Alheimurinn

Leiðangur í leit að lífverum í helvíti

Hitastigið er svo hátt að blý bráðnar. Af hnöttum sólkerfisins er einna ólíklegast að finna lífverur á Venusi – en það gæti þó hugsanlega leynst í þessu glóandi heita víti. Bandarískt geimfar á nú að leita þar að lífverum.

BIRT: 19/10/2023

Skoðaðu glóðheita eyðimörk, þar sem hitastigið fer aldrei undir 440 gráður og finndu þunga loftsins sem jafngildir þrýstingi á 900 metra dýpi.

 

Jafnvel hörðustu sölumenn ferðaskrifstofa ættu nokkuð erfitt með að selja ferðir til Venusar. En nú hyggjast vísindamenn senda þangað geimfar – í leit að lífi.

 

Fyrir ævalöngu var temprað loftslag á Venusi en ofboðsleg gróðurhúsaáhrif hafa fyrir löngu breytt þessum hnetti í fullkomið víti. Það virðist eiginlega ekki heil brú í því að ætla sér að leita að lífverum á slíkum hnetti en vísindamenn hjá MIT í Bandaríkjunum hyggjast gera það engu að síður.

 

Þeir telja nefnilega hugsanlegt að örverur gætu þrifist í skýjahulunni, hátt uppi yfir glóðheitu yfirborðinu.

 

Og nú gera þeir út leiðangur til að ganga úr skugga um hvort þetta fái staðist.

 

Ætlunin er að láta lítið mælitæki falla niður í gegnum þétta skýjahuluna og leita að ummerkjum lífs í þeim smáu dropum sem mynda skýin.

 

MIT-hópurinn er í samstarfi við geimfyrirtækið Rocket Lab sem leggur til eldflaugina og geimfarið sem eiga að koma hulstrinu með mælitækinu til Venusar. Fyrirtækið stefndi að geimskoti strax í maí 2023 en þurfti að fresta því fram til ársins 2025.

Yfirborð Venusar er glóandi heit eyðimörk en vísindamenn telja ekki útilokað að lífverur hafi fundið sér tilvistarmöguleika í háloftunum.

Uppgötvun lífvera í lofthjúpi Venusar yrði æsilegasta vísindastórfrétt allra tíma – og ekki aðeins vegna þess að það yrði í fyrsta sinn sem líf fyndist annars staðar en á jörðinni.

 

Kannski var vatn á Venusi

Venus er sú pláneta sem kemur næst jörðu á leið sinni um sólina og jafnframt sú pláneta sem er líkust jörðinni, bæði að stærð og gerð. Engu að síður eru liðnir áratugir síðan geimfar fór þar síðast niður í gufuhvolfið.

 

Plánetan hefur ekki verið rannsökuð í slíkri nálægð síðan sovéska geimfarið Vega 2 var þar á ferð 1985. Á Mars aka nú nokkur farartæki og rannsaka klappir og yfirborðsefni en við Venus hafa menn orðið að láta nægja athuganir geimfara á braut í mörg hundruð kílómetra hæð.

 

Margir stjörnufræðingar hafa lengi álitið tíma til kominn að skoða Venus í meiri nánd og nú er sú stund að renna upp. Á næstu tíu árum eða svo eru ráðgerðir allnokkrir leiðangrar til Venusar.

 

M.a. er ætlunin að komast að því hvort fljótandi vatn hefur einhvern tíma verið þar að finna og sömuleiðis á að finna ástæðu þess að gróðurhúsaáhrifin urðu svo öflug að þau breyttu þessari tvíburaplánetu jarðarinnar í „vonda tvíburann“.

Topp 5: Plánetur og tungl geta hýst líf

Hingað til vitum við aðeins fyrir vissu að líf þrífst á jörðinni, en nágrannapláneturnar okkar og stóru tunglin á braut um gasrisana Júpíter og Satúrnus kunna að hafa réttar aðstæður fyrir líf. Hér eru líklegustu staðir sólkerfisins í leit að lífi.

1. Enkeladeus

Satúrnusartunglið hefur haf fljótandi saltvatns sem spýtir vatnsgufu og steinefnum úr sprungum í frosnu yfirborðinu. Líf gæti hafa átt upptök sín í hafinu í kringum heitar neðansjávarlindir.

2. Evrópa

Það minnsta af fjórum stórum tunglum Júpíters er einnig með haf undir ísnum. Árið 2030 mun Europa Clipper geimfarið ná til tunglsins til að finna út úr því hvort líf sé undir yfirborðinu.

