1. Hitabeltisparadís var sprengd 67 sinnum
Eftir hádegi á sunnudegi í febrúar 1946 safnaði herforinginn og landstjórinn Ben Wyatt saman ættbálknum sem bjó á Bikini-eyjum, litlum eyjaklasa í Kyrrahafi.
Wyatt lagði fyrir fólkið eina spurningu: Voru þessir 167 íbúar reiðubúnir að yfirgefa eyjarnar um skamma hríð svo Bandaríkjamenn gætu gert kjarnorkutilraunir á svæðinu „öllu mannkyni til gagns“? Eftir nokkra umhugsun féllust íbúarnir á þetta, enda höfðu þeir ekki hugmynd um hvers konar dómsdagsvopn hér var á ferð.
Meðan Bikini-ættbálkurinn var fluttur á brott fluttu Bandaríkjamenn 95 aflóga herskip til þessara paradísareyja. Í skipunum voru 5.400 svín, geitur og rottur og tilgangurinn að rannsaka áhrif geislavirkninnar eftir kjarnorkuárás á skipaflota.
Myndband: Sjáðu kjarnorkusprengjuna Baker sprengda í paradís:
Í júlí 1946 horfði höfðingi Bikini-ættbálksins á kjarnorkusprengjuna Able og síðan Baker þeyta upp ofboðslegum strókum sjóðandi vatns upp í kílómetra hæð. Níu skip sukku og geislavirkri úrkomu rigndi yfir eyjarnar.
Til ársins 1958 vörpuðu Bandaríkjamenn 23 sinnum kjarnorkusprengjum á Bikini-eyjar og til viðbótar 44 sinnum á Marshall-eyjarnar í grenndinni.
Samanlagður kraftur þessara sprengja var 7.000 sinnum meiri en í Hírósíma sprengjunni. Eyjurnar eru óbyggðar enn í dag.
Kjarnorkusprengjan Baker var sprengd 27 metrum undir sjávarborði utan við strönd einnar eyjarinnar.
2. Íbúar steppunnar reyndu brjálæðið á eigin skinni
Meðan Bandaríkjamenn spiluðu sinn stríðsleik á Bikini-eyjum, valdi erkióvinurinn, Sovét, að prófa sín kjarnorkuvopn á steppunum í Kazakstan. Að sögn ráðamanna í Kreml var tilraunasvæðið Semipalatinsk óbyggt.
Það fannst 200.000 íbúum sennilega fullmikið sagt en þeir voru ekki spurðir. Á árunum 1949-1989 voru 496 kjarnorkusprengjur sprengdar í Semipalatinsk.
Þegar rigndi eftir sprengingu fengu íbúar á svæðinu rauð útbrot á húð.
Enn í dag fæðist eitt af hverjum tuttugu börnum á svæðinu vanskapað.
Tilraunasvæðið Semipalatinsk var gríðarstórt svæði og er í dag einn mengaðasti staður í heimi.
3. Nýr Panamaskurður með sprengingum
Eftir miklar og óhugnanlegar tilraunasprengingar langt fram eftir sjötta áratugnum töldu bandarískir herforingjar að kjarnorkuverkefni þeirra þyrfti á jákvæðu umtali að halda.
Með eðlisfræðinginn Edward Teller, föður vetnissprengjunnar, í fararbroddi innleiddu þeir nú verkefni sem kallaðist „Plowshare“ eða „Plógfar“.
Tilgangur verkefnisins var að nýta hið ofboðslega afl sprengjanna í friðsamlegum tilgangi. Þessi göfuga hugsun leiddi hins vegar af sér ýmsar furðulegar tilraunir.
Hugmyndir Tellers voru bæði margvíslegar og stórkarlalegar: Hann vildi nota vetnissprengjur til að komast að olíu- og gaslindum, breyta farvegum fljóta og sprengja burtu heil fjöll þannig að hægt væri að leggja beina og breiða vegi.
