Lifandi Saga

Svartir myrtir í kynþáttablóðbaði

Skópússari einn varð fyrir því óheppni að hnjóta og hrasa og varð það kveikjan að blóðugustu kynþáttaóeirðum sem orðið hafa í Bandaríkjunum. Hvítu íbúarnir í Tulsa ruddust inn í verslunargötu svartra sem gekk undir heitinu „Black Wall Street“, myrtu svarta meðbræður sína og brenndu að lokum bæjarhlutann til kaldra kola.

BIRT: 11/05/2022

Þykkar reykjarsúlur sáust eins langt og augað eygði þegar O.W. Gurley leit út um gluggann á hótelinu sínu í borginni Tulsa í Oklahoma hinn 1. júní árið 1921.

 

Þessi þeldökki hóteleigandi gat engan veginn meðtekið það sem fyrir augu hans bar. Hverfið sem hann hafði búið í síðustu 15 árin stóð í ljósum logum og þegar Gurley hljóp niður tröppurnar fyrir framan húsið heyrði hann snarkið í eldinum sem logaði í byggingum örfáum húsum frá honum.

 

„Flýttu þér út úr hótelinu, því við ætlum að kveikja í öllum bölvuðum skítnum. Komdu gestunum þínum út úr húsinu“, öskruðu þrír hvítir menn úti á götu.

 

Alla nóttina höfðu glumið við skothvellir og blóð streymt í Greenwood-hverfinu, þar sem ævistarf Gurleys – þriggja hæða hótelið hans – var að finna. Hóteleigandinn hafði fram á síðustu stundu vonað að unnt yrði að bjarga byggingunni frá æstum múgnum, hvíta fólkinu. Nú snerist á hinn bóginn allt um að bjarga lífi sínu.

 

Þegar Gurley hafði bjargað hótelgestunum út tók hann í höndina á eiginkonu sinni, Emmu og áður en varði voru hjónin komin á flótta ásamt hópi annarra blökkumanna. Hjónin voru rétt lögð af stað niður götuna þegar þau heyrðu skot út tveimur byssum fyrir aftan þau. Ungur maður féll örendur við hliðina á Gurley. Hóteleigandanum var eðlilega skelfilega brugðið þegar hann heyrði einnig stunur frá eiginkonu sinni áður en hún féll til jarðar.

Hóteleigandinn O.W. Gurley horfði á ævistarf sitt fuðra upp í blóðbaðinu í Tulsa.

„Emma!“ hrópaði eiginmaðurinn um leið og hann lét sig falla niður á hnén og kannaði skotsár konunnar. Konan var föl en augu hennar voru opin.

 

„Gurley, þú mátt ekki hugsa um mig. Drífðu þig á brott“, sagði hún.

 

Gurley horfði djúpt í augun á Emmu í síðasta sinn áður en hann hljóp áfram.

 

Án þess að líta nokkru sinni aftur fyrir sig hljóp hann lafmóður af öllum lífs og sálarkröftum niður götur sem voru þaktar glerbrotum frá verslunarrúðum sem höfðu verið mölvaðar. Alls staðar í kring voru menn, konur og börn á flótta undan vopnum hvíta fólksins, svo og brennandi blysunum. Þessa stundina áttu allir þeldökkir menn á hættu að verða slátrað eins og dýrum í þessum suðurríkjabæ.

 

Hatrið kraumaði í Tulsa

Allt fram á byrjun 20. aldar var Tulsa ekkert annað en friðsælt krummaskuð í suðurríkinu Oklahoma en í nóvember 1905 fundu verkamenn heilmikla olíu á landskika sem brátt átti eftir að verða eitt ríkasta olíusvæði Bandaríkjanna.

 

Olían breytti Tulsa í mikinn uppgangsbæ og fólk flykktist þangað í von um gróða. Aðkomufólk sem ekki hafði efni á að kaupa sér landskika og bora eftir olíu dreif sig þess í stað í að opna verslanir, knæpur eða annars konar fyrirtæki.

 

Ekki leið á löngu áður en farið var að kalla Tulsa „Töfraborgina“. Frá aldamótum til ársins 1921 margfaldaðist íbúafjöldinn en á því tímabili jókst hann úr 1.400 íbúum í 72.000 manns.

 

Áður en olían fannst höfðu langflestir íbúar Tulsa verið blökkumenn sem fluttir höfðu verið á svæðið sem þrælar og nú leituðu enn fleiri þeldökkir Bandaríkjamenn til borgarinnar í von um vinnu. Nánast allar hvítu fjölskyldurnar í borginni voru með þeldökka bílstjóra, þjónustustúlkur, garðyrkjumenn og þvottakonur.

„Hætt er við að Tulsa glati orðspori sínu sem hvítasti bærinn í Oklahoma“.

Þetta mátti lesa í dagblaðinu „Tulsa Democrat“.

Svörtu íbúarnir í Tulsa fóru alla morgna inn í hvítu hverfin í suðurhluta bæjarins þar sem þeir erfiðuðu allan liðlangan daginn en bjuggu svo sjálfir norðan megin við brautarteinana í hverfinu Greenwood en þar voru hartnær 11.000 íbúar árið 1921.

 

Margir lifðu í afskaplega lélegum, litlum byggingum en reyndar gerðu sumir svartir verktakar það mjög gott í hverfinu. Stofnandi vinsæla kvikmyndahússins í Greenwood, Dreamland Theatre, átti meira að segja eigin bíl.

