Ku Klux Klan: Hryllingssagan um hettuklæddu böðlana

Hinn 24. desember 1865 leit dagsins ljós bræðralagið Ku Klux Klan í smábænum Pulaski í Tennessee. Hér er hægt að kynna sér hrollvekjandi sögu samtakanna.

BIRT: 20/03/2022

LESTÍMI:

3 mínútur

Það er ekki eingöngu Jesú Kristur sem á afmæli um jólin heldur á það einnig við um bandaríska rasistabræðralagið Ku Klux Klan sem hafði verið starfrækt í meira en 150 ár.

 

Munurinn á afmælisbörnunum tveimur gæti varla verið meiri …

 

Við vitum að Jesús boðaði kærleika og fyrirgefningu á meðan meðlimir hægriöfgasamtakanna hafa boðað hatur og refsingu gegn þeldökkum íbúum Bandaríkjanna frá því að samtökin voru stofnuð árið 1865.

 

Við ætlum að kynna okkur sögu hettuklæddu félaganna til hlítar og færa lesendum okkar yfirsýn yfir sögu Ku Klux Klan.

Ku Klux Klan breyttust úr hefðbundnum félagasamtökum í baráttusamtök og grímuklæddir reiðmenn þeystu út í rökkrið til að kúga blökkumennina sem losnað höfðu undan þrældómi, svo og hvíta menn sem þeir kölluðu „negrasleikjur“. Saklausar fjölskyldur urðu fyrir árásum á heimilum sínum, fólkið var barið og tekið af lífi án dóms og laga.

1865: Ku Klux Klan leit dagsins ljós

Ku Klux Klan samtökin voru stofnuð hinn 24. desember af sex ungum mönnum í bænum Pulaski í Tennessee. Fyrst í stað hugðust félagarnir bara gera sér glaðan dag og vera með læti í hverfinu, þar sem þeir riðu um göturnar og hræddu íbúana, klæddir síðum skikkjum með grímur.

 

1867-70

Meðlimunum fjölgar

Fyrrum Suðurríkjahershöfðinginn, George W. Gordon, breytti Ku Klux Klan í baráttusamtök.

 

Meðlimir samtakanna voru allir skuldbundnir til að berjast fyrir að færa íbúum suðursins (þ.e. öllum hvítum) réttindi þeirra aftur. Félagarnir urðu að sverja að þeir „aðhylltust yfirráð hvíta mannsins“ og væru mótfallnir „jafnrétti negranna“.

 

Þetta nýja skipulag og öll dulúðin í kringum Ku Klux Klan gerði það að verkum að þúsundir vonsvikinna Suðurríkjamanna gengu í samtökin og árið 1868 er talið líklegt að meðlimirnir hafi verið orðnir alls 550.000 talsins.

1871-73

Lög gegn Ku Klux Klan samþykkt

Þingið í Washington samþykkti svokölluð Ku Klux-lög sem bönnuðu grímuklæddum mönnum að hópast saman og sem gerðu borgurunum kleift að höfða mál við bandarískan dómstól ef þeir fengu ekki að nýta kosningarétt sinn.

 

Herinn var látinn berja niður starfsemi þeirra Klan-félaga sem sviptu blökkumenn réttindum þeirra og ekki leið á löngu áður en samtökin voru orðin alveg óstarfhæf.

1915-1925

Ku Klux Klan snýr aftur

Kú Klúx Klan reis upp úr öskustónni á ný eftir 40 ára dvala, að þessu sinni undir stjórn Williams Josephs Simmons. Hinn nýi leiðtogi tilnefndi sig sem „keisaralegan galdramann“ og innleiddi m.a. krossabrennur (undir áhrifum frá kvikmyndinni „Birth of a Nation“) auk þess að kynna hinar alræmdu hvítu hettur til sögunnar.

 

Vinsældir samtakanna jukust hratt og árið 1924 voru félagarnir orðnir ískyggilega margir eða fjórar milljónir alls. Þegar eftirmanni Williams Joseph Simmons, „stórdrekanum“ D.C. Stephenson, var varpað í fangelsi ári síðar, vegna morðs sem hann hafði framið, leystust samtökin upp.

1960-1970

Samtökin vakna til lífsins aftur

Þriðja blómaskeið Ku Klux Klan samtakanna hófst í kjölfarið á borgararéttindahreyfingunni sem stjórnað var af Martin Luther King og Malcolm X. Þá tóku samtökin aftur upp fyrrum hryðjuverkastarfsemi með morðum á þeim sem barist höfðu fyrir borgararéttindum.

Ku Klux Klan í dag

Í dag er Ku Klux Klan varla svipur hjá sjón og hefur leyst upp í nýnasistadeildir sem berjast innbyrðis.

 

Ku Klux Klan samtökin leggja í dag áherslu á að losna undan gömlu ímyndinni með hvítu skikkjurnar og brennandi trékrossana og nú á dögum geta bæði konur og kaþólikkar gengið í samtökin.

 

Í dag eru um 160 virkar Ku Klux Klan deildir í Bandaríkjunum ef marka má upplýsingar frá samtökunum Southern Poverty Law Center.

BIRT: 20/03/2022

HÖFUNDUR: Andreas Ebbesen Jensen,

HÖFUNDARÉTTUR MYNDA: Polfoto.

vinsælustu greinarnar

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.