Sagnfræðinga hefur löngum greint á um hvenær kettir hafi borist til Ameríku.
Vísindamenn eru þó á einu máli um að þessi malandi loðdýr hafi þegar verið sest að í nýja heiminum þegar Evrópubúar hófu landnám á austurströnd Norður-Ameríku á öndverðri 17. öld.
Algengasta kenningin er sú að Kristófer Kólumbus hafi haft með sér ketti í skipum sínum þegar hann kom til álfunnar undir lok 15. aldar. Hugsanlega hafi þessir kettir svo skapað sér tilveru í Ameríku þegar landkönnuðirnir sneru heim aftur.
Önnur kenning sem fleiri hafa aðhyllst í seinni tíð, hljóðar á þann veg að víkingar hafi haft ketti með sér til Ameríku mörgum öldum fyrr.
Vísindamenn hafa raunar ekki getað sannað mál sitt með fornleifafundum sem fært geti sönnur á að kettir hafi fylgt Norðurlandabúunum þegar þeir settust að í Norður-Ameríku í kringum árið 1000.
Þeir vita hins vegar að víkingar voru miklir kattavinir og höfðu ketti meðferðis í skipum sínum þegar þeir héldu í leiðangra. Meðal annars hefur tekist að sýna fram á með fornleifafundi að víkingarnir hafi haft ketti meðferðis þegar þeir námu land á Grænlandi á ofanverðri 10. öld, að öllum líkindum til að halda meindýrum í skefjum.
Leið kattarins til Ameríku er enn sveipuð dulúð en hugsanlegt þykir að víkingarnir hafi haft ketti með sér þangað.
Víkingar sigldu til Ameríku
Frá Grænlandi sigldu þeir eins og leið lá til Norður-Ameríku þar sem þeir lögðu grunn að nýrri byggð þaðan sem talið er að þeir hafi siglt til Grænlands öldum saman með timbur.
Ef marka má sagnfræðinga er ekki útilokað að Norðurlandabúarnir hafi útbúið sérstakt rými fyrir ketti í skipum sínum áður en þeir lögðu upp í siglingar yfir Atlantshafið. Hins vegar er ekki eins víst að kettirnir hafi orðið eftir í nýju álfunni og hafi haft tök á að fjölga sér þar.
Þegar ég strýk köttum byrja þeir strax að mala. Hvernig mynda kettir þessi sérstöku hljóð og hvers vegna eru þeir yfirleitt að mala?
Tilgáta þessi nýtur stuðnings þeirrar staðreyndar að kattartegundin Maine Coon sem álitin er hafa verið fyrsta kattartegundin í Bandaríkjunum, er í raun erfðafræðilega náskyld norska skógarkettinum.
Ameríski kötturinn kann fyrir vikið að vera beinn afkomandi katta norrænu víkinganna.
Kettir breiddust út í nokkrum bylgjum
Árið 2016 gerðu franskir vísindamenn umfangsmestu erfðarannsóknina sem gerð hefur verið á jarðneskum leifum katta aftan úr fornöld. Rannsóknin leiddi í ljós að kettir komu malandi frá Mið-Austurlöndum í nokkrum áföngum.
Fyrsta bylgjan
Fyrir 12.000-8.000 árum
Menn og kettir tengdust sennilega nánum böndum fyrir einum 12 þúsund árum, þegar landbúnaður varð til í Mið-Austurlöndum. Villikettir aðlöguðust lífi í þorpum þar sem uppskera laðaði að meindýr sem kettirnir gátu haft sér til lífsviðurværis. Maðurinn áleit ketti vera nytjadýr og fór að gera þá húsvana. Þaðan breiddust kettir svo út til austurhluta Miðjarðarhafssvæðisins.
Önnur bylgjan
Fyrir um 6.000 árum
Kettir gerðu sig heimakomna í Egyptalandi þar sem farið var að líta á þá sem heilög dýr. Erfðafræðirannsóknir hafa leitt í ljós að afkomendur egypskra katta dreifðust um stóra hluta Evrópu, Asíu og Afríku. DNA-rannsóknir á höfuðkúpum egypskra katta hafa leitt í ljós að kettir frá Búlgaríu og Tyrklandi eru náskyldir þeim egypsku.
Þriðja bylgjan
Fyrir um 400-1.000 árum
Í Evrópu sáu kettir sér leik á borði og komust til Ameríku með skipum Evrópubúa. Hugsanlegt er að víkingar hafi haft með sér ketti þegar þeir námu land á Grænlandi undir lok 10. aldar og sigldu áfram þaðan til Norður-Ameríku. Fornleifarannsóknir gefa til kynna að kettir hafi þegar verið til staðar þegar landvinningamenn námu land í Norður-Ameríku á 17. öld.