Til eru margar getgátur um það hvaðan orðið víkingur sé komið.
Sumir fræðimenn telja að orðið hafi upprunalega verið notað yfir sjófarendur frá Vík, þ.e. svæðinu umhverfis Óslóarfjörð.
Aðrir eru þeirrar skoðunar að orðið sé myndað af landfræðilega heitinu vík og hafi því táknað þá sem „lögðu skipum sínum að landi í víkum“.
Elsta þekkta notkun orðsins fyrirfinnst í engilsaxneska ljóðinu „Widsith“ frá 7. öld og það bendir til að orðið hafi verið notað löngu áður en svokölluð víkingaöld hófst sem talið er hafa verið frá lokum 8. aldar fram á miðja 11. öld.
Margir sagnfræðingar álíta ránið í klaustrinu í Lindisfarne í Englandi árið 793 hafa markað upphaf víkingaaldarinnar og að þegar norrænir stríðsmenn fóru herskildi, rændu og myrtu í löndunum umhverfis Norðursjó hafi verið farið að nota heitið víkingur um þessa sjóræningja.
Engin eining ríkti þó um það hvað kalla skyldi þessa herjandi menn.
Írar töluðu um „hina fallegu dökku framandi“, Gallar nefndu þá „sæfara“ og Engilsaxar kölluðu þá alla einfaldlega bara „Dani“.
Ljóst er að norrænt fólk fór að nota hugtakið ,,víkingar“ um sjálft sig.
Í Svíþjóð er t.d. að finna rúnastein með áletruninni „Tóki Víkingur“ og annan sem reistur var í minningu um Björn sem farið hafði í „víking“.
Sæfarendur frá Vík í Óslóarfirði hafa hugsanlega léð öðru norrænu fólki heiti.