Maðurinn

Nú geta vísindamenn hlustað á innri rödd okkar

Að öllu jöfnu á sér stað stöðugt skvaldur í höfði okkar. Þessi innri rödd okkar er þó annað og meira en einungis bakgrunnshávaði. Röddin hefur afgerandi áhrif á andlega getu okkar, svo og meðvitundina. Nú hefur vísindamönnum í fyrsta sinn tekist að hlusta á röddina í höfði okkar og komast að raun um hvað hún er að segja.

BIRT: 10/03/2025

Talið þið við ykkur sjálf? Sé svo, þá eruð þið síður en svo ein á báti. Flestir hafa nefnilega yfir að ráða innri, hljóðlátri rödd sem er ófrávíkjanlegur hluti af daglegu lífi okkar.

 

Í seinni tíð hafa vísindamenn öðlast skilning á mikilvægi þessarar innri raddar. Röddin í höfði okkar samanstendur í raun og veru af fjórum ólíkum röddum sem hver hefur yfir sínum persónuleika að ráða og innbyrðis rökræður þeirra hafa gríðarleg áhrif á getu okkar til að hugsa, taka ákvarðanir, muna og inna af hendi hversdagsleg verkefni.

 

Nú hefur ný tímamótatækni gert kleift að hlusta á hljóðlát samtöl heilans sem geta jafnframt verið sjálfur lykillinn að meðvitund okkar.

 

Rödd stjórnar lífi okkar

Þessari innri rödd mætti lýsa sem eins konar innra samtali þar sem við látum í ljós og skynjum okkar eigin hugsanir sem orð og setningar. Röddin er því tiltekin leið til að hugsa sem aðgreinir sig frá öðrum hugsanagangi og væri jafnframt unnt að tjá með myndum, tilfinningum eða óhlutstæðum hugtökum.

 

Ekki allir skynja innri rödd sína á sama hátt né heldur í sama magni. Sumir eiga í stöðugu innra samtali á meðan aðrir finna einungis fyrir þessu við tilteknar aðstæður. Enn aðrir kannast ekki við að eiga innri rödd.

 

Danska málvísindakonan Johanne Nedergård við Kaupmannahafnarháskóla telur að um 90-95% fólks hafi yfir að ráða innri rödd. Hún segir það jafnframt geta heft okkur ef við tölum ekki við okkur sjálf öðru hverju.

Heilinn notar nokkurn veginn sömu svæðin fyrir innra tal og hefðbundið tal. Þetta á m.a. við um Broca-svæðið (rautt) sem við virkjum þegar við mótum setningar.

Í tilraun frá árinu 2024 rannsakaði Nedergård málfarsminni um 100 einstaklinga með æfingum þar sem þátttakendunum var ætlað að muna t.d. orð eða rím og endurtaka síðan.

 

Niðurstöðurnar leiddu í ljós að þeir þátttakendur sem ekki bjuggu yfir innri rödd áttu í meira basli með að leysa verkefnið en ella, sökum þess að þeir gátu ekki beitt innri röddinni til að endurtaka orðin og styðja þannig við minnið.

 

„Sumir segjast hugsa í myndum og þýða síðan myndirnar yfir í orð þegar þeir hyggjast segja eitthvað,“ skrifar Johanne Nedergård í fréttatilkynningu. Þessir einstaklingar verða fyrir vikið að láta heilann fara krókaleiðir þegar þeir þurfa að leysa málfarsverkefni, svo sem eins og að læra nýtt tungumál eða að skilja texta.

 

Innri röddin gagnast þó ekki einvörðungu fyrir tungumálagetu því hún getur að sama skapi gert okkur erfitt fyrir.

 

Innri maðurinn klofinn

Margir fræðimenn á sviði sálfræði telja að okkar innri maður samanstandi af nokkrum duldum persónuleikum. Og þessir persónuleikar geta átt samtal í höfðum okkar.

