Lifandi Saga

Hin ljóta ásjóna kynþáttahatursins

Leikarar í verkum Shakespeares máluðu sig svarta á 16. öld af þeirri einföldu ástæðu að enga þeldökka leikara var að finna. Lagður var grunnur að einkar óheppilegri hefð og leikhúslist fór að einkennast af kynþáttahatri.

BIRT: 14/09/2023

Bandaríski leikarinn Thomas Dartmouth Rice vakti mikla hrifningu þegar hann kynnti nýja persónu sína til sögunnar á skemmtistöðum í Bandaríkjunum árið 1928. Persónan kallaðist „Jim Crow“ og dökkur maðurinn var sannkallaður furðufugl.

 

„Jim Crow“ dansaði á sviðinu í götóttum skóm og tötrum á meðan hann söng um allar stúlkurnar sem hann hugðist kyssa. Það sem laðaði fram hláturinn meðal hvítra áhorfendanna var andlitið á Rice. Leikarinn sem var í raun með skjannahvítan hörundslit, hafði nefnilega farðað andlit sitt biksvart.

 

Einungis húðin umhverfis munninn var óförðuð og fyrir vikið virtust varirnar óvenju stórar og þykkar.

 

Áhorfendur voru ekki lengi að átta sig á að þessi kjánalega persóna á sviðinu átti að tákna þær tvær milljónir íbúa landsins sem voru af afrískum uppruna og hvíti maðurinn notaði sem þræla, einkum á plantekrunum í Suðurríkjunum.

 

Sagnfræðingar telja Rice hafa verið fyrsta leikarann sem byggði persónu sína á því að gera gys að þeldökku fólki með því að sverta á sér andlitið og ýkja jafnframt andlitsdrætti svartra. Margir áttu eftir að fylgja í fótspor Rice. Næstu rösklega hundrað árin áttu „svartfés“ eftir að vera mikilvægt vopn í baráttu þeirra sem vildu halda þeldökkum á botni þjóðfélagsins.

Andlitið litað með kolum og skósvertu

Söngvarar og leikarar notuðu öll ráð til að fá fram hið fullkomna „svartfés“ og meira að segja bandarískir leikarar af afrískum uppruna notfærðu sér gervilit til að ná fram fullkomnum kolbikasvörtum húðlit.

Kolablanda var auðveld í meðförum

Einfaldasta leiðin til að búa til svartan andlitsfarða fólst í að setja nokkra korktappa í eldfast ílát, t.d. blikkfötu og kveikja í. Eldurinn brenndi korktappana svo úr varð fíngert, svart koladuft sem auðvelt var að bera á andlitið, t.d. blandað með ólífuolíu. Auðvelt var að útbúa litinn og hann léði húðinni djúpan og jafnan lit.

Sviti vann ekki á litnum

Leikhúsfarði, gerður úr litarefni sem blandað var við fitu eða tólg, kom fram á sjónarsviðið undir lok 19. aldar. Farðinn hafði svipaða áferð og þykkt stifti og honum mátti smyrja beint á andlitið. Aðferðin léði húðinni náttúrulegan gljáa og vann gegn svita sem gerði það að verkum að farðinn naut vinsælda meðal þeirra sem þurftu að dansa erfiða dansa á sviði.

Skósverta entist vel

Skósvertu var hægt að kaupa nánast hvar sem var frá upphafi 20. aldar og þykkur, kremkenndur farðinn léði húðinni djúpsvartan lit. Farðinn entist einkar vel og fyrir vikið var erfitt að fjarlægja hann, auk þess sem leikararnir kvörtuðu undan því að kemísku efnin í honum ertu húð þeirra.

Þó svo að Thomas Dartmouth Rice hafi kynnt til sögunnar „svartfés“ í þeirri mynd sem við þekkjum þau í dag, nær hefðin miklu lengra aftur. Undir lok 16. aldar kom sminkaður, hvítur maður fram sem þeldökki márinn Aron í harmleik Shakespeares „Titus Andronicus“.

