Maðurinn

Nú geta vísindamenn ráðskast með drauma okkar

Að öllu jöfnu getum við engin áhrif haft á hvað okkur dreymir en ný tækni gerir vísindamönnum hins vegar kleift að fá fólk til að hugsa um tiltekna hluti og nú bíða fyrirtæki þess að fá að taka völdin í draumalandinu.

BIRT: 07/07/2024

Ef okkur dreymir um skál af stökkum kornflögum með mjólk, er ekki ólíklegt að okkur langi í kornflögur í morgunmat þegar við vöknum. Að örfáum árum liðnum verður það hugsanlega ekki neinum tilviljunum háð ef okkur fer að dreyma drauma sem aukið geta söluna á morgunverðarafurðum eða öðru.

 

Það styttist nefnilega í að vísindamenn geti áttað sig á með hvaða hætti þeir geta haft áhrif á undirmeðvitundina með það fyrir augum að láta okkur dreyma tiltekna drauma. Í rannsókn einni sem gerð var við MIT-háskólann í Bandaríkjunum gerði sérfræðingurinn Adam Haar Horowitz tilraunir með að rjúfa drauma tilraunaþátttakenda með búnaði sem gaf þeim upp ákveðið lykilorð og vakti þá af miðjum draumi.

 

Tilraun þessi er ein margra sem leitt hafa í ljós að draumrof geta bætt sköpunargáfuna og beinlínis gert okkur vitrari en aðferðin býr þó jafnframt yfir þeim ókosti að gera öðrum kleift að hafa áhrif á hvað okkur dreymir.

 

Draumrof er ekki einungis unnt að nota sem leið til að stjórna innkaupum okkar, heldur gæti aðferðin að sama skapi haft áhrif á stjórnmálaskoðanir okkar, án þess að okkur óraði fyrir því.

 

Við erum haldin skynvillu fyrir svefninn

Svefn okkar skiptist í nokkra hringi og stendur hver þeirra yfir í á að giska 90 mínútur. Meðan á hverjum svefnhring stendur förum við í gegnum nokkur svefnstig, þ.e. léttan svefn, hálfdjúpan svefn, djúpsvefn og draumsvefn sem einnig kallast REM-svefn en REM stendur fyrir ensku orðin „rapid eye movements“ (snöggar augnhreyfingar).

 

Meðan á draumsvefni stendur er heilinn álíka virkur og í vöku, sökum þess að sjónstöðvarnar mynda innri myndir, auk þess sem djúpar tilfinningar í líkingu við ótta og gleði eru virkjaðar og heilinn reynir að örva vöðvana með þeim afleiðingum að við böðum út handleggjum og fótum þegar draumarnir verða hvað átakamestir.

Allur heilinn starfar í draumalandinu

Heilinn hvílist ekki á meðan við erum í draumalandinu, heldur eykst virknin verulega í þeim stöðvum sem tengjast upprifjun tilfinninga, mynda og hreyfinga. Hins vegar hægist á skynseminni og fyrir bragðið verða draumar jafn undarlegir og fjarstæðukenndir og raun ber vitni.

1. Heilinn reynir að virkja vöðvana

Hreyfistöðvar heilans sem vöðvahreyfingar okkar stjórnast af, eru sérlega virkar á meðan okkur dreymir. Þessi mikla heilastarfsemi gefur til kynna að við séum á hreyfingu og fyrir vikið verða draumarnir miklu líflegri en ella þó svo að vöðvarnir séu lamaðir.

2. Skynsemi og dómgreind í biðstöðu

Meðan á draumsvefni stendur dregst starfsemi ennisblaðanna saman, svo og í öðrum heilastöðvum sem stjórna rökhugsun, dómgreind, sjálfsstjórn og einbeitingu. Þetta hefur það í för með sér að draumarnir verða ruglingslegir og órökréttir, auk þess sem athyglin færist sífellt úr stað.

3. Draumarnir einkennast af djúpum tilfinningum

Mandla og dreki heilans, svo og aðrar heilastöðvar sem eiga þátt í getu okkar til að hafa hemil á tilfinningunum, verða sérlega virkar í draumsvefninum. Þetta gerir það að verkum að draumar verða mjög svo tilfinningahlaðnir og einkennast t.d. af gleði, ótta og kærleika.

4. Sjónstöðvarnar leiða af sér raunverulegar myndir

Draumar eru einkar sjónrænir og einkennast af greinilegum myndum en þetta stafar einkum af því að sjónstöðvarnar í hnakkageira heilans virkjast svo um munar. Sjónstöðvarnar leiða af sér einkar raunverulegar myndir draumanna sem við sjáum, líkt og um væri að ræða kvikmynd sem við horfum á innra með okkur.

