Bæði örverur og ýmis efni eru utan á ávöxtum og þetta skolast ekki burt nema að hluta til við skolun.
Bakteríur, aðrar örverur og úðunarefni sitja misjafnlega föst við hýðið. Sumt leggst yfir hýðið líkt og húðun en annað kemst inn í gegn.
Á eplinu þínu geta t.d. leynst salmonella, listería, kólíbakteríur, nóróveirur, amöbur eða sníklar sem geta valdið magakveisu eða eitrunareinkennum en þessar sjúkdómsframkallandi örverur er nánast alltaf hægt að skola alveg af.
Það er hins vegar erfiðara að losna við skordýraeitur sem kann að hafa verið úðað yfir ávöxtinn. Úðunarefnin eru nefnilega sérhönnuð til að líma sig föst við ávexti og grænmeti og halda meindýrum frá.
Aðeins fá úðunarefni er hægt að losna alveg við og mörg slík er eiginlega ógerningur að losna við, jafnvel þótt þú skrúbbir ávöxtinn.
Eiturefni og örverur ráðast á ávexti
Úðunarefni og örverur geta komist inn í ávöxtinn og þá er ógerningur að skola það af.
1. Örverur mynda bletti
Það er náttúrulegt fyrirbrigði að örverur komist inn í aldinkjöt. Þar mynda þær bletti sem ekki er unnt að skola af.
2. Bakteríur liggja lausar
Salmonella, veirur og aðrir sjúkdómsvaldar berast á ávexti þegar þeir eru skolaðir með menguðu vatni. Þessar örverur liggja lausar og skolast auðveldlega af.
3. Úðaeitur kemst inn
Sum úðunarefni sitja á yfirborðinu og því hægt að þvo þau af. Sumar gerðir þrengja sér inn í hýðið og er því ógerlegt að þvo af.
Í öllum tilvikum borgar sig þó að skola ávexti vel. Bandarísk rannsókn sýndi t.d. að 40% barna höfðu safnað upp í líkamann óhóflega miklu af úðunarefnum, m.a. af ávöxtum og grænmeti sem ekki hafði verið nógu vel skolað. Þessi efni geta m.a. leitt af sér lélegt sæði, krabbamein, fæðingargalla og Parkinsonssjúkdóm.
Heilbrigðisyfirvöld hafa af þessum sökum ákvarðað hámarksgildi fyrir úðunarefni til að leyfilegt sé að selja ávexti og grænmeti
Örverur sýkja ávöxtinn
Á ávaxtaplöntum þrífast líka náttúrulegar örverur. Ef þær komast inn í ávöxtinn, svo sem gegnum stungusár á hýði eplis, geta þær sýkt ávöxtinn og myndað rotnunarbletti.
Slíka bletti er ógerningur að skola burtu þar eð þeir eru hluti af aldinkjötinu. En þessar náttúrulegu örverur eru hins vegar algerlega skaðlausar mönnum.
Skordýraeitur dreifist ekki jafnt
Magn skordýraeiturs er mjög breytilegt eftir tegundum ávaxta og grænmetis. Sjáðu hvernig dreifingin er hér:
Ávextir og grænmeti með mesta skordýraeitrið
- Kirsuber
- Mangó
- Spínat
- Epli
- Sellerí
- Papaya
- Pera
- Vínber
Ávextir og grænmeti með minnst skordýraeitur
- Aspas
- Blaðlaukur
- Banani
- Agúrka
- Sveppir
- Laukur
- Hvítlaukur
- Vatnsmelóna