Lifandi Saga

Hvít þrælasala: Ensk börn numin á brott til nýlendnanna

Mikill skortur var á vinnuafli í nýlendunum í Norður-Ameríku á 17. öld. Vandinn var m.a. leystur með því að ræna og gabba fátæka Breta og flytja þá yfir Atlantsála þar sem fyrir þeim átti eftir að liggja að gerast hvítir þrælar. Ef þeir reyndu að flýja, gátu þeir misst eyra.

BIRT: 15/10/2024

Dag nokkurn sumarið 1743 var hinn 13 ára gamli Peter Williamson að leik við höfnina í Aberdeen í Skotlandi. Peter bjó hjá frænku sinni og hafði heyrt að mannræningjar væru oft á ferli niðri við höfnina en leikur með kaðla, tjöru og bátsmöstur átti hug hans allan og hann leiddi ekki hugann að hættunum.

 

Í höfninni lá skipið The Planter og tveimur áhafnarmeðlimum þess tókst að narra unglinginn um borð en um leið og Peter var kominn undir þiljar réðust mennirnir á hann. Peter var komið fyrir inni í læstu herbergi þar sem fyrir voru önnur börn, skjálfandi af hræðslu vegna þess sem þau áttu í vændum.

 

Peter Williamson (1730-1799) ritaði mörgum árum síðar minningar sínar þar sem hann greindi frá mannráninu:

 

„Ef fólk hafði börnin sín heima sendu sölumennirnir af stað útsendara sína sem tóku börnin af foreldrunum með valdi og ef barn hvarf, var samstundis gengið út frá því vísu að sölumennirnir frá Aberdeen ættu þátt í hvarfinu“.

 

Peter hafði rétt fyrir sér. Þegar The Planter lagði úr höfn frá Aberdeen sumarið 1743 voru alls 69 börn um borð í skipinu. Skipstjóri skipsins hafði keypt börnin og hugðist selja þau hæstbjóðanda á þrælamarkaðnum í Fíladelfíu. Í Bandaríkjunum beið barnanna hörmuleg tilvera í neðsta þrepi samfélagsins. Aðeins ein hugsun kom í veg fyrir að hugrekki vesalings barnanna brysti: Dag einn verð ég frjáls á ný.

 

Þrælahaldið var nefnilega aðeins tímabundið en gerð var grein fyrir í samningi hversu mörg ár börnin þyrftu að þræla til að eiga möguleika á að öðlast frelsi á nýjan leik, ef þau þá ekki voru dáin þegar þar kom sögu.

 

Fátæklingar narraðir með svikum og prettum

Fyrsta skipið sem flutti börn frá Englandi lagðist að bryggju í Ameríku árið 1619, einungis tólf árum eftir að lagður hafði verið grunnur að fyrstu viðvarandi ensku nýlendunni í Virginíu. Um var að ræða alls 108 drengi og 28 stúlkur.

 

Börnin voru á aldrinum 8 til 16 ára og áttu öll rætur að rekja til Lundúna þar sem yfirvöldum hafði hugkvæmst að slá tvær flugur í einu höggi: Annars vegar að losna við hin svokölluðu götubörn sem héldu til á götum borgarinnar og hins vegar að útvega vinnuafl á plantekrurnar í Bandaríkjunum.

 

Í ljós hafði komið að jarðvegurinn í nýlendunni Virginíu hentaði afbragðs vel fyrir tóbaksrækt en mikils vinnuafls var þörf þegar kom að uppskeru tóbaksins. Skortur var á vinnuafli í Virginíu en í Englandi var aftur á móti að finna milljónir þeirra sem yfirstéttin áleit vera óæskilega íbúa.

 

Betlarar, byltingarsinnaðir Írar, flækingar og óáreiðanlegir kaþólikkar voru í hópi þeirra sem ætlunin var að senda yfir Atlantsála. Þúsundir höfðu verið dæmd til þrælkunarvinnu í Norður-Ameríku og viðlíka margir undirrituðu sjálfviljugir samning um að flytjast af landi brott. Samviskulausir leppar sömdu blaðagreinar þar sem fram kom að gull og grænir skógar biðu allra sem flyttu til Ameríku.

 

Fátæklingar höfðu síður en svo efni á farmiðanum vestur um haf og undirrituðu þess í stað samninga sem gerðu þeim kleift að greiða fyrir ferðina með vinnuframlagi sínu.

