Það er 21 toppnasisti sem situr á tveimur sakborningabekkjum hjá alþjóðlega herdómstólnum í Nürnberg þegar bandaríski saksóknarinn tekur til máls. Dómshaldið gegn þessum ákærðu stríðsglæpamönnum hefur staðið í mánuði og saksóknarinn tekur saman hvers vegna þetta ferli gegn nasistunum sé mikilvægt fyrir framtíð Þýskalands.
„Við leitumst hér við að skýra málavöxtu fyrir æsku Þýskalands til þess að hún geti dregið sína lexíu af þeim“, segir hann og bætir við að refsingin eigi einnig að verða kennslustund fyrir þýskan almenning.
Dómarnir falla þann 1. október 1946 á 218. degi réttarhaldanna. Hermann Göring er fyrstur beðinn um að standa á fætur:
„Alþjóðlegi herdómstóllinn dæmir yður til dauða með hengingu“, hljóðar úrskurðurinn.
„Þjóðverjar geta ekki skorast undan ábyrgð sinni“
Yfirlýsing frá bandaríska hershöfðingjaráðinu, 1945.
Utanríkisráðherrann Joachim von Ribbentrop stendur næstur upp úr sæti sínu: „Dauði með hengingu“. Yfirmaður herráðs þýska hersins, William Keitel, dauði. Yfirmaður öryggislögreglu nasista, Ernst Kaltenbrunner, dauði. Alls eru 12 toppnasistar dæmdir til dauða.
Þegar framfylgja skal dómnum þann 16. október skömmu eftir miðnætti eru hinir dæmdu – fyrir utan Hermann Göring sem framdi sjálfsmorð skömmu áður – leiddir inn í leikfimissal Spandau-fangelsisins þar sem gálginn bíður þeirra. Einn af öðrum eru þeir leiddir upp í gálgann og hengdir.
Tveimur tímum síðar eru líkin keyrð til líkbrennslubúðanna í Dachau þar sem í síðasta sinn verður kveikt upp í ofnunum.
Líkamsleifar foringja nasistanna verða brenndar, rétt eins og átti við um milljónir af fórnarlömbum þeirra. En líkbrennslan á nasistaleiðtogunum er einungis einn þáttur í fyrirætlunum Bandamanna í Þýskalandi.
Öll þjóðin skal finna fyrir afleiðingunum á blóðbaði Hitlers og hreinsa skal alla hugmyndafræði nasista úr þjóðinni.
Nasista-óværunni skal útrýmt
Bandamenn voru ekki einungis komnir til Þýskalands vorið 1945 til að frelsa Þjóðverja frá Hitler. Þeir voru komnir til að hertaka landið og að tryggja að Þýskaland skyldi aldrei aftur ógna heimsfriði.
Krafan var – fyrir utan að leggja niður herinn í Þýskalandi – að gagnger nasistahreinsun færi fram í landinu. Finna átti og refsa öllum nasistum, sem og áhangendum flokksins.
Eftir að Hitler hrifsaði til sín völdin árið 1933 hafði hugmyndafræði nasista grafið um sig djúpt í þjóðarsál Þjóðverja með yfirgengilegum áróðri gegnum skólagönguna og í gjörvallri menningarstefnu þeirra.
Þess vegna töldu Bandaríkjamenn að allir Þjóðverjar ættu í raun að vera á sakamannabekknum, enda var enginn þeirra saklaus fyrr en búið var að sýna fram á hið gagnstæða.
„Þjóðverjar geta ekki skorast undan ábyrgð sinni“, mátti lesa í yfirlýsingu frá bandaríska hershöfðingjaráðinu fáum dögum eftir uppgjöf nasista.
Svokallað Persilshein var hugsað sem vottorð um að þýskir borgarar væru ekki flekkaðir af fortíð nasismans.
Þjóðverjar áttu að vera með andnasista-vottorð
Með sérstöku sakavottorði gátu Þjóðverjar staðfest að þeir væru ekki flekkaðir af nasískri fortíð. En eftirsóknin í slík vottorð var gróðrarstía fyrir falsanir og spillingu.
Á árunum skömmu eftir stríð voru Þjóðverjar á yfirráðasvæði Vesturveldanna neyddir til að hreinsa sig gagnvart ákærum varðandi náin tengsl við nasisma, þegar þeir voru t.d. að leita eftir starfi eða búsetu.
Til þess að fá slíkt vottorð – hið svokallaða Persilshein – áttu Þjóðverjarnir að safna vitnisburði saman um að fortíð þeirra væri hafin yfir allan slíkan vafa.
