Hárin á líkama okkar eru síðustu leifarnar af feldinum sem forfeður okkar, prímatarnir, voru með. Þetta sést m.a. af þeirri staðreynd að við höfum enn yfir að ráða ósjálfráðu viðbragði sem gerir það að verkum að þau fáu hár sem við erum með rísa þegar okkur verður kalt: við fáum gæsahúð.
Áhrifin eru óveruleg í dag en ef um væri að ræða þykkan feld myndi lyfting háranna hafa þau áhrif að loftlagið umhverfis hárin ykist og einangrunin yrði meiri.
Að öllum líkindum höfum við smám saman glatað feldinum en hvers vegna þessi þróun hefur átt sér stað veit enginn. Sumir vísindamenn eru þeirrar skoðunar að tiltölulega nakin húð mannsins hafi auðveldað okkur að eiga í samskiptum við hvert annað og að viðhalda flóknum félagstengslum.
Aðrir telja að við höfum misst feldinn sökum þess að hærri efnaskipti hafi gert það að verkum að okkur reyndist erfiðara að kæla líkamann en að halda á honum hita.
Útlitið á hárvexti líkamans stjórnast að miklu leyti af menningarlegum mismun, lifnaðarháttum og tískufyrirbærum. Þessir þættir ráðast að stórum hluta af hefðum og sjaldnast er að finna nokkra hagnýta skýringu á þeim.