troðið eiturlyfjum í Hitler til að skaða dómgreind hans.

 

En þessi fyrrum svo valdamikli læknir virtist nú ekki heill á geðsmunum og þar eð ekki var unnt að tengja hann við neina stríðsglæpi var hann á endanum látinn laus, tveimur árum eftir stríðslok.

 

Morell var eftir þetta komið fyrir á sjúkrahúsi í Tegernsee þar sem óheilbrigt líferni hans hefndi sín að lokum.

 

Læknirinn lést af völdum æðakölkunar þann 26. maí 1948.

 

Mörgum árum seinna lét aðstoðarmaður hans Richard Weber hafa eftir sér að Morell hefði dáið eins og „húsbóndalaus hundur,“ eftir að hafa misst Hitler og þar með tilganginn með lífinu.

Tvær bækur um fíkniefnaneyslu Hitlers

Norman Ohler: Blitzed: Drugs in Nazi Germany, Penguin Books, 2016.

 

Leonard & Renate Heston: The Medical Casebook of Adolf Hitler, William Kimber, 1980.

LESTU EINNIG

HÖFUNDUR: Andreas Ebbesen Jensen, Bue Kindtler-Nielsen

Ullstein Bild, Getty Images, Creative Commons, Shutterstock,

Jörðin

Vísindamenn greina vaxtarverki: Fæðuhringur eldfjallsins

Maðurinn

Ást er eintóm efnafræði

Maðurinn

Ást er eintóm efnafræði

Náttúran

Hjarta steypireyðar slær bara tvisvar á mínútu

Náttúran

Hjarta steypireyðar slær bara tvisvar á mínútu

Maðurinn

Hvaða blóðflokkur er sjaldgæfastur?

Lifandi Saga

Gestapo: Leynilögregla Hitlers olli skelfingu í Evrópu

Lifandi Saga

Getur Rússland orðið uppiskroppa með hermenn? 

NÝJASTA NÝTT

Lifandi Saga

Robert the Bruce var hinn sanni Braveheart Skotanna

Maðurinn

Samfélagsmiðlar ógna samkenndinni

Heilsa

Breytingarnar á líkamsþyngd geta leitt í ljós hættu á heilabilun

Náttúran

8 uppfinningar sem þú getur þakkað Einstein fyrir

Náttúran

Að klóna risaeðlur: Er hægt að vekja risaeðlur til lífsins?

Maðurinn

Sársauki – Hvað er sársauki?

Alheimurinn

Hvað er andefni?

Maðurinn

Þess vegna tekur ástarsorg svona mikið á okkur

Maðurinn

Heilann þyrstir í fitu

Maðurinn

Er það skaðlegt að plokka nefhárin?

Lifandi Saga

Robert the Bruce var hinn sanni Braveheart Skotanna

Maðurinn

Samfélagsmiðlar ógna samkenndinni

Heilsa

Breytingarnar á líkamsþyngd geta leitt í ljós hættu á heilabilun

Náttúran

8 uppfinningar sem þú getur þakkað Einstein fyrir

Náttúran

Að klóna risaeðlur: Er hægt að vekja risaeðlur til lífsins?

Maðurinn

Sársauki – Hvað er sársauki?

Alheimurinn

Hvað er andefni?

Maðurinn

Þess vegna tekur ástarsorg svona mikið á okkur

Maðurinn

Heilann þyrstir í fitu

Maðurinn

Er það skaðlegt að plokka nefhárin?

Fáðu aðgang að vÍSINDI.IS

Ókeypis í 2 vikur!

 

Eftir það kostar eingöngu 1.390 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

 

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Náttúran

Þrisvar til tunglsins og til baka aftur

Náttúran

Þrisvar til tunglsins og til baka aftur

Alheimurinn

Fullt tungl 2024 – Hvenær er tunglið fullt?

Alheimurinn

Fullt tungl 2024 – Hvenær er tunglið fullt?

Jörðin

Hversu mikið menga leikföng?

Maðurinn

Af hverju þessi ást á áfengi?

Heilsa

Er hægt að sofa of mikið?

Lifandi Saga

Hver fann upp á „kalda stríðinu“?

Vinsælast

1

Maðurinn

Einvígið: Er rafmagnstannbursti betri en venjulegur?

2

Alheimurinn

Fullt tungl 2024 – Hvenær er tunglið fullt?

3

Heilsa

Breytingarnar á líkamsþyngd geta leitt í ljós hættu á heilabilun

4

Maðurinn

Þess vegna tekur ástarsorg svona mikið á okkur

5

Maðurinn

Heilann þyrstir í fitu

6

Maðurinn

Hvaða blóðflokkur er sjaldgæfastur?

1

Maðurinn

Einvígið: Er rafmagnstannbursti betri en venjulegur?

2

Heilsa

Breytingarnar á líkamsþyngd geta leitt í ljós hættu á heilabilun

3

Maðurinn

Þess vegna tekur ástarsorg svona mikið á okkur

4

Maðurinn

Heilann þyrstir í fitu

5

Maðurinn

Hvaða blóðflokkur er sjaldgæfastur?

6

Jörðin

Vísindamenn greina vaxtarverki: Fæðuhringur eldfjallsins

Maðurinn

Hvernig grær brotið bein?

Maðurinn

Öfgar persónuleikans: Úthverfur eða innrænn persónuleiki

Alheimurinn

Hvað verður um orkuna frá sólarljósinu? 

Lifandi Saga

Hvað gerðu blikksmiðir fyrr á tímum? 

Tækni

Dulkóðaður gjaldmiðill: 7 atriði sem þú ættir að vita um rafmynt 

Menning

Af hverju fengu inúítar ekki skyrbjúg?

Lifandi Saga

Fjórir kvillar sem bóluefni hafa knésett

Menning og saga

Frumstæð manntegund jarðsetti hina látnu

Maðurinn

Vísindamenn endurnýja hárvöxt á músum

Lifandi Saga

Nanjing harmleikurinn verri en hin versta martröð

Maðurinn

3 ókostir við greind

Jörðin

Ný NASA-flugvél á að minnka losun í flugi

Robert the Bruce var hinn sanni Braveheart Skotanna

Í Hollywood-myndinni Braveheart svíkur Robert the Bruce málstað Skota og færir Englendingum William Wallace á silfurfati til grimmilegrar aftöku. Í veruleikanum var þessi skúrkur þó hetja Skota. Þótt frelsisbarátta Skota kostaði bræður hans lífið og systur hans enduðu bak við lás og slá, gafst hinn raunverulegi Braveheart aldrei upp.

Lifandi Saga

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.690 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.