Meira en 60% þeirra sem drekka bjór segja bragðið betra úr flösku en dós en aðeins 11% vilja frekar dósabjór. Í tilraun þar sem þátttakendur sáu ekki hvaðan bjórinn kom, reyndust þeir ekki finna neinn mun.
Það þýðir þó ekki að trúin á flöskubjór sé einskær ímyndun.
Þýðing umbúðanna fyrir bragðið ræðst nefnilega að stórum hluta af tegund eða gerð bjórsins. Í bjór eru mjög margvísleg bragðefni, svo sem úr humlum, malti og frá gerjuninni sjálfri. Efnin brotna niður með tímanum og það breytir bragðinu.
IPA breytist minnst
Bandarískir vísindamenn báru saman áhrif umbúða og geymslutíma tveggja bjórtegunda, IPA og Amber Ale, annars vegar í flöskum og hins vegar í dósum.
Fyrst eftir bruggun var bjórinn geymdur í kæli í mánuð og síðan við stofuhita í 5 mánuði til að líkja sem best eftir venjulegri meðhöndlun bjórs. Aðra hverja viku opnuðu vísindamennirnir dós og flösku og greindu innihaldið.
Hér eru fjórar fréttir af drykknum sem manneskjan hefur þambað í þúsundir ára.
Þéttni bragðefnis reyndist breytast meira í Amber Ale, bæði í flöskum og dósum en áhrif umbúðanna á IPA-bjórinn virtust minni.
Niðurstaða vísindamannanna varð sú að ógerlegt sé að kveða upp úr um það hvaða umbúðir henti best undir bjór. Bragð og geymsluþol ræðst fremur af efnasamsetningu bjórtegundarinnar en því hvort bjórinn er geymdur í dós eða flösku.