Maðurinn hefur verið sér meðvitaður um mikilvægi munnhirðu í minnst 130.000 ár.
Tennur Neandertalsmanna sem fundust í helli einum í Króatíu bentu til þess að tennurnar hafi ítrekað verið hreinsaðar með tannstöngli.
Fornleifafræðingar hafa ekki fundið ummerki um forsögulega tannstöngla en gera því skóna að forsögulegir menn hafi hreinsað tennurnar með oddhvössum beinum.
Meðal þeirra fyrstu sem útbjuggu eins konar tannkrem voru Egyptar sem neru á tennurnar dufti, gerðu úr m.a. mulinni eggjaskurn, myrru og ösku brenndra nautsklaufa.
Duftið hlýtur að hafa verið hart viðkomu fyrir glerunginn en hefur dugað vel til að hreinsa skán af tönnunum. Síðar meir fóru Persar að útbúa eins konar tannkrem úr snigla- og ostruskeljum sem hunangi og jurtum var blandað saman við.

Munnhirða var ekki hátt skrifuð í Evrópu á miðöldum. Tennurnar voru í besta falli hreinsaðar með fingri eða tannstöngli og munnurinn skolaður með vatni.
Fyrstu tannburstarnir voru prik
Rómverjar líktu eftir dufti þessu og bættu í það viðarkolum og trjáberki til að vinna bug á andremmu. Fyrstu tannburstarnir hafa fundist í gröfum Egypta og Babýlóníumanna og hefur verið unnt að tímasetja tannburstana frá um það bil 3.500 f.Kr.
Burstar þessir samanstóðu aðeins af kvistum sem endarnir höfðu verið tuggðir á til að trefjarnar flosnuðu og mynduðu þannig eins konar bursta. Kvistar þessir hafa að öllum líkindum haft sín áhrif því þeir voru gerðir úr viði sem bjó yfir þeim eiginleikum að vinna bug á bakteríum sem sennilega hefur komið í veg fyrir myndun tannskemmda og sýkingar.
Fyrstu eiginlegu tannburstarnir voru gerðir fyrir rösklega 1.100 árum þegar Kínverjar tóku upp á því að bursta tennurnar með stífum villisvínshárum á bambusskafti.
Biksvartar tennur voru tákn um fegurð fram á 19. öld í Japan, þar sem þeir sem eitthvað máttu sín, svo sem eins og samúræjar og geisjur, svertu í sér tennurnar með sérlegri efnablöndu.
Um svipað leyti notuðust Evrópubúar á miðöldum aðeins við fingurna eða tannstöngla til að hreinsa tennurnar og skoluðu síðan munninn með vatni sem m.a. salvíu og myntu hafði verið bætt í, til þess að andardrátturinn yrði ferskur.
Þeir metnaðargjörnustu notuðu klúta sem dýft hafði verið í salt eða kol til að fjarlægja óhreinindi af tönnunum.
Evrópubúar öðluðust ekki aðgang að betri munnhirðu fyrr en Englendingurinn William Addis hóf að fjöldaframleiða tannbursta árið 1780.