Að örfáum mínútum liðnum færi kuldinn að breiða úr sér. Örfáum dögum síðar næði hitastigið frostmarki um allan hnöttinn. Að einni viku liðinni dræpist öll uppskera á borð við maís, hrísgrjón og hveiti.
Jörðin fær nánast alla orku sína frá sólinni og ef slökkt yrði skyndilega á henni myndum við fljótt lenda í vondum málum.
Hér er hryllileg framtíðarsýnin í sólarlausum heimi:
30 mínútur án sólar: Vindur og hlýja láta undan síga
Miðað við mælingar í sólmyrkva er vitað að einungis hálftími án sólar hefur veruleg áhrif.
Eftir 38 mínútna hlutasólmyrkva yfir Bretlandseyjum árið 2015 mældu vísindamenn hitastigslækkun sem nam 0,83 gráðum og vindhraðaminnkun upp á 9%.
Hálftíma langur almyrkvi yfir jörðu myndi valda einnar til tveggja gráðu lækkun á hitastigi jarðar og orsaka svalara veður marga næstu daga á eftir.
Dagur án sólar: Dýr og plöntur skynja kuldann
24 klukkustundir án sólar geta haft alvarlegar afleiðingar fyrir plöntur jarðar.
Ef sólin skín ekki í einn dag myndu áhrifin á dýr og plöntur verða alvarleg, ekki hvað síst á svæðum þar sem sjaldan gætir lágs hitastigs.
Dagur án sólar myndi sennilega valda þriggja gráðu lækkun hitastigs á heimsvísu.
Ein vika án sólar: Hitastig jarðar fer niður að frostmarki
Sjö dagar án sólar myndu valda því að hitinn færi niður í frostmark.
Næstum allar plöntur eru háðar birtu til að ljóstillífa.
Vika í myrkri myndi deyða stóran hluta af uppskeru jarðar og hafa veruleg áhrif á alla sem ekki geta leitað skjóls innanhúss. Hungursneyð og líffræðileg kreppa myndi geisa um allan heim í tvö til þrjú ár.
Hitastig við yfirborð jarðar félli niður fyrir frostmark á jörðinni allri.
Ár án sólar: Hnötturinn yrði að ófrjórri og líflausri ísbreiðu.
Ár án sólar myndi frysta jörðina.
Ár án sólar myndi valda því að klakabrynja myndaðist á gjörvöllum hnettinum. Meðalhitinn færi niður í 73 stiga frost.
Myrkrið og nístandi kuldinn myndu setja allt líf á upphafspunkt, flest fólk og dýr væru látin og milljónir ára liðu áður en jörðin færi að jafna sig.
Rólegan æsing: Sólin skín ennþá!
Til allrar hamingju býr sólin yfir eldsneyti fyrir milljarða ára og fyrir vikið neyðumst við aðeins til að vera án hennar að nóttu til eða þá þegar tunglið stöku sinnum kemur sér fyrir milli sólar og jarðar og veldur sólmyrkva.