 

Þegar þeir höfðu undirritað slíka samninga fengu þeir stöðu þeirra sem Englendingar sögðu vera „skuldbundna með ráðningarsamningi“, þeir gerðust með öðrum orðum samningsþrælar. Með undirskriftinni skuldbatt fólkið sig til að starfa sem þrælar í þrjú til sjö ár. Að launum hlutu þau ekkert annað en fæðu og húsaskjól.

 

Samningar barna voru yfirleitt þeir sem giltu hvað lengst, gjarnan fram á fullorðinsár. Margir þessara samninga fólu jafnframt í sér loforð um að fólksins biði frjósamur jarðskiki eftir margra ára erfiðisvinnu en raunar áskotnaðist fæstum slík umbun.

 

Samningarnir voru yfirleitt ritaðir á máli sem ólærðir skildu ekki og textinn virtist vera vita meinlaus. Í raun réttri var hins vegar um þrældóm að ræða. Fyrir mörgum samningsþrælum átti þó aldrei eftir að liggja að starfa í Ameríku því þeir létust á leiðinni þangað.

 

Hættulegir smitsjúkdómar geisuðu í yfirfullum skipunum og í sumum tilvikum andaðist um helmingur þrælanna á leiðinni vestur um haf.

 

Svartir og hvítir þræluðu saman

Í hvert sinn sem skip hafði viðkomu í breskri höfn í Ameríku birtust auglýsingar þess eðlis í blöðunum sem gerðu kaupendum kleift að mæta um borð og virða fyrir sér „varninginn“.

 

„Þeir skoðuðu okkur líkt og hestaprangarar skoða hross hér á landi, með því að skoða í okkur tennurnar og aðgæta hvort limir okkar væru sterklegir og hæfðu vinnu“, sagði William Green sem kom til Ameríku sem refsifangi.

 

Aðrir höfðu orð á því hve lítill munur væri á því hvernig komið væri fram við svarta þræla annars vegar og hvítu samningsþrælana hins vegar:

 

„Ég hef aldrei augum litið vesælla fólk á ævi minni. Sumir voru næstum berir og þeir sem voru klæddir fötum voru nánast svartir eins og sótarar. Allir sultu þeir fyrir þær sakir hvernig skipstjórinn kom fram við þá á siglingunni og voru engu meira virði en svörtu þrælarnir. Þeir voru seldir á mörkuðum líkt og við á um nautgripi og hross“, ritaði vefari einn sem orðið hafði vitni að uppboði árið 1758.

 

Bresku samningsþrælarnir voru seldir hæstbjóðanda og eigandi þeirra hafði rétt til að láta þá inna af hendi hvaða vinnu sem var, beita þá refsingum fyrir óhlýðni eða selja þá öðrum, ef honum svo hugnaðist.

 

Á sama tíma komu fyrstu afrísku þrælarnir á tóbaksakrana í Norður-Ameríku og voru í raun samningsþrælar, líkt og hvítir þjáningarbræður þeirra, á fyrstu árum nýju nýlendunnar.

 

Ekkert bendir til þess að nokkur sérlegur munur hafi verið á meðferðinni á svörtum og hvítum þrælum framan af.

Þrælar gátu fengið eftirsjá en enginn hafði efni á slíku

Þegar samningsþrælarnir höfðu undirritað samninginn var eigendum þeirra skylt að sjá þeim fyrir fæðu og húsnæði. Laun voru engin og þess vegna höfðu fæstir möguleika á að kaupa sér frelsi.

 

Auðvelt var að telja fátæku og illa upplýstu fólki trú um að þeirra biði glæst framtíð í Norður-Ameríku. Staðlaði samningurinn fyrir sjálfviljugt þrælahald eða það sem Bretar nefndu ráðningarsamning fyrir sjálfviljugt þrælahald (samningsbundinn þrældóm), gaf til kynna að fólkið fengi stöðu lærlinga.

 

Í þessum samningi frá árinu 1823 sem varðveist hefur mjög vel, stendur t.d. „að Nancy Hudson […] ráði og festi son sinn Evan Morgan sem lærling, með samþykki friðdómarans Tilghmans Layton“.