Prestar, nágrannar, vinnuveitendur og kollegar gátu þannig vottað að viðkomandi væri hvorki „alsekur“ né „flekkaður“ af sambandi sínu við nasista í Þriðja ríkinu. Það skipti miklu máli að einhver andsnúinn nasisma gæti vottað um sakleysi annars manns.
Vottorðið var uppnefnt eftir vinsælu þvottaefni, Persil. Þegar vitnisburðurinn var samþykktur af yfirvöldum gat viðkomandi Þjóðverji með þessu vottorði öðlast rétt til að kaupa sér bústað eða fá starf sitt til baka hafi hann misst það vegna grunsemda um tengsl við nasistana.
Þessi eftirsóttu vottorð fólu hins vegar í sér nokkra spillingu því auðvelt reyndist að múta trúverðugum vitnum til þess að skrifa undir, stundum nægði eitt karton af sígarettum. Einnig var algengt að reynt væri að falsa slík vottorð.
Á öllum fjórum herteknu svæðunum; hinu bandaríska, því breska, franska og sovéska hófst þannig umfangsmikil nasistahreinsun sumarið 1945. Nasistaflokkurinn, NSDAP og allar aðrar nasískar stofnanir eins og Gestapó og SS voru leystar upp. Helstu yfirmenn nasista voru lokaðir inni þar til réttarhöldum var lokið og jafnframt voru allir skráðir nasistar reknir úr störfum sínum í samfélaginu.
Bara það að stunda vinnu hjá hinu opinbera gat leitt til handtöku og áður en 1945 var úti sátu 160.000 Þjóðverjar á þremur yfirráðasvæðum Vesturvelda – einkum hinu bandaríska – í varðhaldi. Meira en 200.000 aðrir voru reknir úr starfi sínu.
Bandaríkjamönnum var mikið í mun að hreinsa nasista úr menntastofnunum og þá sérstaklega háskólum. Á yfirráðasvæði þeirra voru næstum 9 af hverjum 10 kennurum reknir úr starfi sínu.
Þess í stað voru skólarnir fylltir með eldri kennurum sem nasistar höfðu á sínum tíma rekið. Þessi miskunnarlausa umbreyting átti að tryggja að ungir Þjóðverjar framtíðar myndu aldrei komast í tæri við hugmyndafræði nasista.
„Þetta verður að hafa lýðræðislegt yfirbragð, ef við eigum að hafa stjórn á þessu öllu saman“.
Austur-þýski leiðtoginn Walter Ulbricht árið 1945.
Samkvæmt þeirri hugmynd Bandaríkjamanna að Þjóðverjar væru allir sem einn ábyrgir var enginn náðaður í þessum nasistahreinsunum. Jafnframt var þess krafist að allir borgarar eldri en 18 ára ættu að útfylla umfangsmikinn spurningalista með 131 álitamáli.
Hin svonefnda Fragebuch átti þannig að draga fram hvort viðkomandi aðhylltist með einhverjum hætti hugmyndafræði nasista.
„Lýstu störfum þínum í tímaröð, sem og þjónustu innan hersins frá árinu 1931“, var ein krafan meðan að aðrar spurningar snerust m.a. um pólitíska virkni fyrir og eftir stríð.
Þegar Bandaríkjamenn höfðu komist yfir meðlimaskrá NSDAP gátu þeir í nokkrum mæli haft stjórn á þeim mönnum sem líklegastir þóttu til að ljúga sig frá sökum. Út frá svörunum voru einstakir Þjóðverjar metnir sem ýmist „alsekir“, „flekkaðir“, „taglhnýtingar“ eða „óflekkaðir“.
Mikil sekt gat þannig varðað dauðarefsingu en flekklaus Þjóðverji gat varpað öndinni léttar og lifað frjáls í samfélaginu.
MYNDSKEIÐ: Horfðu á bandaríska fréttamynd frá árinu 1948 um afnasistavæðingu Þýskalands
Rússar hafa hraðar hendur
Bretar og Frakkar beittu sambærilegum aðferðum á sínum yfirráðasvæðum þótt þeir hafi ekki verið eins kerfisbundnir og Bandaríkjamenn. Ekki leið á löngu þar til þessi stórveldi drógu úr umfangi nasistahreinsunarinnar, því þeir óttuðust að of margar uppsagnir myndu leiða til hruns bágborins efnahagskerfis á sínum svæðum.
Yfirráðasvæði Frakka var stundum kallað „El Dorado fyrir hina flekkuðu“, því nasistar áttu auðvelt með að sleppa undan rannsóknum þeirra.
