Jörðin

Jörðin eftir manninn

Hvað verður um jörðina þegar við verðum horfin? Að sögn vísindamanna munu úlfaflokkar dreifast hratt á meðan borgirnar hrynja og sökkva. Hins vegar munu síðustu ummerki mannkyns standa til enda alheimsins.

BIRT: 23/07/2024

Borgir

Borgir hverfa undir grænt teppi

Dagur 14

50.000 virkjanir út um allan heim hætta að starfa. Á nóttunni er jörðin nánast í algjöru myrkri. Stórborgum eins og London, Amsterdam og New York er venjulega haldið lausum við vatn með rafmagnsdælum en nú flæðir vatn inn í göngin og skurðir og síki flæða yfir bakka sína svo kjallarar fyllast af vatni.

 

Ár 1

Fræ plantna finna sér næringu í rennusteinum, sprungum og samskeytum í götum og gangstéttum og á steypu- og glerhliðum háhýsa.

 

Ár 3

Stormar og hitasveiflur brjóta rúður í byggingum. Þegar vindur og vatn ná síðan óhindrað inn í húsin falla þau fljótt í niðurníðslu.

Ár 10

Gras skýtur upp kollinum upp á milli hellusteinanna og ýtir þeim úr stað. Tré eru þegar farin að vaxa inni í húsum.

 

Ár 25

Gluggar háhýsa eru brotnir og vindur og rigning komast inn í byggingarnar. Raki veldur því að samskeyti milli veggja og þaka brotna, boltar og skrúfur ryðga og plötur detta úr byggingunum.

 

Ár 50

Einn milljarður bíla er óþekkjanlegur af ryði og niðurníðslu. Í hinu raka strandloftslagi tekur það bíl ekki nema 20-30 ár að verða að engu.

Ár 100

Stálstrengir hengibrúa eru ryðgaðir. Þær hafa misst sveigjanleika sinn og ein vindhviða veldur því að þær brotna og hrynja ein af annarri.

 

Ár 200

Eiffelturninn er ryðgaður og brotnar niður. Flestir skýjakljúfar og margar af gömlu byggingunum eru nú að falla – sérstaklega þær sem nú eru undir vatni.

Ár 300

Frelsisstyttan í New York brotnar í sundur og hlutar hennar falla í höfnina.

 

Ár 400

Flestar borgir eru við það að hverfa í gróður. Franski landkönnuðurinn Henri Mouhot upplifði hvernig gróin borg lítur út árið 1860 þegar hann fann hina miklu musterisborg Angkor Vat í Kambódíu. Á 400 árum hafði borgin að mestu verið gleypt af stórum rótum silkibómullartrjánna.

Ár 500

Flestar byggingar sem innihalda járn eru hrundar. Nú eru nokkrar af sterkustu steinsteypubyggingunum einnig að hrynja, t.d. tvíburaturnarnir í Kuala Lumpur og Péturskirkjan í Róm.

 

Ár 1000

Hinn kunnuglegi sjóndeildarhringur stórborga heimsins er horfinn. Þess í stað liggja borgirnar eins og hæðótt landslag með ám og vötnum. Allt er þakið gróðri. Undir hæðunum finnast enn rústir einstaka bygginga.

Landsbyggðin

Vatn og skógur taka yfir landslagið

Dagur 20

441 kjarnorkuver heimsins auka á hörmungarnar. Neyðarkælikerfi þeirra bila og nokkrum vikum síðar hefur kælivatnið gufað upp. Kjarnakljúfarnir bráðna síðan eða það kviknar í þeim. Loftið, jarðvegurinn og vatnið í kringum verin mengast af geislavirkni og mikill fjöldi dýra og plantna drepst.

 

Mánuður 6

Skógareldar fá lausan tauminn þegar enginn er til að slökkva þá. Í náttúrunni þjóna eldarnir tilgangi því nýjar plöntur vaxa upp úr öskunni með endurnýjuðum styrk. Annars staðar gefa varnargarðar sig svo að vatn flæðir yfir stór landsvæði rétt eins og gerðist í New Orleans eftir fellibylinn Katrina árið 2005.

