Sagnfræðingum hefur ekki tekist að finna eitt einhlítt svar við því hver fyrsti guðinn hafi verið því erfitt reynist að henda reiður á hvenær maðurinn hafi byrjað að trúa.
Fornleifafræðingar hafa fundið ýmsar styttur frá steinöld sem hugsanlega hafa verið tilbeðnar en þá greinir á um merkingu þeirra og hlutverk.
Sem dæmi hafa fundist hér og þar í Evrópu rösklega 200 styttur af frjósömum konum með stór brjóst og breiðar mjaðmir og er sú elsta talin vera um 35.000 ára gömul. Þessar svonefndu Venusarstyttur kunna að hafa verið tilbeðnar sem frjósemisgyðjur.
Fyrsti guðinn er að minnsta kosti 5.200 ára gamall
Fyrstu nafngreindu guðirnir sem fræðimenn þekkja til eiga rætur að rekja til Mesópótamíu til forna þar sem ritmálið þróaðist fyrir einum 5.000-6.000 árum.
Einn þeirra guða sem nefndir voru hvað fyrstir á nafn er Inanna sem síðar meir gekk einnig undir nafninu Ishtar.
Hún var gyðja, m.a. ásta, frjósemi og styrjalda í ýmsum mesópótamískum menningarheimum og fornleifafræðingar hafa fundið ýmis myndtákn með nafni hennar á leirtöflum sem taldar eru stafa frá því um 3.200 árum f.Kr.
Ósíris, Anúbis, Ísis – margir hafa sennilega heyrt nöfn helstu guða Egypta en hvaða þýðingu höfðu þeir eiginlega? Hér er að finna yfirlit yfir helstu guði Egypta.
Fram til ársins 2000 f.Kr. varð Inanna einn helsti guð Mesópótamíumanna og átrúnaður á hana tengdist iðulega kynferðislegum athöfnum og leik með kynhlutverk.
Karlmenn sem störfuðu í musterum hennar hlutu t.d. heiti kvenna og klæddust kvenfötum við helgiathafnir. Ýmsir textar gefa til kynna að þeir hafi stundað kynlíf með karlmönnum úr hópi þeirra sem trúðu á gyðjuna.