18 metra langt og 50 tonna þungt ferlíki réði lögum og lofum í hverjum krók og kima hafanna fyrir milljónum ára.
Hinn forsögulegi hákarl, Megalodon, var stærsti háfur sem nokkru sinni hefur synt um heimshöfin.
Þótt steinrunnin bein hafi þegar fært vísindamönnum talsverða þekkingu á þessari stóru kjötætu, eru stöðugt að bætast við nýjar vísbendingar.
Nú hefur fjölþjóðlegur hópur vísindamanna skoðað tannaför á allmörgum sjö milljón ára gömlum höfuðkúpum útdauðra hvalategunda og uppgötvað að háfurinn hafði sérstakan áhuga á haus búrhvela.
Svona leit Megalodon út
Megalodon er oft sýndur sem stækkuð útgáfa af hvítháfi. En nú sýna rannsóknir að stærsti hákarl heims hafði sín sérkenni.
Vísindamenn frá Háskólanum í Bristol hafa reiknað út hlutföll Megalodon sem er byggð á líkamsbyggingu fimm lifandi hákarlategunda.
1. Breitt höfuð gaf Megalodon kraftmikið bit
Stórar tennur bera vitni um að Megalodon hafði öfluga kjálka og því sterka kjálkavöðva. Þetta hefur gefið honum þéttari og breiðari haus en til dæmis hjá hvítháfi.
Vísindamenn áætla að höfuð Megalodon hafi verið um 4,65 metrar á lengd.
2. Bakuggi gaf Megalodon stöðugleika
Megalodon var með mjóan og bogadreginn bakugga (óðugga) sem veitti stöðugleika á stuttum sprettum sem og löngum vegalengdum. Að sögn vísindamanna var bakuggi Megalodon 1,62 metrar á hæð og því svipaður að stærð og manneskja.
3. Há sporðblaðka veitti Megalodon skriðþunga
Eins og með aðra stóra hákarla var efri hluti sporðblöðkunar á Megalodon stærri en neðri hlutinn. Sú lögun er dæmigerð fyrir fiska sem nota uggann eingöngu knýja sig áfram.
Sporðblaðka Megalodon var u.þ.b. 3,85 metrar á lengd.
Stærsta höfuð heims fljótandi í olíu
Eini núlifandi búrhvalurinn er stærstur tannhvala og mjög höfuðstór. Hausinn einn getur orðið allt að 15 tonn.
Í höfðinu er flókið kerfi bandvefs, loftrása og vöðva og síðast en ekki síst um 5.000 lítrar af fitu sem var á öldum áður eftirsótt ljósmeti en gegnir stóru hlutverki við hljóðmyndun hvalanna.
Vísindamennirnir telja að það hafi einmitt verið þessi næringarríka fita sem háfarnir sóttust eftir. Það sýna höfuðkúpurnar sem allar bera tannaför eftir háfa, þar á meðal bæði eftir hvítháf og Megalodon.
„Margir háfar hafa notað búrhvali sem feitmeti,“ segir steingervingafræðingurinn Aldo Benites-Palomino hjá Zürichháskóla, aðalhöfundur niðurstöðugreinarinnar. „Á stökum höfuðkúpum gátum við greint tannaför eftir 5-6 tegundir háfa sem allir höfðu bitið í höfuð hvalsins á sama svæði sem er hreint ótrúlegt.“
Megalodon var öflug drápsvél og hafði heilar fimm raðir af tönnum.
Höfuðkúpurnar sem rannsakaðar voru, fundust allar í suðurhluta Perú og eru frá síðasta hluta míósen þegar mjög fjölbreytt dýralíf var að finna undan ströndinni.
Alls fundust tannaför á sex höfuðkúpum og mismunandi stærð og lögun bitanna gerði kleift að greina eigendur tannanna – þeirra á meðal stærsta hákarlinn sem nokkru sinni hefur synt um höfin.