3. Mars

Bergreikistjarnan hefur aðeins mjög þunnan lofthjúp og skortir segulsvið til að verjast geislun sólarinnar. En líf gæti fundist nokkrum metrum undir rauðu ryki yfirborðsins.

4. Ganýmedes

Stærsta tungl Júpíters gæti haft haf falið undir yfirborði þess og þar sem er vatn gæti verið líf. Geimkanninn JUICE (JUPiter ICy moons Explorer) mun kanna tunglið árið 2034.

5. Venus

Næsti nágranni jarðar hefur gríðarlega heitt yfirborð en í skýjunum í 50 km hæð er hitastigið þægilegra. Hér geta örverur ef til vill þrifist í skýjadropunum.

Vísindamenn vita að hitastig á Venusi var eitt sinn miklu lægra en nú og með flóknum loftslagslíkönum hafa þeir reynt að skyggnast aftur í tímann til að komast að því hvort einhvern tíma hafi verið þarna fljótandi vatn og hitastig sem hentaði lífverum.

 

En mismunandi tölvulíkön skila mismunandi niðurstöðum og þess vegna ber nauðsyn til að senda geimfar til Venusar í því skyni að geta skapað sér mynd af fortíð plánetunnar.

Lífið hefur leitað skjóls í skýjunum

Nú er Venus afar ólífvænlegur hnöttur en sú hefur ekki alltaf verið raunin. Vera má að eitt sinn hafi verið ágæt lífsskilyrði á plánetunni og þegar hitinn tók að hækka má hugsa sér að harðgerðar lífverur hafi fundið sér bólstað uppi í skýjunum.

1. Sólarljósið var kraftminna

Stjarna á borð við sólina er lengi að ná fullum afköstum. Fyrst eftir að sólin myndaðist var ljósstyrkurinn 30% veikari en nú. Þá hefur verið svalara á Venusi og hitastigið gæti hafa verið á bilinu 20-50 gráður áður en gróðurhúsaáhrifanna tók að gæta.

2. Haf gæti hafa þakið Venus

Svalara loftslag, þar sem hitinn var langt undir suðumarki vatns, gerir mögulegt að haf úr fljótandi vatni hafi verið á Venusi í 2-3 milljarða ára. Í þessu hafi lífsskilyrði þá verið ámóta góð og á jörðinni.

3. Örverur enduðu í skýjunum

Þegar gróðurhúsaáhrifin keyrðu fram úr hófi varð svo heitt að höfin gufuðu upp. Lífið á yfirborðinu hvarf en örverur gætu hafa þróast þannig að þær lifi í brennisteinssýrudropum í háloftunum þar sem hitastigið er lægra.

460 gráðu hiti ríkir við yfirborð Venusar en í skýjahulunni er hitastigið þolanlegra fyrir lífverur.

MIT-vísindamennirnir ætla þó ekki að láta nægja að athuga hvort plánetan kunni eitt sinn að hafa verð lífvænleg, heldur vilja þeir vita hvort þar gæti enn leynst líf.

 

Bakteríur í skýjum hér

Á yfirborði Venusar er nú útilokað að nokkurt líf geti þrifist – en það mætti hugsa sér að harðgerar örverur hafi forðað sér upp í loftið, þegar plánetan hitnaði svo mikið að vatn hvarf.

 

Hátt uppi í skýjahulunni, í um 50 km hæð er loftþrýstingur svipaður og við yfirborðið hér á jörð. Hitastigið er líka lægra eða um 60 °C – vissulega heitt en þó hitastig sem sumar örverur þola.

 

Öfugt við síbreytilegar aðstæður í gufuhvolfi jarðar er skýjahulan á Venusi stöðug og margir kílómetrar að þykkt. Í slíku umhverfi gætu örverur þrifist í stöðugu og lítt breytilegu umhverfi.

LESTU EINNIG

Reyndar geta bakteríur og gerfrumur lifað í skýjum hér og hugmyndin um lífverur í skýjahulunni á Mars hefur verið rædd síðan á sjöunda áratug síðustu aldar.

 

Sú kenning fékk byr í seglin 2020 þegar hópur stjörnufræðinga fann spor efnasambandsins fosfíns í gufuhvolfi Venusar. Fosfín getur verið til marks um líf og fréttin vakti því mikla athygli.

 

Uppgötvunin var þó umdeild og menn settu spurningarmerki við mælingarnar sem þóttu ótraustar. En það hefur ekkert dregið úr áhuganum á leit að lífi við Venus – jafnvel þótt það hljóti að vera óburðugt líf.