 

Sá kaupsýslumaður sem þénaði hvað best í hverfinu var þó án efa O.W. Gurley. Í Greenwood var að finna þriggja hæða hótel í eigu Gurleys og þar voru jafnframt margar snyrtilegar verslanir og segja má að þessar byggingar hafi léð Greenwood svo virðulegt yfirbragð að gárungarnir fóru að kalla hverfið „Svarta kauphallarhverfið“.

 

Velgengni margra af svörtu íbúunum í Greenwood kallaði fram öfund meðal margra hvítra sem álitu sem svo að fyrrum þrælar hefðu ekkert leyfi til að vinna sér inn meira fé en þeir sjálfir.

 

Enn meira áhyggjuefni þótti hvítu íbúunum þó sú staðreynd að svörtum íbúum borgarinnar fjölgaði stöðugt. „Tulsa á á hættu að glata orðspori sínu sem hvítasti bærinn í Oklahoma“, hljómaði ein viðvörunin sem birtist í dagblaðinu „Tulsa Democrat“.

 

Hvítir íbúar borgarinnar gátu þó enn glaðst yfir því að hin svokölluðu Jim Crow-lög kröfðust skarps aðskilnaðar á milli svartra og hvítra. Eftir að þrælahald var lagt af í Bandaríkjunum árið 1865 hafði Lincoln forseti lýst því yfir að svartir hefðu eignast „rétt til lífsins, til frelsis og að freista gæfunnar“.

Kvikmynd olli Ku Klux Klan-æði

Alls 25 milljón miðar voru seldir á stórmyndina „Fæðing þjóðar“ sem D.W. Griffiths leikstýrði en um var að ræða eina vinsælustu kvikmynd þess tíma. Bandaríkjamenn dáðust að atburðarásinni þar sem Ku Klux Klan frelsaði saklaust hvítt fólk sem svartir og blendingar beittu ofbeldi.

 

„Mig langar að fara út og drepa fyrsta svertingjann sem á vegi mínum verður“, átti einn kvikmyndahúsgesturinn að hafa sagt þegar hann kom út úr kvikmyndahúsinu. Þessi þögla mynd olli eins konar Ku Klux Klan-æði í Suðurríkjunum.

 

Ku Klux Klan var bannað árið 1869 vegna þess hve ofbeldishneigð samtökin þóttu vera en í nóvember árið 1915 voru þau endurvakin í fylkinu Georgíu þegar hópur manna með hvítar hettur fyrir andlitinu kveiktu í krossi en hugmyndin var fengin að láni úr kvikmyndinni „Fæðing þjóðar“. Mjög margir hvítir Bandaríkjamenn gengu til liðs við samtökin eftir þetta.

Þeldökkir Bandaríkjamenn voru þó ekki orðnir jafnréttháir hvíta manninum því Suðurríkin samþykktu upp úr 1870 lög sem leyfðu mismunun svartra og hvítra.

 

Íbúar með ólíkan húðlit máttu ekki ganga í sömu skólana eða sitja í sömu lestarklefum og ef svartir þegnar kunnu ekki að lesa eða skrifa glötuðu þeir kosningarétti sínum.

 

Í Tulsa máttu svartir heldur ekki fara inn í verslanir sem hvítir versluðu í. Þeir gátu þó mæta vel starfað innan slíkra verslana en þá við eitthvað annað en að þjónusta viðskiptavini.

 

Óbeitin í garð svartra óx dag frá degi í Tulsa og í lok annars áratugar 20. aldar urðu nokkrir árekstrar á milli hvítra og svartra íbúa í borginni.

 

Dagblaðið „Tulsa Tribune“ kynti undir kynþáttafordómana og blaðamenn fóru að kalla Greenwood “Litlu Afríku“ eða „Negraborg“. Ritstjóri blaðsins Richard Lloyd Jones hélt því meira að segja fram að þar væri allt fljótandi í „áfengi, eiturlyfjum, skítugum negrum og vopnum“. Ritstjórinn undirstrikaði jafnframt að „skítugur niggari væri það versta sem gengið gæti upprétt“.

 

Árið 1921 þurfti ekki meira en einn fremur sakleysislegan atburð til að allt syði upp úr í olíuborginni.

Aftökur á þeldökkum án dóms- og laga jókst mikið í lok 19. aldar.

Óhapp leysti úr læðingi kynþáttaóeirðir

Mánudagurinn 30. maí 1921 rann upp líkt og allir aðrir dagar hjá hinum 19 ára gamla Dick Rowland. Þessi þeldökki piltur starfaði sem skópússari og sat og nuddaði og fægði skó hvítra karlmanna í verslun einni í miðborg Tulsa.

 

Þegar líða tók á morguninn og Dick þurfti að fara á salernið lenti hann í vandræðum. Í versluninni var aðeins eitt salerni og var það ætlað hvítum og Dick varð fyrir vikið að fara upp á fjórðu hæð í nærliggjandi húsi til að finna snyrtingu með skilti sem sagði „fyrir þeldökka“.

 

Svartir höfðu þó heimild til að nota lyftuna en þegar Dick ætlaði sér niður aftur vildi ekki betur til en að hann hrasaði á leið sinni inn í lyftuklefann og datt á lyftustúlkuna, Söru Page sem var hvít á hörund. Hún kannaðist við Dick úr fyrri lyftuferðum en byrjaði engu að síður að öskra hástöfum og berja piltinn með töskunni sinni á meðan hann reyndi að halda hönd hennar kyrri.

 

„Hann réðst á mig“, hrópaði Sara þegar lyftudyrnar opnuðust á jarðhæðinni. Ofsahræðsla greip Dick Rowland og hann þaut í burtu en næsta dag handtók lögreglan hann og lokaði hann inni í fangaklefa á efstu hæð dómhúss borgarinnar.