 

Kaupandinn skuldbatt sig til að kenna drengnum sem þá var sex ára, „listina og leyndardómana sem tengdust rekstri landbúnaðar“. Erfiðisvinnan óx jafnt og þétt eftir því sem drengurinn varð eldri. Í raun og veru var ekki um annað að ræða en samningsbundið þrælahald.

 

Stöðluðu samningarnir innihéldu jafnframt fyrirvara sem fólst í því að þrællinn gæti keypt sér frelsi gegn fyrirfram ákveðinni upphæð en þetta hljómaði þó betur en raunin var.

 

Þrælarnir voru bláfátækir þegar þeir undirrituðu samningana og hlutu engin laun fyrir vinnu sína, svo nánast engir losnuðu úr þrælahaldinu áður en samningstíminn var runninn út.

1. Móðir seldi son sinn

Á árunum upp úr 1820 ríkti svo mikil örbirgð í stórum hlutum breska heimsveldisins að foreldrar beittu því ráði að selja börn sín í von um að þau syltu ekki hjá væntanlegum eigendum sínum. Árið 1823 seldi ekkjan Nancy Hudson bandarískum bónda sex ára gamlan son sinn, Evan Morgan.

2. Frelsið beið á fullorðinsárum

Börn voru gjarnan hneppt í ánauð þar til þau urðu 18 eða 21 árs gömul. Fyrir Evan Morgan átti það eftir að liggja að vera eign bóndans sem greiddi fyrir hann, næstu 14 ár og einn mánuð eða allt þar til hann næði 21 árs aldri. Fullvaxta þrælar gátu látið sér „nægja“ þriggja til sjö ára ánauð.

3. Keyptur fyrir 20 dollara

Drengurinn Evan Morgan var seldur fyrir 20 dollara, upphæð sem samsvaraði árslaunum vinnumanns í sveit í þá daga.

Landareign þrælanna féll eigendunum í skaut

Vinur okkar, Peter Williamson, var einn þeirra fáu sem lánið lék við. Hann var keyptur fyrir 16 pund og þjónaði Skota að nafni Hugh Wilson í sjö ár. Skotanum hafði sjálfum verið rænt sem barni og hann hafði mikla samúð með Peter.

 

Komið var vel fram við drenginn á plantekrunni og þegar Peter Wilson lést árið 1750 hafði hann ánafnað Peter alls 200 pund, auk þess sem hann arfleiddi piltinn sem var orðinn tvítugur þegar þarna var komið sögu, að hesti sínum, hnakki og öllum fatnaði.

 

Fæstir urðu jafn lánsamir og Peter. Flestir þræluðu og puðuðu í tólf tíma á dag, sex daga vikunnar. Fyrstu samningsþrælarnir á 17. öld erfiðuðu þó sýnu mest. Ryðja þurfti skóg á landareignum í nýlendunum á austurströnd Ameríku til þess að landeigendurnir hefðu aðgang að frjósömum jarðveginum sem þeir gátu ræktað upp.

 

Vinnan var öll unnin með handafli og lögin hvöttu plantekrueigendurna til að ryðja ofgnótt lands. Í bresku nýlendunum hafði hver jarðareigandi rétt á 20 hekturum af landbúnaðarjörð en það svæði samsvarar alls 28 fótboltavöllum.

 

Reglan átti enn fremur við um samningsþræla en landareign þeirra féll raunar eigendum þeirra í skaut sem ekki höfðu einungis upp úr krafsinu margra ára ódýrt vinnuafl heldur gafst þeim enn fremur kostur á að auka verulega við landareign sína.

 

Samningsþrælarnir puðuðu ekki einvörðungu úti á ökrunum, heldur reistu þeir jafnframt tíguleg hús sem eigendurnir bjuggu í á meðan þrælarnir sjálfir sváfu á gólfinu í hrörlegum kofum.

 

Vetrinum var svo varið í meira skógarhögg og á öðrum tímum árs var verið að sá, reyta illgresi og að huga að tóbaksplöntunum frá sólarupprás til sólseturs.

 

Þegar dimma tók þurfti að sinna öðrum verkum, m.a. að baka kornbrauð sýknt og heilagt en sú matargerð krafðist þess að maískjarnarnir væru malaðir í stærðarinnar mortélum með þungum viðarstauti.

 

„Þegar svo löngum vinnudegi er lokið verðum við að skreppa aðeins í mylluna, fram að miðnætti eða til klukkan eitt, þar sem við mölum kornið viðstöðulaust, förum svo á fætur aftur við sólarupprás og höldum áfram að starfa“, líkt og segir í vísu frá þeim tíma.