 

Ef við t.d. erum að horfa á spennandi sjónvarpsþátt seint á virkum degi, kann innri óvinur okkar að freista okkar með því að stinga upp á „aðeins einum þætti til viðbótar“ á meðan innri hollvinur okkar hvetur okkur til „að hætta núna því við þurfum að vakna snemma á morgun“.

 

Í rannsókn einni sem gerð var árið 2014 reyndi pólski sálfræðingurinn Małgorzata M. Puchalska-Wasyl að flokka niður hinar ólíku gerðir innri radda.

90-95% okkar hafa yfir að ráða innri rödd, segir vísindakonan Johanne Nedergård.

Hún bað rúmlega 200 þátttakendur í tilrauninni um að lýsa því hvers kyns tilfinningar hinar ólíku raddir vöktu með þeim. Með aðstoð tölfræðigreiningar tókst henni að lokum að sjóða allar innri raddirnar niður í fjórar megingerðir sem hún kallaði trygglynda vininn, tvíræða foreldrið, stolta keppinautinn og hjálparvana barnið.

 

Trygglyndi vinurinn veitti t.d. stuðning og var hvetjandi en sú rödd er til allrar hamingju sú algengasta ef marka má rannsóknina. Hjálparvana barnið dregur hins vegar getu okkar í efa og lætur okkur finna fyrir örvilnun og einangrun.

Við búum yfir fjórum innri röddum

Heili okkar talar við okkur með fjórum ólíkum röddum, hver með sinn eigin persónuleika. Sumar raddanna lyfta okkur upp á meðan aðrar geta dregið okkur niður í djúpa örvilnun.

1. Trygglyndur vinur stendur með okkur

Þessi rödd leyfir okkur að heyra jákvæð orð sem færa okkur tilfinningar á borð við styrk, traust og öryggi. Röddin ljær okkur stuðning, örvun og tilfinningu um samkennd sem gagnast okkur við að finnast við vera sterk og í tengingu við aðra.

2. Tvíbent foreldri er með ástúðlega gagnrýni

Þessi rödd er ástúðleg og styðjandi en að sama skapi gagnrýnin. Hún hefur í för með sér bæði jákvæðar og neikvæðar tilfinningar, líkt og um væri að ræða foreldri sem gremst gerðir okkar en hættir aldrei að þykja vænt um okkur.

2. Stoltur keppinautur ögrar okkur

Þessi rödd minnir einna helst á keppinaut sem hvetur okkur til að standa okkur betur og vera síður háð öðrum. Hún veitir ekki tilfinningalegan stuðning, heldur getur hún látið okkur gera betur með því að efla stolt okkar og sjálfstraust.

4. Hjálparvana barn gefst upp

Þessi rödd tjáir úrræðaleysi og segir okkur að við getum allt eins gefist upp. Hún skilur eftir sig ógrynni neikvæðra tilfinninga sem draga úr sjálfstrausti okkar, fylla okkur örvæntingu og hefta getu okkar til að takast á við ólíkar aðstæður.

Með hliðsjón af rannsókninni álítur Puchalska-Wasyl að flestir verði varir við sambland innri radda í innri samtölum sínum og að hinar ólíku raddir hafi áhrif á hugsanir okkar og ákvarðanir í daglegu lífi.

 

Raddirnar geta til dæmis stutt hver við aðra og gagnast hver annarri í lausn innri átaka. Ellegar þá unnið hver gegn annarri og gert okkur erfiðara fyrir að taka ákvarðanir.

Flestir muna eftir að hafa forðast að stíga á strikin á gangstéttunum á barnsaldri. Hjá sumum þróast slík þráhyggja síðar meir yfir í áráttu- og þráhyggjuröskun. Vísindamenn gera nú tilraunir með að lækna þennan geðræna kvilla með gervigreind og rafstuði í heila.

Þrátt fyrir hættuna á innri átökum raddanna þá telst innri rödd öllu jöfnu vera jákvætt fyrirbæri. Í yfirlitsgrein sem birtist árið 2023 lýstu vísindamennirnir Charles Fernyhough og Anna Borghi, hann Breti og hún Ítali, því með hvaða móti innri röddin getur styrkt getu okkar til að hugsa.