 

Útlit persónunnar hefur varðveist á teikningum gerðum af enska rithöfundinum Henry Peacham sem sá leikritið árið 1595. Á teikningum hans má sjá að leikarinn, auk þess að vera litaður svartur í framan, var einnig látinn vera með hrokkinhærða hárkollu.

 

Hvítir máluðu sig af neyð

Ástæða þess að leikarar á 16. öld máluðu sig svarta var einfaldlega sú að engir þeldökkir leikarar störfuðu í London, þrátt fyrir að þeldökkt fólk væri ekki óalgeng sjón á götum borgarinnar og leikhóparnir leystu vandann með því að farða andlit hvítra leikara.

 

Samkvæmt heimildum fræðimanna voru ekki færri en 70 uppfærslur í leikhúsum Lundúnaborgar á árunum 1579 til 1642. Árið 1603 lét Shakespeare meira að segja svarta persónu, Óþelló, vera aðalpersónuna í leikriti sem bar sama heiti.

 

Enska leikhúshefðin barst yfir Atlantsála með landnemum sem tóku sér búsetu á austurströnd Norður-Ameríku. Sömu sögu er að segja af þeirri hefð að sverta andlit hvítra leikara.

 

Í Englandi höfðu þeldökku persónurnar verið látnar tákna framandlegar persónur frá fjarlægum slóðum en í Ameríku léku svartmáluðu leikararnir hins vegar afríska þræla.

Brátt kom fram heill hópur persóna sem allar byggðu á fordómum.

Landnemarnir litu niður á þeldökku íbúana og kunnu fyrir vikið best að meta leikrit sem sýndu þeldökka einstaklinga eða öllu heldur hvíta leikara sminkaða svarta, í hlutverki óþokka. Mesta hrifningu vakti leikritið um hinn þeldökka Óþelló sem myrðir í afbrýðiskasti hvíta eiginkonu sína frá Feneyjum, Desdemónu.

 

Leikritið sem fjallar í raun um mennskar tilfinningar á borð við ást, tryggð og öfund, staðfesti þá trú landnemanna að þeldökkt fólk væri ofbeldishneigt og að „kynþáttablöndun“ væri með öllu ótæk.

 

„Svartfés“ réttlætti þrælahald

Meðvituð notkun leikaranna á ýktum, svartmáluðum andlitum til að gera þeldökka að athlægi og skrímslavæða þá, hófst þó ekki fyrir alvöru fyrr en upp úr 1830 þegar Rice og starfsbræður hans birtust á sviði með svartmáluð andlit en hugtakið „svartfés“ (blackface) átti eftir að vera á hvers manns vörum næsta áratuginn á eftir.

 

Í leikþáttum, einleikjum og danssýningum skrumskældu leikarar tal, dans og söng þeldökkra og brátt kom til sögunnar heill aragrúi af persónum sem allar byggðu á fordómum.

 

Meðal þekktustu persónanna , auk „Jim Crow“, var „Zip Coon“, fallega klæddur svartur þræll sem sló um sig með fínum orðum sem hann skildi ekki sjálfur, svo og Mammy, spikfeit, þeldökk kona sem ráðskaðist með allt og alla á sinn móðurlega hátt.

 

Sameiginlegt fyrir allar þessar persónur var að þær voru heimskar, latar, óttalegar rolur og með kynlíf á heilanum.

Kvikmyndaframleiðandinn Disney hefur einnig hlotið sinn skerf af gagnrýni. Gagnrýnendur eru þeirrar skoðunar að „svartfés“-krákurnar séu einu dugmiklu hetjurnar í sögunni, því þær einar hjálpi Dúmbó.

Barnamyndin „Dúmbó“ gagnrýnd

Teiknimyndir frá árunum 1930 til 1960 voru gagnrýndar fyrir ýkta lýsingu þeirra á þeldökkum. Í þessum hópi er m.a. krákukórinn í Disney-myndinni „Dúmbó“.

