Matur er mikilvægur börnum og ungmennum.
Máltíðirnar, sem eru uppspretta næringarefna og nauðsynlegrar orku, skipta ekki bara miklu máli fyrir heilsuna, heldur einnig fyrir minnið, vitræna starfsemi og námsgetu.
Hópur vísindamanna hefur nú kannað aðeins aðra hlið á málinu, nefnilega hvaða hlutverki morgunmaturinn gegnir í vellíðan barna. Niðurstaðan sýndi hversu miklu máli morgunmatur hafði fyrir líðan barna.
„Rannsóknin okkar var yfirgripsmikil og í rannsókninni fundust tengsl á milli tíðni morgunverðar og lífsánægju,“ sagði Lee Smith, prófessor í lýðheilsu við Anglia Ruskin háskólann, í fréttatilkynningu.
Fylgni milli morgunverðar og lífsánægju
Rannsóknin var gerð á gögnum frá 154.151 börnum og ungmennum á aldrinum 10 til 17 ára frá 42 löndum. Öll börnin í rannsókninni gengu í skóla.
Börnin voru spurð hversu oft þau fengu sér morgunmat, sem var skilgreindur sem meira en glas af mjólk eða safa.
Í ljós kom að börnin sem borðuðu morgunmat daglega töldu sig vera ánægðust með lífið.
Þau börn sem fundu fyrir minnstu lífsánægjunni fengu sér aldrei morgunmat.
Tölfræðilegir útreikningar í rannsókninni sýndu nánast fullkomið línulegt samband á milli þess hversu oft börnin fengu morgunmat og hversu ánægð þau voru með lífið.
Rannsakendur tóku tillit til þátta eins og félagslegrar og efnahagslegrar stöðu. Í könnuninni var til dæmis spurt hvort börnin deildu herbergi með öðrum og hvort þau hefðu farið í frí síðustu tólf mánuði.
Þegar garnirnar gaula á ég oft miklu auðveldara með að verða pirraður. Samstarfsmenn mínir segja að ég sé „hangry“. Af hverju verð ég svona og er það eðlilegt?
Góðir eiginleikar morgunmatsins
Fyrri rannsóknir hafa sýnt að börn sem sleppa morgunmatnum eru í verra skapi og að þau hafi meiri tilhneigingu til að fá kvíða, þunglyndi og streitu. Þetta kemur fram í fréttatilkynningunni frá vísindamönnunum.
Þeir leggja áherslu á að morgunverður með réttum næringarefnum og vítamínum tryggi bestu vitræna virkni.
Að mati rannsakenda ætti hollur morgunmatur helst að innihalda eitthvað úr hverjum af fimm helstu fæðuflokkunum, sem eru ávextir og grænmeti, kolvetni, prótein, mjólkurvörur og fita.
“Hver máltíð þarf ekki að vera í fullkomnu jafnvægi milli þessara flokka. En yfir daginn eða vikuna ættum við að neyta ráðlagðs magns heilsunnar vegna,” segir Lee Smith.
Að auki telja vísindamennirnir að dagleg morgunverðarrútína geti veitt aðhald og sé góð byrjun á degi barnanna.
Rannsóknin birtist í vísindatímaritinu BMC Nutrition Journal.