 

Fáir lögðu í að lögsækja eigendur sína

Erfið vinna og léleg fæða gerðu samningsþrælana veiklaða með þeim afleiðingum að þeir þoldu illa umgangspestir. Á fyrstu áratugunum sköpuðu stöðugar árásir indíána þrælunum eilífa hættu sem kostaði marga þeirra lífið. Allt átti þetta þátt í að rösklega helmingur samningsþrælanna lést áður en samningur þeirra rann út.

 

Barnaþrælum var heldur ekki þyrmt, eins og fram kemur í gögnum frá þessum tíma. Aðeins fáein skip lögðu í siglingu yfir Atlantshafið á öndverðri 17. öld og á árunum 1619 til 1622 komu aðeins 300 börn til Norður-Ameríku sem samningsþrælar. Árið 1624 voru einungis tólf þessara barna enn á lífi.

 

Dánartíðnin hefði getað verið miklu lægri og í raun réttri voru samningsþrælar í fullum rétti til að lögsækja eigendur sína ef þeir síðarnefndu sáu þrælunum ekki fyrir nægilegum mat eða komu óþarflega illa fram við þá. Þess ber þó að geta að þeir fáu sem lögðu í slík dómsmál biðu oftast lægri hlut. Þeir sem dæmdu í slíkum málum voru nefnilega sjálfir plantekrueigendur og höfðu sjálfir marga samningsþræla á sínum snærum.

Tóbak var mikilvægasta afurð landnemanna á 17. öld. Plantan þurreys jarðveginn af öllum næringarefnum og fyrir vikið þurftu þrælarnir sífellt að leggja grunn að nýjum ökrum.

Plantekrueigendurnir réðu aðeins yfir þrælum sínum í tiltekinn árafjölda og fyrir vikið kröfðust margir eigendur óhóflegs vinnuframlags af þrælunum til þess að bera hvað mest úr býtum á meðan þrælanna naut við. Veiklaðir og gamlir sem ekki höfðu nægilega starfsorku, gátu iðulega fengið sig lausa undan samningunum og þeim vísað út á guð og gaddinn. Með þessu móti sluppu þrælaeigendurnir við að greiða fæðu fyrir þá þræla sem lítið gáfu í aðra hönd.

 

Samningsþrælar gengu í erfðir í Norður-Ameríku, frá föður til sonar. Í gögnum frá árinu 1673 má sjá að plantekrueigandinn Tómas Carter skildi eftir sig fimm stóðhesta, fjórar hryssur, 42 nautgripi, 22 svín, 5.500 pund af tóbaki, smíðaverkfæri sem metin voru til jafns við 400 pund af tóbaki, fjögur rúm og fjóra samningsþræla, þar af tvo með þriggja ára þjónustutímabil, einn með fimm ár og þann síðasta fjögur ár, erfingjum þeirra til handa.

 

Flótti gat kostað eyrun

Líf margra samningsþræla gat orðið þeim svo óbærilegt að þeir hlupust á brott frá eigendum sínum. Í bandarískum blöðum var lýst eftir mörgum þeirra og í löggjöf í Virginíu var sífellt verið að herða viðurlögin fyrir óhlýðni og flótta. Refsingin gat verið fólgin í því að þrælarnir fengju vandarhögg á almannafæri, væru brennimerktir ellegar eyrun skorin af þeim. Við það bættist svo lenging þrælkunartímabilsins.

 

Fyrst í stað hljóðaði dómurinn upp á tvo aukalega daga í ánauð, fyrir hvern dag sem sakborningurinn hafði verið fjarverandi en dögunum fjölgaði síðan upp í fimm og tíu daga.

 

Refsingin endurspeglaði hve mikið plantekrueigendurnir óttuðust að ódýrt vinnuafl þeirra myndi hverfa með öllu eða hefna sín og þeir höfðu sennilega fulla ástæðu til að óttast hvort tveggja, þegar höfð er í huga blóði drifin frásögnin af Tómasi Hellier.

Kaldhæðni örlaganna var sú að Andrew Johnson varð sjálfur þrælaeigandi sem fullorðinn maður. Hann leysti hins vegar tíu þeldökka þræla sína úr ánauð árið 1863 og réð þá gegn föstum launum í staðinn.

