Koparnaðran sem lifir í Norður-Ameríku, dulbýr sig betur en nokkurt annað dýr.
Stundaglaslagaðar rendurnar á koparnöðrunni gera það að verkum að hún rennur nánast alveg saman við laufblöðin í skógarbotninum og þessi eins metra langa eiturslanga kann svo sannarlega að færa sér það í nyt en hún stundar veiðar á þann hátt að hún liggur grafkyrr og bíður eftir að sökkva höggtönnunum í mýs eða froska fyrirvaralaust.
Gastu ekki komið auga á hana? Reyndu aftur:
Já, þarna er hún
Koparnaðran sem hylur sig svo vel, er holusnákur, líkt og t.d. skröltormar og í henni leynast tvö holrými – holur – fremst á höfðinu sem í er að finna hitanæm líffæri.
Líffæri þetta ljær þessu hugvitssamlega dýri svokallaða hitasjón sem gerir dýrinu kleift að skynja líkamshita dýra sem hún ásælist og ráðast til atlögu í myrkri.
… Og eilítið nær:
Koparnaðran (Agkistrodon contortrix) lifir í Norður-Ameríku, allt frá stórborginni New York í norðri og suður til Mexíkó og vestur til Nebraska. Heiti snáksins á rætur að rekja til koparlits húðlitarins á höfði hans.
Koparnöðrur eru eitraðar en til allrar hamingju eru þær þó sjaldnast banvænar mönnum. Snákur þessi bítur nefnilega fleiri einstaklinga í Norður-Ameríku en aðrar slöngur, sökum þess að snákurinn er mjög útbreiddur og þrífst nánast hvar sem er, meira að segja í úthverfunum.
Slangan sprautar úr sér blóðeitri sem kemur í veg fyrir storknun blóðs og getur valdið skemmdum á vef umhverfis það svæði sem hún bítur í.
Allt í lagi að horfa en alls ekki snerta. Jafnvel þótt slangan gefi frá sér undarlegan ilm þegar hún er snert en lyktin minnir einna helst á agúrkur.