 

Áður en hinn vansæli fílskálfur Dúmbó uppgötvar hvers hann er megnugur, þ.e. að hann geti notað eyrun til að fljúga, rekst hann á fimm krákur uppi á símaleiðslunum. Enska orðið yfir kráku er einmitt „crow“ og foringi krákanna heitir svo Jim.

 

Þess vegna hefur teiknimyndin Dúmbó frá árinu 1941 í seinni tíð verið gagnrýnd fyrir að fela í sér svar teiknimyndanna við „svartfési“. Með því að vísa mjög svo greinilega í persónuna „Jim Crow“ úr leikritunum lætur Disney fuglana syngja jazzlag og leikarinn sem talaði fyrir Jim var hvítur og hafði sérhæft sig í að tala líkt og blökkumaður af afrískum uppruna, það sem í Ameríku kallast „talkin’ jive“.

 

Á Disney-heimasíðunni storiesmatter.thewaltdisneycompany.com viðurkennir fyrirtækið að gagnrýnin sé réttmæt: „Lagið með krákunum er til heiðurs söngleikjum þar sem hvítir leikarar með svartmáluð andlit, klæddir fatalörfum, brugðu sér í gervi blökkumanna og gerðu grín að þrælum á plantekrunum í Suðurríkjunum“.

 

Á öðrum stað í teiknimyndinni erfiða svartir starfsmenn hringleikahúss við að setja upp tjald á meðan þeir syngja um sitt erfiða líf. Þeir virðast ekki hafa yfir að ráða almennri ábyrgðarkennd (þýtt úr ensku): „Þegar við fáum útborgað sólundum við öllum peningunum“, syngja þeir.

 

Nú geta börn ekki lengur streymt teiknimyndinni „Dúmbó“ að vild, heldur þarf aðgang fullorðins.

Tímasetning þessarar árásar á svarta íbúa landsins var heldur ekki alveg tilviljanakennd, því þrælum af afrískum uppruna hafði fjölgað gríðarlega árin á undan.

 

Sagnfræðingar meta sem svo að um 157.000 manns hafi verið rænt frá Afríku á 18. öld og þeir þvingaðir til að fara til nýja heimsins. Árið 1781 voru hartnær 575.000 þrælar í Bandaríkjunum og um hálfri öld síðar hafði þeim fjölgað upp í tvær milljónir.

 

„Jim Crow“ hélt þeldökkum í skefjum

Þremur árum eftir að Rice kynnti Jim Crow til sögunnar á sviði var bundinn endi á þrælahald eftir blóðuga borgarastyrjöld. Brátt hlutu allir fyrrum þrælar, að minnsta kosti að nafninu til, sömu réttindi og hvítir meðbræður þeirra.

 

Þróunin olli mikilli reiði meðal hvítra íbúa Suðurríkjanna sem glötuðu þar með ekki einvörðungu ókeypis starfskrafti á plantekrunum, heldur neyddust einnig til að koma fram við þá einstaklinga sem þeir áður höfðu haft ótakmarkað vald yfir, sem jafningja.

Lagið um Jim Crow tröllreið öllu í Bandaríkjunum á árunum upp úr 1830. Höfundurinn, Thomas Dartmouth Rice, ferðaðist um landið og söng slagarann sinn.

Suðurríkin notfærðu sér glufu í bandarísku stjórnarskránni til að samþykkja lög sem takmörkuðu réttindi þeldökkra. Lögin voru ólík í hinum ýmsu fylkjum en í grófum dráttum gengu þau út á það að banna svörtum að ganga í hjónaband með hvítum, að búa á sama stað og ganga í sömu skóla og hvítir og í sumum fylkjum var meira að segja bannað að jarðsetja svarta og hvíta í sama kirkjugarði. Með því að snúa út úr reglunum og beita lestrargetuprófum var meira að segja hægt að banna fyrrum þrælum að nýta kosningaréttinn.