 

William McCullough lögreglustjóri lofaði Dick Rowland að hann fengi réttláta málsmeðferð en strax að morgni þess 31. maí var andrúmsloftið í borginni þrungið spennu.

 

Í dagblaðinu „Tulsa Tribune“ hafði verið sagt frá atvikinu í lyftunni strax þann sama morgun og sagt að „þeldökki pilturinn hefði klórað andlit og hendur lyftustúlkunnar og rifið utan af henni fötin“.

 

Þegar blaðsöludrengirnir veifuðu síðdegisútgáfu blaðsins seinna sama dag vöktu óp þeirra svo enn meiri athygli: „Aukafrétt! Aukafrétt! Svertingi líflátinn án dóms og laga í kvöld! Lesið fréttina hér“.

Jim Crow-lögin aðskildu íbúana

Skömmu eftir 1900 innleiddu yfirvöld í Oklahoma svokölluð Jim Crow-lög sem aðskildu svarta og hvíta. Lögin eru nefnd eftir tiltekinni tegund skemmtana sem einkenndust af því að skopstæla svarta með því að sverta andlit hvítra.

 

– Svörtum var bannað að baða sig með hvítum

Oklahoma-ríki var ríkt af bæði olíu og kolum. Í starfsgreinunum sem tengdust vinnslu þessari störfuðu svartir og hvítir hlið við hlið en frá árinu 1903 máttu þeir hins vegar ekki hafa fataskipti saman. „Bað- og fataskiptiskápar svartra verða að vera aðskildir frá þeim sem ætlaðir eru hvíta kynstofninum“, stóð í samþykktum fylkisins.

 

– Kennarar fengu sekt fyrir sameiginlega kennslu

Árið 1904 var ákveðið með lögum að kennarar sem kenndu í skólum fyrir bæði svarta og hvíta nemendur skyldu teljast „brotlegir við lögin“ og þeim refsað með sekt sem nam 10 til 50 dollurum. Í fylkinu Norður-Karólínu varðaði það jafnframt við lög að nemendur svartra og hvítra skóla skiptust á sömu bókum.

– Svartir misstu kosningaréttinn

Í nýjum lögum frá árinu 1907 var ákveðið með lögum að borgarar mættu einungis greiða atkvæði í kosningum ef viðkomandi „gæti lesið eða skrifað alla kaflana í stjórnarskrá fylkisins“. Margir svartir höfðu hvorki lært að lesa né skrifa og þeir borgarar glötuðu fyrir vikið kosningarétti sínum.

 

– Svartir og hvítir skildu aðskildir í dauðanum:

Útfararstjórar urðu að aðskilja svarta frá hvítum eftir að samþykkt voru lög árið 1907 sem fyrirskipuðu að lík svartra og hvítra mætti ekki flytja í sömu líkvögnum. Yfirvöld í Oklahoma lögðu fyrir vikið áherslu á að borgarar af ólíkum kynþáttum skyldu ekki meðhöndlaðir sem jafningjar eftir andlátið.

 

– Lestir og sporvagnar með aðskilda farþegaklefa

Frá og með árinu 1908 sektaði lögreglan samgöngufyrirtæki sem nam eitt hundrað til eitt þúsund dollurum ef þau þráuðust við að aðgreina farþegaklefa fyrir hvíta og svarta. Ef farþega varð vart í röngum klefa þurfti lögbrjóturinn að greiða sekt upp á fimm til 25 dollara.

 

– Símaklefar voru aðgreindir eftir húðlit

Þyrfti svartur eða hvítur borgari að hringja símtal varð viðkomandi að gæta þess hvar hann hringdi. Frá árinu 1915 var símafyrirtækjunum nefnilega skylt að aðskilja símaklefa samkvæmt kynþætti og svartir íbúar í Oklahoma máttu einungis hringja úr símaklefum sem merktir voru „Aðeins fyrir svarta“.

Um leið og McCullough lögreglustjóri las fyrirsagnirnar vissi hann fyrir víst að aðstæðurnar gætu þróast í hræðilega átt. Ekki leið á löngu áður en hann heyrði hvíta borgarbúa mótmæla fyrir utan bygginguna.

 

„Láttu okkur hafa negrann!“ hrópaði múgurinn sem stækkaði sífellt.

 

„Hér verður enginn líflátinn. Hver sem reynir að nálgast piltinn í fangelsinu þarf að drepa mig fyrst“, sagði lögreglustjórinn í tilraun til að lægja öldurnar.

 

Ógerningur reyndist að draga úr æsingnum og ástandið versnaði til muna þegar hópar þeldökkra íbúa úr Greenwood birtust á svæðinu. Þeir hugðust reyna að koma í veg fyrir að Dick Rowland yrði skotinn eða hengdur og margir þeirra báru vopn.

„Nælið ykkur í byssur og veiðið einn niggara“.

Lögreglumaður á leiðinni til Greenwood

„Þú þarna negri, hvað ert þú að vilja með byssu?“ galaði hvítur eldri maður um tíuleytið þetta kvöld að einum blökkumanninum á staðnum. Gamli maðurinn skeytti því engu að hann næði andstæðingi sínum aðeins upp á brjóstkassa, heldur seildist hann eftir byssu blökkumannsins með þeim afleiðingum að skot hljóp úr henni upp í loft.

 

Hvellurinn leysti úr læðingi enn fleiri byssuhvelli og skotin þeyttust í allar áttir á meðan fólk reyndi að bjarga sér á hlaupum. Á svipstundu lágu 20 manns í valnum fyrir framan dómhúsið, særðir eða látnir. Þeir sem höfðu komið frá Greenwood hlupu aftur heim í hverfið sitt en engin leið reyndist að stöðva æstan hvíta múginn.

