Sólþiljur gegna stóru hlutverki í orkuskiptum og æ fleiri húsþök og úthliðar víða um heim eru nú þakin slíkum búnaði.
Nú hefur hópur bandarískra vísindamanna náð að þróa enn betri sólþiljur sem nýta má á fjölmörgum mismunandi yfirborðsflötum.
Vísindamennirnir starfa hjá MIT í Bandaríkjunum og þeir hafa þróað framleiðslutækni til að gera næfurþunnar og léttar sólþiljur sem jafnvel mætti festa á bátssegl.
Niðurstöður sínar hyggjast þeir nú birta sem vísindagrein í tímaritinu Small Methods en að vísu hefur hún enn ekki verið ritrýnd af óháðum sérfræðingum sem alltaf er gert fyrir birtingu vísindagreina.
Sjáðu hvernig vísindamenn framleiða ofur þunnar sólarsellur í myndbandinu hér:
Gert úr rafrænu bleki
Sólþiljurnar eru gerðar úr nanóefnum og í einskonar blekformi.
Þessar næfurþunnu sólþiljur eru svo léttar að þær má líma fastar á þunnt en slitþolið efni sem síðan má setja á hvers konar yfirborðsfleti. Vísindamennirnir segja framleiðslutæknina gera kleift að fjöldaframleiða sólþiljurnar.
Þær eru þynnri en mannshár og þyngdin einn hundraðasti hluti af þyngd hefðbundinna sólþilja en engu að síður framleiða þær 18 sinnum meira rafmagn miðað við hvert kíló.
Vegna þess hve þunnar og léttar þær eru, má nota þær sem húðun á mjög margvíslega fleti.
Þær mætti t.d. setja á segl til að framleiða straum á hafi úti. Þær mætti líka líma á tjöld og yfirbreiðslur, þegar náttúruhamfarir verða og þær mætti nota á dróna til að lengja flugþol þeirra.
Vísindamennirnir eiga þó eftir að finna út hvernig best verður unnt að verja sólþiljurnar gegn súrefni og raka sem gætu eyðilagt þær.
Sol-flow rafhlaðan samþættir sólarsellu með efnum sem geta geymt strauminn.
Hefðbundnar sólþiljur eru varðar með gleri en með glerhúð yrðu þessar nýju sólþiljur ekki jafn sveigjanlegar svo vísindamennirnir leita því annarra ráða til að verja þær.
Rannsóknirnar voru að hluta til fjármagnaðar af Vísindasjóði Bandaríkjanna og Vísinda- og tækniráði Kanada.