Lifandi Saga

Frumbyggjar Norður-Ameríku lögðu undir sig slétturnar með hjálp hesta

Áður en fyrstu Evrópubúarnir komu til Ameríku var hesturinn alveg óþekktur í þessari risavöxnu heimsálfu. Sléttuindíánarnir nefndu dýrið „stóra hundinn“ og þó svo að hesturinn reyndist indíánunum hin mesta blessun, breyttust fyrrum eigendur þessara stóru dýra í bölvun indíánanna.

BIRT: 09/07/2023

Ungur indíáni af ættbálki sioux-indíána gengur fram fyrir töfralækninn. Líkami hans er nakinn og andlitið svipbrigðalaust.

 

Lágvær rödd heyrist tala í takt við trommusláttinn sem hljómar.

 

Allur ættbálkurinn hefur safnast saman í tjaldi einu til að taka þátt í árvissum sumarsólardansi sem er ein af helgustu athöfnum sléttuindíánanna. Töfralæknirinn sker leiftursnöggt tvo skurði á bringu unga mannsins.

 

Hann flettir upp skurðunum og dregur út vöðva með töng. Opið sárið leiðir í ljós tvo blóði drifna boga og reipi er bundið í báða bogana.

 

Með brjóstholið fest við ofanverða toppsúlu tjaldsins byrjar ungi maðurinn að henda sér fram og til baka með miklum rykkjum.

Í mörgum ættbálkum voru kvalir sólardansins til marks um fórnir hugrakks stríðsmanns til guðanna.

Böndin dragast út úr manninum og hann lætur engan bilbug á sér finna. Það er ekki fyrr en kjöt og vöðvar losna af honum og reipin slappast niður eftir súlunni með hluta af vöðva hangandi sem maðurinn fellur til jarðar, án þess að segja eitt aukatekið orð.

 

Nú „verður honum hrósað sem hugrökkum stríðsmanni“, ritaði amerískur liðsforingi sem varð vitni að blóðugum dansi sioux-indíánanna á sléttunum í Norður-Ameríku.

 

Tjalddansinn var ekki eina sjálfvalda pyntingin meðan á sólardansinum stóð.

 

Menn voru dregnir á eftir hestum ellegar vísundahöfuð voru hengd líkt og mælilóð úr beruðum vöðvum á bakinu.

 

Oft og iðulega leið yfir mennina úr kvölum og iðulega liðu margar klukkustundir áður en húðin og vöðvarnir gáfu eftir. Þeir sem þraukuðu þennan kvalafulla dans og héldu jafnframt ró sinni voru álitnir vera æskilegir höfðingjar framtíðarinnar.

 

Mikilvægt var að ráða yfir rósemd og hugrekki – karlmenn sléttunnar voru metnir að verðleikum sem stríðsmenn.

Arnarfjöður í hárinu gaf til kynna að stríðsmaðurinn hefði unnið hetjudáð.

Kvalahelvítið sem fylgdi sólardansinum var þó meira en einungis manndómsvígsla.

 

Dansinum var ætlað að skapa jafnvægi með öllum lifandi verum og með dansinum skyldu þátttakendurnir þakka öndunum og biðja um vernd eða aðstoð veikum fjölskyldumeðlimum til handa. Þeir öðluðust sýnir og drauma sem eldri meðlimir ættbálksins lásu í og lærðu af.

 

Orðið sólardans var heldur ekki einungis viðhaft um kvalafullar athafnir mannanna.

 

Það var jafnframt heiti á þeim samkomum þegar tugþúsundir sléttuíbúa söfnuðust saman á hverju vori, hver með sínum ættbálki, til að leggja stund á helgisiðina sem þeir allir höfðu í heiðri.

 

Sléttuindíánarnir báðust fyrir, dönsuðu og föstuðu, allt þar til þeir náðu sambandi við andana.

 

Höfðingjar hópanna létu langar, heilagar friðarpípur ganga manna á milli og allir þeir sem soguðu að sér reykinn bundust böndum sem bræður.

 

Á þessum samkomum gátu ungmenni einnig stungið saman nefjum og stunduð voru hestakaup en hestar voru mestu gersemar indíánanna.

Pípur voru indíánum heilagar. Samkvæmt franska trúboðanum Jacques Marquette (1637-1675) gat það eitt að sjá friðarpípu í miðjum bardaga bundið enda á ófrið.

Engin lifandi vera var jafn mikilvæg indíánunum og hesturinn sem gjörbreytti lifnaðarháttum indíána af sioux- og crees-ættbálkunum, svo og fólki tilheyrandi mörgum öðrum indíánaættbálkum.

 

Spánverjar höfðu með sér hesta

Það voru hestar sem ollu breytingum á stríðsrekstri sléttuindíánanna, svo og hirðingjamenningu þeirra.

 

Þegar spænski landkönnuðurinn Hernán Cortés gekk á land í Mexíkó árið 1519 hafði hann meðferðist tíu stóðhesta og sex hryssur. Áður en þetta gerðist fyrirfannst ekki einn einasti hestur í Ameríku.

 

Fleiri Spánverjar bættust í hópinn og með þeim tugþúsundir vinnuhesta. Sumir þeirra sluppu úr haldi og að örfáum áratugum liðnum höfðu komist á legg heilu hjarðirnar af villtum sléttuhestum sem reikuðu um slétturnar, villihestarnir svokölluðu.

Á árunum 1539 til 1542 kannaði Hernando de Soto svæðið milli Flórída og Mississippi fljótsins. Í leiðangri hans voru 237 hestar. Margir þeirra sluppu.

