Hinn 12. mars 1947 tók forsetinn, Harry S. Truman, til máls í þinghúsinu og lýsti því yfir að héðan í frá myndu Bandaríkin „styðja frjálsar þjóðir sem veittu andspyrnu tilraunum um kúgun“.
Í þessari víðfrægu ræðu sinni lagði Truman áherslu á að Bandaríkin hygðust nú fylgja nýrri utanríkismálastefnu sem fæli það í sér að standa vörð um öll lönd sem ættu á hættu að lenda undir hælnum á Sovétríkjunum og kommúnisma.
Í raun réttri táknaði þessi nýja stefna sem farið var að kalla Truman-kenninguna, að Bandaríkin myndu fyrst í stað styrkja Grikkland og Tyrkland, bæði fjárhagslega og hernaðarlega, til að koma í veg fyrir að löndin tvö féllu kommúnistum í skaut.
Bandaríkin og Sovétríkin börðust hlið við hlið í seinni heimsstyrjöld en þegar stríðinu lauk skerptust andstæðurnar milli þjóðanna tveggja.
Upphaf kalda stríðsins
Þessi nýja stefna markaði miklar breytingar á utanríkismálastefnu BNA sem til þessa hafði einkennst af því að Bandaríkin skyldu hafa eins lítil afskipti af málefnum annarra þjóða og frekast var unnt. Truman-kenningin kollvarpaði því utanríkismálastefnunni.
Framvegis skyldu Bandaríkjamenn gera það sem í þeirra valdi stæði til að stemma stigu við áhrifum Sovétríkjanna og fyrir vikið er oft litið á ræðu Trumans sem upphafið að kalda stríðinu.