Ljós sólarinnar er blanda allra lita en þeir eiga á hinn bóginn ekki allir jafn auðvelt með að ná til jarðar.
Á leið sinni þarf ljósið nefnilega að fara í gegnum gufuhvolfið og hér klofnar það á súrefnis- og köfnunarefnisfrumeindum.
Ljós í mismunandi litum (á mismunandi bylgjulengdum) dreifist ekki á sama hátt og blái liturinn á himni stafar af því að fjólublátt og blátt ljós, sem er ljós á tiltölulega stuttum bylgjulengdum, dreifist mun meira en aðrir litir hins hvíta ljóss.
Þess vegna er himinninn blár en sólin aftur á móti gulleit eða rauðgul.
Ljós á þessum bylgjulengdum fer nefnilega beint í gegnum gufuhvolfið.
Jafnframt fer liturinn nokkuð eftir þykkt gufuhvolfsins og niðri við sjóndeildarhringinn, þar sem ljósið hefur farið lengsta leið gegnum lofthjúpinn hefur megnið af bláa ljósinu speglast burtu.
Þess vegna er himinninn ljósblárri úti við sjóndeildarhring en ofar á himni, jafnvel í alveg heiðskíru veðri.
Til að finna þann stað á hnettinum þar sem himinbláminn er mestur er nauðsynlegt að mæla litróf himinsins á allmörgum stöðum.
Á árinu 2006 gerðu eðlisfræðingar við Þjóðareðlisfræðistofnun Bretlands slíkar mælingar í samvinnu við ferðaskrifstofuna Expedia.
Litbrigði himinsins voru mæld á 25 þekktum ferðamannastöðum um víða veröld og þannig reyndist unnt að finna út hvar blái liturinn væri sterkastur.
Af þessum 25 stöðum var það Ríó de Janeiro í Brasilíu sem gat státað af djúpbláasta litnum á himni.