Fyrstu indíánarnir sem lærðu að ríða hestum voru svonefndir puebló-indíánar sem störfuðu fyrir Spánverja í því sem nú heitir Nýja Mexíkó. Þegar indíánarnir gerðu uppreisn gegn landnemunum árið 1680, var hluti af herfangi þeirra fólginn í þúsundum hrossa.

 

Mörg dýranna komust síðan í eigu þeirra ættbálka sem seinna urðu þekktir sem sléttuindíánar. Indíánarnir riðu villtu sléttuhestunum hins vegar sjaldan. Einkar erfitt reyndist að fanga þá og temja.

 

Áður en hesturinn barst til Ameríku lifðu afar fáir ættbálkar á sléttunum. Þeir komust aðeins ferða sinna fótgangandi og lifðu í útjaðri gríðarstórra gresjanna sem veiðimenn með fasta búsetu eða sem bændur.

Indíánarnir komust yfir ísilögð stöðuvatn með því að beita hundum fyrir sleðana.

Hundarnir drógu mestu þyngslin

Áður en indíánunum áskotnuðust hestar nýttu þeir hunda sem dráttardýr. Þetta skýrir jafnframt hvers vegna þeir ferðuðust aldrei langar vegalengdir á grösugri sléttunni heldur lifðu flestir í útjaðrinum á henni.

 

Hundarnir bárust til Ameríku með forfeðrum indíánanna sem komu frá Síberíu einum 15 til 30 þúsund árum áður.

 

Þessi sterklegu dráttardýr áttu rætur að rekja til úlfa sem höfðu verið tamdir áður en þjóðflutningarnir yfir Beringssund hófust um landbrúna sem myndaðist við stækkun jökla og lægri stöðu sjávar.

 

Auk þess sem hundarnir voru nýttir sem dráttardýr gögnuðust þeir jafnframt eigendum sínum við að þefa uppi bráð á veiðum, vaka yfir tjaldbúðunum og til að hjúfra sig upp að á köldum vetrarnóttum.

 

Sérfræðingar telja stóru malamút-hundana í Alaska vera þá tegund sem minnir hvað mest á upprunalega dráttarhunda indíánanna.

Þegar kom að því að flytja til þorpið voru hundar sem minntu á úlfa notaðir í flutningana en hver slíkur hundur gat borið um 30 kíló og fyrir vikið gátu fjölskyldurnar ekki flutt með sér miklar eigur.

 

Eiginleikar hestanna sem burðarklára gjörbreyttu möguleikum indíánanna á að ferðast um gresjurnar. Einn fyrsti ættbálkurinn sem færði sér hesta í nyt við vísundaveiðar á sléttunum var comanche-ættbálkurinn.

 

Í augum annarra ættbálka sem ekki höfðu yfir að ráða hrossum var þetta undarleg sýn.

 

Indíáni nokkur sem sá í fyrsta sinn hest skömmu eftir 1730 lýsti því þannig:

 

„Hann (hesturinn, ritstj.) minnti einna helst á hjört sem hefði misst hornin og við vissum ekki hvað slíkt dýr kallaðist. En þar sem hann greinilega var þræll mannsins, líkt og hundurinn, kölluðum við hann stóra hund“.

Á 18. öld varð algengt að sjá „Hina stóru hunda“ á beit í útjaðri indíánabúða.

Margir ættbálkar báru óttablendna virðingu fyrir hestum. Stríðsmenn sungu lofsöngva til bestu veiðihestanna og skáru út viðarlíkneski af þeim þegar þeir drápust í bardaga. Hestarnir voru svo mikilvægir að konurnar voru látnar sofa fyrir utan tjöldin ef óvinaættbálkurinn dvaldi í grennd við búðirnar og stríðsmaðurinn tjóðraði þá hest sinn inni í tjaldinu.

 

150.000 indíánar lögðu undir sig slétturnar

Í kringum aldamótin 1800 höfðu alls 32 ættbálkar tekið sér búsetu á sléttunum, þar á meðal apache-, blackfoot-, kiowa- og cheyenne-indíánar.

 

Þeir lifðu þó engan veginn allir sem hirðingjar allt árið um kring.

 

Margir ættbálkar ræktuðu maískorn og bjuggu í kofum yfir veturinn. Sumir stunduðu veiðar. Allir veiddu þó vísunda vegna kjötsins og húðanna.

 

Landsvæði sléttuindíánanna náði allt frá þar sem nú heitir Texas í suðri, norður til Kanada. Svæðið afmarkaðist af Klettafjöllum í vestri, allt til Mississippi-fljótsins í austri.

 

Alls lifðu um 150.000 manns og 60 milljón vísundar á svæðinu sem nam rösklega 2,5 milljón ferkílómetrum að stærð.

Vísundum þurfti að veita fyrirsát

Mikil hætta fylgdi því að veiða vísunda með bogum og örvum. Ef veiðarnar brugðust var hætt við að ættbálkurinn sylti í hel á hörðum vetrum á sléttunum. Hugvitssemi var því lykillinn að velgengni indíánanna.

 

Áður en indíánarnir komust yfir hesta voru vísundaveiðar mjög erfiðar, því veiðimennirnir þurftu að komast í algert návígi við þessi þúsund kílóa þungu dýr til að geta lagt þau að velli.