 

Í reiði spörkuðu þeir inn hurðum vopnaverslana og rifu úr hillunum riffla, skammbyssur og skotvopn.

 

„Nælið ykkur í byssur og veiðið einn niggara“, hrópaði lögregluþjónn sem sjálfur bjó sig undir að fara til Greenwood í árásarham. Einhverjar verstu kynþáttaóeirðir í sögu Bandaríkjanna voru nú hafnar.

Póstkort með myndum af blóðbaðinu í Tulsa voru vinsælir minjagripir meðal hvítra kynþáttahatara í Bandaríkjunum.

Hatrið kraumaði í Suðurríkjunum

Ólögleg sjálftaka og kynþáttaóeirðir voru ekki sjaldséð sjón í Suðurríkjunum árið 1921. Allar götur frá árinu 1915, þegar samtök Ku Klux Klan voru endurreist, höfðu aftökur án dóms og laga færst í aukana.

 

Faldir á bak við andlitshettur pyntuðu og myrtu meðlimir Ku Klux Klan fólk sem í augum samtakanna var með rangan húðlit.

 

Kynþáttahatrið jókst að sama skapi í öðrum hlutum Bandaríkjanna og hvítir íbúar réðust á blökkumenn og er árið 1919 sagt hafa einkennst af sérlega miklu ofbeldi. Meðan á hinu svonefnda rauða sumri stóð brutust út meira en 25 kynþáttaátök og einnig kom til blóðugra bardaga milli hvítra og svartra í borgum Norðurríkjanna.

 

Verst var kynþáttahatrið þó í suðrinu þar sem Ku Klux Klan gerðu allt til að ýfa upp ástandið. Í borginni Tulsa höfðu fyrstu meðlimirnir lagt hönd á biblíuna árið 1918 og svarið þess eið að berjast fyrir málstað samtakanna til að tryggja „yfirráð hvítra“.

 

Tulsa-deild samtakanna stækkaði ört og skilaboðin voru jafnframt skýr frá öðrum deildum í Bandaríkjunum: „Vænlegasta leiðin til að fjölga meðlimum er að stofna til óeirða“.

 

Margir þeirra hvítu sem gripu rifflana síðla kvölds þann 31. maí 1921 og settu stefnuna á Greenwood, voru jafnframt Ku Klux Klan-meðlimir en földu sig þó ekki á bak við hetturnar þann dag.

 

Hópurinn var stór og svo mikil ringulreið ríkti um allan bæinn að enginn sá ástæðu til að dulbúast. Líkurnar á að hvítir yrðu dæmdir fyrir ofbeldi í garð svartra voru að sama skapi hverfandi.

Nasistar sóttu ýmislegt í Jim Crow-lögin

Þegar nasistar komust til valda árið 1933 leitaði Hitler m.a. fanga í Jim Crow-lögunum í Bandaríkjunum sem hann hreifst af. Honum fannst Suðurríkin hafa náð góðum árangri í aðskilnaði íbúanna eftir húðlit og uppruna og sótti hugmyndir þangað í Nürnberg-lögin sem hann setti á árið 1935.

 

Lögin kváðu á um að einungis borgarar „með þýskt blóð eða þýskan uppruna“ gætu orðið ríkisborgarar og notið fullra stjórnmálalegra réttinda. Lögin bönnuðu jafnframt samskipti milli gyðinga og svonefndra ósvikinna ríkisborgara.

„Svarta kauphallarhverfið“ í ljósum logum

Brautarteinarnir sem aðgreindu Greenwood frá hvítu hverfunum í borginni höfðu breyst í víglínu á bardagasvæði þegar nálgast tók miðnætti 31. maí 1921. Vopnaðir svartir menn höfðu tekið sér stöðu í byggingunum meðfram teinunum í því skyni að verja bæjarhlutann.

 

Hinum megin teinanna safnaðist hvíti múgurinn saman í sjálfsskipaðan her. Á meðan byssukúlurnar þutu um loftið tókst íbúunum í Greenwood að verja sig í um það bil tvær klukkustundir. En svo urðu þeir að lúta í lægri haldi gegn ágangi árásarmannanna.

 

Hvítu Bandaríkjamennirnir voru tífalt fleiri og réðust nú inn í Greenwood, skjótandi á allt sem fyrir var. Byssureykurinn vofði eins og þoka yfir götunum. Allt lyktaði af brennisteini. Miskunnarlausar veiðar voru hafnar.

 

Einn af fyrstu íbúunum í Greenwood sem fann fyrir aftökustemningunni var ungur, þeldökkur piltur í kúrekaskyrtu. Hann hljóp óvart inn í kúlnaregn þegar hópur hvítra manna kepptist um að hitta hann.

 

Gerendurnir röltu yfir að piltinum sem saup hveljur til að reyna að ná andanum og horfðu á hann án þess að reyna að hjálpa honum á nokkurn hátt, allt þar til sjúkraflutningamennina bar að garði en þá sögðu þeir hvítu: „Drífið ykkur í burtu. Snertið ekki negraskítinn!“ og sjúkraflutningamennirnir létu sig hverfa á augabragði.

Borgarhluti svartra í Tulsa var að lokum brenndur til grunna.

Auk þess að vera vopnaðir skotvopnum höfðu margir hvítu sjálftökumannanna einnig með sér olíu- og bensínbrúsa í bifreiðum sínum sem renndu inn í „Svarta kauphallarhverfið“.