Neðanjarðarsveppur hefur komið vísindamönnum verulega á óvart með gríðarlegri stærð sinni. Hann er tvöfalt stærri en menn héldu í upphafi og er á stærð við 100 fótboltavelli.

Ár 5

Allir akrar eru nú í órækt. Árið 1882 sýndu breskir vísindamenn hversu fljótt aðrar plöntur taka yfir yfirgefinn hveitiakur. Eftir fjögur ár voru aðeins örfá hveitiöx eftir og ári síðar voru þau alveg horfin. Aðrar plöntur höfðu tekið yfir. Eftir það þróast reiturinn í skógarsvæði með aski og mórberjatrjám.

 

Ár 10

Stöðurafmagn og eldingar koma af stað eldi á borpöllum um allan heim og mannlaus ofurtankskip, gámaskip og skemmtiferðaskip sem rekur stjórnlaust um höfin rekast á pallana og velta þeim. Niðurstaðan er sú að milljónir lítra af olíu streyma í sjóinn úr opnum borholum.

Ár 50

Nítrat og fosfór eru nánast horfin úr ferskvatni. Hins vegar lekur klór úr ryðguðum tankbílum og sundlaugum. Eitruð klórgasþoka dreifist um umhverfið og þegar klór mætir vatnsgufu breytist hann í sýru. Tankbílar með alls lags geymslur með eiturefnum byrja líka að leka.

 

Ár 200

Vegna tæringar springa tímastilltar sprengjur um allan heim. Tankar og þrær og aðrir geymslustaðir með kjarnorkuúrgangi og eiturefnum byrja að leka eða jafnvel springa. Dýr og plöntur deyja en að lokum munu bakteríur brjóta niður flestar olíu- og eiturleifar.

Ár 300

Endurheimt náttúrulegt votlendi virkar sem vatnshreinsistöðvar og bindur eiturefni.

 

Ár 400

Borgir á láglendi eru sokknar í sæ. Til dæmis eru stórir hlutar Hollands horfnir. Þetta stafar meðal annars af hrundum stíflum en einnig hefur sjávarborð um allan heim haldið áfram að hækka. Jafnvel þótt við hættum alveg að losa gróðurhúsalofttegundir á morgun myndi vatnsborðið hækka um 1,8 m til ársins 2500 vegna langs viðbragðstíma sjávar og íss.

Ár 500

Skógur þekur aftur stóran hluta Evrópu á meðan frumskógar Afríku og regnskógar Suður-Ameríku hafa breiðst hratt út.

 

Ár 1000

Sokknar borgir og sokkin skip eru orðin ný heimkynni sjávardýra. Hafið er fullt af hvölum, túnfiski og sæskjaldbökum og eyðilögð kóralrif vaxa að nýju.

Dýrin

Fílar og ljón flytja norður

Dagur 7

Í híbýlum manna, á bóndabæjum og í dýragörðum út um allan heim deyja dýr úr hungri. 1 milljarður svína deyr, rétt eins og stór hluti af um 400 milljónum hunda.

 

Ár 1

Jafnt í þéttbýli og dreifbýli fjölgar villtum dýrum, einkum tegundum með góða aðlögunarhæfni sem nærast á fjölbreyttri fæðu eins og bjarndýrum og villisvínum. Á hinn bóginn fækkar meindýrum eins og kakkalökkum og rottum þar sem þær tegundir eru háðar sambýli við menn.

Ár 5

Húsakötturinn, alinn á dósamat, hefur aldrei vanist því að veiða. En núna veiðir hann mýs og smáfugla en viðkvæmari tegundir, eins og persneskir kettir eru útdauðir.

 

Ár 7

Fiskistofnar eru að jafna sig eftir áratuga ofveiði.

 

Ár 8

Frá því að hafa verið nánast útdauðir fjölgar úlfum jafnt og þétt. Þeir eru fljótir að finna sér ný veiðisvæði í borgunum. Yfirráðasvæði úlfanna nær yfir 250-1.000 km2, allt eftir framboði á fæðu.

Ár 100

Búfé og gæludýr hafa nálgast sitt náttúrulega form. Þjálfaðir reiðhestar hafa þróast yfir í öfluga villta hesta og afkomendur húskattarins líkjast norska skógarkettinum.