 

Ef veiðimennirnir reyndu að læðast upp að vísundahjörðinni gátu aðeins örfáir þeirra komist til þess að skjóta banvænum örvum sínum í dýrin áður en hinir vísundarnir lögðu á flótta.

 

Vísundur getur hlaupið á 60 km hraða á klst. og fyrir bragðið var að sjálfsögðu ógerningur að hlaupa dýrin uppi.

 

Þess í stað beittu indíánarnir brögðum. Samanlagt höfðu þorpsbúarnir þörf fyrir að veiða ein 50 til 60 dýr til þess að brauðfæða allar fjölskyldur þorpsins yfir veturinn og í þessu skyni sátu veiðimennirnir fyrir vísundunum.

 

Indíánarnir fældu t.d. vísunda út á þunnan ís árinnar í upphafi vetrar. Dýrin fóru þá gegnum ísinn og drukknuðu og veiðimennirnir gátu síðan veitt dýrin upp úr ánni aðeins neðar.

 

Önnur veiðiaðferð fólst í því að skapa skelfingu í hjörðinni þegar dýrin voru stödd nærri gjá. Hjörð á hreyfingu ýtir oft dýrunum í útjaðri hópsins út yfir brúnina og margir vísundar duttu með þessu móti og drápust.

 

Þriðja aðferðin þótti vera sú árangursríkasta en henni var beitt lengi eftir að indíánarnir komust yfir hross: Aðferð þessi fólst í notkun eins konar vísundaréttar.

Indíánarnir voru dugmiklir reiðmenn og fyrstu evrópsku feldsölumennirnir og landkönnuðirnir nefndu þá „hestaindíána“.

 

Síðar meir, um miðja 19. öld, þegar stríðið við ameríska herinn náði hámarki, lögðu amerísku hermennirnir ofuráherslu á að drepa hesta indíánanna.

 

Ein sýnilegasta búbótin á lífi indíánanna sem rekja mátti til hrossaeignar þeirra, áhrærði stærð topptjaldanna sem indíánarnir bjuggu í.

 

Sléttuindíánar höfðu áður búið í þröngum kofum eða tjöldum sem aðeins voru 1,5 metrar á hæð en hýbýlin breyttust nú í færanleg topptjöld sem voru minnst þrír metrar á hæð og langtum rúmbetri en áður tíðkaðist.

Vísundar veiddir í gildru

Gildra undirbúin með mikilli fyrirhöfn

Að vori til reistu indíánarnir gerði úr stólpum og greinum sem þeir lögðu húðir yfir sem svo minnti á þykkan vegg.

Veiðin hefst

Nokkrir veiðimenn hófu veiðina á því að hlaupa á móti vísundahjörðinni sem þá var stödd nærri gerðinu. Þeir ráku dýrin á undan sér með hrópum og blaktandi teppum.

Girðing leiddi hjörðina inn í réttina

Síðustu 50 til 100 metrana frá opi gerðisins var að finna fléttaða girðingu sem vísundarnir voru þvingaðir í gegnum.

Ringulreið gaf veiðimönnunum tækifæri

Fyrstu vísundarnir sem komu inn í réttina komust ekki út aftur því nýir vísundar heftu för þeirra við útganginn. Veiðimenn vopnaðir boga og örvum höfðu falið sig á bak við gerðið og gátu skotið úr návígi öll þau dýr sem fjölskyldan hafði þörf fyrir yfir veturinn.

Elstu fjölskyldumeðlimirnir sem ekki voru lengur gangfærir, öðluðust að sama skapi betra líf.

 

Áður fyrr höfðu þeir verið skildir eftir þegar þorpsbúarnir fluttu búferlum en nú gátu þeir ferðast á sleðum sem dregnir voru af hestum, ásamt minnstu börnunum.

 

Vænlegasta breytingin var þó sennilega öll sú fæða og allar vísundahúðirnar sem indíánarnir nú komust í tæri við.

 

Veiðar á stórum vísundunum höfðu reynst þeim afar erfiðar og skeinuhættar á meðan þeir voru fótgangandi. Nú gátu dugmestu skytturnar lagt risavaxna vísundana að velli af hestbaki með bogum og örvum.

 

Þetta nýfengna ríkidæmi lagði grunninn að stríðsmannamenningunni sem sléttuindíánarnir urðu þekktir fyrir og sem aðrir óttuðust, því sjaldan ríkti friður á sléttunum.

 

Karlmenn ættbálkanna voru sífellt á höttunum eftir upphefð, hestum, landssvæðum eða hefnd og þeir réðust án þess að blikna á óvinveitta ættbálka sína.

 

Hversu góðan árangur hver herferð hafði borið var aðallega mælt í fjölda hesta sem tókst að leggja undir sig en hugrekki og ófyrirleitni voru jafnframt í heiðri höfð.

 

Maður sem óttaðist ekki að berja á vopnuðum andstæðingum með berum hnefunum eða sérstökum litlum lurki, öðlaðist rétt til að skreyta sig með arnarfjöður í hárinu. Sama herfang var fært stríðsmönnum sem stálu hesti úr óvinabúðum.

Crow hermaður með þriggja metra langan herstaf sinn.

Stríðsmennirnir voru stoltir af fjöðrum sínum og sérlega hugrakkir karlmenn gátu safnað mörgum saman í eins konar fjaðrakórónu.

 

Höfuðleður sem indíánar skáru af andstæðingum sínum gegndu hlutverki heiðursmerkja og voru fest í föt þeirra ellegar þau voru reyrð á litla viðarramma sem komið var fyrir á þrífæti framan við topptjald eigandans.