Allur heilinn starfar í draumalandinu

Heilinn hvílist ekki á meðan við erum í draumalandinu, heldur eykst virknin verulega í þeim stöðvum sem tengjast upprifjun tilfinninga, mynda og hreyfinga. Hins vegar hægist á skynseminni og fyrir bragðið verða draumar jafn undarlegir og fjarstæðukenndir og raun ber vitni.

1. Heilinn reynir að virkja vöðvana

Hreyfistöðvar heilans sem vöðvahreyfingar okkar stjórnast af, eru sérlega virkar á meðan okkur dreymir. Þessi mikla heilastarfsemi gefur til kynna að við séum á hreyfingu og fyrir vikið verða draumarnir miklu líflegri en ella þó svo að vöðvarnir séu lamaðir.

2. Skynsemi og dómgreind í biðstöðu

Meðan á draumsvefni stendur dregst starfsemi ennisblaðanna saman, svo og í öðrum heilastöðvum sem stjórna rökhugsun, dómgreind, sjálfsstjórn og einbeitingu. Þetta hefur það í för með sér að draumarnir verða ruglingslegir og órökréttir, auk þess sem athyglin færist sífellt úr stað.

3. Draumarnir einkennast af djúpum tilfinningum

Mandla og dreki heilans, svo og aðrar heilastöðvar sem eiga þátt í getu okkar til að hafa hemil á tilfinningunum, verða sérlega virkar í draumsvefninum. Þetta gerir það að verkum að draumar verða mjög svo tilfinningahlaðnir og einkennast t.d. af gleði, ótta og kærleika.

4. Sjónstöðvarnar leiða af sér raunverulegar myndir

Draumar eru einkar sjónrænir og einkennast af greinilegum myndum en þetta stafar einkum af því að sjónstöðvarnar í hnakkageira heilans virkjast svo um munar. Sjónstöðvarnar leiða af sér einkar raunverulegar myndir draumanna sem við sjáum, líkt og um væri að ræða kvikmynd sem við horfum á innra með okkur.

Þó svo að draumar séu að öllu jöfnu bundnir við REM-svefninn getur annarra drauma einnig orðið vart í léttsvefni, þ.e. svonefndum N1-svefni.

 

Ástand þetta hefur verið kallað svefnhöfgi en það stendur aðeins yfir í örfáar mínútur og einkennist af því að við missum smám saman meðvitund og erum hálfpartinn vakandi.

 

Á þessu stigi upplifum við eins konar skynvillur sem minna á drauma og geta falið í sér bæði myndir, hljóð og tilfinningu um að við séum að fljúga eða detta.

 

Þessar skynvillur hafa einnig verið nefndar ördraumar og fólk man iðulega eftir þeim ef það verður fyrir truflun þegar það er að festa svefn og vaknar á því stigi.

 

Innihald ördraumanna er gjarnan eins konar framhald þeirra hugsana sem þjóta um kollinn á okkur þegar við leggjumst til svefns en þar sem við erum smám saman að missa meðvitund, fá hugsanirnar að leika lausum hala í heimi hugarflugsins án þess að takmarkast af röksemdum og hefðbundnum hugsunum.

 

Gamansögur greina frá því að listamaðurinn Dalí og uppfinningamaðurinn Edison hafi lagst til svefns með þungan hlut í höndunum, jafnframt því sem þeir leiddu hugann að nýrri uppfinningu eða listaverki.

Súrrealísk listaverk spænska listamannsins Salvadors Dalí minna á sviðsmyndir úr draumum og auðvelt er að ímynda sér að listamaðurinn hafi leitað á vit drauma sinna í leit að hugmyndum fyrir listaverkin.

Þegar þeir byrjuðu að dorma eiga þeir svo að hafa misst hlutinn út úr höndunum með tilheyrandi látum. Með þessu móti voru þeir vaktir upp af miðjum ördraumum og þeim tókst þannig oft að muna og jafnvel nýta efni draumanna í verkum sínum.

 

Hægt að ráðskast með ördrauma

Adam Haar Horowitz við MIT-háskólann í Bandaríkjunum er einn fremsti sérfræðingur á sviði ördrauma. Horowitz hefur þróað eins konar hanska sem kallaður hefur verið Dormio en hanski þessi vekur fólk af ördraumum.

 

Dormio er útbúinn skynjurum sem mæla púlsinn í fingrunum, rafleiðni húðarinnar, svo og vöðvaspennuna. Þessar upplýsingar geta greint frá því hvenær við erum á leið úr vöku yfir í léttan svefn og okkur er með öðrum orðum að dreyma ördrauma.

 

Með aðstoð Dormio-hanskans hefur Adam Haar Horowitz tekist að þróa aðferð sem gerir kleift að ráðskast með ördrauma tilraunaþátttakenda.

