Eftir fáein ár eiga menn aftur að standa á tunglinu og nú eiga þeir að ferðast í nýju farartæki.
Þetta kemur fram í útboði NASA sem ætlað er að skila næstu kynslóð „LTV“ (Lunar Terrain Vehicles) eða tungljeppa.
Bandaríska geimferðastofnunin hyggst sem sé ekki láta sér nægja ökutæki sem bara safnar ryki þegar geimfarar eru ekki til staðar á þessum nágrannahnetti okkar.
Þvert á móti kemur skýrt fram í útboðsgögnunum að jeppinn eigi að vera fær um að taka jarðvegssýni og ferðast um eftir skipunum frá jörðu, rétt eins og Perseverance og Curiosity-ökutækin sem NASA hefur sent til Mars til að rannsaka rauðu plánetuna.
Auk þess að flytja tvo geimfara um tunglið, eiga nýju tungljepparnir að vera búnir vélarmi, vera „hálf-sjálfkeyrandi“ og geta staðist erfiðar aðstæður og gríðarlegar hitabreytingar.
NASA sendi útboðsgögnin frá sér í maí og fyrirtæki áttu að skila inn frumtilboðum fyrir 10. júlí.
Gagarín var nær dauða en lífi
Tungljeppar verða að finna ís á tunglinu
Ætlunin er að tungljepparnir verði færir um að ferðast um tunglið án geimfara við stýrið.
Djúpu gígarnir við suðurpól tunglsins eru alltaf í skugga og gervihnettir hafa áður fundið ummerki um ís á botninum.
Fáist það endanlega staðfest hefur það afgerandi þýðingu varðandi byggingu bækistöðva fyrir búsetu til langs tíma í senn. Í
sinn má nefnilega bræða og nota sem drykkjarvatn, til ræktunar plantna og líka til framleiðslu eldflaugaeldsneytis.
Í nóvember 2022 sendi NASA Orion hylkið á sporbraut um tunglið sem fyrsta verkefnið í stóru Artemis áætluninni. Samkvæmt áætlun mun svipað hylki fara sömu ferð árið 2024, en að þessu sinni með geimfara innanborðs.
En það þarf gríðarmikið af háþróuðum tæknibúnaði til að tungljepparnir geti komist á heppileg svæði, fundið bestu staðina og grafið upp jarðvegssýni.
M.a. þarf skynjara sem geta greint nifteindirnar – frumeindahluta sem gefa til kynna fjölda vetnisfrumeinda allt niður á eins metra dýpi undir yfirborðinu.
Ökutækin þurfa líka hreyfanlegan vélarm sem getur borað sig niður og sótt sýni. Til viðbótar þarf svo tækjabúnað til að greina sýnin.
NASA tilkynnir það í nóvember
Hvernig næsta kynslóð tungljeppa kemur til með að líta út gæti komið í ljós í nóvember.
Þá stendur til að NASA tilkynni um sigurvegara í þessu frumútboði en það kemur í hlut þess fyrirtækis að þróa tungljeppann áfram og framleiða.
Hlutverki fyrirtækisins lýkur heldur ekki þar.
Í útboðsgögnunum segir nefnilega að framleiðandanum sé ætlað að taka þátt allt frá þróun og afhendingu til útfærslu á einstökum verkefnum.
En það eru enn nokkur ár til stefnu. Þótt NASA stefni að því að senda geimfara til tunglsins í árslok 2025, er ekki reiknað með að nýju tungljepparnir ferji geimfara þar um yfirborðið fyrr en á árinu 2029.