Bakteríur í meltingarvegi manna geta hlutleyst magasýruna. Örverur á Venusi gætu notað svipaða aðferð í brennisteinssýrudropum skýjanna.

Yfir höfðum okkar svífa ský úr fíngerðum vatnsdropum en skýin á Venusi eru gerð úr litlu dropum af brennisteinssýru.

 

Svo sterk sýra myndi strax tæra upp mannshúð og við þekkjum ekkert lífsform sem gæti lifað af í dropa af brennisteinssýru. En hver veit nema örverur á Venusi hafi þróað einhverja merkilega aðferð til að lifa við slíkar aðstæður.

 

Tilvist slíkra örvera er ekki óhugsandi því í okkar eigin meltingarvegi þrífast bakteríur sem nota svipaða aðferð. Þær losa ammoníak til að leysa upp sýruna umhverfis sig.

 

Geimförin tvö, Venera 8 og Pioneer Venus sem heimsóttu Venus á áttunda áratugnum greindu bæði ammoníak í gufuhvolfinu. Mælingar hafa líka sýnt ummerki um súrefnissameindir sem gætu myndast þegar ammoníak leysir upp brennisteinssýru.

 

Einkafyrirtæki borgar

Kenningin um líf í skýjahulu Venusar gæti sem sagt staðist en stóru ríkisreknu geimferðastofnanirnar hafa þó ekki í hyggju að rannsaka þennan möguleika.

 

Sara Sieger og samstarfsmenn hennar hjá MIT hafa því tekið málið í eigin hendur og fá nú aðstoð bandaríska einkafyrirtækisins Rocket Lab sem fjármagnar leiðangurinn og skýtur geimfarinu á loft frá geimhöfn sinni á Nýja-Sjálandi.

 

Rocket Lab hefur staðið í skugga langstærsta einkafyrirtækisins á þessu sviði, SpaceX sem vikulega skýtur á loft mun kraftmeiri eldflaugum en með Venusarleiðangrinum vonast menn hjá Rocket Lab til að sanna að vísindaleiðangrar til annarra reikistjarna geti orðið ódýrir en árangursríkir með fremur lítilli, 18 metra langri, Electron-eldflaug fyrirtækisins og geimfarinu Photon.

 

Photon sýndi gildi sitt 2022 þegar geimfarið skilaði CAPSTONE, litlum gervihnetti NASA, á braut um tunglið og þótt miklu lengra sé til Venusar telja menn sig vissa um að Rocket Lab takist þetta.

Einkafyrirtækið Rocket Lab sendir geimfarið Photon til Venusar og notar til þess litla, 18 metra, Electron-eldflaug.

Það var þó nokkur bjartsýnisbragur yfir því markmiði að geimskotið færi fram í maí 2023 og leiðangrinum var frestað til 2025.

 

Þegar geimfarið Photon nær á áfangastað á það að losa lítið, 20 kg hulstur sem síðan á að fara niður í gegnum skýjahuluna með sérstakt mælitæki innanborðs.

 

Hugmyndin er að senda útfjólubláan ljósgeisla út um glugga á hulstrinu. Séu lífverur í dropum í skýjahulunni munu þær drekka í sig útfjólublátt ljós og senda aftur frá sér sem ljós sem mælitækið getur greint.

 

Dropar sendir til jarðar

Mælitækið í hulstrinu er í sjálfu sér tiltölulega einfalt og ekki sjálft fært um að greina lífverur en vísindamennirnir geta hins vegar ákvarðað hvort í þessum smáu dropum sé að finna þær gerðir kolefnissameinda sem byggja upp allar lífverur.

Hefur fáeinar mínútur til að greina líf

Eftir fimm mánaða ferð nær Photon-geimfarið til Venusar. Leiðangurinn hefst fyrir alvöru þegar mælitækinu er sleppt og það fellur niður í gegnum þétta skýjahuluna þar sem það leitar lífrænna sameinda.

200 km: Skellur á miklum hraða á gufuhvolfinu

Photon sleppir mælitækishylkinu og það skellur á gufuhvolfinu á nærri 40.000 km hraða. Loftmótstaðan hægir síðan á ferðinni og keilulaga hitaskjöldur ver hið viðkvæma rafeindatæki.

60 km: Skýin rannsökuð með leysiljósi

Hraðinn er kominn niður 335 km/klst. þegar hulstrið nær niður í skýjahuluna í 60 km hæð. Tækið sendir frá sér leysiljós sem kemur hugsanlegum lífrænum sameindum til að gefa frá sér alveg sérstakt ljós.

