Þann 27. september 1922 var hópi blaðamanna og annarra gesta boðið að vera vitni að sögulegum atburði á Ambassador Theater í Los Angeles.
Á meðan fólkið – sem hafði sett upp sérstök gleraugu – starði á hvíta tjaldið opinberaðist fyrsta þrívíddarmyndin fyrir augum þeirra.
Þögla myndin „The Power of Love“ var íburðarmikið ástardrama sem var tekið upp með myndavél með tveimur linsum. En framleiðandi kvikmyndarinnar, Harry K. Fairall hafði nýlega fundið upp þennan búnað.
Topp 3: Vinsælustu þrívíddarmyndirnar
Frá því að fyrsta þrívíddarmyndin kom fram 1922 hafa kvikmyndir með slíkum effektum verið ákaflega farsælar í bíóum. Þær vinsælustu hafa mokað inn svimandi upphæðum. Listinn nær bæði til upprunalegra þrívíddarmynda og mynda sem síðar hefur verið breytt í þrívídd.
1. Avatar
- Ár: 2009
- Flokkur: Science Fiction
- Tekjur: Um 500 milljarðar kr.
- Söguþráður: Hermaður er sendur í leiðangur á fjarlægt tungl þar sem hann verður ástfanginn af einum af íbúum þess.
2. Jurassic World
- Ár: 2015
- Flokkur: Action/Science Fiction
- Tekjur: Um 253 milljarðar kr.
- Söguþráður: Í skemmtigarði með risaeðlum fer allt til andskotans þegar erfðabættir blendingar af risaeðlum valda miklum óskunda.
3. The Avengers
- Ár: 2012
- Flokkur: Ofurhetjumynd
- Tekjur: Um 230 milljarðar kr.
- Söguþráður: Ofurhetjurnar Iron Man, Captain America, Hulk, Thor, Black Widow og Hawkeye verða að vinna saman til að bjarga heiminum frá hinum illa Loka.
Þegar bíógestir settu upp gleraugun sköpuðu upptökurnar frá linsunum tveimur eins konar dýpt sem varð til þess að myndin á tjaldinu virtist þrívíð.
Myndin var reyndar svo háþróuð að bíógestir gátu sjálfir ákvarðað endinn á henni með því að loka ýmist hægra eða vinstra auga. Með þeim hætti réðu þeir hvort myndin hefði gleðilegan endi eða dapurlegan.
Myndin sló ekki í gegn
Þrátt fyrir þessa nýju uppfinningu sló þessi tækni ekki í gegn. Kvikmyndin fékk ágætis dóma í blöðunum en engin önnur bíóhús vildu sýna þessa byltingarkenndu kvikmynd.
Ári síðar var „The Power of Love“ keypt af dreifingarfyrirtæki sem seldi myndina til bandarískra kvikmyndahúsa sem venjulega tvívíða mynd með titlinum „Forbidden Lover“.
Fyrsta kvikmyndin í 3D „The Power of Love“ var frumsýnd árið 1922
Síðan hafa báðar þessar útgáfur glatast. Það var síðan fyrst þremur áratugum síðar sem Hollywood sneri sér aftur að þrívíddarmyndum þegar hryllingsmyndin „The Man in the Dark“ var frumsýnd í apríl 1953.
Þá reyndist aðsóknin fara langt fram úr vonum sem varð til þess að nær öll kvikmyndaver tóku að framleiða þrívíddarmyndir. Og sjötti áratugur tuttugustu aldar reyndist vera blómaskeið þeirra.