Skömmu eftir Miklahvell fyrir 13,8 milljörðum ára þéttist hulduefni saman og dró til sín venjulegt efni sem varð að fyrstu stjörnunum og stjörnuþokunum.
Þannig hljóðar sköpunarsaga Vetrarbrautarinnar. Frá þeim tíma hefur stjörnuþoka okkar stækkað með því að draga til sín meira efni og fleiri stjörnur úr nágrenni sínu, m.a. frá litlum stjörnuklösum úr nágrenni sínu.
Það er ekki búið að sanna endanlega tilvist hulduefnis þar sem það sendir ekkert ljós eða aðra geislun frá sér sem við getum mælt. En útreikningar sýna að Vetrarbrautin hlýtur núna að innihalda sex sinnum meira hulduefni, heldur en venjulegt efni.
Hulduefni heldur stjörnunum saman
Án þessa hulduefnis myndi Vetrarbrautin ekki hafa nægan þyngdarkraft til að halda stjörnunum saman.
Þær myndu einfaldlega þeytast út í allar áttir
Með því að gaumgæfa nýjar athuganir frá gervitunglinu Gaia sem hefur kortlagt stöðu meira en 1 milljarðs stjarna í Vetrarbrautinni og nágrenni hennar, hafa stjarnfræðingar frá háskólanum Harvard og Princeton í BNA fundið sýnileg merki um hulduefni.
Mælingar með gervitunglinu Gaia afhjúpuðu göt í stjörnustreyminu. Sjónaukinn LSST á að rannsaka þetta nánar.
Langt fyrir utan disklaga skífu Vetrarbrautarinnar er ennþá að finna leifar af stjörnuklasa sem var togaður út í langan stjörnustraum af þyngdarafli Vetrarbrautarinnar.
Einn af þessum stjörnustraumum kallast GD1 og er götóttur og mælingar benda til að straumurinn hafi farið hjá sérlega þéttu hulduefni.
Þessi nýi fundur staðfestir kenningu um að það finnist svæði í og í kringum Vetrarbrautina þar sem hulduefni er sérlega þétt.
Hulduefni gatar stjörnustrauminn
Utan við Vetrarbrautina er að finna stjörnuklasa sem togaðist út í langan straum vegna þyngdarkrafts stjörnuþokunnar. Göt í straumnum (rauð píla) eru til marks um að stjörnurnar hafa farið fram hjá sérlega þéttum klumpum af hulduefni.
Fyrir stefnumótið við hulduefnið …
… er stjörnustraumurinn jafn og án gata. Þyngdarkraftur Vetrarbrautarinnar hefur togað stjörnurnar úr stjörnuklasa.
Við stefnumótið …
… mæta stjörnurnar sérlega þéttum klumpi af hulduefni sem þvingar þær í tvo hala umhverfis fundarstaðinn.
Eftir stefnumótið …
… við hulduefnið safnast halarnir saman á ný og mynda tvö þétt svæði stjarna sem eru aðskilin með gati.