0 km: Hitinn yfirbugar tækið

Það tekur hylkið með tækinu ríflega 5 mínútur að fara gegnum hina 15 km þykku skýjahulu. Tækið mælir og sendir niðurstöður í um 20 mínútur áður en hitinn og gríðarlegur loftþrýstingur gera út af við það. Að lokum fellur það niður á yfirborðið.

Hefur fáeinar mínútur til að greina líf

Eftir fimm mánaða ferð nær Photon-geimfarið til Venusar. Leiðangurinn hefst fyrir alvöru þegar mælitækinu er sleppt og það fellur niður í gegnum þétta skýjahuluna þar sem það leitar lífrænna sameinda.

200 km: Skellur á miklum hraða á gufuhvolfinu

Photon sleppir mælitækishylkinu og það skellur á gufuhvolfinu á nærri 40.000 km hraða. Loftmótstaðan hægir síðan á ferðinni og keilulaga hitaskjöldur ver hið viðkvæma rafeindatæki.

60 km: Skýin rannsökuð með leysiljósi

Hraðinn er kominn niður 335 km/klst. þegar hulstrið nær niður í skýjahuluna í 60 km hæð. Tækið sendir frá sér leysiljós sem kemur hugsanlegum lífrænum sameindum til að gefa frá sér alveg sérstakt ljós.

0 km: Hitinn yfirbugar tækið

Það tekur hylkið með tækinu ríflega 5 mínútur að fara gegnum hina 15 km þykku skýjahulu. Tækið mælir og sendir niðurstöður í um 20 mínútur áður en hitinn og gríðarlegur loftþrýstingur gera út af við það. Að lokum fellur það niður á yfirborðið.

Gögn frá mælitækinu verða jafnóðum send til jarðar, þar sem MIT-vísindamennirnir sitja tilbúnir að greina þau. Sýni mælingarnar að droparnir hafi þau sérkenni sem benda til þess að í þeim leynist lífverur, verður það æsilegt fréttaefni.

 

Fari svo, þarf að rannsaka skýjahulu Venusar betur með fleiri mælitækjum og vísindamennirnir eru þegar farnir að velta fyrir sér þeim leiðangri til Venusar sem farinn yrði í kjölfarið.

1 lítra af skýjalofti langar MIT-vísindamennina að fá til greiningar.

Endanleg niðurstaða krefst þess að geimfar nái dropum úr skýjahulunni og þeir verði síðan sendir til jarðar. Heitasta ósk vísindamannanna er að til Venusar verði sent geimfar sem nái einum lítra úr skýjahulunni og þar með nokkrum grömmum af brennisteinssýrudropum.

 

Að senda slíkt geimfar til Venusar verður þó fokdýrt og til geimskotsins þarf miklu öflugri eldflaug en Electron-eldflaugina sem nú stendur til að skjóta upp á vegum Rocket Labs.

 

En ef með slíkum leiðangri tækist að sanna að líf sé að finna annars staðar en á jörðinni, væri það bæði peninganna og fyrirhafnarinnar virði.

 

Nái lífverur að dafna við svo erfiðar aðstæður sem nú ríkja í skýjahulu Venusar, hlýtur lífið nefnilega líka að dafna miklu víðar – ekki bara í Sólkerfinu, heldur á plánetum í öðrum sólkerfum.

 

Ef líf finnst í helvíti, er óhjákvæmilegt að alheimurinn sé fullur af lífi.

HÖFUNDUR: HENRIK BENDIX

© Shutterstock

Náttúran

Krabbar hafa farið sömu ferðina 17 sinnum

Maðurinn

Er veganmatur óhollur börnum?

Maðurinn

Er veganmatur óhollur börnum?

Náttúran

Risaeðlubeinagrind seld fyrir meira en sex milljarða króna á uppboði.

Náttúran

Risaeðlubeinagrind seld fyrir meira en sex milljarða króna á uppboði.

Lifandi Saga

Ísraelski vígamaðurinn: Vill lifa í friði með Palestínumönnum

Maðurinn

Er hægt að verða gráhærður á einni nóttu?

Heilsa

Hrotur geta verið vísbending um hjartasjúkdóm: Einn hópur er í sérstakri áhættu

NÝJASTA NÝTT

Maðurinn

Er hægt að verða sólbrúnn í skugga?

