Júpíter fékk aðeins að njóta titilsins „Mánakóngur sólkerfisins“ í þrjá mánuði.
Í febrúar 2023 fundu stjörnufræðingar nefnilega 12 óþekkt tungl við þessa stærstu plánetu í sólkerfinu. Tungl Júpíters töldust nú vera 92 og Satúrnus varð því að þoka úr toppsætinu.
En eftir nýja skoðun hefur viðurkenndum tunglum Satúrnusar nú fjölgað um 63, upp í 146 alls.
Þessi gasrisi með sína sérkennilegu hringa hefur þar með endurheimt fyrri stöðu og meira að segja með afar þægilegum mun.
Það eru vísindamenn við Academia Sinica stjörnufræði- og stjarneðlisfræðistofnunina á Taívan sem hafa uppgötvað megnið af þessum tunglum.
Undir forystu Edwards Ashton beindu vísindamennirnir CFHT-sjónaukanum á Hawai (Canada-France-Hawaii Telescope) að Satúrnusi.
Bæði Júpíter og Satúrnus eru fjær sólu en jörðin og þess vegna sést alltaf endurskin sólarljóss af yfirborði þeirra.
Þetta veldur erfiðleikum við að greina litla himinhnetti á borð við smátungl í nágrenni þessara reikistjarna. Stjörnufræðingarnir tóku því mörg þúsund ljósmyndir sem tölvan var látin leggja hverja ofan á aðra til að greina hreyfingu.
Leifar af hulduefni finnast í Vetrarbrautinni.
Streymi stjarna í jaðri Vetrarbrautarinnar (rauð píla) afhjúpar ósýnilegt hulduefni sem á sínum tíma safnaðist saman í okkar stjörnuþoku og heldur henni ennþá saman.
Með þessu móti mátti smám saman greina brautir lítilla tungla kringum þessar risaplánetur á myndunum.
Það var þó auðvitað tafsamt og krefjandi starf að leggja myndirnar saman og skoða þær allar.
„Að leita uppi öll þessi tungl var ekki ósvipað þeim klassíska leik að draga strik milli punkta til að átta sig á af hverju myndin sé, því að í gagnasafninu þurfum við að tengja þessi tungl við raunhæfar brautir,“ segir Edward Ashton í fréttatilkynningu.
„En ef þú ert með 100 punktamyndir á sömu síðu, er erfitt að átta sig á hvaða punktur tilheyrir hvaða mynd.“
Flest nýju Satúrnusartunglin hafa fengið nöfn úr norrænni goðafræði. Tunglin eru öll fremur smá, allt niður í 5 km í þvermál og snúast um Satúrnus í gagnstæða stefnu við hringsnúning yfirborðs plánetunnar.
Þau tungl sem bera nöfn úr norrænni goðafræði, svo sem Ægir og Fenris, hafa að áliti vísindamanna líklegast orðið til í sprengingu fyrir um 100 milljónum ára og þeir gera sér vonir um að þessi nýfundnu tungl gætu átt einhvern þátt í að útskýra betur hvernig gasrisar á borð við Satúrnus myndast og þróast.