 

Ójöfnuðurinn var samþykktur á æðstu stigum, þegar hæstiréttur Bandaríkjanna kunngjörði árið 1896 að þessar sérstöku reglur stríddu ekki gegn loforðum stjórnarskrárinnar um jafnrétti. Hæstiréttur gerði ráð fyrir, samkvæmt dóminum, að þjóðfélagshópar gætu mæta vel verið „aðgreindir en engu að síður jafnir“.

 

Aðskilnaðarlögin voru í daglegu tali nefnd „Jim Crow-lögin“ en þau voru nefnd eftir persónu Rice frá árunum milli 1830 og 1840.

 

Kynþáttahatrið náði til kvikmyndanna

Á árunum eftir borgarastríðið má segja að „svartfés“ hafi farið sigurför á fjölunum í öllum stórborgum Bandaríkjanna. Þeir sem léku þá voru leikarar af lægri stigum þjóðfélagsins sem vonuðust eftir frægð og frama. Um tvær milljónir Íra streymdu til Bandaríkjanna um miðja 19. öld á flótta undan hungursneyð sem orsakaðist af uppskerubresti á kartöfluökrunum í Írlandi.

Innkaupin reyndust bandarískum húsmæðrum eilítið auðveldari þegar þær gátu stuðst við minnisspjald, gjarnan með myndum sem einkenndust af kynþáttafordómum.

„Svartfés“ birtust alls staðar

„Svartfés“ sáust ekki einungis í leiksýningum, því það var sama hvað Bandaríkjamenn tóku sér fyrir hendur, borðuðu morgunmat, léku við börnin sín eða skrifuðu tossalista, alls staðar mátti sjá ýktar myndir af svertingjum.

 

Vinsældir leiksýninganna komust í hámæli í takt við að iðnvæðingin jókst undir lok 19. aldar. Verksmiðjueigendur notfærðu sér vinsældir „svartfésanna“ til að selja nánast hvers kyns vörur.

 

Skartgripir, álnavörur, póstkort, ilmvötn og sígarettukveikjarar voru hluti af þessum „svartfésvarningi“ og í barnaherbergjum urðu vinsæl bollastell og önnur leikföng á borð við svörtu Golliwog-brúðuna en um var að ræða tuskudúkku með biksvart andlit, strítt hár, í rauðum buxum og bláum jakka sem var nánast alger eftirlíking persónanna með svartfægðu andlitin í leiksýningunum.

 

Svörtu staðalímyndirnar var þó einkum að finna í eldhúsunum. Angurvær söknuður eftir lífinu eins og það var fyrir iðnvæðinguna og nútímavæðinguna gerði það að verkum að myndir af persónunni „Mammy“, móðurlegri, svartri konu, seldust eins og heitar lummur. Myndin af „Mammy“ prýddi bæði matvæli og eldhúsvarning á borð við viðarspjöld til að skrifa innkaupalista á.

 

Meðal vinsælustu matvælanna voru vörur af tegundinni „Aunt Jemima“ sem m.a. töldu tilbúið pönnukökudeig, síróp og aðrar morgunverðarafurðir. Jemima kom fram á mörkuðum og matarhátíðum þar sem hún bakaði pönnukökur og sagði skemmtisögur af lífi sínu sem þræll á plantekrum Suðurríkjanna.

 

„Svartfésið“ varð undarlega langlíft. Það var ekki fyrr en árið 2020 sem framleiðandinn Quaker Oats hætti að nota vörumerkið og skipti út bæði heitinu og myndinni. Afurðirnar eru nú seldar undir heitinu Pearl Milling Company.

Litið var niður á nýbúana sökum þess að þeir voru kaþólikkar og fátækir í þokkabót en með því að troða upp sem „svartfés“ tryggðu innflytjendurnir sér að þeir væru ekki alla lægstir í þjóðfélagsstiganum. Við þetta má svo bæta að leikararnir nutu virðingar meðal áhorfenda sem aðallega voru hvítir karlmenn af verkamannastétt.

 

Upplýstir borgarar – bæði svartir og hvítir – mótmæltu staðalímyndunum.