Maðurinn

Gerið það sama og þúsundir gera á samfélagsmiðlum: Verið þakklát og lifið lengur

Maðurinn

Þannig getum við nýtt drauma okkar

Heilsa

Kostir þess að vera nátthrafn

Jörðin

Jörðin eftir manninn

Maðurinn

Bakteríur leysa vind í munni okkar

Lifandi Saga

Hvað átti sér stað við Wounded Knee árið 1973?

Maðurinn

Geta matvörur varið húðina gegn útfjólubláum geislum sólar?

Spurningar og svör

Hvað á eiginlega að gera við kjarnorkuverið í Tjernobyl?

Maðurinn

Myndir af einangruðum ættflokki sýna mannlegan harmleik, samkvæmt verndarsamtökum

Maðurinn

Er hægt að verða sólbrúnn í skugga?

Maðurinn

Gerið það sama og þúsundir gera á samfélagsmiðlum: Verið þakklát og lifið lengur

Maðurinn

Þannig getum við nýtt drauma okkar

Heilsa

Kostir þess að vera nátthrafn

Jörðin

Jörðin eftir manninn

Maðurinn

Bakteríur leysa vind í munni okkar

Lifandi Saga

Hvað átti sér stað við Wounded Knee árið 1973?

Maðurinn

Geta matvörur varið húðina gegn útfjólubláum geislum sólar?

Spurningar og svör

Hvað á eiginlega að gera við kjarnorkuverið í Tjernobyl?

Maðurinn

Myndir af einangruðum ættflokki sýna mannlegan harmleik, samkvæmt verndarsamtökum

Fáðu aðgang að vÍSINDI.IS

Ókeypis í 2 vikur!

 

Eftir það kostar eingöngu 1.390 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

 

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Jörðin

99 stórborgir eru að sökkva

Jörðin

99 stórborgir eru að sökkva

Maðurinn

Munnvatnið er fullt af eitri

Maðurinn

Munnvatnið er fullt af eitri

Maðurinn

Gæludýr koma í veg fyrir offitu og ofnæmi meðal barna

Náttúran

Hvernig bárust kettir til Ameríku?

Heilsa

Er mikið um kyrrsetu hjá þér í vinnunni? Þá getur kaffi lengt líf þitt samkvæmt stórri rannsókn.

Heilsa

Lækning gegn útbreiddum meltingartruflunum finnst í flestum eldhúsum.

Vinsælast

1

Maðurinn

Bakteríur leysa vind í munni okkar

2

Maðurinn

Myndir af einangruðum ættflokki sýna mannlegan harmleik, samkvæmt verndarsamtökum

3

Maðurinn

Geta matvörur varið húðina gegn útfjólubláum geislum sólar?

4

Jörðin

Jörðin eftir manninn

5

Spurningar og svör

Hvað á eiginlega að gera við kjarnorkuverið í Tjernobyl?

6

Heilsa

Kostir þess að vera nátthrafn

1

Maðurinn

Bakteríur leysa vind í munni okkar

2

Maðurinn

Geta matvörur varið húðina gegn útfjólubláum geislum sólar?

3

Jörðin

Jörðin eftir manninn

4

Heilsa

Kostir þess að vera nátthrafn

5

Lifandi Saga

Hvað átti sér stað við Wounded Knee árið 1973?

6

Maðurinn

Gerið það sama og þúsundir gera á samfélagsmiðlum: Verið þakklát og lifið lengur

Heilsa

Læknar hafa grætt heilt auga í mann

Maðurinn

Nú geta vísindamenn ráðskast með drauma okkar

Tækni

140.000 veirutegundir hafa fundist í þarmaflórunni

Maðurinn

Kornabörn þekkja móðurmálið sitt

Læknisfræði

Hvers vegna fáum við ofnæmi?

Maðurinn

Lamaður maður gengur fyrir eigin hugarafli

Lifandi Saga

Dans indíána orsakaði blóðbaðið við Wounded Knee

Heilsa

Rannsókn: Tæp skeiðfylli af þessari fitutegund daglega dregur úr hættu á heilabilun

Maðurinn

Er hollt að gefa blóð?

Tækni

Vandamál sem gat orðið aðkallandi

Maðurinn

Efnaskiptin eru stöðug frá 20 til 60 ára aldurs

Maðurinn

Er siðblindingi á vinnustaðnum þínum?

Er hægt að verða sólbrúnn í skugga?

Er sólarvörn yfirhöfuð nauðsynleg ef dvalið er í skugga mestallan daginn?

Maðurinn

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.690 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.