Forseti Bandaríkjanna flýði eiganda sinn

Þegar Abraham Lincoln var myrtur í apríl árið 1865 hlaut varaforsetinn, Andrew Johnson, forsetaembættið. Þessi nýi forseti Bandaríkjanna hafði verið samningsþræll hjá klæðskera í æsku.

 

Andrew Johnson var einungis þriggja ára að aldri þegar faðir hans lést. Andlát hans bitnaði illa á fjölskyldunni fjárhagslega og þó svo að móðir hans gengi í hjónaband á nýjan leik var efnahagur hennar svo bágborinn að hún neyddist til að selja syni sína.

 

Fyrst var eldri sonurinn seldur klæðskera í fylkinu Norður-Karólínu þar sem fjölskyldan bjó. Þegar Andrew litli var orðinn tíu ára gamall keypti klæðskerinn einnig hann. Samkvæmt samningunum skyldu báðir drengirnir fullnema sig í klæðskeraiðn og vera í ánauð þar til þeir næðu 21 árs aldri.

 

Þegar Andrew var 17 ára gamall hafði hann hins vegar fengið sig fullsaddan og báðir bræðurnir stungu af. Þó svo að klæðskerinn léti lýsa eftir bræðrunum og lofaði tíu dollurum í fundarlaun fyrir þá, fundust þeir aldrei.

 

Andrew Johnson opnaði síðar meir eigin klæðskerastofu í nágrannafylkinu Tennessee. Klæðskeraverkstæði hans varð vettvangur ýmissa stjórnmálaumræðna og þannig hófst ferill hans á sviði stjórnmála sem síðar meir átti eftir að verða til þess að hann varð forseti Bandaríkjanna.

Leikarar í verkum Shakespeares máluðu sig svarta á 16. öld af þeirri einföldu ástæðu að enga þeldökka leikara var að finna. Lagður var grunnur að einkar óheppilegri hefð og leikhúslist fór að einkennast af kynþáttahatri.

Saga Helliers hófst árla morguns vorið 1678. Friður og spekt ríktu á plantekrunni sem bar hið lýsandi nafn „Hard Labour“ (Erfiðisvinna) á meðan eigandinn Cuthbert Williamson og eiginkona hans enn sváfu svefni hinna réttlátu.

 

Einungis samningsþræll þeirra Tómas Hellier var vaknaður. Hann klæddi sig hægt og rólega í spariföt sín, greip öxi sína og gekk upp að aðalbyggingunni. Þar ruddist hann inn í svefnherbergið þar sem hann fann eigendur sína. Með einu höggi greiddi hann eiganda sínum Cuthbert Williamson leið inn í eilífðina.

 

Eiginkonan byrjaði að öskra. Hún stökk út úr rúminu og greip stól sem hún reyndi að verja sig með. Hellier reiddi öxina á loft en þegar þar var komið sögu reyndi þjónustustúlka ein að ganga í milli. Þetta varð hennar bani og brátt streymdi blóð úr líkunum þremur í svefnherberginu.

 

Tómas Hellier naut frelsisins ekki lengi og fyrr en varði hafði sagan af samningsþrælnum sem gekk berserksgang, frést um alla Virginíu. Í fangaklefanum sagði fanginn dauðadæmdi presti nokkrum frá lífshlaupi sínu. Á meðan Tómas enn bjó í Englandi hafði hann frétt hve erfitt lífið á plantekrunum í Ameríku væri. Eftir að hafa innbyrt nokkrar flöskur af gini hafði hann engu að síður undirritað þrælasamning hjá sölumanni einum.

 

Þegar Cuthbert Williamson hafði fest kaup á manninum hafði plantekrueigandinn lofað því að þrællinn ætti fyrst og fremst að kenna börnum hans og ætti í algerum undantekningartilvikum að inna af hendi erfiðisvinnu. Þetta voru að sjálfsögðu ósannindi. Akurvinna, ofbeldi og lágmarksskammtar af mat urðu nú daglegt brauð hjá Englendingnum sem reyndi ítrekað að strjúka úr vistinni en hlaut sem refsingu vandarhögg og enn lengri samningstíma.

 

Næsta dag stóð maðurinn í gálganum og iðraðist gjörða sinna en fordæmdi að sama skapi allt samningsþrælafyrirkomulagið og þá sölumenn, skipstjóra og plantekrueigendur sem möluðu gull vegna ógæfu annarra.