Svakalegust var þó trúlega sú hugmynd að grafa nýjan Panamaskurð með 302 vetnissprengjum – hugmynd sem Panamastjórn afþakkaði kurteislega en mjög ákveðið.
Teller komst nær markmiði sínu þegar hann ætlaði að sprengja nýja höfn í Alaska. Ýmsir stjórnmálamenn í ríkinu studdu hugmyndina sem þó féll á endanum um sjálfa sig vegna þess að íbúarnir mótmæltu mjög ákaft.
Óhreinasta sprenging Bandaríkjamanna
Í tengslum við þessa áætlun gerðu Teller og starfsfólk hans ýmsar tilraunasprengingar. Ein hinna stærstu – Sena – var gerð í Nevadaeyðimörkinni þar sem kjarnorkusprengja var sprengd djúpt í jörðu.
Sprengingin skildi eftir sig tilkomumikla, 100 metra djúpa gryfju – og þeytti 12 milljónum tonna af sandi upp í fjögurra km hæð.
Á næstu vikum rigndi geislavirkum sandi niður yfir allmörg fylki í Bandaríkjunum. Sedan-tilraunin telst nú mest mengandi tilraunasprenging í sögu Bandaríkjanna.
Alls sprengdu Teller og starfsfólk hans 27 sprengjur í tilraunaskyni. Teller tókst reyndar að vinna gas í Nýju Mexíkó en gasið var svo geislavirkt að enginn kaupandi fékkst.
Árið 1962 sprengdu Edward Teller og starfsfólk hans kjarnorkusprengju djúpt í jörðu í Nevada eyðimörkinni og þeyttu milljónum tonna af geislavirkum sandi út í andrúmsloftið.
4. Rússar sköpuðu 100 metra djúpt kjarnorkuvatn
Bandarísku tilraunirnar kveiktu Sovétmönnum innblástur og þeir reyndu líka fyrir sér með friðsamlega notkun kjarnorkusprengja. Eins og Bandaríkjamenn byrjuðu þeir á að nýta sprengikraftinn til að grafa.
Og að venju var það í Kazakstan sem megnið af tilraununum fór fram.
Til að prófa möguleikana ákvað Efrim Slavskiy, yfirmaður kjarnorkustofnunar Sovétríkjanna, að sprengja stóra gryfju í uppþornaðan farveg Chagan-fljóts til að skapa þar stöðuvatn.
Chagan-vatn í Kazakstan enn þann dag í dag mjög mengað af geislavirkni.
Sprengjan var 140 kílótonn og skildi eftir sig 100 metra djúpan gíg, um 400 metra í þvermál. Gígurinn fylltist smám saman af vatni.
„Vatnið í þessu nýja manngerða stöðuvatni er ekki hættulegt mönnum“, var sagt í áróðursmynd þar sem sjá mátti Slavskiy sjálfan synda í menguðu vatninu.
Á árabilinu 1965 til 1989 sprengdu Rússar alls 116 kjarnorkusprengjur í tengslum við mannvirki og tilraunaverkefni.
5. Ófreskjusprengja á við 3.300 Hírósímasprengjur
Sjáðu sprenginguna yfir nyrstu eyju Sovétríkjanna, Severnyj, sem staðsett er í Norður-Íshafi u.þ.b. 900 km norður af Noregi.
Skært ljós sást á himni norðan við heimskautsbaug að morgni 30. október 1961 og í kjölfarið reis risavaxið sveppaský upp í nærri 60 km hæð.
Nokkrum mínútum síðar splundruðust gluggarúður í þorpum í Norður-Noregi – í 900 km fjarlægð – af þrýstibylgju sem fór þrjá hringi um hnöttinn. Sovétmenn höfðu sprengt stærstu kjarnorkusprengju sögunnar, Zar-sprengjuna.
Sprengikrafturinn var tífaldur á við allar sprengjur síðari heimsstyrjaldar samanlagt og Zar-sprengjan markaði endalokin í keppni Sovétmanna og Bandaríkjanna um gerð stærstu sprengjunnar.