 

Hestarnir voru að sama skapi skreyttir fjöðrum, höfuðleðri og perluþöktum reimum.

 

Stríðsmennirnir börðust með stuttum, sterklegum bogum sem auðvelt var að skjóta úr af hestbaki. Eini ókosturinn var sá að skotfærið varð að vera mjög stutt ef pílan átti að vera banvæn.

 

Á enda pílunnar var að finna fjöður og undir fjöðrinni var útskorið merki eigandans þannig að aldrei lék vafi á hver ætti píluna og bráðina sem hún lenti í.

 

Indíánarnir komust yfir byssur, axarblöð úr járni og önnur evrópsk vopn með því að selja frönskum loðfeldasölum húðir, jafnvel þótt Evrópubúarnir væru ekki mikið fyrir það gefnir að selja skotvopn sín.

 

Indíánarnir voru síðan fljótir að tileinka sér járnsmíði.

Börn með boga og örvar voru eftirlætis myndefni hvítra ljósmyndara.

Þjálfun á næstu kynslóð stríðsmanna hófst snemma.

 

Tveggja ára gamlir snáðar voru bundnir upp á rólega hesta og aðeins þremur árum síðar voru þeir orðnir dugmiklir reiðmenn.

 

Þrettán ára gamlir drengir máttu fylgja feðrum sínum eða frændum í fyrstu ránsförinni og þegar piltar náðu 16 ára aldri voru þeir orðnir fullgildir stríðsmenn.

 

Karlar máttu ganga í kvenfötum

Ef drengir virtust ekki henta sem stríðsmenn eða veiðimenn voru þeir álitnir tilheyra þriðja kyninu og vera manneskja sem bæði fól í sér kvenlega og karlmannlega sál.

 

Þeir meðlimir ættbálks sem tilheyrðu þessu þriðja kyni öðluðust sérstaka stöðu í litlu samfélögunum. Bæði karlar og konur gátu tilheyrt þriðja kyninu. Þau gátu gengið í fatnaði sem ætlaður var öndverðu kyni og máttu giftast hverjum sem þau vildu.

 

Í sumum ættbálkum gegndu þessir einstaklingar sérstökum störfum, svo sem eins og að hjúkra særðum í bardögum og að vera hjónabandsmiðlarar ungs fólks sem felldi hugi saman.

 

Sléttuindíánarnir álitu þetta þriðjakynsfólk jafnframt vera í nánari tengslum við andana en aðra og fyrir vikið voru þeir oft gerðir að töfralæknum.

Indíánarnir höfðu unun af að skreyta sig

Bæði menn og konur á sléttunni gengu með skartgripi. Fatnaðurinn var gerður úr vísundahúðum sem fólk skreytti með ýmsu skrauti, allt frá arnarfjöðrum yfir í litaða broddgaltarbrodda og evrópskar glerperlur.

Smelltu á mynd til að sjá hana stærri með lýsingu

Þetta þriðja kyn gerði jafnt konum sem körlum kost á að njóta þess besta frá báðum kynhlutverkum.

 

Karlar sem kusu að ganga í kvenfatnaði gátu engu að síður drukkið áfengi og máttu sitja í svitakofum með körlum ættbálksins og þeir áttu jafnframt kost á að gerast höfðingjar hópsins.

 

Þriðjakynsverur sem upphaflega höfðu verið konur gátu tileinkað sér hlutverk karlanna og m.a. stundað veiðar.

 

Grátur var bannaður á sléttunum

Venjulegar konur sem ekki tilheyrðu þriðja kyninu, höfðu þann starfa að gæta heimilisins.

 

Þær elduðu mat, gerðu við fötin og sútuðu vísundahúðirnar. Allir hlutar þessara gríðarstóru dýra voru nýttir.

 

Húðirnar voru notaðar í tjalddúka og seinna meir voru dúkarnir skornir niður í bogastrengi. Tunga dýrsins var notuð sem hárbursti og maginn var nýttur sem suðupottur.

 

Eins og gefur að skilja státuðu karlmennirnir sig af frammistöðunni á vígvellinum en konurnar sýndu öðrum stoltar handavinnuna sína.

 

Skyrtur og skinnskór, fagurlega skreytt með dýramyndum eða með broddgaltarhárum sem mynduðu sérstök mynstur, nutu jafnmikillar aðdáunar og framganga karlanna í stríði.

Vetrarfeldur vísunda var eftirsótt verslunarvara og konur ættbálksins gerðu mjúkan og endingargóðan. Vinnan við að hreinsa húðina var erfitt verk.

Konurnar sáu jafnframt um að pakka saman tjöldum þorpsins þegar komið var að því að flytja sig um set til að elta vísundahjörð.

 

Á hverjum nýjum tjaldbúðastað reistu þær leiftursnöggt tjöldin á nýjan leik og ef ætlunin var að dvelja á nýja staðnum um stund plöntuðu þær jafnframt maís og baunum.

 

Sléttukonurnar máttu sjálfar ákveða hvern þær gengu að eiga og ef þær óskuðu skilnaðar, þurftu þær aðeins að flytja aftur heim í tjald foreldranna.

 

Þær fluttu með sér vinnutól sín, ungabörn og hesta. Ekki var litið hornauga að giftast margsinnis og þótti oft vera kostur, því þannig tengdust margar fjölskyldur sterkari böndum.

 

Þá var fjölkvæni einnig algengt því stöðugir bardagar leiddu auðvitað til þess að fleiri konur lifðu en karlar. Allar konur skyldu fæða börn til að tryggja afkomu ættbálksins.