 

Hvítu íbúarnir í borginni höfðu ekki einvörðungu í hyggju að drepa marga svarta heldur voru þeir jafnframt staðráðnir í að brenna niður verslanir og heimili fólks. Byggingarnar voru í þeirra augum tákn um óþolandi velgengni svertingjanna.

 

Hurðum var sparkað inn og lögleysingjarnir ruddust inn í byggingar þar sem þeir sópuðu að sér verðmætum áður en þeir helltu eldfimum vökva yfir viðarhúsgögn sem þeir höfðu staflað upp. Hljóðið af eldspýtum sem strokið er við brennistein gaf ískyggilega til kynna að nú myndi brátt loga eldur og brennuvargarnir hlupu áfram að næstu byggingu.

 

Hópur rösklega 500 hvítra manna tók sér stöðu á götum úti og varnaði slökkviliðinu aðkomu til þess að byggingarnar gætu brunnið til kaldra kola.

 

Klukkan sex að morgni næsta dags loguðu enn eldar í stórum hluta af Greenwood og reykurinn lá líkt og óheillavænlegt ský yfir götunum næst járnbrautarteinunum. Feður og mæður leiddu börn sín og flýðu í norðurátt.

 

Ef íbúunum tókst ekki að komast undan biðu þeirra skelfileg örlög. Fullorðin svört hjón neituðu að láta hræða sig á brott og lögðust á hnén við rúmstokkinn sinn og báðu til guðs þegar hópur hvítra manna ruddist inn á heimili þeirra.

 

Án þess að hika miðuðu innbrotsþjófarnir byssu á hnakka hjónanna og hleyptu af. Myrt hjónin voru skilin eftir á gólfinu við rúmið á meðan logarnir grönduðu heimili þeirra.

150 ára barátta fyrir réttindum

Eftir borgarastyrjöldina í Bandaríkjunum og afnám þrælahaldsins var litaða íbúa í Bandaríkjunum farið að dreyma um jafnrétti.

1865: Afnám þrælahalds

Eftir rösklega 200 ára misnotkun á þrælum á meginlandi Ameríku kom að því að þrælahald yrði afnumið með lögum. Afnámið gekk í gildi með lagasetningu í kjölfarið á sigri Norðurríkjanna í borgarastyrjöldinni. Viðbótarlög tryggðu síðan svörtum íbúum kosningarétt.

1896: Lög aðskildu svarta og hvíta

Homer Plessy höfðaði mál sökum þess að lestarfyrirtæki meinaði honum að setjast inn í klefa sem merktur var „aðeins fyrir hvíta“. Hæstiréttur úrskurðaði að aðskilnaður eftir kynþáttum bryti ekki í bága við stjórnarskrána. Í kjölfarið á þessu innleiddu mörg fylki svonefnd Jim Crow-lög.

1955: Rosa Parks í fararbroddi

Aðgerðarsinninn Rosa Parks settist í fremstu sætin sem ætluð voru hvítum í strætisvagni í fylkinu Alabama í Suðurríkjunum. Hún neitaði að færa sig og var tekin föst. Atvikið leysti úr læðingi gríðarmikil mótmæli mannréttindahreyfingar blökkumanna í fyrsta sinn.

1968: Martin Luther King myrtur

Mannréttindaleiðtoginn Martin Luther King var myrtur í Memphis í fylkinu Tennessee. Morðið leiddi til fjöldamótmæla í ríflega eitt hundrað borgum víðs vegar um álfuna.

1992: Lögregluofbeldi veldur óróa

Lögregluþjónar í Los Angeles voru sýknaðir af því að hafa beitt óheyrilega miklu ofbeldi gegn blökkumanninum Rodney King sem lögreglumennirnir höfðu gengið í skrokk á. Úrskurðurinn hafði í för með sér þriggja daga mótmæli.

2020: Mótmæli um gjörvöll Bandaríkin

Blökkumaðurinn George Floyd var drepinn í haldi lögreglunnar í Minneapolis. Mannréttindahreyfingin „Black Lives Matter“ stóð fyrir mótmælum um gjörvöll Bandaríkin sem bárust jafnframt út fyrir landsteinana og fólk af öllum kynþáttum studdi.

Gurley faldi sig undir byggingu sinni

Hóteleigandinn O.W. Gurley var lánsamur að geta flúið áður en hótelið stóð í ljósum logum. Á leiðinni hafði hann skilið eftir hálfmeðvitundarlausa eiginkonu sína og áttaði sig á því þarna að morgni hins 1. júní að hann væri í lífshættu.

 

Um allar götur úði og grúði af hatursfullu hvítu fólki og þó svo að hinn efnaði Gurley nyti virðingar í Tulsa gerði húðlitur hans það nú að verkum að hann varð að skotskífu þeirra hvítu.

 

Þegar hinn 53 ára gamli blökkumaður fann að hann var að bugast af þreytu í öllum líkamanum vissi hann að hann yrði að fela sig í stað þess að halda áfram flóttanum. Gurley laumaði sér þá gegnum rifu undir skólabyggingunni þaðan sem hann hafði útsýni yfir götuna.

 

Hundruð hvítra hlupu fram hjá felustað Gurleys, margir hverjir með blys í höndunum. Hóteleigandanum til mikillar skelfingar staðnæmdist hópur hvítra íbúa þegar ungur hvítur piltur hrópaði:

 

„Ég er viss um að ég sá einhvern fara inn undir skólabygginguna þarna“.

 

„Könnum málið“, svaraði maður einn sem miðaði með rifflinum sínum gegn rifunni og hleypti af. Gurley hafði skriðið eins langt afturábak og hann gat svo skotin hæfðu hann ekki.