Orka rússnesku Zar-sprengjunnar kom frá samruna vetnisfrumeinda sem kjarnorkusprengja bræddi saman.
Ráðamenn risaveldanna tveggja höfðu lengi haft áhyggjur af því að flestar sprengjuvélar þeirra yrðu skotnar niður á leiðinni til óvinalandsins.
Rússar ákváðu þess vegna að þær fáu flugvélar sem kæmust alla leið þyrftu að hafa meðferðis nógu öflugar sprengjur. Upphaflega stóð til að sprengjan yrði 6.600 megatonn – 6.600 sinnum öflugri en Hírósímasprengjan.
Sú áætlun breyttist þó vegna þess að geislavirkni eftir tilraunasprengingu yrði fyrirsjáanlega of mikil. Og þar að auki töldu menn sig ekki geta verið vissa um að hnötturinn sjálfur þyldi svo öfluga sprengingu.
Í staðinn byggðu Sovétmenn helmingi minni sprengju. Hún vóg 27 tonn og var varpað úr flugvél í fallhlíf og síðan látin springa í fjögurra km hæð.
Sprengingin varð svo kröftug að flugvélin þeyttist í 800 metra frjálst fall þótt hún væri komin í 32 km fjarlægð.
Við hliðina á Zar-sprengjunni var Bravo, stærsta sprengja Bandaríkjamanna einna líkust flugeldi á gamlárskvöld og Hírósímasprengjan ekki nema eins og eldspýta.
6. Ætluðu að sprengja á tunglinu
Árið 1957 tókst Sovétmönnum að koma fyrsta geimfarinu á braut um jörðu, Spútnik 1. Bandaríkjamönnum þótti þetta svo mikil auðmýking að þeir ákváðu að sprengja vetnissprengju á tunglinu.
Sprengjan átti að vera svo öflug að ljósblossinn frá sprengingunni sæist frá jörðu og þetta átti að blása almennum borgurum kjark í brjóst.
Verkefnið – kallað A119 – var þó lagt til hliðar með tilliti til mögulegra tunglferða og hættunnar á slysi.
Vísindamenn höfðu m.a. bent á að þyngdarafl tunglsins gæti sveiflað sprengjunni til baka til jarðar ef eldflaugin kæmi ekki úr nákvæmlega réttum vinkli.
Góður árangur Sovétmanna í Spútnikverkefninu kom Bandaríkjamönnum til að yfirvega að sprengja kjarnorkusprengju á tunglinu.
7. Norður-Karólína var sekúndum frá að þurrkast út
Sérfræðingar hafa kallað þetta atvik „alvarlegasta slys hernaðarsögunnar.“ Það var hluti af almennum vörnum Bandaríkjanna í kalda stríðinu að hafa eina sprengjuflugvél á lofti allan sólarhringinn. Allar þessar vélar voru búnar kjarnavopnum.
Þann 24. janúar 1961 hrapaði ein þessara flugvéla brennandi til jarðar í Norður-Karólínu eftir misheppnaða eldsneytisáfyllingu á flugi. Um borð voru tvær Mark-39-vetnissprengjur, hvor um sig með fjögurra megatonna sprengikraft sem samsvaraði fjórum milljónum tonna af TNT. Sprengjurnar losnuðu báðar áður en flugvélin hrapaði.
Önnur skall á jörðinni á 1.100 km hraða og gróf sig 23 metra niður en sprakk ekki. Hin seig til jarðar í fallhlíf en var miklu hættulegri.
Á sprengjunni voru fjórir öryggistappar sem áttu að tryggja að sprengjan spryngi ekki að tilefnislausu en þrír þeirra brugðust. Það var einungis einn lítill öryggistappi, fáeinna dollara virði sem kom í veg fyrir sprengingu sem hefði orðið 260 sinnum öflugri en sprengingin í Hírósíma.
Það var ekki upplýst fyrr en árið 2013 hversu litlu munaði.