 

Hún getur m.a. gagnast okkur til að beina hugsunum okkar í eina átt þannig að heilinn verði ekki fyrir truflunum. Hún getur að sama skapi gagnast okkur við að mynda andlega fjarlægð frá okkar eigin hugsunum sem gerir okkur kleift að velta fyrir okkur hugsunum okkar og gjörðum með hlutleysi að leiðarljósi.

 

Innri rödd okkar hefur með öðrum orðum mikil áhrif á daglegt líf okkar. Þessi vitneskja hefur gert það að verkum að vísindamenn hyggjast gera allt sem í þeirra valdi stendur til að öðlast aukna vitneskju um fyrirbærið. Næsta skref í rannsóknunum felst í að hlusta beinlínis á innri samtöl okkar og þetta er nú gerlegt með aðstoð nýrrar tækni.

 

Vísindamenn hlera heilann

Heilasneiðmyndir sem kínverskir vísindamenn tóku árið 2023 leiddu í ljós að innri rödd okkar virkjar mörg sömu heilasvæðin og virkjast í tengslum við hefðbundið tal.

 

Þetta á t.d. við um Broca-svæðið sem í tengslum við hefðbundið tal gagnast okkur við að mynda og segja setningar og svæðið sem á latínu nefnist gyrus temporalis superior (efri gagnaugafelling) sem á þátt í að við heyrum og skiljum orð annarra. Heilinn „talar“ og „hlustar“ með öðrum orðum á meðan innri samtöl eiga sér stað, án þess þó að nokkurn tímann heyrist hljóð.

 

Aðrar rannsóknir hafa leitt í ljós að lítið heilasvæði sem á latínu nefnist gyrus supramarginalis (SMG) er einnig virkt þegar innri röddin talar og þessa staðreynd notfærðu bandarískir vísindamenn sér í tímamótatilraun sem gerð var árið 2024.

 

Taugafræðingurinn Sarah Wandelt og starfsfélagar hennar við tækniskor Kaliforníuháskóla græddu alls 96 örsmá rafskaut í SMG-svæði tveggja tilraunaþátttakenda, á þann hátt að hvert rafskaut tengdist einni stakri taugafrumu. Með þessu móti gátu þeir kortlagt nákvæmlega hvaða raftaugaboðum var beitt, hverju sinni sem þátttakendurnir inntu af hendi tiltekin verkefni.

Rafskaut hlera innri rödd okkar

Með notkun rafskauta og háþróaðra reiknirita geta vísindamenn nú lesið þau orð sem við hugsum, án þess að við segjum þau upphátt.

1. Rafskautum komið fyrir í mikilvægu heilasvæði

Vísindamenn græða örsmá rafskaut í heilasvæðið gyrus supramarginalis (SMG) sem gegnir mikilvægu hlutverki í myndun innra og ytra tals, auk þess að skilja orð. Rafskautin mæla rafboð frá alls 96 taugafrumum.

2. Orð skynjuð sem rafboð

Þegar við segjum orð í hljóði virkjum við ógrynni heilafrumna í heilasvæðinu sem nefnist SMG. Þegar þetta á sér stað myndast mynstur rafboða (blátt) sem rafskautin geta numið og sent áfram í tölvu.

3. Gervigreind les úr innri rödd

Hvert orð einkennist af sérlegu mynstri af rafmagnsvirkni í heilasvæðinu SMG. Gervigreindin getur greint hvaða mynstur svarar til hvaða orðs og þar með er unnt að láta tölvuna skilja og þýða innri röddina.

Þátttakendur voru nú beðnir um að segja sex mismunandi orð, annars vegar í hljóði og hins vegar upphátt, á meðan Sarah Wandelt mældi heilavirkni þeirra.

 

Niðurstöðurnar leiddu í ljós að allt að 85% þeirra heilafrumna sem voru virkjaðar í innra tali, voru einnig virkar í hefðbundnu tali. Og mynstur virkjuðu heilafrumnanna reyndist jafnframt vera alveg einstakt fyrir hvert einasta orð.

