Strax á barnsaldri gat Svisslendingurinn Hermann Rorschach gleymt bæði stað og stund í Klexógrafíu – leik sem gekk út á að hella blekdropa á pappír og brjóta pappírinn svo saman.
Þegar örkin var opnuð aftur hafði blekið myndað ýmis konar mynstur sem hann gat notað sem grunn fyrir teikningu eða orðið innblástur að lítilli sögu. Rorschach litli hafði svo mikla ánægju af þessu að félagar hans gáfu honum viðurnefnið Klechs sem er þýska orðið yfir klessu.
Hrifningin á blekklessunum fylgdi Rorschach áfram þegar hann hóf nám í læknisfræði og fékk vinnu á geðsjúkrahúsi í Bern.
Þarna byrjaði Rorschach að gera tilraunir með þennan bernskuleik og rannsaka hvers vegna fólk sá mismunandi myndir í blekklessunum; t.d. uppgötvaði hann að skítsófreníusjúklingar brugðust öðruvísi við klessunum en aðrir sjúklingar.
Samkvæmt kenningu Rorschachs getur túlkun blekklessu dugað til að greina persónugerð.
Blettirnir lifðu áfram
Eftir að hafa greint um 300 geðsjúklinga gaf Rorschach út bókina „Psychodiagnostic“ (Geðgreining) árið 1921. Þar setti hann fram þá kenningu að sérvalin blekmynstur megi nota til að greina persónuleika og geðraskanir.
Rorschach náði ekki sjálfur að sjá áhrifin af þessari nýju kenningu á sálgreiningar. Árið eftir lést hann úr lífhimnubólgu aðeins 37 ára að aldri.
Nú er prófið notað m.a. í Bandaríkjunum og Japan, þrátt fyrir að prófið hafi oft verið gagnrýnt og kallað sýndarpróf eða beinlínis falskt.