 

Smábörn urðu að læra að aðlaga sig að samfélaginu snemma á ævinni. Í cheyenne-ættbálkinum táknaði þetta að börnum varð að lærast að þau mættu ekki gráta.

 

Grátur gat verið varhugaverður því hann gat komið upp um staðsetningu tjaldbúðanna. Fyrir bragðið skildu mæður grátandi ungabörn sín eftir á eyðilegum stöðum ef þeim tókst ekki að hughreysta þau.

 

Þegar gráturinn hjaðnaði sneri konan aftur og sótti barn sitt. Börnum lærðist með þessu móti að þeim gagnaðist ekkert að gráta.

Börn indíána máttu ekki gráta.

Andarnir leyndust alls staðar

Frá þeirri andrá er nýfædd börn fyrst börðu augum reykopið í topptjaldinu urðu þau að hlíta reglum og hefðum ættbálksins. Indíánarnir töldu anda leynast alls staðar, hvort heldur var í steinum, þrumum, sólinni eða norðanvindinum.

 

Hinn mikli andi streymdi í gegnum allt, hvort heldur lifandi eða dautt en sioux-þjóðin nefndi andann wakan tanka.

 

Andarnir voru lofsamaðir með söng og bænum alla daga. Allir gátu leitað ásjár með því að bjóða andanum fórnir, m.a. vísundarhúð eða arnarfjöður sem kastað var niður brekku en oftar en ekki var það í verkahring töfralæknisins að koma á tengslum við andann.

 

 

Töfralæknirinn var andlegur leiðtogi hópsins og indíánarnir töldu hann búa yfir yfirnáttúrulegum kröftum og oft var hann álitinn geta skyggnst inn í framtíðina eða séð fólki fyrir góðu veðri. Töfralæknirinn gat að sams skapi læknað sjúkdóma með jurtum.

 

Áhrif slíkra lækninga voru iðulega afar góð, því þekkingin á lækningajurtum hafði lærst, mann fram af manni, í margar kynslóðir.

Töfralæknir ættbálksins var talinn búa yfir yfirnáttúrulegum kröftum

Sléttuindíáni sem bjó yfir andlegum mætti og var í tengslum við andana var í hávegum hafður og ungir menn fóru gjarnan aleinir í margra daga einmanalegar ferðir þar sem þeir föstuðu, báðust fyrir og biðu eftir að andarnir birtust þeim.

 

Í tilteknum ættbálkum urðu piltar ekki að mönnum fyrr en þeir höfðu lagt í nokkrar slíkar ferðir í leit að andlegri vakningu.

 

Yfirskilvitlegt liðsinni birtist þeim í formi draums eða ofskynjana, þar sem svokallað ofurdýr sýndi þeim tákn eða hlut sem gat gagnast.

 

Þegar maðurinn svo sneri aftur í þorpið málaði hann táknið á skjöld sinn eða á tjaldið. Hann gat enn fremur valið að taka sér nýtt nafn sem gaf til kynna ofurdýrið sem orðið hafði á vegi hans.

 

Ef hann sem dæmi mætti úlfi með sérstakan feld gat hann tekið sér heitið „Blettótti úlfur“.

 

Goðsagnir ættbálkanna blönduðust hver annarri úti á sléttunum þar sem óumflýjanlegt var fyrir íbúa ólíkra þorpa að hittast þegar heilu þorpin voru á faraldsfæti.

Kænn höfðingi nýtti sér veikleika BNA

Árið 1866 hófst langvarandi stríð milli sioux-ættbálksins og hvíta mannsins í Wyoming sem snerist um að stökkva landnemunum á flótta.

 

Höfðinginn Red Cloud var í forsvari fyrir stríðsmenn frá lakota-ættbálkinum (sioux-indíána) og bandamenn þeirra, cheyenne- og arapaho-indíána.

 

Hermenn Red Clouds, ásamt stríðsmönnum á borð við Crazy Horse og Young-Man Afraid, höfðu bandaríska herinn að fíflum næstu tvö árin.

 

Í kjölfarið á amerísku borgarastyrjöldinni var Bandaríkjaher fáliðaður og þar sem farið var að leggja járnbraut þvert yfir villta vestrið á sama tíma var þörf fyrir þá fáu hermenn sem tiltækir voru, til að verja járnbrautarvinnuna.

 

Á Wyoming-svæðinu földu hermennirnir sig fyrir vikið í virkjum sínum en ráðist var á þá ef þeir voguðu sér út fyrir virkisveggina til að sækja brenni eða matarforða.

 

Í desember biðu hermennirnir verri ósigur gegn indíánunum en nokkru sinni fyrr þegar Fetterman höfuðsmaður og 80 hermenn hans voru strádrepnir úr lánsátri.

 

Þetta gekk á í tvö ár en að þeim tíma loknum fóru Bandaríkjamenn að leggja niður virkin og banna hvítum landnemum að ferðast í gegnum Wyoming á leiðinni til Kaliforníu og Óregon.

 

Red Cloud hafði unnið verulegan sigur en hann gagnaðist ættbálki hans þó einungis í átta ár. Að þeim tíma loknum rufu Bandaríkjamenn friðarsamninginn.

Indíánarnir þróuðu táknmál í því skyni að geta átt samskipti hver við annan og gátu allir ættbálkar skilið táknmál hinna.

