Venus hefur flegið utan af Merkúr

Innsta pláneta sólkerfisins hefur óeðlega stóran járnkjarna samanborið við hinar klapparpláneturnar. Nýtt tölvulíkan getur loks útskýrt hvað gerðist.

BIRT: 09/05/2023

LESTÍMI:

3 mínútur

Breskir vísindamenn hafa loksins fundið lausn á einni af ráðgátum sólkerfisins.

 

Stjörnufræðingar hafa áratugum saman undrast að Merkúr skuli hafa svo gríðarstóran járnkjarna í hlutfalli við stærð plánetunnar.

 

Þessi kjarni er 70% af samanlögðum massa Merkúrs, miklu hærra hlutfall en gildir um Venus, Jörðina og Mars.

 

Vísindamenn hafa áður skýrt þetta með því að Merkúr hafi glatað hluta möttulsins í árekstrum við aðra hnetti en sú kenning stenst ekki.

Geimfarið BepiColombo fór frá jörðu 2018 og á að koma til Merkúrs 2025, þar sem gervihnötturinn á að rannsaka jarðfræði plánetunnar.

Þyngdarkrafturinn sogaði hluti til sín

Mælingar MESSENGER-farsins sem var á braut um Merkúr 2011-2015, sýndu að á Merkúr er mikið af rokgjörnum efnum á borð við kalíum og þau hefðu gufað upp í hitanum af árekstri við annan hnött.

 

Nú stinga stjarneðlisfræðingar hjá Cambridgeháskóla í Englandi upp á því að Merkúr hafi glatað hluta af möttlinum í nokkrum áföngum þegar Merkúr og Venus áttu mjög þétta samleið.

 

Á upphafsskeiði sólkerfisins voru brautir reikistjarnanna ekki þær sem við þekkjum í dag.

 

Fjarlægðin milli Merkúrs og Venusar getur hafa verið miklu minni en nú er. Þá hefur Merkúr hvað eftir annað farið mjög nærri Venusi en þó án þess að árekstur yrði.

Venus
  • Þvermál: 12.102 km.
  • Þvermál kjarna: Um 6.000 km.
  • Hlutfall kjarna af heildarþyngd: Um 30%.
Merkúr
  • Þvermál: 4.879 km.
  • Þvermál kjarna: Um 3.600 km.
  • Hlutfall kjarna af heildarþyngd: Um 70%.

Þegar þetta gerðist hefur Venus náð að soga til sín stóran hluta af möttli Merkúrs og þess vegna er möttull Merkúrs svo þunnur í hlutfalli við kjarnann sem raun ber vitni.

 

Vísindamennirnir miðuðu við að járnmagn Merkúrs hafi verið 30% í upphafi, svipað og í elstu þekktu loftsteinum í sólkerfinu.

Merkúr tapaði togslagnum

Þéttar framhjágöngur innstu reikistjarnanna hafa flutt stóran hluta af möttli Merkúrs yfir á Venus.

Stutt á milli brauta

Í bernsku sólkerfisins fyrir 4,5 milljörðum ára var styttra milli brauta Merkúrs og Venusar en nú.

Merkúr fer fram úr

Merkúr fer hraðar og fer því fram úr Venusi. Aðdráttaraflið veldur því að pláneturnar togast á.

Venus vinnur sigur

Venus er stærri og vinnur sigur. Hluti af möttli Merkúrs færist yfir á Venus.

Merkúr minnkar

Merkúr dregur aftur til sín það sem eftir er af möttlinum. Plánetan hefur minnkað en járnkjarninn er ósnortinn.

Kenninguna er ekki hægt að sanna með athugunum á Venusi sem er tífalt massameiri en Merkúr og því er erfitt að greina ummerki um þessa efnistilflutninga.

 

Aftur á móti vonast vísindamennirnir til að öðlast meiri vitneskju þegar geimfarið BepiColombo kemur til Merkúrs 2025 og gerir nýjar mælingar á frumefnasamsetningu á yfirborði plánetunnar.

BIRT: 09/05/2023

HÖFUNDUR: Jens Matthiesen

HÖFUNDARÉTTUR MYNDA: NASA,© Thinkstock/NASA/Nicolle Rager Fuller/NSF/JPL/ATG medialab/ESA,

vinsælustu greinarnar

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.