Úrkoma er oftast snjókoma, slydda eða regn en stundum dynja haglél yfir okkur. En hvernig myndast þessi högl eiginlega?
Högl myndast oftast í stórum þrumuskýjum og eru að uppistöðu ofkældir vatnsdropar. Droparnir geta verið fljótandi við þessar aðstæður og jafnvel farið niður í -48 °C áður en þeir frjósa. Oftast eru þetta litlir úðadropar í upphafi, skýjaúði.
Hristingur býr til ís
Droparnir frjósa ekki vegna þess að vatnið í þeim er afar tært. Í tært vatn vantar þá kjarna, t.d. örlítil rykkorn sem ískristallar myndast kringum í allra fyrstu byrjun.
Ef vatnið verður fyrir truflun, svo sem mikilli hreyfingu, meðan ofkælingin stendur yfir, geta ískristallar þó tekið að myndast án rykkjarna.
Árekstrar valda hraðstækkandi höglum
Lítið hagl getur stækkað mjög hratt þegar það rekst sífellt á ofkælda vatnsdropa á fleygiferð uppi í skýinu.
1. Dropi þeytist upp á við
Venjulegur úðadropi með hitastig yfir frostmarki sem lendir í uppstreymi fer yfir þá hæð þar sem hitastig fer undir frostmark.
2. Ískúlan myndast
Tveir ofkældir vatnsdropar skella saman og mynda örsmáa ískúlu. Þessi litla kúla rekst á fleiri dropa og við hvern árekstur stækkar hún og þyngist.
3. Þungt hagl fellur
Á endanum verður haglkúlan svo þung að uppstreymið ber hana ekki lengur. Hún fellur til jarðar, oft ásamt milljónum annarra sem saman mynda haglél.
Hiti í gufuhvolfinu lækkar með hæð og öflugir vindar sem blása upp geta borið vatnsdropana svo hátt að lofthiti sé undir frostmarki.
Smáhögl á Íslandi
Hérlendis þekkjum við einkum smá högl en víða verða þau miklu stærri. Þegar þrumuský verða kannski allt að 12 km á hæð er hitastigið í mestum hluta skýsins undir frostmarki.
Þegar ofkældir smádropar í skýinu rekast saman verður truflun sem nægir til að mynda ískristalla.
Í júlí 2017 varð úkraínskur flugmaður að blindlenda stórri farþegaþotu eftir að bæði framrúða og nef flugvélarinnar splundruðust vegna hagla á stærð við egg.
Fyrstu ískristallarnir eru mjög smáir og mynda eins konar haglkím sem fleiri ískristallar setjast á. Haglið vex síðan hratt í árekstrum við fleiri ofkælda dropa, þar til það verður svo þungt að það fellur til jarðar.
Það er þó afar fágætt að hagl verði 15 sm í þvermál áður en það nær til jarðar.