Ástir hvítra þræla bannaðar

Samningsþrælar í Ameríku voru nánast algerlega réttlausir í þann tíma sem þeir voru samningsbundnir. Lagalega séð voru þeir eign annarra og þá mátti selja, líkt og átti við um þræla frá Afríku. Líf þeirra stjórnaðist af hinum ýmsu reglum.

Hjónaband bannað

Eigandinn réð því alfarið hvort samningsþrællinn mætti ganga í hjónaband meðan á ánauðinni stóð. Yfirleitt gafst ekki leyfi til þess. Gifting í leyfisleysi gat leitt af sér lengingu samningstímabilsins.

Seldir á þrælamörkuðum

Hvítir þrælar voru seldir á uppboði eftir komuna til Ameríku. Kaupendurnir aðgættu tennur þeirra og þukluðu á vöðvunum. Samningsþrælar höfðu engin áhrif á það hjá hverjum þeir enduðu né heldur við hvað þeim væri ætlað að starfa.

Lítillækkaðir niður í vöru

Samningsþræll var vara og eigandinn hafði leyfi til að selja hann eða hana öðrum. Í gögnum er að finna mörg dæmi um erfðaskrár þar sem samningsþrælar ganga í erfðir til þess erfingja sem taka skyldi við plantekrunni.

Þungun gerði kröfur um bætur

Ef ambátt varð þunguð, var eiganda hennar heimilt að lengja samningstímabilið í því skyni að fá bætur fyrir þann tíma sem hún var óvinnufær vegna meðgöngunnar. Sama dagafjölda var enn fremur bætt við í refsingarskyni.

Grimmileg refsing

Lögin í bresku nýlendunum heimiluðu eigendunum að berja samningsþræla sína. Ef um var að ræða alvarlegar yfirsjónir á borð við flóttatilraun var þrælnum refsað opinberlega með svipu, brennimerkingu eða afskornum eyrum.

Rétturinn gat framlengt ánauðina

Samningstímabil þræla sem reyndu að flýja lengdist sem nam tveimur aukalegum dögum fyrir hvern dag sem þeir höfðu horfið á brott. Í endurtekningartilvikum nam refsingin fimm til tíu aukalegum dögum fyrir hvern dag sem þrælana hafði vantað. Refsingin fyrir óhlýðni og og leti gat numið allt að tveggja ára aukalegri ánauð.

Örlítið réttlæti

Ofbeldisverk Tómasar Hellier og uppreisn á árunum 1676- 1677, þar sem svartir og hvítir þrælar börðust hlið við hlið, höfðu áhrif á almenningsálitið í Virginíu. Andstaða gegn samningsþrælunum jókst til muna en margir óttuðust fjölgun refsifanga og æstra uppreisnarseggja.

 

Plantekrueigendur í Ameríku voru orðnir þreyttir á að gegna hlutverki sorphirðu fyrir enska föðurlandið. Stjórnmálaskörungar í nýlendunni reyndu að innleiða gjöld sem gerðu samningana of dýra en þeir í London beittu neitunarvaldi í hvert sinn.

 

Í Englandi var farið að heyrast í aðstandendum samningsþrælanna og einn þeirra sem hafði hvað hæst var Peter Williamson.

 

Eftir að hafa tekið þátt í styrjöldum landnema gegn indíánum sneri hann heim til Skotlands á nýjan leik þar sem hann hóf nýja baráttu. Hann vildi uppræta sölu með börn sem rænt hafði verið og skrifaði um ofbeldið í dagblað sitt „The Scots Spy or Critical Observer“.

 

Hér gat hver sem vildi m.a. lesið að „þessi börn eru stundum seld miskunnarlausum og illa innrættum eigendum hvaðan þau iðulega reyna að strjúka til að losna undan grimmilegri meðferðinni sem þau eru beitt. Þeim reynist nánast ógerlegt að flýja og oftast nást þau og eru send til baka til eigendanna“.

 

Auk þess að þurfa að þola líkamlega refsingu beið strokufanganna jafnframt fjárhagslegt tjón:

 

„Þeir þurftu sjálfir að greiða fyrir kostnað sem hlaust af því að lýst var eftir þeim, svo og kostnað vegna heimferðarinnar og hver strokutilraun lengdi oft samningstímabilið fjór- eða fimmfalt“.