 

Þátttakendurnir setja á sig Dormio-hanskann og leggjast til svefns á meðan tölvurödd segir til dæmis: „Hugsaðu um tré“. Þegar hanskinn skynjar að ördraumarnir hljóti að vera farnir í gang, vekur tölvuröddin þátttakandann og hann er beðinn um að greina frá draumum sínum.

 

Í tilraun einni sem gerð var á árinu 2020 prófaði Horowitz aðferðina á 50 tilraunaþátttakendum og um 2/3 þeirra sem sofnuðu við að heyra sagt „hugsaðu um tré“, þá dreymdi í raun réttri um tré.

Vísindamenn staðsetja ördrauma í undirmeðvitundinni

Í tilraun einni reyndu vísindamenn að láta fólk dreyma um eitthvað eitt tiltekið með því að láta því í té lykilorð áður en lagst var til hvílu og að vekja það svo aftur að örfáum mínútum liðnum.

 

1 – Tilraunaþátttakendur fá lykilorð

Þátttakendurnir fá á hönd sér sérlegan hanska sem kallast Dormio og þeir leggjast til svefns í rúmi. Tölvurödd les upp lykilorð, t.d. „hugsaðu um tré“ en að því loknu fá þeir næði til að sofna. 

 

2. Hanskinn skynjar og skráir hvenær svefns verður vart

Hanskinn Dormio mælir hjartslátt tilraunaþátttakandans, leiðni húðarinnar og vöðvaspennuna. Því næst skynjar hanskinn hvenær viðkomandi er ekki lengur vakandi og hverfur á vit létta svefnstigsins, N1.

 

3. Þátttakendurnir vaktir

Eftir einnar til fimm mínútna langan léttsvefn eru einstaklingarnir vaktir og tölvurödd biður þá um að greina frá því sem þá dreymdi. Um það bið 67% hafði dreymt um tré.

 

Margir draumanna einkenndust enn fremur af mjög fjörugu ímyndunarafli svo Adam Haar Horowitz fékk þá hugmynd að gera áþekka tilraun sem fólst í að láta þátttakendur taka ýmis viðurkennd sálfræðipróf sem reyna á sköpunargáfuna.

 

Tilraunin leiddi í ljós að þegar ördraumar eru rofnir með lykilorði höfðu orðin greinileg áhrif á sköpunargáfu þátttakendanna. Þegar þeir t.d. voru beðnir um að segja sögu sem þeir sömdu upp úr sér á staðnum, fól hún í sér fleiri lýsandi smáatriði en ella, málfarið varð fjölbreyttara og sögurnar innihéldu meiri tilfinningar og kímni.

 

Smellir í draumum efldu rökhugsun

Þess má geta að einnig er hægt að hafa áhrif á raunverulega drauma okkar í draumsvefninum á undraverðan hátt og ekki aðeins ördraumana.

Vísindamenn geta notað skynjara og rafskaut til að fylgjast með hvenær okkur er að dreyma. Þetta gerir kleift að ráðskast með innihald draumanna, t.d. með því að spila tiltekin hljóð.

Þessi tækni hefur verið kölluð „merkjatengd minnisvirkjun“ en aðferð þessa notuðu kanadískir vísindamenn í tilraun sem fólst í að láta tíu tilraunaþátttakendur æfa sig í að leysa flókin rökfræðiverkefni á meðan þeir heyrðu stöðuga smelli.

 

Næstu nótt á eftir voru smellirnir aftur látnir heyrast í eyrum þátttakendanna. Helmingur heyrði hljóðin á meðan þeir voru í draumsvefni en hinn helmingurinn aftur á móti á meðan þeir sváfu djúpa, draumlausa svefninum.

 

Viku síðar voru flóknu verkefnin aftur lögð fyrir alla þátttakendurna. Í ljós kom að þeir þátttakendur sem heyrt höfðu smellina á meðan þá dreymdi voru með 23% fleiri rétt svör en þeir sem heyrðu smellina í draumlausa svefninum.

 

Draumrof felur greinilega í sér mikla möguleika hvað vitsmunagetu okkar snertir.

Hvers vegna í ósköpunum er nauðsynlegt að sofa þriðjung lífsins? Eftir áratuga langar rannsóknir er það heilasérfræðingum enn ráðgáta hvers vegna við sofum.  Kannski eru vísindamenn að nálgast svarið.

Möguleikarnir á að hafa á áhrif á drauma og þar með einnig hugsanir okkar, hafa opnað augu fólks fyrir því að hægt verði að ráðskast með undirmeðvitund okkar og hafa þannig áhrif á hvað við kaupum eða hvaða stjórnmálaskoðanir við aðhyllumst og þetta er eðlilega áhyggjuefni.