 

Táknmál þetta samanstóð af einföldum hreyfingum sem auðvelt reyndist að lesa í. Hönd sem hreyfðist í bylgjum upp og niður táknaði læk eða á, á meðan fingur sem haldið var þvert yfir barkann gáfu til kynna að hinn herskái dakota-ættbálkur væri í grenndinni.

 

Tákn þessi reyndust afar mikilvæg þegar m.a. nágrannaættbálkar mættust, því tungumálin voru afar ólík og sömu sögu var að segja af mállýskunum.

 

Táknmálið var einnig notað þegar ekki var hægt að stynja upp orði, m.a. á veiðum eða þegar ráðist var á óvini úr launsátri.

 

Landnemar táknuðu ógæfu

Þegar fram liðu stundir eignuðust indíánarnir nýja og margfalt verri óvini á víðáttumiklum sléttunum en einungis hver annan. Höfðingi creek-indíánanna, Speckled Snake, ávarpaði þjóð sína árið 1829.

 

Hann var reiður.

 

Andrew Jackson, sjöundi forseti Bandaríkjanna, hafði hvatt alla indíána á suðurhluta sléttunnar til að yfirgefa heimkynni sín og flytja þess í stað austur á bóginn, til fylkisins Mississippi.

„Bræður, ég hef heyrt hinn mikla föður flytja svo margar langar ræður.”

Forsetinn hafði áður lofað indíánunum nýju landi ef þeir einungis flyttu sig steinsnar frá því landi sem upprunalega hafði tilheyrt þeim.

 

„Bræður, ég hef heyrt hinn mikla föður (forsetann, ritstj.) flytja svo margar langar ræður. Þær byrja og enda allar á sömu orðunum: „Færið ykkur kippkorn í burtu, þið eruð of nærri mér“, sagði höfðinginn.

 

Speckled Snake var þreyttur á að þurfa sífellt að hörfa, hvíta mannsins vegna en í orðum hans fólst meiri spádómur en hann hefði nokkurn tímann getað gert sér í hugarlund, því það átti fyrir indíánunum að liggja að flytja margfalt oftar en þeir höfðu gert sér í hugarlund.

 

Þegar Speckled Snake hélt ræðu sína var fyrsti landnemahópurinn nýfarinn fram hjá á sléttunni með sléttuvagna sína. Fyrstu samskipti indíánanna og bleiknefjanna voru einkar friðsamleg.

 

Indíánarnir seldu gestunum feldi og fæðu og fengu í staðinn hesta og vopn.

Sléttuindíánar voru hættulegir sumum landnemum.

Fyrsti landnemahópurinn var vart kominn fram hjá þegar sá næsti birtist. Og enn og aftur bættust við fleiri hópar.

 

Á næstu 20 árum settust að í Norður-Ameríku átta milljón landnemar og kynntu fyrir frumbyggjunum lestir, áfengi og farsóttir.

 

Mjög margir indíánar létust af völdum bólusóttar, mislinga og skarlatssóttar.

 

Þegar Spánverjarnir fyrst komu til Mexíkó báru þeir einnig með sér sjúkdóma en urmull landnema á 19. öld olli því að veikindi breiddust út á ógnarhraða. Heilu þorpin lutu í lægra haldi fyrir sjúkdómum.

 

Landnemarnir voru strax í upphafi á varðbergi gagnvart indíánum og skildu ekki menningu þeirra. Þeir aðfluttu álitu sléttuíbúana vera ósiðmenntaða og líktu þeim iðulega við dýr.

 

Í því skyni að tryggja landnemunum örugga ferð yfir sléttuna létu yfirvöld reisa eftirlitsstöðvar með jöfnu millibili og sérlegum fulltrúum var ætlað að greiða fyrir samskipti milli indíána og starfsmanna opinberu indíánaskrifstofunnar.

Enginn þurfti að hlusta á höfðingjann

Stríðsmennirnir fluttust á brott

Ef höfðingi gerðist of ráðríkur átti hann á hættu að heilu fjölskyldurnar pökkuðu saman topptjöldum sínum og yfirgæfu þann hluta ættbálksins sem hann var í forsvari fyrir.

Orð kvenna vógu þungt

Í sumum ættbálkum voru það eldri konur sem völdu höfðingja og áttu síðasta orðið þegar mikilvægar ákvarðanir voru teknar.

Lýðræðissinnar fram í fingurgóma

Þegar margar þorpseiningar tiltekins ættbálks hittust var valið ráð sem samanstóð af höfðingjum og eldri meðlimum sem nutu virðingar heildarinnar. Í sameiningu tóku þeir mikilvægar ákvarðanir.

Enginn vildi skrifa undir

Hvítu mennirnir áttu erfitt með að skilja hvers vegna höfðingjarnir vildu ekki skrifa undir samninga. Enginn höfðingi gat hins vegar samþykkt samkomulag án þess að bera það fyrst undir sitt fólk.

Landnemahóparnir á sléttunum röskuðu ró vísundanna. Dýrin gátu ekki lengur farið eftir hefðbundnum leiðum og urðu að komast leiðar sinnar á nýjan hátt.

 

Antilópur og hirtir voru skotin eða þau fæld í burtu með þeim afleiðingum að indíánarnir neyddust til að fylgja dýrunum á ný búsvæði.

 

En sama hvert þeir fóru, þá voru hermenn og ótraustvekjandi landnemar nánast samstundis komnir á staðinn.

 

Við þetta bættist svo að veiðimenn úr hópi landnema hófu að stunda veiðar á vísundum og veiddu hundruð þúsunda dýra.