 

Williamson sótti spillta embættismenn frá Aberdeen til saka og málaferlunum lyktaði með því að hann bar sigur úr býtum. Honum voru dæmdar bætur sem námu hundrað enskum pundum en sú upphæð samsvarar um 40 milljónum íslenskra króna í dag.

Annesley gerði m.a. tilkall til hallar einnar í írska héraðinu Dunmain og titilsins sem jarlinn af Anglesey.

Drengur sem rænt var krafðist arfs síns

Það heyrði til algerra undantekninga að samningsþrælar sneru heim frá Ameríku en árið 1741 brá fégráðugum föðurbróður drengsins James Annesleys heldur betur í brún. Hann hafði nefnilega látið ræna bróðursyni sínum til þess að tryggja sjálfum sér óðalseign ættarinnar.

 

Þegar Altham lávarður lést árið 1727 eygði bróðir hans tækifæri til að eignast herragarðinn og komast yfir titilinn sem jarlinn af Anglesey. Aðeins eitt stóð í vegi fyrir þessu: Tólf ára gamall sonur Althams lávarðar var réttmætur erfingi. Föðurbróðirinn fégráðugi lét fyrir vikið ræna frænda sínum og sigla með hann til Ameríku.

 

Þar varði James tólf árum sem samningsþræll á plantekru í Delaware-héraði áður en honum loks tókst að flýja til Fíladelfíu og komast siglingaleiðina til Jamaíka. Árið 1740 réð hann sig til breska flotans og sigldi sem liðsforingjaefni hjá hinum þekkta flotaforingja Vernon.

 

Ári síðar hætti hann í hernum um leið og hann kom til Englands og hóf erfiða baráttu við að freista þess að endurheimta arf sinn. Þegar James varð það á að skjóta einn af hinum veiðimönnunum við veiðar reyndi frændinn að fá hann dæmdan fyrir morð.

 

James fór til Írlands þar sem hann gerði kröfu um föðurarf sinn fyrir dómstólum en var hafnað sem loddara. Hann bar svo loks sigur úr býtum eftir áfrýjun en hann lést aðeins 44 ára gamall áður en hann hafði náð að njóta auðæva sinna.

Hættu ekki að nota hvíta þræla

Samningsþrælahaldið fór fyrst að láta undan síga þegar Bandaríkjamenn byrjuðu að reyna að losa sig undan yfirráðum Breta og bandaríska frelsisstríðið hófst en það stríð varði frá árinu 1775 til 1783.

 

Upplýsingar frá Fíladelfíu gefa til kynna að hlutfall samningsþræla í borginni hafi lækkað úr 16% niður í 6% meðan á frelsisstríðinu stóð. Þegar sigurinn loks var í höfn kærðu Bandaríkjamenn sig ekki lengur um að gegna hlutverki sorptunnu sem Bretar gætu losað sig við óæskilega aðila í.

 

Stjórnarskrá Bandaríkjanna sem þá var glæný, fól í sér of mörg fögur hugtök um frelsi og jafnrétti til að hægt væri að réttlæta samningsþrælahaldið um aldur og ævi, þó svo að plantekrueigendurnir óttuðust að þeim tækist ekki að útvega nægilega mikið af ódýru vinnuafli. Lausnin á þessum vanda var að nota fleiri þeldökka þræla.

 

Þrátt fyrir að glata norðuramerísku nýlendunum héldu Bretar um tíma áfram að flytja úr landi til Ameríku glæpamenn og aðra þá sem þóttu vera óæskilegir þjóðfélagsþegnar. Andstæðingar samningsþrælahaldsins hlutu hins vegar brautargengi í þinginu sem samþykkti árið 1803 hin svonefndu farþegalög. Lögum var ætlað að bæta hreinlætisaðstæður og fæðuna um borð í skipum sem sigldu með samningsþræla til nýlendnanna. Leyndur tilgangur laganna var að gera siglinguna svo kostnaðarsama að þrælasala legðist af.

 

Bretum tókst engu að síður að senda ekki færri en 500.000 samningsþræla til Karíbahafseyja á 18. og 19. öld. Árið 1807 lögðu Bretar loks bann við þrælasölu en bönnuðu raunar ekki þrælaeign, svo þessi nýju lög stöðvuðu samningsþrælahald heldur ekki. Einnig í Bandaríkjunum var haldið áfram að nota hvíta þræla á ökrunum í þó nokkurn tíma eftir þetta.

