Árið 507 f.Kr. innleiddi stjórnmálaskörungurinn Kleisthenes nýtt stjórnarfar í Aþenu: lýðræði. Þetta fornaldarlýðræði líktist stjórnmálakerfi nútímans þó að afar takmörkuðu leyti.
Einn helsti munurinn var sá að einungis fullorðnir, frjálsir karlar sem gegnt höfðu herþjónustu í minnst tvö ár, máttu taka ákvarðanir á sviði stjórnmála.
Þetta táknaði að einungis karlmenn yfir tvítugu hefðu rétt á að taka þátt í stjórnmálum og að konur, þrælar og útlendingar væru með öllu áhrifalaus.
Þetta gerði það að verkum að Aþenu var stjórnað af einungis 15 % íbúanna.
Hverjir tóku þátt í lýðræði Aþenu?
Þrælar (u.þ.b. 60%)
Allt að 150.000 af þeim 250.000 sem bjuggu í Aþenu voru þrælar án nokkurra réttinda á stjórnmálasviðinu.
Útlendingar (u.þ.b. 5%)
Útlendingar máttu gjarnan setjast að í Aþenu en máttu hvorki eiga land né taka þátt í stjórnmálum.
Borgarar án kosningaréttar (u.þ.b. 20%)
Konur, svo og karlmenn undir tvítugu, höfðu engin áhrif á sviði stjórnmála í Aþenu.
Karlmenn með atkvæðisrétt (u.þ.b. 15%)
Allar ákvarðanir á sviði stjórnmála voru teknar af fullvaxta, frjálsum körlum sem öðlast höfðu þjálfun sem hermenn.
Eins og við þekkjum í dag kjósa borgararnir stjórnmálamenn til að vinna að hagsmunum kjósendanna en í Grikklandi til forna höfðu karlar aftur á móti tækifæri til að taka sjálfir ákvarðanir á sviði stjórnmála – m.a. í þjóðþinginu sem kom saman 40 sinnum á ári.
Allir þátttakendurnir nutu málfrelsis og höfðu atkvæðisrétt þegar lög voru samþykkt. Alls 500 karlar voru valdir af handahófi til starfa í ráðinu sem sá um daglegan rekstur Aþenu.
Síðast en ekki síst voru 500 karlmenn kjörnir í Þjóðardómstólinn sem kom saman 200 sinnum á ári til að útkljá deilur og sakamál.
Makedóníumenn afnámu lýðræðið í Aþenu árið 322 f.Kr.