Málin gengu öðruvísi fyrir sig á rússneska yfirráðasvæðinu þar sem Rússar losuðu sig með rækilegum hætti við nasistana í samfélaginu.
Að stríði loknu neyddu Bandamenn almenna þýska borgara til að horfast í augu við hryllileg verk nasista
Um 520.000 fyrrum nasistar voru skjótt fjarlægðir úr stöðum sínum, þar á meðal 8 af hverjum 10 dómurum. Sovéska hernámsliðið dæmdi alls 90.000 Þjóðverja sem „fasista“ og kom þeim fyrir t.d. í gömlu útrýmingarbúðunum Sachsenhausen norðan við Berlín en þar létu 12.000 fangar lífið.
Hins vegar létu Rússar vera að refsa almennum meðlimum nasistaflokksins sem ekki höfðu tekið beinan þátt í ódæðum þeirra. Á yfirráðasvæði Sovétríkjanna átti uppgjörið við nasismann einkum að gerast með skjótri samfélagsbreytingu en ekki með hægfara hreinsunarferli eins og Bandaríkjamenn lögðu áherslu á.
Bandaríkjamenn héldu Nürnberg-réttarhöldunum áfram á eigin spýtur fram á árið 1949.
Bandaríkjamenn héldu áfram Nürnberg-ferlinu
Rússar, Bretar og Frakkar drógu sig úr stríðsglæpadómstólnum í Nürnberg eftir að réttarhöldunum gegn æðstu nasistunum lauk. Einungis BNA krafðist þess að refsa glæpamönnum á árunum frá 1946 til 1949.
– Milch-málið: Feltmarskálkurinn Erhard Milch hjá Luftwaffe hlaut 15 ára fangelsi fyrir m.a. að nota stríðsfanga sem þræla.
– Dómara-málið: 8 af 16 dómurum voru dæmdir í fangelsi fyrir að hafa framfylgt lögum um kynþáttahreinsanir.
– Pohl-málið: Oswald Pohl og þrír aðrir SS-foringjar hlutu dauðarefsingu fyrir að hafa tekið þátt í útrýmingu gyðinga.
– Flick-málið: Iðnjöfurinn Friedrick Flick og tveir yfirmenn hans hlutu fangelsisdóma fyrir að hafa notfært sér vinnuþrælkun á stríðsföngum.
– IG Farben-málið: 13 hátt settir menn við efnaverksmiðjuna IG Farben hlutu fangelsisdóma fyrir að hafa notfært sér vinnuþrælkun á stríðsföngum.
– Gísla-málið: Wilhelm List og sjö aðrir hershöfðingjar voru dæmdir sekir fyrir stríðsglæpi í Balkanlöndunum, þar með talið fyrir aftökur á gíslum. List hlaut lífstíðardóm.
– Kynþáttahreinsunar-málið: 13 af 14 SS foringjum eru dæmdir fyrir hlut sinn í að koma á löggjöf nasista um hreinleika kynþáttar.
– Einsatzgruppen-málið: Í því hljóta 14 menn í dauðasveitum SS á austurvígstöðvunum dauðadóma en 8 er refsað með fangelsisvist.
– Krupp-málið: 12 yfirmenn við Krupp iðnaðarsamsteypuna eru dæmdir til fangelsisvistar fyrir þrælkun starfsmanna og hafa með virkum hætti stutt stríðsglæpi nasista.
– Ráðherra-málið: Margir ráðherrar og embættismenn fá fangelsisdóma, allt frá fimm árum og upp í 25 ára fangelsi.
– Oberkommando-málið: Margir háttsettir hershöfðingjar eru dæmdir fyrir brottflutninga, pyntingar og morð á hernumdum svæðum.
Ósætti grefur um sig
Samstaða Bandamanna um meðhöndlun á nasistum í Þýskalandi tók skjótt að rofna. Fyrir utan að leggja niður herinn og hreinsa nasista burt höfðu Truman, Churchill og Stalín komist að samkomulagi við Potsdam-ráðstefnuna árið 1945 að í Þýskalandi skyldi ríkja lýðræði.
En lýðræði var Rússum ekki ofarlega í huga. Fyrir þeim fólst nasistahreinsunin miklu fremur í að innleiða kommúníska stjórnarhætti.
„Þetta verður að hafa lýðræðislegt yfirbragð, ef við eigum að hafa stjórn á þessu öllu saman“, hafði Walter Ulbricht boðað þegar hópur af útlægum þýskum kommúnistum fylgdi á hæla Rauða hersins til Berlínar í maí 1945.