 

Það var svo ekki fyrr en árið 1827, þ.e. 51 ári eftir að fögur orð sjálfstæðisyfirlýsingarinnar fyrst litu dagsins ljós sem samningsþrælahald var bannað í Bandaríkjunum. Sjö árum síðar lögðu Bretar bann við öllu þrælahaldi í gjörvöllu breska heimsveldinu og hófu að elta uppi þrælaskip á Atlantshafi.

Indverskir samningsþrælar unnu erfiðisvinnu á breskum te-, sykur- og bómullarplantekrum í átta áratugi.

Indverjar síðustu samningsþrælarnir

Þó svo að Bretar berðust fremstir í fylkingu gegn þrælahaldi árið 1834, héldu þeir áfram að hneppa fólk í ánauð allt fram að fyrri heimsstyrjöld. Fórnarlömbin voru nefnilega ekki Bretar, heldur íbúar nýlendna þeirra.

 

Árið 1837 sigldi skip eitt frá Kalkútta á Indlandi til Georgetown í Bresku Gvæana í Suður-Ameríku. Um borð í skipinu var stór hópur indverskra samningsþræla sem höfðu skrifað undir samning um fimm ára erfiðisvinnu á sykurplantekrum í nýlendunni. Laun yrðu engin, heldur einungis húsnæði, fæði og læknisþjónusta. Ferð þessi markaði upphafið að þrælahaldi yfir samningsbundnum Indverjum í nýlendum víðs vegar um heiminn.

 

Allt að 1,6 milljónir verkamanna undirrituðu slíka samninga og enduðu í eins konar ánauð sem líktist því sem fátækir Englendingar og Írar höfðu þurft að þola í Ameríku. Mörg þúsund þeirra létust og aðgerðarsinnar í Englandi kvörtuðu undan aðstæðunum strax í upphafi en fjárhagslegur ávinningur reyndist vera svo mikill fyrir plantekrueigendurna að Indverjarnir héldu áfram að lifa sem „coolies“, líkt og ófaglærðir indverskir verkamenn voru kallaðir á niðrandi hátt.

 

Samningsþrælahaldið lagðist ekki af fyrr en árið 1917, annars vegar vegna þrýstings stjórnmálamanna á Indlandi og hins vegar vegna þess að Bretar höfðu þörf fyrir indverska hermenn í fyrri heimsstyrjöld. Þrælahaldið skildi eftir sig ummerki í stórum hluta heimsins: Nú á dögum er t.d. að finna stóra minnihlutahópa Indverja í Suður-Afríku, Austur-Afríku, Márítíus, Malasíu og Karíbahafi.

Lesið meira um hvíta þræla í Bandaríkjunum

  • Don Jordan & Michael Walsh: White Cargo: The Forgotten History of Britain’s White Slaves in America, NYU Press, 2008

HÖFUNDUR: SØREN FLOTT

Heritage Images/Getty Images, Petro Kuprynenko/Dreamstime.com. © Centpacrr/en.wikipedia/Wikimedia Commons, Shutterstock. © Hulton Archive/Staff/Getty Images. © Buyenlarge/Getty Images. © Robert O’Byrne/The Irish Aesthete, National Gallery of Ireland/Wikimedia Commons. © Bourne & Shepherd/Wikimedia Commons.

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Alheimurinn

Stjörnufræðingar finna fyrstu frumvísa að Vetrarbrautinni

Maðurinn

Hve hratt fer blóðið um líkamann?

Lifandi Saga

Fjöldamorð SS leiddi til miskunnarlausrar hefndar

Lifandi Saga

Hvað var gula?

Náttúran

Öflugasta bit heims – Hér eru fimm dýr sem ekki væri gott að enda í skoltinum á

Náttúran

Geta elliglöp herjað á hunda?

Lifandi Saga

Martröð í Mogadishu

Náttúran

Eðlisfræðingar afnema hlutlægan raunveruleika 

Lifandi Saga

Af hverju vill Indland heita Bharat?

Lifandi Saga

Hve mikið af gulli fannst í gullæðinu?

Alheimurinn

Með þvergöngu Venusar var hægt að mæla sólkerfið

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.790 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is