Sólin var í þann veg að ganga til viðar á snævi þöktu landsvæðinu í suðurhluta Dakota þegar um 200 sioux-indíánar lögðu undir sig smábæinn Wounded Knee í Pine Ridge-friðlandinu.
Þetta átti sér stað 27. febrúar 1973 en þegar þarna var komið sögu höfðu indíánarnir fengið sig fullsadda af spillingu, fátækt, kúgun og sviknum loforðum af hálfu yfirvalda og breytt byggingunum í virki. Þeir lýstu því jafnframt yfir að Wounded Knee væri „frelsað svæði“.
Engin tilviljun var að einmitt Wounded Knee varð fyrir valinu, því árið 1890 höfðu bandarískir hermenn tekið um 300 indíána, bæði karla, konur og börn, af lífi í blóðbaði á þessum sama stað sem öðlast hafði táknræna merkingu í hugum hinna innfæddu.
Árið 1973 kröfðust indíánarnir þess m.a. að yfirvöld virtu sáttmálana sem gerðir höfðu verið við þá og sem veittu ættflokkunum meiri sjálfsákvörðunarrétt.
Yfirvöld svöruðu með því að senda á vettvang heilan urmul hermanna, gráa fyrir járnum, svo og alríkislögregluna. Í 71 dag áttu sér stað ofsafengnar skotárásir og sprengingar í þessum litla bæ sem kostuðu tvo indíána lífið og særðu marga til viðbótar.
Allt að 300 indíánar voru myrtir og grafnir í fjöldagröf við Wounded Knee árið 1890.
Átökin vöktu mikla athygli
Deilan vakti gríðarmikla athygli um gjörvöll Bandaríkin og fréttir af henni urðu þess valdandi að urmull aðgerðasinna og mótmælenda frá öllu landinu flykktust til Wounded Knee.
Hinn 8. maí leiddu samningaviðræður hins vegar til vopnahlés sem batt enda á hertökuna. Margir indíánaleiðtogar voru lögsóttir í kjölfar átakanna en flestir þeirra voru raunar sýknaðir.
Áður en fyrstu Evrópubúarnir komu til Ameríku var hesturinn alveg óþekktur í þessari risavöxnu heimsálfu.
Ríkisstjórnin lét ekki undan kröfum aðgerðasinnanna um aukinn sjálfsákvörðunarrétt en deilan vakti hins vegar enn á ný athygli á málstað indíánanna.
Átökin í Wounded Knee hafa síðan orðið tákngervingur fyrir baráttu innfæddra fyrir réttlæti, viðurkenningu og jafnrétti – nákvæmlega eins og gerðist árið 1890