Fyrir 1.200 árum iðaði Tikal, stórborg Maya, af lífi. Á blómaskeiði borgarinnar urðu íbúarnir allt að 100.000 en skyndilega hallaði hratt undan fæti.
Fornleifarannsóknir sýna að borgin sem er í núverandi Gvatemala, var skyndilega orðin mannlaus í lok 9. aldar.
Hingað til hafa menn talið helstu ástæðuna vera langvarandi þurrkaskeið en nýjar rannsóknir líffræðinga við Cincinnatiháskóla í BNA sýna að þurrkarnir voru ekki eina ástæðan.
Rannsóknir vísindamanna á vatnslónum í Tikal leiddu í ljós mikið magn blágrænþörunga sem gerði vatnið illa drykkjarhæft.
Eitrun í drykkjarvatni hefur lika gegnt lykilhlutverki.
Gæði vatns lítil
Vísindamenn greindu setlög á botni tíu af þeim vatnslónum sem íbúarnir voru algerlega háðir varðandi drykkjarvatn. Borgin var fjarri stöðuvötnum og fljótum og því viðkvæm fyrir þurrkatímabilum.
Þegar ekki rigndi fylltust drykkjarvatnslónin ekki og vatnið sem eftir var, varð æ verra.
Rannsóknir á setlögunum sýndu að þéttni tveggja tegunda blágrænþörunga jókst verulega undir það síðasta og vatnið hefur af þeim sökum verið illa drykkjarhæft.
Lífsnauðsynlegar vatnsbirgðir við Tikal breyttust smám saman í eiturlón þegar kvikasilfur úr veggmyndum skolaðist af veggjunum og út í vatnslónið.
En það var ekki eina ástæðan. Auk þörunganna var mikil kvikasilfurseitrun í vatninu og á því báru Mayar sjálfir ábyrgðina.
Skreytingarnar eitruðu
Þegar múrar borgarinnar voru skreyttir voru skærrauðir litir í uppáhaldi og í rauða málningu notuðu þeir steinefnið cinnober sem á máli efnafræðinnar kallast kvikasilfursúlfíð.
Öldum saman hafði regnið svo skolað burtu málningu af múrveggjum og kvikasilfrið safnaðist upp í drykkjarvatnslónunum.
1.300 ár var búið í Tikal áður en borgin fór í eyði. Blómaskeiðið stóð frá 200 og framundir 900, þegar þarna var miðpunktur Mayaveldisins.
Mest kvikasilfur var í vatnslónum við musteri í miðborginni og þar voru líka bústaðir yfirstéttarinnar. Vísindamennirnir eru því þeirrar skoðunar að yfirstéttarfólk hafi fyrst orðið fórnarlömb kvikasilfurseitrunarinnar.