 

„Úrhrök hvíta samfélagsins sem hafa rænt þeim húðlit sem náttúran hafði sjálf neitað þeim um og notað hann til að græða peninga með því að geðjast siðspilltum smekk hvítra meðbræðra sinna“, voru meðal þeirra orða sem svarti umbótasinninn og síðar sendiherrann, Frederick Douglass, viðhafði um leikarana.

 

Hlátrasköllin ætluðu hins vegar engan endi að taka. Þegar „svartféssýningarnar“ fóru að hverfa af auglýsingaspjöldunum í upphafi nýrrar aldar var ástæðan sú að svertuðu staðalímyndirnar höfðu fundið sér nýjan farveg, þ.e. í kvikmyndum.

 

Í stórmyndinni „Fæðing þjóðar“ frá árinu 1915 komu svartféspersónurnar fram sem nauðgarar og samviskulausir glæpamenn. Hlutverkin í kvikmyndum þessum voru í algerri andstöðu við samtökin sem kölluðust Ku Klux Klan en meðlimir þeirra voru sýndir sem göfugar hetjur og verndarar Ameríku.

 

Kvikmyndin náði gífurlegum vinsældum: „Þetta er eins og mannkynssaga, rituð með eldingu“, lýsti forsetinn Woodrow Wilson yfir eftir einkasýningu á myndinni í Hvíta húsinu.

Í stórmyndinni „Fæðing þjóðar“ frá árinu 1915 komu svartféspersónurnar fram sem nauðgarar og samviskulausir glæpamenn.

Engan undraði að kvikmyndin laðaði að nýja meðlimi í Ku Klux Klan en samtökin uxu og döfnuðu á þriðja áratug 20. aldarinnar.

 

Það var ekki fyrr en ógrynni þeldökkra Bandaríkjamanna, hálf önnur milljón alls, gekk til liðs við bandaríska herinn í seinni heimsstyrjöld sem stórum hluta Bandaríkjamanna fór að þykja „svartfés“ óviðeigandi. Árið 1943 var leikritið Óþelló sett upp í fyrsta sinn í Bandaríkjunum með þeldökkan leikara í aðalhlutverki, þ.e. ekkert „svartfés“.

 

Þeldökki leikarinn Paul Robeson lék hlutverkið í alls 296 leiksýningum á árunum október 1943 til júní 1944 en þessi fjöldi sýninga tryggði Óþelló vinninginn sem vinsælasta Shakespeare-sýning allra tíma á Broadway.

 

Þegar borgararéttindahreyfingin fór að fá byr undir báða vængi á 6. og 7. áratug síðustu aldar fór „svartfés“ úr tísku og er í dag, af flestum, álitið vera til marks um það sem það í raun var: Tákn um hina ljótu ásjónu kynþáttahaturs.

Lesið meira

  • Ayanna Thompson: Blackface, Bloomsbury Academic, 2021

LESTU EINNIG

HÖFUNDUR: ELSE CHRISTENSEN

© Frances Benjamin Johnston. © Shutterstock. © Disney. © Edward Williams Clay. © RavetcoFX.

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Alheimurinn

Hvað verður um gaspláneturnar?

Læknisfræði

Hver var fyrsti kvensjúkdómalæknirinn?

Maðurinn

Af hverju þreytumst við í hita?

Menning og saga

Hvað varð um Nefertítí drottningu?

Alheimurinn

NASA uppgötvar dularfullan hlut sem er 27.000 sinnum stærri en jörðin – hreyfist á 1,6 milljón km/klst.

Maðurinn

Lyktin afhjúpar öll þín leyndarmál: Lyktin er hið nýja fingrafar

Tækni

Líkami þinn er orkuver

Jörðin

Myndast skýstrókar í Norður-Evrópu?

Lifandi Saga

Hver var fyrsti þekkti guðinn?

Lifandi Saga

Hvenær fórum við að kyssast?

Maðurinn

Hvers vegna verður maður þreyttur eftir að hafa borðað?

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.790 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is