Vistir eru sendar með jöfnu millibili til Alþjóðlegu geimstöðvarinnar ISS. Þar er allt sem geimfararnir þurfa á að halda, að vatni og súrefni meðtöldu.
En sex íbúar ISS myndu farast úr súrefnisskorti milli sendinga ef vatnið og súrefnið væri ekki endurnýtt með eins skilvirkum hætti og kostur er.
Þvag verður að drykkjarvatni
Sem dæmi er þvagi geimfaranna safnað saman í klósettinu og það leitt í gegnum hreinsibúnað, þar sem það er síað og kemísk efni hreinsuð burt svo nýta megi það sem drykkjarvatn.
Þá er öll sú vatnsgufa sem myndast í lofti geimstöðvarinnar hreinsuð og endurnýtt:
Gufan frá blautum handklæðum, svitinn úr æfingarherberginu og rakinn í útöndunarlofti geimfaranna; allt endar þetta einnig í búnaði þar sem vatnsgufan er þétt og síðan hreinsuð.
Vatn gefur geimförum súrefni
Alls sér þessi hreinsibúnaður um að um 93% af því vatni sem er flogið upp til geimstöðvarinnar er endurnýtt.
Vatnið er einkar dýrmætt um borð í ISS því það er einnig notað til að framleiða súrefni sem geimfarar anda að sér. Með rafgreiningu eru vatnssameindir klofnar svo þær verða að súrefni og vetni.
Súrefnið er leitt út í klefann en vetnið nýtist ekki og því er dælt út í geiminn.
Súrefni og vatni haldið í eilífri hringrás.
Svonefnt Iron Environmental Control and Life System um borð í ISS endurvinnur nánast allan vökva og gufu þannig að geimfararnir geta notað þetta lífsnauðsynlega efni hvað eftir annað.
1. Raki skilinn úr lofti
Vatnsgufan í loftinu er þétt þar til hún verður fljótandi og síðan hreinsuð. CO2 er hreinsað úr loftinu þannig að hlutfall súrefnis haldist það sama og við yfirborð jarðar – um 21%.
2. Þvag verður að hreinu drykkjarvatni
Þvagi úr geimförunum er safnað saman og hreinsað í sérstökum búnaði.
Búnaðurinn getur í mesta lagi hreinsað níu lítra á dag sem dugar þörfum sex manna sem eru ætíð um borð í geimstöðinni.
3. Gufa í lofti verður að vatni í krönunum
Þvag og gufa eru send áfram í gegnum sérstaka síu sem fangar föst efni.
Þessu næst er vökvinn hitaður upp og leiddur m.a. í gegnum jónatæki sem fjarlægir óæskileg uppleyst efni í vatninu.
4. Vatn veitir geimförum súrefni
Sumt af þessu hreina vatni úr vatnshreinsibúnaðinum er leitt áfram í tæki sem rafgreinir vatnið í vetni (H2) og súrefni (O2).
Súrefnið er leitt inn í klefana til geimfaranna meðan vetnið fer út í geim.