 

Þegar þátttakendurnir sögðu t.d. „cowboy“ upphátt virkjuðust nokkurn veginn sömu heilafrumur í SMG og þegar þeir sögðu „cowboy“ í hljóði.

96 rafskaut aðstoðuðu vísindamennina við að hlýða á innri rödd þátttakendanna.

Tengslin voru það mikil að taugafræðingnum tókst með mælingum sínum að ákvarða með 79% vissu hvert orðanna sex þátttakendurnir voru að segja í hljóði.

 

Vísindakonunni tókst með öðrum orðum að hlusta á og skilja samtöl í höfðum þátttakendanna. Þetta kann að eiga eftir að ryðja brautina fyrir því að einstaklingum sem missa röddina verði gert kleift að að eiga í samskiptum við umheiminn.

 

Þetta veitir að sama skapi nýja innsýn í með hvaða móti við hugsum og jafnvel einnig það hvernig meðvitund okkar verður til. Rannsóknir með gervigreind gefa nefnilega til kynna að innri röddin geti verið lykillinn að meðvitundinni.

 

Innri rödd leiðir af sér meðvitund

Árið 2020 tókst ítalska vélmennafræðingnum Antonio Chella að útbúa reiknirit sem gerði vélmenni kleift að eiga innri samtöl við sjálft sig og þetta leiddi til þess að vélmennið þróaði með sér eins konar sjálfsvitund.

 

Reikniritið var notað til að kenna vélmenninu að nýta myndavélina sína og aðra skynjara til að bera kennsl á hluti. Þá gegndi reikniritið jafnframt því hlutverki að útbúa vélmennið með eins konar minni sem gerði því kleift að vista gögn tengd skynjunum þess og finna þau á nýjan leik.

 

Síðast en ekki síst stuðlaði reikniritið að því að vélmennið gæti lært að líkja eftir innra tali með því að mynda setningar yfir hvaðeina sem það skynjaði og tók sér fyrir hendur.

Árið 2020 útbjó vísindamaðurinn Antonio Chella vélmennið Pepper með innri rödd sem sá honum fyrir eins konar sjálfsvitund.

Með aðstoð minnisins og innra samtals lærði vélmennið smám saman að mynda setningar í líkingu við: „Handleggurinn minn hreyfist. Ég næ taki á eplinu“. Það fylgdist með öðrum orðum með eigin gerðum og lýsti þeim. Þetta segir vísindakonan vera til marks um sjálfsvitund sem geti gagnast vélmenninu til að skipuleggja sig og leysa verkefni.

 

Á sama hátt er okkar eigin innri rödd sennilega mikilvæg fyrir meðvitund okkar. Í næsta skipti sem við eigum í innra samtali væri því ráðlegt að hlusta af athygli. Þetta kann hugsanlega að gagnast okkur við að skilja hver við erum og hvernig hugsanir okkar móta gjörðir okkar.

HÖFUNDUR: Gorm Palmgren

© Claus Lunau & Shutterstock,© MattL_Images/Shutterstock,© Andrei Korzhyts/Shutterstock & Lotte Fredslund,© École polytechnique/J.Barande

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Heilsa

Munnur okkar getur haft áhrif á hvort við veikjumst af heilabilun: Hér má lesa sér til um hvað vísindamenn segja að við ættum að borða í meira magni

Maðurinn

Mikilvægt atriði getur komið í veg fyrir að börn verði nærsýn

Alheimurinn

Gæti jörðin þornað upp?

Lifandi Saga

Herleiðangur Napóleons endaði í hörmungum

Maðurinn

Vísindamenn lýsa yfir stríði gegn mígreni

Tækni

Nýir róbótar geta verið afar varhugaverðir

Náttúran

Á hverju lifa köngulær þegar engar flugur veiðast?

Náttúran

Hvaða dýr hafa stærstu eistun?

Tækni

Nú vaxa trén upp í himininn 

Alheimurinn

Eldstöðvar blása lífi í Evrópu

Maðurinn

Af hverju eyðast tattóveringar ekki smám saman?

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.