Meðlimir nasistaflokksins voru að stríði loknu neyddir til að gera yfirbót. Hér hreinsar einn flokksmeðlimur grafstein Gyðings.
Þeir áttu að sinna því verkefni að taka við miðstjórninni í stríðshrjáðri höfuðborginni.
Að sovéskri fyrirmynd hófust Rússar þegar handa haustið 1945 við efnahagsbætur á yfirráðasvæði sínu og í kjölfarið voru meira en 10.000 einkafyrirtæki þjóðnýtt. Allt var þetta gert til þess að innleiða kommúnískan áætlunarbúskap.
Bandaríkjamönnum stóð strax stuggur af þessari útbreiðslu kommúnismans í austurhluta Þýskalands, því að almenningur þar slapp langtum betur undan réttarhöldum á hendur nasistum og eftir að hafa stundað hatrammar nasistahreinsanir í eitt ár skipti BNA um kúrs.
Eitt af því fyrsta sem gert var að stríði loknu var að breyta götunöfnum sem vísuðu til Hitlers og nasismans.
Kalt stríð tekur við nasistahreinsun
Vorið 1946 ákváðu Bandaríkjamenn að láta Þjóðverja sjálfa sjá um nasistahreingerningar. Sérstökum rannsóknardómstólum var komið á laggirnar og þurftu þeir að fara í gegnum gríðarlegt magn skjala. Suma daga þurfti að leggja mat á 40.000 svör við Fragebog.
Bráðabirgðaherstjórn Bandaríkjamanna lagði nú áherslu á að Þjóðverjar gætu sjálfir einbeitt sér meira að endurhæfingu í staðinn fyrir refsingar. Allt í einu reyndist þá auðveldara að verja sig gegn ásökunum og „einstaklingsbundin ábyrgð og afdráttarlaus iðrun vegna yfirsjóna“ Þjóðverja átti að gilda eins og ritað var í bandarískri skýrslu í október 1946.
Á mánuðinum eftir að Nürnberg-réttarhöldunum lauk rofnaði samstarf milli BNA og Sovétríkjanna. Þegar BNA og Stóra-Bretland sameinuðu hernámssvæði sín litu Rússar á það sem beina ógnun og átökin milli stórveldanna mögnuðust upp.
Vorið 1947 varð hugtakið „Kalda stríðið“ viðtekin lýsing á þessum aðstæðum.
Bandaríkjamenn unnu nú að því að gera vesturhluta Þýskalands að lýðveldi og styrkja efnahag þess með Marshall-aðstoðinni. Þeir vonuðust til þess að Þjóðverjar gætu séð með eigin augum ágæti kapítalismans en létu ekki blekkjast af loforðum kommúnismans.
Október 1962: Vopnakapphlaupið er á yfirsnúningi og afhjúpandi gervihnattamyndir frá Kúbu eru við það að breyta köldu stríði yfir í heitt.
Gjáin milli vesturs og austurs breikkaði stöðugt og árið 1949 voru tvö þýsk ríki komin fram. Þýska alþýðulýðveldið og Sambandslýðveldið Þýskaland sem hvort tengdist sínu stórveldi.
Með stofnun sambandslýðveldisins eftirlétu Bandaríkjamenn nasistahreinsunina Þjóðverjum. En áhugi þessa nýja ríkis á því að grafa mikið í fortíðinni var takmarkaður og rannsóknir á einstaklingum stöðvuðust nánast alveg. Enn fremur fengu margir nasistar leyfi til að snúa aftur í fyrri störf sín.
Allt að 9 af hverjum 10 þeirra gátu þannig snúið baka til starfa á þeim forsendum á að búið væri að „endurhæfa“ þá.
Miðað við upprunalegar forsendur Bandaríkjamanna varðandi nasistahreinsunina má segja að hún hafi klúðrast rækilega á þessu stigi, enda mistókst þeim að ná til fjölmargra Þjóðverja. Hins vegar náðist markmiðið að útiloka nasista frá pólitísku starfi öllu betur miðað við það sem gerðist hjá Sovétríkjunum.
Af þýsku þjóðinni sem taldi um 60 milljónir, fengu um sex milljónir að kenna á áhrifum nasistahreinsunarinnar í vesturhluta Þýskalands. Á sovésku yfirráðasvæði var sambærileg tala undir einni milljón.
Lesið meira um nasistahreinsun Þýskalands
Frederick Taylor: Exorcising Hitler: The Occupation and Denazification of Germany, Bloomsbury, 2012