 

Hóteleigandinn hélt eitt andartak að hann hefði sloppið með skrekkinn en þá sprungu nokkrar rúður í skólabyggingunni. Brátt barst ískyggileg lykt að vitum hans niðri í felustaðnum. Skólabyggingin stóð í ljósum logum.

 

„Ég dey ef ég verð hér áfram en ég dey engu að síður ef ég yfirgef staðinn“, hugsaði hann.

 

Að lokum neyddist hóteleigandinn til að skríða hóstandi á fjórum fótum í átt að útganginum. Til allrar hamingju voru allir þeir hvítu farnir á brott. Múgurinn hafði haldið áfram að norðurhluta Greenwood, þar sem nýreist baptistakirkja hverfisins var næsta markmið brennivarganna.

Bandaríkjamenn sem aðhylltust kynþáttahatur ofsóttu svarta meðborgara sína í gjörvöllum Suðurríkjunum.

Hvítir drösluðu svörtum í fangabúðir

Á leið sinni út úr skólanum fann Gurley skyndilega fyrir skelfilegum verk í hendinni því glerbrot úr brotinni rúðu hafði skorið djúpan skurð inn í hold hans. Blóðið lagaði niður skyrtuermina sem að morgni þessa dags hafði verið skjannahvít og nýstraujuð.

 

Gurley læddist óstyrkur áfram en mætti til allrar hamingju „hvítum heiðursmanni“. Hann stóð þarna með eldgamla haglabyssu og hafði gát á fimmtán blökkumönnum sem teknir höfðu verið til fanga. Gurley rétti samstundis hendurnar upp og gaf sig manninum á vald.

 

Gurley var teymdur út að hafnarboltaleikvangi borgarinnar, McNulty Park sem breytt hafði verið í fangabúðir þennan sama morgun. Án nokkurra skýringa, að húðlitnum undanskildum, tóku lögregluþjónar og óbreyttir hvítir borgarar svarta íbúa borgarinnar fasta og söfnuðu þeim saman í þremur búðum í borginni.

 

Fangarnir gengu í röðum með álút höfuð á meðan hvítir áhorfendur, meira að segja konur og börn, hæddu þá og hræktu á.

 

Einn og einn skemmti sér jafnframt við það að skjóta í átt að jörðu til þess að fangarnir yrðu að hoppa og dansa um ef þeir ætluðu ekki að verða fyrir byssuskoti í fæturna. Í mörgum tilvikum köstuðust byssuskotin aftur og særðu fangana.

 

Mótorhjólalögga ein batt sex svarta fanga fasta við mótorhjólið, gaf svo allt í botn og fangarnir urðu að hlaupa af öllum lífs og sálarkröftum á eftir hjólinu alla leið í fangabúðirnar.

Eftir kynþáttablóðbaðið í Tulsa færðu sveitir þjóðvarðliða litaða íbúa borgarinnar í fangabúðir, vopnaðir byssum og byssustingjum.

Fjórir aðrir lostakvalarar gengu fram á svartan mann á hjólabretti sem hann notaði til að komast um, því hann hafði áður misst báða fótleggina.

 

Mennirnir hentu blökkumanninum af brettinu og bundu reipi um þann fótstubbinn sem lengri var. Hinn enda reipisins bundu þeir fastan við bíl og keyrðu svo fagnandi um göturnar í Tulsa með vesalinginn volandi á eftir bílnum. Götumölin skar upp húð hans og höfuðið barðist utan í gatnagerðarhellur og sporvagnateina. Maðurinn sást aldrei á lífi eftir þetta.

 

O.W. Gurley gat prísað sig sælan yfir að hafa ekki verið pyntaður á leiðinni í fangabúðirnar á hafnarboltavellinum. Í búðunum gerði læknir að sárum hans en hugur mannsins var enn flakandi sár. Ævistarf Gurleys var brunnið til grunna og hann hafði misst eiginkonu sína. Með nístandi sorg í hjarta heyrði hann skyndilega kunnuglega rödd segja:

 

„Almáttugur, þarna er þá Gurley“.

 

Þetta gat ekki verið nein önnur en Emma og þegar Gurley sneri sér við kom eiginkona hans hlaupandi. Hún hafði þá bara rotast úti á götunni og stóð nú ómeidd frammi fyrir honum. „Elsku Gurley, hvað hefur komið fyrir höndina á þér?“ spurði Emma eftir að hjónin höfðu faðmað hvort annað vel og lengi, þakklát yfir að hafa fundið hvort annað.

 

„Þetta er bara skráma“, sagði hann.

Blóðbaðið í Tulsa var þaggað niður í hálfa öld

Kynþáttóeirðirnar í Tulsa gengu fram af Bandaríkjamönnum og forseti landsins, Warren G. Harding, fordæmdi morðin. Yfirvöldum í Oklahoma tókst engu að síður að stinga frásögnum af atburðunum undir stól og innan fárra ára höfðu þeir nánast horfið í glatkistuna.

 

Sem dæmi má nefna að ekkert er fjallað um blóðbaðið í kennslubókum í bandarískum skólum. Sagnfræðirit fjalla ekki um atburðina og þeirra er ekki getið í skjalasafni slökkviliðsins í Tulsa.

 

Árið 1971 óskaði borgarstjórnin í Tulsa þess að minnast atburðanna en þegar stjórnmálamenn í borginni lásu frásagnir blökkumannanna og skoðuðu myndirnar sáu þeir sig um hönd. Ekkert af stóru dagblöðunum hafði heldur áhuga á að fjalla um viðfangsefnið.

