Að minnsta kosti 14 núlifandi manneskjur geta stært sig af því að vera skyldar hinum mikla snillingi endurreisnarinnar, Leonardo da Vinci (1452-1519).
Þetta er niðurstaða rannsóknar tveggja ítalskra fræðimanna, Alessandro Vezzosi og Agnese Sabato sem hafa í áratug unnið að kortlagningu á ættartré Leonardo da Vinci frá árinu 1331 og til nútímans.
Leonardo da Vinci var hugvitsamur uppfinningamaður
Núna er Leonardo da Vincis minnst sem framúrskarandi listamanns. En kunnátta hans í tækni og verkfræði gat af sér margar uppfinningar sem voru mörgum öldum á undan sínum samtíma.
Ofurvopn með margar fallbyssur
Árið 1487 teiknaði Leonardo stríðsvél sem minnir á skriðdreka en þeir voru fundnir upp 400 árum síðar. Maskína Leonardos var með 36 fallbyssur og krafðist átta manna í áhöfnina. Árið 2010 smíðaði hópur verkfræðinga eintak af maskínunni sem virkar.
Róbóti trekktur upp með sveif
Árið 1495 hannaði Leonardo vélmenni sem kallast mekaníski riddari Leonardos. Samkvæmt teikningum Leonardos var róbótinn trekktur upp með sveif og kaplar og trissur sáu um að hreyfa hann. Róbóta-sérfræðingur frá NASA smíðaði árið 2002 slíkt vélmenni sem virkaði ágætlega.
Búnaður fyrir stökk virkaði
Næstum 500 árum eftir andlát Leonardo da Vincis sýndi breskur fallhlífastökkvari árið 2000 að Leonardo fann upp fyrstu fallhlífina. Búnaður hans var teiknaður árið 1485 og samanstóð af pýramídalöguðum ramma sem léreft var strekkt yfir. Bretinn stökk úr loftbelg í 3 km hæð og lenti örugglega.
Fræðimennirnir hafa unnið sig í gegnum heilar 22 kynslóðir á þessu tímabili og náð að bera kennsl á mörg hundruð ættingja.
Leonardo da Vinci átti marga hálfbræður en eignaðist engin börn sjálfur. Þessir fjölmörgu nýfundnu fjölskyldumeðlimir eru því ekki beinir afkomendur, heldur eru þeir aðrir karlkyns meðlimir í fjölskyldu hans.
DNA leiðir rannsakendur á slóðina
Eitt mikilvægasta verkfæri fræðimannanna í leitinni að ættingjum snillingsins hafa verið greiningar á erfðaefni, þar sem einkum hinn svonefndi Y-litningur hefur gegnt mikilvægu hlutverki. Þessi karlkyns litningur helst nefnilega óbreyttur milli kynslóða og því er hægt að nota hann til að staðfesta ættartré mörg hundruð ár aftur í tímann.
Leonardo da Vinci málaði mörg snilldarverk, eins og t.d. Monu Lisu.
Fræðimennirnir vonast til að þessar erfðafræðigreiningar bæti við þekkingu manna um t.d. hvort hann hafi verið með einhverja arfgenga sjúkdóma og eins hvaðan forfeður hans komu upprunalega.
Þessar líffræðilegu upplýsingar má mögulega nota til að staðfesta hvort nokkur meistaraverk sem eru eignuð Leonardo da Vinci séu í raun eftir hann en það má staðfesta finnist leifar af erfðaefni hans á listaverkunum.