„Við viljum að rafmagnið verði svo ódýrt að einungis efnafólk kveiki á kertum“. Þetta hefðu vel geta verið orð bandaríska uppfinningamannsins Thomasar Edisons sem vann ötullega að því að breiða út notkun rafmagns.
Thomas var sjálfur með einkaleyfi fyrir ýmsum rafmagnsuppfinningum, m.a. glóðarperu og átti þátt í að koma á fót fyrsta raforkuverinu, svo og dreifineti fyrir rafmagn, í stórborginni New York.
Edison hafði jafnframt rétt fyrir sér þegar hann spáði fyrir um að rafmagn ætti eftir að verða ódýrt. Þó svo að rafmagn væri aðeins á færi efnafólks framan af lækkaði verðið þegar leið á 20. öldina, jafnframt því sem iðnaður jókst og hvert raforkuverið á fætur öðru átti þátt í að breyta rafmagni úr munaðarvöru í almenningseign.
Rafmagn varð hluti af daglegu lífi fólks strax á fyrstu áratugum 20. aldarinnar.
Verðið hrapaði
Á fyrstu árum 20. aldarinnar þurftu einkanotendur í Bandaríkjunum að greiða sem samsvarar 700 íslenskum krónum fyrir hverja kílóvattstund rafmagns: Með því er átt við það magn rafmagns sem nægir til að láta 100 vatta ljósaperu lýsa í 10 klukkustundir.
Verðið hrapaði niður í 130 krónur í kringum 1920 en hækkaði síðan eilítið á millistríðsárunum áður en það hrundi aftur eftir síðari heimsstyrjöld. Á árunum milli 1960 og 1970 var rafmagnsverðið komið niður í u.þ.b. 50 krónur fyrir hverja kílóvattstund.
Á síðasta ári hækkaði verð á rafmagni aftur á móti í Evrópu. Ástæðurnar voru hátt verð á kolum, olíu og jarðgasi, minni vindur fyrir vindmyllur og skortur á vatni, m.a. í vatnsforðabúrum Norðurlandanna. Sérfræðingar binda vonir við að auknar fjárfestingar á sviði endurnýtanlegra orkugjafa muni þvinga rafmagnsverðið niður aftur.