 

Fuglasöngur virkjar kaupþörf

Þegar fram í sækir geta fyrirtæki hugsanlega þróað aðferðir sem gera þeim kleift að smjúga inn í drauma okkar með hárfínar auglýsingar sem vekja með okkur löngun til að prófa nýjan gosdrykk eða að kaupa tiltekna bíltegund.

 

Auglýsingastofurnar gætu t.d. notfært sér þá staðreynd að okkur dreymir meira síðla nætur en ella sem er einmitt sá tími þegar fuglarnir byrja að syngja á vorin. Ímyndum okkur að tiltekin sjónvarpsauglýsing feli í sér fuglasöng og að við horfum á hana rétt fyrir svefninn. Þegar við svo heyrum fuglana byrja að syngja í morgunsárið kann það að hafa áhrif á undirmeðvitundina á meðan okkur dreymir og stuðla að því að við kaupum þessa tilteknu vöru.

„Auglýsendur geta umbunað fólki með ókeypis vörum fyrir að spila myndbönd og hljóð þegar það gengur til náða.“
Draumafræðingurinn Adam Haar Horowitz, MIT-háskóla

Þó svo að tækni þessi sé ekki fullþróuð sýna auglýsendur því mikinn áhuga að notfæra sér drauma okkar. Bandarísk markaðsrannsókn frá árinu 2021 leiddi t.d. í ljós að 77% af öllum auglýsingastofum voru með áform sem fólu í sér að reyna að hafa áhrif á drauma neytendanna í því skyni að fá þá til að kaupa meira.

 

„Auglýsendur geta fundið sér leið inn í drauma okkar með því t.d. að umbuna fólki með ókeypis vörum fyrir að spila myndbönd og hljóð þegar lagst er til svefns, svo og yfir nóttina sem svo breyta draumunum á þann veg að okkur dreymir þessa tilteknu vöru,“ segir draumafræðingurinn Adam Haar Horowitz í viðtali við Lifandi vísindi.

 

Framtíðarhorfur þessar hafa orðið Horowitz og 37 öðrum vísindamönnum hvatning til að semja siðareglur um hvernig tryggja megi neytendur gegn því að verða fórnarlömb dulinna auglýsinga á meðan þá dreymir.

Ef tekst að styrkja grundvöll þessarar rannsóknar með öðrum sambærilegum rannsóknum getur það nýst vísindamönnum til að skima fyrir heilabilun meðal aldraðra.

Slíkar siðareglur verða enn mikilvægari ef stjórnmálaöfl eða ríki myndu reyna að beita aðferðum, líkt og þeim sem lýst hefur verið, í því skyni að innræta fólki skoðanir sínar.

 

Í stað augljóss áróðurs væri þannig t.d. unnt að koma leyndum boðskap inn í drauma borgaranna með það fyrir augum að móta stjórnmálaskoðanir þeirra. Þetta myndi í raun réttri geta flokkast sem ný, dulin gerð af sálrænum stríðsrekstri.

 

„Enn er svo mörgum spurningum ósvarað og vonandi munu fræðimenn og yfirvöld taka þátt í umræðum um málefnið“, segir Adam Horowitz.

 

Enn sem komið er eru þó aðallega jákvæðir þættir við nýju aðferðirnar sem felast í draumrofi. Ef við skyndilega förum að fá óútskýrða löngun í kornflögur á morgnana þá væri kannski rétt að hugsa sig tvisvar um.

HÖFUNDUR: GORM PALMGREN

© Spalnic/Krakenimages.com/Shutterstock & Lotte Fredslund,© Sergi Reboredo AGE/Imageselect,© Art fantasy/Shutterstock & Lotte Fredslund/Oscar Rosello,© Guy Wilkinson/www.guywilkinson.photography/going-lucid,© Lotte Fredslund & Midjourney

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Náttúran

Jörðin eftir manninn: Svona munu leifar siðmenningar okkar hverfa

Heilsa

Læknar hafa grætt heilt auga í mann

Maðurinn

Nú geta vísindamenn ráðskast með drauma okkar

Tækni

140.000 veirutegundir hafa fundist í þarmaflórunni

Maðurinn

Kornabörn þekkja móðurmálið sitt

Alheimurinn

Tvíburi Vetrarbrautarinnar finnst í útjaðri alheimsins

Lifandi Saga

Hvers vegna klæddust fangar röndóttum búningum í gamla daga?

Lifandi Saga

Af hverju er rússneskur bær í Noregi?

Jörðin

Leiða loftslagsbreytingar til fleiri jarðskjálfta?

Maðurinn

Heilsa okkar ræðst af blóðinu

Náttúran

Topp 5: Hvaða dýr stunda lengsta mökun?

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.790 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is