Af sprengjuflugvélinni var ekki eftir annað en brak þegar sprengjan kom til jarðar í fallhlífinni. Aðeins einn lítill öryggistappi kom í veg fyrir gríðarlegar hamfarir.
8. Stjórnlaus kjarnorkuflaug lenti í Brasilíu
Snark hét fyrsta langdræga eldflaug Bandaríkjamanna. Hún var afar glæsileg útlits en lét illa að stjórn. Að meðaltali lenti hún 30 km frá ætluðu skotmarki.
Og árið 1957 fór allt úrskeiðis þegar Snarkflaug var skotið frá sunnanverðum Flórídaskaga til Costa Rica.
Þessi eldrauða flaug fór vissulega til Costa Rica en hélt svo bara áfram suður á bóginn. Eldflaugasérfræðingarnir reyndu sitt ýtrasta til að gera hana óvirka en ekkert gerðist.
Á radarnum sást eldflaugin sveigja til vesturs yfir Kólombíu. En á endanum þraut eldsneytið og flaugin féll til jarðar í regnskógum Brasilíu.
Snark-flaugin gat borið kjarnorkusprengju 10.000 km leið en það var illgerlegt að hafa stjórn á henni.
9. Sýning yfir Hawaii
Það var undursamleg sýn sem blasti við íbúum á Hawaii á næturhimninum 9. júlí 1962. Yfir eyjunum var skýjað en skyndilega birtist skær sól og skein gegnum skýin.
Ljóskúlan breytti hratt um lit; úr hvítu í grænt og svo fjólublátt þar til rauður litur breiddist út niðri við sjóndeildarhring og teygði sig til allra heimshorna en hvítir regnbogar svifu um himininn.
Íbúarnir sáu engar ofsjónir og það var heldur ekki svo að geimverur væru komnar til að hertaka jörðina.
Ástæðan var miklu ógnvænlegri: Bandaríkjamenn höfðu í fyrsta sinn sprengt vetnissprengju úti í geimnum og árangurinn varð miklu meiri en þeir höfðu sjálfir getað látið sig óra fyrir.
Starfish Prime, eins og verkefnið kallaðist, hafði svo ógnvekjandi afleiðingar að Bandaríkjamenn þorðu aldrei framar að prófa svo öflug vopn úti í geimnum.
Litlar sprengjur voru ekki nóg
Bandaríkjamenn höfðu árum saman velt fyrir sér hvort Rússar gætu eyðilagt langdrægar eldflaugar þeirra með því að sprengja kjarnorkusprengju úti í geimnum. Sjálfir höfðu þeir sprengt smærri sprengjur í geimnum en án þess að komast að afgerandi niðurstöðu.
Þeir ákváðu því að skjóta á loft vetnissprengju með afli sem samsvaraði 1,4 megatonnum af TNT og sprengja hana í 400 km hæð. Og þar með fór allt úr böndunum.
Auk hinnar ógnvekjandi ljósasýningar skapaði sprengjan gríðarsterkt rafsegulhögg – skyndilega losun orku og gammageislunar sem var margfalt öflugra en vænst hafði verið.
Rafsegulhöggið eyðilagði þriðjunginn af öllum gervihnöttum sem á þessum tíma voru á braut um jörðu, jafnt sovéska sem bandaríska. Og í 1.500 km fjarlægð – á Hawaii – sló bæði götuljósum og útvarpstækjum út.
Rússar fokreiddust og kröfðust þess skömmu síðar að kjarnorkusprengingar í geimnum yrðu bannaðar.
Meira að segja leiðtoga Sovétríkjanna, Nikita Krústsjov, ofbauð brjálsemin og hann krafðist allsherjarbanns við tilraunasprengingum í geimnum.
Lestu meira
Rudolph Herzog: A Short History of Nuclear Folly, Melville House, 2013.
Richard Rhodes: Arsenals of Folly, Simon & Schuster, 2007. Eric Schlosser: Command and Control, Allen Lane, 2013.