Eftir fimm milljarða ára eða svo verða dagar sólarinnar taldir. Fyrst þenst hún út í svokallaðan rauðan risa en fellur svo saman og myndar hvíta dvergstjörnu.
Vísindamenn eru ekki alveg á einu máli um hvort útþenslan verði nægilega mikil að gleypa jörðina eins og Merkúr og Venus. En áhrifin verða að lágmarki svo mikil að jörðin verður óbyggileg.
Júpíter og aðrir gas- og ísrisar utar í sólkerfinu sleppa sennilega betur.
Hvítir dvergar eru ekki einir
Árið 2021 fann fjölþjóðlegur hópur stjörnufræðinga hjá Bern-háskóla í Sviss plánetu áþekka Júpíter á braut um hvítan dverg í öðru sólkerfi. Sú stjarna hefur sem sagt þegar farið í gegnum það dauðastríð sem bíður sólarinnar.
Plánetan MOA-2010-BLG-477Lb er svipuð að þyngd og Júpíter og í áþekkri fjarlægð frá móðurstjörnunni. Tilvist plánetunnar þykir því góð vísbending um að Júpíter, Satúrnus, Úranus og Neptúnus verði til áfram eftir endadægur sólarinnar.
Þessar plánetur munu engu að síður verða fyrir áhrifum af hamförunum. Á útþensluskeiðinu er talið að sólin blási frá sér allt að þriðjungi af massanum og þrýstingurinn mun blása gasrisunum frá.
Einn vísindamannanna að baki uppgötvunarinnar 2021, Joshua Blackman, telur þó ekki að gasrisarnir hverfi út í geiminn.
„Að líkindum færast brautir Júpíters, Satúrnusar, Úranusar og Neptúnusar utar og missa einhvern massa vegna geislunarinnar (frá sólinni, ritstj.) en síðan dragast aftur inn á við. Hve mikið það verður fer eftir brautum þeirra og massa,“ útskýrir Blackman.
Vísindamennirnir telja að eftirlifandi gasrisar séu á ferli kringum meira en helming allra hvítra dverga.
Öflugasti sjónauki veraldar, James Webb, hefur nú fundið fjarlægustu þyrilþoku sem nokkru sinni hefur greinst.
Dauðateygjur sólar ýta við gasrisunum
Þegar sólin hefur brennt öllu eldsneyti sínu, þenst hún fyrst mikið út en fellur svo saman í hvítan dverg. Á þeim tíma nær hún bæði að ýta gasrisunum frá og draga þá til baka.
1. Sólin tútnar út
Eftir um 5 milljarða ára verður vetni uppurið í kjarna sólarinnar og hann þrýstist saman vegna þyngdaraflsins. Utan kjarnans þenst sólin út í rauðan risa.
2. Dauðateygjur ýta plánetum frá
Meðan á þenslufasanum stendur missir sólin stóra hluta massa síns í eins konar krampadráttum. Þetta ýtir Júpíter og öðrum gasplánetum út á fjarlægari brautir.
3. Gaspláneturnar koma til baka
Að lokum er aðeins innsti hluti sólarinnar eftir og hún orðin að hvítum dverg. Þyngdin kynni að vera komin niður í helming af núverandi þyngd en það dugar til að draga gasrisana á fyrri brautir.