Á mörgum stöðum í austurhluta Englands geta ferðamenn séð bylgjulagaða múra sem hlykkjast í gegnum landslagið. Þessir sérkennilegu múrveggir hafa fengið þessa lögun vegna þess að þá verða þeir mun stöðugri heldur en beinir múrveggir með jafn mörgum hleðslusteinum. Eins þola þeir langtum betur hliðarþrýsting þegar stormar geisa, meðan beinir múrar myndu hrynja niður.
Slíkir múrar eru gjarnan byggðir í kringum aldingarða, því þeir veita viðkvæmum afurðum – eins og t.d. vínviði og fíkjutrám – betra skjól.
Af sömu ástæðum liggja þeir jafnan frá austri til vesturs. Þannig snýr ein hlið þeirra móti sól og getur dregið í sig mikið af hita sólargeislanna. Þegar sól er sest gefa veggirnir frá sér hita sem gagnast aldingróðri.
Forn Egyptar vissu að bylgjaðir veggir þurfa færri steina til að vera stöðugir en beinir veggir.
Egyptar byggðu einnig bylgjulagða múra
Talið er að hollenskir verkfræðingar hafi flutt þetta byggingarlag með sér á 17. öld, þegar þeir voru ráðnir til að ræsa fram flæðilönd í austanverðu Englandi.
En hugmyndin um slíka bylgjótta múra er hvorki ensk né hollensk. Nýlegar fornleifarannsóknir sýna að Forn-Egyptar byggðu slíka múra fyrir einhverjum 3.500 árum.
Í apríl 2021 tilkynntu egypskir fornleifafræðingar að þeir væru búnir að grafa upp risastórar rústir bæjar nærri borginni Luxor sem er talinn vera frá því um 1350 f.Kr. Margir af þeim múrum sem hlykkjast í gegnum rústirnar minna furðu mikið á múrveggina sem voru byggðir í Englandi um 3.000 árum síðar.