 

Þeir nýttu aðeins húðirnar en skildu kjötið eftir á búkum dýranna þar sem þau höfðu verið felld. Rotnandi dýrshræ lágu eins og hráviði um gjörvallar slétturnar.

„Land þeirra og eigur verða aldrei frá þeim teknar án leyfis þeirra.“ Thomas Jefferson, forseti BNA 1801-1809

Ríkisstjórnin stóð fast á því skriflega alveg frá upphafi að indíánarnir ættu rétt á landi og sjálfstæði.

 

Árið 1787 hafði Thomas Jefferson forseti samið sérstaka indíánastefnu sem var svohljóðandi:

 

„Land þeirra og eigur má aldrei frá þeim taka án samþykkis þeirra. Aldrei má taka af þeim eigur, né skerða réttindi þeirra og frelsi, nema þá í réttlátum og réttmætum styrjöldum“.

 

Raunveruleikinn var þó allt annar.

 

Bandaríkin stækkuðu ört og ríkisstjórnin var þvinguð til aðgerða. Ættbálkarnir á sléttunum áttu fljótt eftir að komast að raun um að eitt var hvað „stóri faðirinn“ sagði og annað hvað hann gerði.

 

Árið 1830 samþykkti þingið ný lög um nauðungarflutninga indíána. Árið 1871 lýsti þingið því svo yfir að Bandaríkin gætu ekki lengur viðurkennt ættbálkana sem sjálfstæða þjóðflokka.

Sioux stríðsmenn í bardaga gegn erkióvinum sínum Blackfoot indíána.

Land narrað út úr indíánum

Margir landnemar settust að á sléttunum og hófu þar búskap, enda töldu þeir sig eiga fullt eins mikinn rétt til þess og indíánarnir.

 

Á árunum milli 1860 og 1890 bauð ríkisstjórnin þeim meira að segja ókeypis jarðir, þó svo að þær í raun réttri tilheyrðu indíánunum.

 

Undirritaðir höfðu verið ýmsir sáttmálar þar sem ríkisstjórnin viðurkenndi að hver ættbálkur ætti hluta af landinu. Indíánarnir skildu aftur á móti ekki að unnt væri að eiga, kaupa og selja land.

 

Margir ættbálkar enduðu á því að selja ríkinu land sitt án þess að gera sér grein fyrir hvað þeir væru að undirrita. Sumir töldu sig vera að gefa landnemunum leyfi til að stunda fiskveiðar og hafa húsdýrin í haga á yfirráðasvæði indíánanna.

 

Þegar búið var að kaupa jarðirnar voru indíánarnir svo fluttir með valdi til annarra staða eða verndarsvæða.

 

Indíánarnir voru reknir sífellt lengra í vesturátt á hrjóstrugasta hluta sléttunnar og byrjuðu þar að ráðast hver á aðra, svo og landnemana, í örvæntingarfullri leit að lifibrauði.

Bandaríski riddaraliðið hafði ekki aðeins nútímalegri vopn en indíánarnir, hermennirnir fengu vistir sendar til sín. Stríðsmenn indíána áttu erfitt með að framfleyta fjölskyldum sínum í langvarandi stríði.

Árás þrátt fyrir hvítan fána

Cheyenne-höfðinginn Black Kettle batt enn vonir við frið þegar hann var vakinn af öskrum fyrir utan tjald sitt að morgni hins 29. nóvember 1864.

 

Hálfklæddir karlmenn hlupu í allar áttir og leituðu að vopnum sínum en konur og börn grétu hástöfum. Alls 700 hermenn hlóðu byssur sínar og fyrirskipuðu að aftur skyldi skotið á íbúa þorpsins.

 

Þrátt fyrir ringulreiðina og lætin gerði höfðinginn allt hvað hann gat til að róa sitt fólk.

 

„Hermennirnir vilja okkur ekkert illt!“ hrópaði hann og dró bandarískan fána að húni á topptjaldinu sínu og annan hvítan fána.

 

Allt kom fyrir ekki. Riddaraliðið skaut aftur úr rifflum sínum beggja megin tjaldbúðanna. Alls 150 indíánar urðu fyrir skoti. Menn, konur og börn lágu í blóðpolli, ýmist særð eða látin.

 

Hermennirnir héldu skotárásinni áfram allan þann dag og þegar dimma tók ristu hermennirnir höfuðleðrið af líkunum og afskræmdu þau sömuleiðis.

 

Höfðinginn gat engan veginn gert sér í hugarlund af hverju árásin stafaði. Hann hafði sjálfur farið á fund ríkisstjórans í Colorado í von um að semja mætti um frið og hafði í kjölfarið fært búðirnar líkt og honum hafði verið fyrirskipað að gera.

Bæði indíánar og hvítir skáru höfuðleðrin af óvinum sínum.

Black Kettle var einn þeirra fáu sem lifðu af blóðbaðið og gat fyrir vikið sagt frá atburðunum.

 

Reiðin yfir slátrun indíánanna í Sand Creek barst til annarra ættbálka sem fóru fyrir vikið að stunda enn frekari árásir á hvíta manninn.

 

Blóðug átök áttu sér stað um gjörvalla sléttuna. Ameríka skiptist í þá sem aðhylltust frið og þá sem vildu berjast. Þetta átti bæði við um Ameríkana og indíána.

 

Ætlunin var að kristna indíánana

Í Colorado fylki tóku landnemarnir þá ákvörðun að greiða 25 dali fyrir höfuðleður af indíána, með eyrum, á sama tíma og ráðamenn í Washington gerðu allt sem í þeirra valdi stóð til að lægja öldurnar, því landið hefði ekki efni á fleiri styrjöldum.