 

Brátt fóru sagnfræðingar þó að skjalfesta blóðbaðið og árið 1996 hrinti fylkisstjórnin af stað opinberri rannsókn. Fylkisstjórnin komst að þeirri niðurstöðu að þeir blökkumenn sem komust lífs af, svo og afkomendur þeirra látnu, ættu rétt á bótum.

„Þetta eru laun syndaranna. Niggararnir breyttu ranglega og nú gjalda þeir fyrir það“.

Hvítur Tulsabúi um morðin.

Yfirvöld leyndu blóðbaðinu

Um miðjan dag þess 1. júní stöðvuðust grimmdarverkin í Black Wall Street. Þjóðvarðliðið var komið til Tulsa og neyðarástandi lýst yfir í borginni.

 

Slökkvibílar birtust í hverfum svörtu íbúanna til að slökkva eldana. Stór hluti af Greenwood var þá þegar rústir einar. Ríflega 1.150 heimili og verslanir höfðu brunnið til kaldra kola og á götum borgarinnar lágu særðir og myrtir íbúar hennar.

 


Yfirvöld skráðu 36 látna, þar á meðal 12 hvíta borgara. Sagnfræðingar segja fjölda látinna minnst hafa numið 300 manns.

 

Vitni segja hvíta íbúana í Tulsa hafa verið önnum kafna við að fjarlægja líkin seinnihluta dags þess 1. júní. Fólk sá vörubifreiðar með lík keyra út úr bænum og varpa líkunum í fjöldagrafir.  Tveir hvítir drengir fylgdust lafhræddir með þegar þrír menn losuðu sig við fullan vörubílspall af líkum.

 

Einn mannanna varð þess var að drengirnir urðu skelkaðir og greip tækifærið til að fylla þá með svolitlum lærdómi:

 

„Þetta eru laun syndaranna. Niggararnir breyttu ranglega og nú gjalda þeir fyrir það“.

 

Hvítu íbúarnir iðruðust fæstir gjörða sinna. Jones, ritstjóri dagblaðsins „Tulsa Tribune“, lýsti því glaður í bragði yfir í blaðinu að Greenwood hefði verið jafnað við jörðu og skrifaði jafnframt að „hverfi í líkingu við Niggertown getum við aldrei aftur leyft í Tulsa“.

 

Ríflega 6.000 blökkumenn voru teknir höndum í tengslum við óeirðirnar en nánast allir þeir hvítu voru frjálsir ferða sinna. Opinberlega var svörtu íbúunum í Tulsa kennt um allt það sem úrskeiðis fór.

 

Eftir óeirðirnar var skipuð nefnd til að rannsaka hvað gerst hefði. Niðurstaða hennar var sú að uppþotin hefðu að öllu leyti verið að kenna „hópi þeldökkra manna sem hugðust verja Dick Rowland“ og „að þeir hvítu hefðu ekki hvatt til óláta, né hefði verið talað um aftökur og engin vopn hefðu sést“.

Í kjölfar mótmælanna í Bandaríkjunum í vegna dauða George Floyd kröfðust eftirlifendur og afkomendur svartra borgara í Tulsa enn og aftur bóta fyrir fjöldamorðin - án árangurs en sem komið er.

Nefndin staðhæfði einnig að svörtu íbúarnir í Tulsa yfirleitt eggjuðu til vandræða með því að trúa á jafnrétti. Engir hvítir íbúar í Tulsa voru hnepptir í varðhald fyrir morðin, skemmdirnar og þjófnaðinn sem átti sér stað dagana 31. maí og 1. júní 1921.

 

Hámark kaldhæðninnar var að lyftustúlkan Sara Page vildi ekki einu sinni kæra Dick Rowland sem lögreglustjórinn hafði smyglað heilum á húfi út úr borginni þegar hvíti hópurinn hafði lagt af stað til Greenwood. Úr því að engin kæra var lögð fram var Dick Rowland auðvitað sýknaður.

 

Allt sumarið og haustið 1921 var Greenwood ekki annað en tjaldbúðir á meðan heimilislausu íbúarnir 8.000 reyndu að byggja hverfi sitt upp aftur. Margir blökkumenn yfirgáfu hins vegar Tulsa í eitt skipti fyrir öll til að reyna að gleyma grimmdarverkunum, þar á meðan Gurley sem settist að í Los Angeles.

 

Næstu árin bættust hins vegar þúsundir nýrra meðlima við Ku Klux Klan-deildina í Tulsa. Kynþáttaóeirðirnar í Tulsa sýndu svo ekki varð um villst hvílíkur feiknamunur ríkti á milli hvítra og svartra í Bandaríkjunum.

 

Atburðirnir gleymdust hins vegar þegar frá leið, sökum þess að yfirvöld í Oklahoma hylmdu yfir voðaverkin með því að eyða skjölum sem lýstu óeirðunum árið 1921.

 

Það var svo ekki fyrr en á 8. áratug 20. aldar sem bandarískir sagnfræðingar fóru að grafast fyrir um blóðbaðið til þess að það félli ekki í gleymsku.

Lestu meira um kynþáttaóeirðirnar í Tulsa

  • Tim Madigan, The Burning, St. Martin’s Griffin, 2003

 

  • Alfred L. Brophy, Reconstructing the Dreamland, Oxford University Press, 2003

LESTU EINNIG

HÖFUNDUR: Troels Ussing & Bue Kindtler-Nielsen

Tulsa Historical Society, © Black Wall Street USA, © Badmachine, © History Archive, © Library of Congress, © SMU Central University Libraries, © Album/Fine Art Images/Imageselect, © SMU Central University Libraries, © Heritage Images/Getty Images, © Bibliothèque nationale de France, © Oklahoma Historical Society/Getty Images, © Manuel Balce Ceneta/AP/Ritzau Scanpix,

Náttúran

Eitruðustu efni veraldar

Heilsa

Er hægt að sofa með opin augun?

