Alls um 600 tegundir eiturslangna eiga árlega sök á 80-140 þúsund dauðsföllum. Þær tölur gætu verið miklu lægri ef allir hefðu skjótvirkan aðgang að móteitri.
Eitur slangna getur virkað á margvíslegan hátt. Það getur ráðist á taugakerfið og valdið lömun eða krampa en það getur líka t.d. sprengt súrefnisberandi blóðkorn í blóðrásinni. En ef hægt er að gefa móteitur strax getur það bjargað lífi.
Móteitur er framleitt með því að sprauta slöngueitri í dýr, t.d. hest. Ónæmiskerfi hestsins bregst við og myndar mótefni gegn eitrinu.
Hestar með eitrun skapa mótefni
Mótefni úr hestablóði geta bjargað lífi þínu ef þú verður fyrir slöngubiti. Hestarnir mynda mótefni eftir að eitri er sprautað í þá.
1. Slöngubú framleiða eitur
Eitur er mjólkað úr slöngum á slöngubúum og svo notað til að mynda móteitur. Eitrið næst með því að þrýsta tönnum slöngunnar gegnum plastfilmu á glasi.
2. Hestur myndar mótefni
Litlum eiturskömmtum er sprautað í hest. Ónæmiskerfið skynjar framandi efni og tekur að mynda mótefni gegn eitrinu.
3. Móteitrið skapað
Mótefnin er nú unnt að vinna úr blóði hestsins. Blóðsýnið er sett í þeytivindu þar sem mótefnin safnast efst í glasið. Síðan má auðveldlega draga þau upp í sprautu.
Mótefni eru prótein sem hjálpa líkamanum til að vinna bug á framandi efnum og þau eru uppistaðan í móteitri.
Hesturinn lifði banvænan skammt af
Hestinum er fyrst gefinn örlítill skammtur en síðan fær hann stærri og stærri skammta vikum saman, þar til hann hefur myndað mikið magn mótefna í blóði – svo mikið magn að hann myndi lifa af slöngubit sem annars hefðu dugað til að ráða niðurlögum hans.
Að lokum er hestinum svo tekið blóð og mótefnin einangruð úr því. Þegar móteitrinu er sprautað í mann hjálpar það ónæmiskerfinu að berjast gegn eitrinu.