 

Ríkisstjórnin átti sér þá ósk heitasta að gera indíánana að góðum og gildum kristnum bændum. Stríðsmönnunum hugnaðist á hinn bóginn ekki að gerast bændur og þráðu heitast að lifa í frelsi á sléttunni. Sultur, sjúkdómar og örvænting herjuðu á þá.

 

Helmingur þeirra hafði fallið í valinn í kúabólu sem geisaði í tvö ár og þeir voru við það að svelta í hel sökum þess að vísundum fækkaði stöðugt á síminnkandi sléttunum.

 

Langstærstur hluti indíánanna hafði þegið að lifa á verndarsvæðum sem ríkisstjórnin skipulagði í óðaönn fyrir þessa fyrrum óstýrilátu stríðsmenn.

Indíánar dönsuðu hringdans við dúndrandi trommuslátt árið 1890.

Í örvæntingu leituðu Indíánarnir á náðir guðanna í von um hjálp og betri horfur. Svonefnd Ghost Dance-hreyfing naut sérlega mikilla vinsælda.

 

Boðskapur hreyfingarinnar snerist um að andadansinn fengi fallna stríðsmenn til að koma bræðrum sínum til bjargar. Saman myndu þeir granda hvíta manninum og færa indíánunum aftur sléttuna og vísundana.

 

Indíánarnir dönsuðu hringdans nótt eftir nótt sem skyldi láta jörðina skjálfa og hvíta manninn hverfa.

 

Þessi trúarlegi dans gerði hins vegar ekki það gagn sem honum var ætlað, heldur markaði hann endalokin á tímabili sléttuindíánanna.

 

Hermenn frömdu fjöldamorð

Enn þann dag í dag er svolítið óljóst hvað hrinti af stað fjöldamorðunum í Wounded Knee.

 

Staðreyndin er hins vegar sú að hinn 29. desember 1890 myrtu amerískir hermenn allt að 300, mestmegnis óvopnaða, Iakota-indíána við Wounded Knee í Suður-Dakota en um var að ræða áhangendur Ghost Dance-hreyfingarinnar.

Frosið lík Sioux-höfðingjans Spotted Elk fannst eftir fjöldamorðin við Wounded Knee.

Indíánar þessir höfðu brotist út úr verndarsvæðinu, eftir að lögreglan hafði myrt höfðingjann Sitting Bull sem var í varðhaldi.

 

Nú hugðist hópurinn taka upp búðirnar og gefa sig á vald hermönnum úr 7. herdeild riddaraliðsins sem veitti þeim eftirför.

 

Jafnþótt þótt indíánarnir væru samstarfsfúsir krafðist James Forsyth ofursti þess að öllum vopnum þeirra skyldi safnað saman. Allt var gert upptækt, hnífar, axir, skotvopn og jafnvel nálar kvennanna sem gerðar voru úr broddgaltarbroddum.

 

Spennan jókst á sama tíma og hermennirnir röktu sig tjald úr tjaldi, klofandi yfir karla og konur. Sagt er að einn stríðsmaðurinn hafi lyft upp vopnum sínum og það hafi hrint bardaganum af stað.

 

Hermennirnir skutu á afvopnaða indíánana. Konur og börn reyndu að flýja af hólmi en allir – hestar, hundar og fólk – urðu kúlnahríð hermannanna að bráð.

 

Þeir sem ekki dóu á staðnum létust í kjölfarið af sárum sínum eða úr vosbúð.

Lífið á verndarsvæðum var stjórnað af hvítum hermönnum og varð gríðarleg breyting á lifnaðarháttum sléttuindíána.

Fjöldamorð þetta markaði síðasta blóðbaðið milli frumbyggja Ameríku og nýju landnemanna.

 

Indíánar sléttunnar og lifnaðarhættir þeirra sem frjálsir menn voru liðin tíð.

Lestu meira um sjálfsbjargarviðleitni indíánanna

Bob Drury: The Heart of Everything That Is: The Untold Story of Red Cloud, An American Legend, Simon & Schuster, 2014

LESTU EINNIG

HÖFUNDUR: Jannik Petersen

© Bridgeman Images,© Shutterstock,© Library of Congress,© William H. Powell (1823–1879),© Edward S. Curtis,© Frederic S. Remington (1861–1909),© Gilbert Charles Stuart (1755–1828),© Charles Marion Russell (1864–1926),© U.S. National Guard,© Public domain,

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Lifandi Saga

Fangar í útrýmingarbúðum fölsuðu peninga fyrir nasista

Heilsa

Vísindamenn: Blóðsýni afhjúpa elliglöp 15 árum fyrir einkenni

Maðurinn

Af hverju erum við með mismunandi blóðflokka?

Alheimurinn

Bilaðasta tilraun heims: Komdu með í ferðalag til endimarka alheims

Maðurinn

Getur kláði verið smitandi?

Alheimurinn

Jörðinni var bjargað af illa tvíbura sínum

Heilsa

Fjöldi daglegra salernisheimsókna getur haft afleiðingar fyrir heilsuna

Maðurinn

Genagalli gerir albínóa hvíta

Maðurinn

Hið fullkomna morð er dautt

Lifandi Saga

Teþorstinn knésetti stórveldi

Náttúran

Fræðimenn rýna í innsta eðli risaeðlanna 

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.790 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is