Aldrei framar matareitrun, ekkert kvef, engir banvænir sjúkdómsfaraldrar. Tilveran án örvera getur við fyrstu sýn haft sinn sjarma. Sannleikurinn er hins vegar sá að þetta yrðu endalokin.
Örverur eru alls staðar – í jarðvegi, höfum, lofti, dýrum og plöntum og meira að segja þrífast sumar við mjög öfgakenndar aðstæður, t.d. í heimskautafrosti eða glóðheitum eyðimörkum. Í heildarlífmassa allra dýra á hnettinum eru um 2 gígatonn af kolefni en í lífmassa allra örvera eru 70 gígatonn af kolefni.
Án örveranna yrði heimurinn fljótur að breytast. Dýr og plöntur stæðu frammi fyrir mjög erfiðum vandamálum.
Allt mun hrynja
Örverur gegna nefnilega lykilhlutverki varðandi hringrás lífsnauðsynlegra efna í lífríkinu, svo sem kolefnis, köfnunarefnis og súrefnis.
Örverur umbreyta t.d. koltvísýringi úr gufuhvolfinu í lífmassa sem dýr og plöntur nota til næringar.
Köfnunarefni hefur líka afgerandi þýðingu fyrir vöxt plantna. Plönturnar geta þó ekki nýtt köfnunarefnið beint úr andrúmsloftinu, heldur fer það í gegnum eins konar forvinnslu örvera áður en plönturnar nýta það í prótín, DNA og blaðgrænu.
Þessu til viðbótar fá allt að 90% allra þurrlendisjurta stóran hluta næringar sinnar og vatns fyrir tilverknað smásærra sveppa í rótakerfinu. Án örvera hryndi lífríkið á örskömmum tíma.
En það er engin ástæða til að örvænta. Örverurnar hafa verið til staðar frá upphafi lífsins fyrir um 3,8 milljörðum ára og lifað af allar hamfarir sem leitt hafa til fjöldadauða tegunda. Þær eru því sennilega alls ekkert á förum.
Af hnöttum sólkerfisins er einna ólíklegast að finna lífverur á Venusi – en það gæti þó hugsanlega leynst í þessu glóandi heita víti. Bandarískt geimfar á nú að leita þar að lífverum.
Ekkert líf án örvera
Ef örverur hyrfu skyndilega hryndi lífríki jarðar.
1. Súrefni snarminnkar
A.m.k. 25% af súrefni í gufuhvolfinu kemur frá svonefndum cýanóbakteríum og smásæjum þörungum í sjó. Til viðbótar myndi súrefnisframleiðsla plantna dragast mjög saman án örvera.
2. Plönturnar hverfa
Örverur í jarðvegi hjálpa plöntum að taka til sín vatn og næringu, svo sem köfnunarefni, fosfór og magnesíum. Plöntugróður myndi strax veiklast mikið og síðan hverfa alveg.
3. Dýralífið hverfur
Án örvera og plantna eru menn og dýr líka bjargarlaus. Þegar dregur úr gróðri eykst baráttan um fæðu, samhliða því sem minna súrefni minnkar vöðvakraftinn.