Heilsa

Er hægt að sofa með opin augun?

Lifandi Saga

Að sjá fangana var áfall: Hermenn grétu

Lifandi Saga

Að sjá fangana var áfall: Hermenn grétu

Maðurinn

Þessir einstaklingar eru í minni hættu á að greinast með heilabilun

Alheimurinn

Stjarna breytir sér í demant

Náttúran

Hversu lengi getur könguló lifað af í ryksugupokanum?

NÝJASTA NÝTT

Lifandi Saga

Samkynhneigður sjónvarpsleikari skáldaði upp sögur um eiginkonur

Maðurinn

Hvernig myndast krabbamein?

Alheimurinn

Þrisvar sinnum stærra en Everestfjall: Goshalastjarna gæti brátt sést á himni í fyrsta sinn í 70 ár

Tækni

Dulkóðaður gjaldmiðill: 7 atriði sem þú ættir að vita um rafmynt 

Menning

Af hverju fengu inúítar ekki skyrbjúg?

Lifandi Saga

Fjórir kvillar sem bóluefni hafa knésett

Menning og saga

Frumstæð manntegund jarðsetti hina látnu

Maðurinn

Vísindamenn endurnýja hárvöxt á músum

Lifandi Saga

Nanjing harmleikurinn verri en hin versta martröð

Maðurinn

3 ókostir við greind

Lifandi Saga

Samkynhneigður sjónvarpsleikari skáldaði upp sögur um eiginkonur

Maðurinn

Hvernig myndast krabbamein?

Alheimurinn

Þrisvar sinnum stærra en Everestfjall: Goshalastjarna gæti brátt sést á himni í fyrsta sinn í 70 ár

Tækni

Dulkóðaður gjaldmiðill: 7 atriði sem þú ættir að vita um rafmynt 

Menning

Af hverju fengu inúítar ekki skyrbjúg?

Lifandi Saga

Fjórir kvillar sem bóluefni hafa knésett

Menning og saga

Frumstæð manntegund jarðsetti hina látnu

Maðurinn

Vísindamenn endurnýja hárvöxt á músum

Lifandi Saga

Nanjing harmleikurinn verri en hin versta martröð

Maðurinn

3 ókostir við greind

Fáðu aðgang að vÍSINDI.IS

Ókeypis í 2 vikur!

 

Eftir það kostar eingöngu 1.390 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

 

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Maðurinn

Hvers vegna þola sumir ekki kóríander?

Maðurinn

Hvers vegna þola sumir ekki kóríander?

Heilsa

Bakteríur í blóði auka þyngdina

Heilsa

Bakteríur í blóði auka þyngdina

Maðurinn

Svefnleysi skaðar þarmana

Lifandi Saga

Hvert flúðu spænskir Gyðingar?

Maðurinn

Rannsókn: Greinileg merki um framhjáhald.

Lifandi Saga

Þess vegna trúa milljónir á mýtuna: Barnaníðingar djöfulsins 

Vinsælast

1

Menning

Af hverju fengu inúítar ekki skyrbjúg?

2

Maðurinn

Líkami þinn lifir eftir dauðann

3

Maðurinn

Þessir einstaklingar eru í minni hættu á að greinast með heilabilun

4

Maðurinn

Hvernig myndast krabbamein?

5

Maðurinn

3 ókostir við greind

6

Náttúran

Hversu lengi getur könguló lifað af í ryksugupokanum?

1

Menning

Af hverju fengu inúítar ekki skyrbjúg?

2

Maðurinn

Þessir einstaklingar eru í minni hættu á að greinast með heilabilun

3

Maðurinn

Hvernig myndast krabbamein?

4

Maðurinn

3 ókostir við greind

5

Náttúran

Topp 5: Af hvaða dýrum er mestur fjöldi?

6

Lifandi Saga

Nanjing harmleikurinn verri en hin versta martröð

Heilsa

Þess vegna ættir þú alltaf að setja klósettlokið niður áður en þú sturtar

Maðurinn

Vanþroskað tvíburafóstur fjarlægt úr heila ársgamallar stúlku

Tækni

100 milljónir hafa kosið: Hér eru hin sjö nýju undur veraldar 

Lifandi Saga

Hvenær voru fóstureyðingar gerðar frjálsar í Bandaríkjunum?

Maðurinn

Angistargenið er nú fundið

Náttúran

Glæpir borga sig

Náttúran

Af hverju límist lím ekki við innra byrði túbunnar?

Maðurinn

Vísindamenn hafa komist að rót mannvonskunnar: Fræðist um verstu hliðar ykkar

Lifandi Saga

Refsiföngum í síðari heimsstyrjöldinni fórnað 

Maðurinn

Af hverju eiga karlmenn auðveldara með að fá fullnægingu en konur?

Maðurinn

Leiðbeiningar um uppeldi: Reiðilestur veldur niðurbroti í heila

Maðurinn

Hvernig er best að fara á klósettið?

Samkynhneigður sjónvarpsleikari skáldaði upp sögur um eiginkonur

Á sjónvarpsskjánum leysti Raymond Burr hvert sakamálið á fætur öðru – í raunveruleikanum leyndi hann hins vegar sannleikanum um sjálfan sig.

Lifandi Saga

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.690 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.