 

Ár 200

Ný vistkerfi eru að koma fram. Sléttan teygir sig yfir fyrrum maísbelti Bandaríkjanna og bisonuxarnir eru komnir aftur. Evrópski bisoninn ráfar nú líka um löndin.

Ár 500

Skortur á búsvæði og mikil ásókn manna í fílatennur hélt fílastofninum niðri meðan maðurinn var á jörðinni. En nú flytja þeir ásamt nashyrningunum frá Afríku og Asíu til Evrópu. Þeir sem fara lengst norður þróa þykkari feld til að lifa af. Rándýrin horfa líka til norðurs. Villt ljón hafa ekki lifað á Grikklandi síðan á tímum Rómverja en nú veiða þau aftur á sléttum landsins.

 

Ár 1000

Eftir þúsund ár mun jörðin fyllast af dýrum. En fjöldi tegunda hefur ekki vaxið mikið. Það líða 3-7 milljónir ára, þar til tegundaauðgi jarðar verður aftur á sama stigi og áður en maðurinn birtist á jörðinni.

Arfleifðin okkar

Síðustu sporin eftir okkur verða sýnileg í billjónir ára

Steinsteypa og sorp eru meðal langlífustu minja um mannkynið en sem betur fer verða síðustu minjar um okkur ýmislegt tæknilegs eðlis sem við getum verið stoltari af.

 

Pýramídarnir eiga langan tíma eftir

Á ári 1000 standa fáar byggingar eftir. Þeirra á meðal eru nokkrar af þeim allra elstu eins og Kheopspýramídinn sem er varinn af hlýju og þurru loftslagi. Frá nútímanum standa aðeins allra traustustu mannvirkin eins og ýmis hernaðarmannvirki og göngin milli Frakklands og Englands verða enn óskemmd vegna þess að þau eru grafin í kalklögum og því er lítil hætta á að þau falli saman.

 

Ruslahaugar segja sögu okkar

Svo kaldhæðnislegt sem það er þá verður ruslið okkar það sem varðveitist í meira en 1.000 ár. Risavaxnir öskuhaugar munu standa sem hæðir í landslaginu og geyma ýmislegt sem segir sögu mannsins á jörðinni. Djúpt inni í þessum haugum þar sem loftið er súrefnissnautt og þurrt eins og í pýramída mun ýmislegt frá tíma mannsins varðveitast í meira en 1.000 ár, hlutir eins og slitnir skór, ónýt leikföng og brotin gleraugu.

 

Geimrusl lifir til dómsdags

Allra síðustu minjar um manninn gætu orðið Voyager geimfarið sem var skotið á loft árið 1977 og er nú komið út úr sólkerfi okkar. Samkvæmt útreikningum eru miklar líkur á því að það haldi áfram ferð sinni í billjónir ára. Það með verður það enn til löngu eftir að síðustu stjörnur alheimsins verða slokknaðar – sveimandi í myrkri og tómi útbrunnins alheimsins.

Geimförin tvö Voyager 1 og 2 yfirgáfu sólkerfið 2012 og 2018. Bæði innihalda myndir og hljóð frá jörðinni, sem geta sagt hugsanlegum geimverum um siðmenningu okkar.

HÖFUNDUR: ANTJE GERD POULSEN , CHRISTIAN AMMITZBØLL JUUL

© Shutterstock. © Shutterstock & Christian Juul. © Lieut. Commander Mark Moran, NOAA Corps, NMAO/AOC..

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Tækni

Stærsta seglskip heims með flugvængi

Lifandi Saga

Hvernig gátu riddarar í brynju farið á klóið?

Maðurinn

Ofurörvuð börn læra minna

Alheimurinn

Ráðgátan um dularfullu geimhringana

Maðurinn

8 vísindalegar ástæður þess að þú lyktar

Náttúran

Snjáldurmýs ganga á eigin heila

Náttúran

Háhyrningar réðust á bát og beittu áður óséðri aðferð

Tækni

Lítil kjarnarafhlaða heldur símanum gangandi í 50 ár

Læknisfræði

Kvefast ég frekar ef ég fer út með blautt hár?

Náttúran

Súrefni: Hvað er súrefni – og er hægt að fá of mikið af því?

Náttúran

Nú gætum við fundið leynilegar tímavélar alheimsins

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.790 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is